Ráðsmaður íslenskrar náttúru

Ráðsmaður íslenskrar náttúru

Við mennirnir getum ekki vikist undan þeirri stöðu, sem okkur er búin innan lífríkisins, náttúrunnar, hvort sem við sjáum hana með augum trúarinnar eða ekki. Ábyrgð mannsins er óumdeild, og við sem lifum á hverri tíð erum bundin mikilvægum trúnaði við óbornar kynslóðir.
fullname - andlitsmynd Sigurður Jónsson
16. september 2012

Biðjum: „Allt sem Guð hefur gefið mér, gróður jarðar, sólarsýn, heiðan og víðan himininn, af hjarta ég þakka og bið: Lifandi Guð, lifandi Guð láttu mig finna þig.” – Amen. (Höf.: Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson)
NÁÐ sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Atburðir síðustu helgar og liðinnar viku, þegar skyndilegt, snemmbúið hausthret gekk yfir norðanvert landið með gífurlegu tjóni á búfénaði og mannvirkjum, hafa sýnt okkur enn á ný hve búsetuskilyrði okkar hér á Íslandi reynast oft nálægt mörkum hins byggilega. Öfl náttúrunnar geta reynst óblíð, og þegar fjölþætt skilyrði í umhverfi og veðrakerfi beina þeim í eina átt, margfaldast þau og magnast upp, og þá má sín oft lítils lífið á jörðinni, viðkvæmt og brothætt. Reglulega erum við minnt á þetta, bæði hér á heimaslóð og eins í fréttum utan úr heimi, oft af veðursælli landsvæðum en hér, þar sem náttúran fer hamförum í  jarðskjálftum, flóðbylgjum, eldgosum og skriðuföllum sem allt getur reynst skeinuhætt byggðum bólum og orðið mönnum og skepnum að fjörtjóni.

Með þessu hefur maðurinn lært að búa. Honum hefur lærst að taka vara á umhverfi sínu, gæta sín á veðri og vindum, búa sig eftir aðstæðum, haga seglum eftir vindi bókstaflega talað. Maðurinn er nefnilega og verður órjúfanlegur hluti af hinu stóra lífríki jarðarinnar. Ég og þú erum ekki aðskotadýr í náttúrunni, ekki aðkomnar geimverur fluttar hingað af framandi hnöttum, heldur erum við órjúfanlegur hluti hins mikla lífríkis, sem við stundum nefnum Guðs góðu sköpun, fædd innan hennar, vöxum, aukum kyn okkar og deyjum innan hennar. Því fer ekki hjá því að nokkurra ummerkja sjái stað í náttúrunni af mannsins völdum, þar sem hann hefur farið sínu fram. Lakara er þó til þess að vita að maðurinn hefur ekki að öllu leyti lært að búa við öfl náttúrunnar, ekki látið sér líka að virða hina virku og máttugu krafta hennar, og því ekki lært að setja sjálfum sér mörk í sambúð sinni við hið sjálfstæða ríki lífsins – lífríki sem maðurinn er þó sjálfur hluti af, vel að merkja, eins og ég áður minntist á.

Dagurinn í dag, 16. september, er helgaður íslenskri náttúru. Umhverfisráðherra landsins minnir á það í ávarpi dagsins, að með því að tileinka íslenskri náttúru sérstakan heiðursdag sé „mikilvægi hennar undirstrikað um leið og við erum minnt á hversu mikils virði hún er okkur Íslendingum sem þjóð. Slík áminning er okkur nauðsynleg og holl, enda hefur afstaða manna til náttúrunnar löngum borið sterkan keim af því siðfræðilega viðhorfi sem kennt er við mannhyggju” segir ráðherrann og bætir við: „Það leiðir af sér að náttúran og afurðir hennar eru fyrst og fremst metnar út frá rétti og hagsmunum mannsins. Þetta endurspeglast meðal annars í löggjöf um umhverfis- og náttúruvernd”, segir ráðherrann einnig, og heldur áfram: „Í seinni tíð hefur það viðhorf fengið aukið vægi að náttúran eigi sjálfstæðan rétt og hafi sjálfstæða stöðu, óháð tengslum við manninn og umhverfi hans. Þetta viðhorf er ekki aðeins rökrétt heldur virðist augljóst þegar við höfum í huga að náttúran getur lifað án mannsins en maðurinn ekki án náttúrunnar. Slík auðmýkt í nálgun okkur að náttúrunni er nauðsynleg eigum við að bera gæfu til að ganga ekki á möguleika komandi kynslóða til að njóta hennar á sama hátt og við höfum fengið að gera” segir umhverfisráðherrann meðal annars í ávarpi sínu.

Hver á Ísland? er gömul spurning og ný, og síðustu misserin hefur sú spurning enn knúið á. Ekki hefur gætt mikillar hæversku eða auðmýktar í því efni, en peningalegum nytjasjónarmiðum verið gert þeim mun hærra undir höfði. Mannhyggjan sem umhverfisráðherrann nefnir í ávarpi sínu, hefur vissulega ráðið för, enda stýrir hinn viti borni maður nýtingu lands hvar sem er í heiminum, og ber um leið ábyrgð á vernd þess. Hin sjálfhverfa nytjahyggja mannsins á sér að sínu leyti upphaf í sögu Biblíunnar af Adam og Evu, þeirri snjöllu dæmisögu um hamingju mannsins og afdrif hér í heimi. Hið mennska par, frumgerð mannkynsins í sköpunarsögu Fyrstu Mósebókar, Adam og Eva, létu varnaðarorðin um friðhelgi skilningstrésins, sem þau máttu ekki nýta og eta af, sem vind um eyrun þjóta. Þess í stað fóru þau sínu fram, með afleiðingum sem flesta rámar í sem söguna þekkja, því þau kölluðu yfir sig bölvun og brottrekstur úr Edens-ranni. Valkostir þeirra byggðust á tvennu: Annars vegar að hlýða rödd skaparans, Guðs sjálfs, sem setti þeim reglur og mörk innan þess heims sem þeim var fenginn til ráðsmennsku og umsjár – hins vegar að hlýða rödd freistarans, sem í líki höggormsins kvað ástæðulaust að eltast við boð og bönn að ofan. Val þeirra stóð á milli tveggja kosta, að virða hin settu mörk annars vegar, og hins vegar að fara sínu fram, án tillits til þess sem fyrir þau hafði verið lagt.

Guðspjall dagsins ber þá yfirskrift að enginn kunni tveimur herrum að þjóna, og vísar til upphafsorða Jesú innan texta þess. Þú getur ekki þjónað tveimur herrum, segir Jesús, því annað hvort elskarðu annan og hatar hinn, eða þýðist annan og afrækir hinn. Þú getur ekki skipt þér í tvennt. Þú verður alltaf að vera heil eða heill í afstöðu þinni. Það er ekki hægt að vera bæði með og á móti sama