Kærleikur er forsenda umburðarlyndis

Kærleikur er forsenda umburðarlyndis

Umburðarlyndi er eitt af því mikilvægasta, sem við getum tamið okkur í samskiptum við annað fólk. Það er auðvelt að dæma aðra og stundum þarf ekki mikið til, jafnvel hviksögur nægja og hvers kyns söguburður. Það er hins vegar ekki jafn auðvelt að sýna þolinmæði og skilning, umburðarlyndi krefst íhygli og gerir kröfur til persónuþroska, leggur stein í götu hinnar auðveldu undankomuleiðar. Nú um stundir er meiri þörf á umburðarlyndi í samfélagi okkar en oft áður.

Vertu í tungunni trúr, tryggur og hreinn í lund, hugsaðu um það hýr sveinn á hverja stund. (Ókunnur höf.)
Náð Drottins, kærleikur og friður sé með yður öllum. Amen. Á þessum kirkjudegi Sólheimakirkju og afmælisdegi Sólheima er svo ótal margt, sem mætti ræða og festa hugann við. Hér er innt af hendi mikið mannræktarstarf í anda hins merka frumkvöðuls, frú Sesselju Sigmundsdóttur, og það á marga fleti, sem kallast á við grunngildi kristninnar. Trú og von, kærleikur og umburðarlyndi geta verið vörður á þessari vegferð – og svo ótal margt fleira.

Umburðarlyndi er eitt af því mikilvægasta, sem við getum tamið okkur í samskiptum við annað fólk. Það er auðvelt að dæma aðra og stundum þarf ekki mikið til, jafnvel hviksögur nægja og hvers kyns söguburður. Það er hins vegar ekki jafn auðvelt að sýna þolinmæði og skilning, umburðarlyndi krefst íhygli og gerir kröfur til persónuþroska, leggur stein í götu hinnar auðveldu undankomuleiðar. Nú um stundir er meiri þörf á umburðarlyndi í samfélagi okkar en oft áður. Þjóðin hefur orðið fyrir áfalli, ekki aðeins efnalegu heldur einnig og ekki síður tilfinningalegu. Sjálfsmatið hefur brenglast, traust á gildum samfélagsins, stofnunum og stjórnmálaöflum hefur beðið hnekki. Réttlát reiði hefur búið um sig í hugum margra en illu heilli leitar hún stundum útrásar með orðbragði og látæði, sem áður hefur verið óþekkt í þjóðfélaginu. Hinum fornu heilræðum: „Vertu í tungunni trúr, tryggur og hreinn í lund“ hefur verið vikið til hliðar í alltof ríkum mæli. Þróun af þessu tagi getur aðeins leitt til hnignunar og því er mikilvægt að spyrna við fótum. „Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana.“ Þannig talaði Kristur við þá, sem vildu grýta hórkonuna, og hann leitaði umburðarlyndis – andstætt venju og trú og siðum þess tíma – til samræmis við þann boðskap, sem hann flutti með lífi sínu og starfi. Og þeir fóru burt einn af öðrum, öldungarnir fyrstir, og þeir grýttu hana ekki. Jesús sagði við hana: „Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar.“

Reiði getur vissulega átt rétt á sér en hana þarf að hemja og aga eins og allt annað. Að öðrum kosti er hætt við því að manngildi og mannlegri reisn verði fórnað á altari taumleysis og lágkúru. Í fyrri ritningarlestri dagsins var sagt frá bræðrunum Kain og Abel. Kain reiddist bróður sínum mjög og varð þungur á brún er Drottinn gaf gaum að Abel en ekki honum sjálfum. Hann leiddi bróður sinn út á akurinn, réðst þar á hann og drap hann. Þegar Drottinn spurði Kain um Abel vék Kain af vegi sannleikans og sagði: „Það veit ég ekki. Á ég að gæta bróður míns?“

Þessi spurning er alltaf áleitin í hverju því sem við tökum okkur fyrir hendur í lífinu „Á ég að gæta bróður míns?“ Vitaskuld átt þú að gæta bróður þíns og þú átt að gæta barnanna þinna umfram allt. Er ekki hætt við því að börnin beri skaða af þegar umburðarlyndi í samskiptum manna og orðræðu er vikið út í hafsauga? Skáldið Ólafur Jóhann Sigurðsson varpaði fram þessu umhugsunarefni:

Langt er til tunglsins
og langt til stjarna
sem leiftra á himinbrautum.
En stutt er til barna,
blakkra og hvítra,
sem bíða líknar í þrautum. Eða er þessu kannski
á okkar tímum
öfugt farið,
með válegum hætti
í veröld allsnægta. Veist þú svarið?

Hefur það gerst á ferð okkar frá örbirgð til góðra efna að formerki í gildismati hafi breyst svo mjög að það sem áður var stutt sé nú orðið langt, langt til barna en stutt til tunglsins? Hafa hin svörtu og hvítu börn þurft að bíða lengur líknar í þrautum fyrir þá sök eina að mannsandanum, afli hugar og handa, hefur verið beint á aðrar brautir, frá þeim til tungls og tækni, frá þeim til eftirsóknar eftir vindi í gálausum dansi kringum gyllta kálfa? Hafa börnin þurft að gjalda velsældar undangenginna ára og ásóknar í meiri allsnægtir á þann hátt að bilið hafi lengst milli þeirra og hinna fullorðnu, sem áttu að veita þeim þroska og skjól, líkn í þrautum hversdagsins? Og eiga börnin nú að gjalda þess þegar harðnar á dalnum að umburðarlyndi og kærleikur í samskiptum manna séu ekki í hávegum höfð – heldur hið gagnstæða? Veist þú svarið?

Þess verðum við jafnan að minnast, hvað sem yfir dynur, að við eigum von. Við eigum mikla von – von í heilagri trú. Við eigum Guð vonarinnar. Hann er bjargið í þeirri veröld, sem hefur sett önnur goð á stall, guði sem hafa svikið og blekkt dýrkendur sína, alið á ótta og vonleysi, ágirnd og græðgi. Hinn ástsæli biskup okkar Sigurbjörn Einarsson hefur sagt frá því að kristniboðinn, sem þýddi Biblíuna fyrstur á tungu Papúa, frumstæðrar þjóðar í Nýju-Guineu, hafi komist að því að í máli þeirra var ekkert orð til, sem táknaði von.

Hann leitaði og rannsakaði en árangurslaust. Vonin var ekki til í þeirra orðaforða. Svo veiktist barnið hans og dó. Hann fól það öruggur sínum upprisna frelsara. Og þá kom einn Papúinn til hans og sagði við hann: „Nú veit ég hvað það er, sem er skrýtið við þig. Þú sérð í gegnum sjóndeildarhringinn.“ Þarna var orðið fundið, orð yfir von. Að sjá í gegnum sjóndeildarhringinn.
Og Sigurbjörn biskup bætir við og segir:
Þessa sýn gefur heilög trú, traustið á frelsaranum Jesú Kristi. ... Sjáðu til þess, íslenska móðir, að barnið þitt fylgi honum inn í framtíð sína. Sjáðu til þess, íslenska þjóð, að konungsmerki hans hverfi ekki úr fána þínum, týnist ekki í augum þínum né sálu þinni.“
Við skulum festa okkur í minni þessi orð hins vitra manns, láta þau greipast í vitund okkar og vitund barnanna okkar og barnabarna. Við skulum sjá til þess að þau fylgi barnavininum mesta inn í framtíð sína og kenna þeim umburðarlyndi og fordómaleysi gagnvart öllum mönnum, hvort heldur í orðaskaki og illdeilum eða rúmhelgri önn dagsins. Við eigum að virða sjónarmið og skoðanir annarra, bæði í veraldlegum orðræðum og deilum eða mismunandi afstöðu til grundvallarþátta lífsins, trúar eða trúariðkunar. Mér eru ógleymanleg þau orð sem Gunnar Eyjólfsson, kaþólskur listamaður og leikari af Guðs náð, lét falla í sjónvarpsviðtali fyrir mörgum árum þegar hann var spurður um afstöðu sína til trúarinnar og mismunandi kennisetninga um kristna trú. Hann sagði einfaldlega: „Mér nægir að verða að engu í faðmi frelsarans.“ Betra tákn um umburðarlyndi en þessi túlkun guðdómsins verður tæplega fundið. „Mér nægir að verða að engu í faðmi frelsarans.“

Í kristinni menningu er orðið von aldrei svo nefnt eða hugsað að ekki séu í námunda hin orðin tvö, sem með voninni marka boðskap Krists: Trú og kærleikur. Trúin er aflgjafi kærleikans og kærleikurinn er forsenda umburðarlyndisins. Kærleikurinn er sterkasta afl heimsins, ofjarl haturs og heiftar, og þó hið hógværasta enda er hógværðin kærleikur. Hér var á ferð fyrir skömmu trúarhöfðingi Búddista, Dalai Lama, sem fékk að vísu ekki þær móttökur hjá forráðamönnum þjóðarbúsins íslenska, sem hver sæmilega gestrisinn bóndi í Grímsnesinu hefði veitt. Hann hefur kennt og prédikað að kærleikur og samhygð séu hinn eini trausti grunnur alheimsábyrgðar. Fordæmi hans undirstrikar rækilega að kærleikurinn á engin landamæri, þekkir enga búsetu hjá einum trúarbrögðum frekar en öðrum. Í fyrra bréfi sínu til Korintumanna segir Páll postuli:

Þótt ég talaði tungum manna og engla
en hefði ekki kærleika
væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. ...

Og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú
að færa mætti fjöll úr stað
en hefði ekki kærleika
væri ég ekki neitt. ...

Páll vissi og skildi og kenndi að kærleikurinn „breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.“ Þetta skildu forfeður okkar og formæður þótt okkur sýnist stunduð æði mikið að gert til að tortíma þessari hugsun. Í þessum anda hafa Íslendingar sannarlega leitast við að uppfræða börn sín og barnabörn. Í bréfi, sem amma mín fékk frá ömmu sinni í upphafi síðustu aldar, árið 1912, segir svo:
Ég er nú svo lundu farin að mig langar til að aðvara og áminna börnin mín og barnabörnin þegar þau eru að leggja út á lífsbrautina, sem ég nú við enda hennar er farin að þekkja betur en við byrjunina. Það vill oft verða vandratað á lífsleiðinni, ekkert er jafn gott og ómissandi til fylgdar sem trúin, vonin og kærleikurinn; trúin gefur styrkleika, vonin úthald og kærleikurinn mildi og umburðarlyndi eða réttara sagt, þetta allt til samans leiðbeinir huganum í rétta átt og lýsir og greiðir leiðina gegnum allar torfærur og leiðir í góða, trygga höfn.
Þannig hafa þær kennt og leiðbeint íslenskar mæður og ömmur,

þær konur sem kirkjan sækir afl sitt til. Þær hafa vísað veginn til Guðs, þess Guðs sem Sigurður Nordal nálgaðist þannig og sagði: „Vér kunnum ekki að lýsa hæstu hugsjón mannsandans, Guði, öðruvísi en að kalla hann því nafni æðstu tilfinningar, sem vér þekkjum – segja: Guð er kærleikur.“

Við biðjum Guð kærleikans og vonarinnar að halda verndarhendi sinni yfir íslenskri þjóð, veita líkn með þraut, lina þjáningar, styrkja hinn veika og gefa þeim sterka mildi – blessa og varðveita framtíð landsins í heiði umburðarlyndis og umhyggju.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda um órofa eilífð. Amen.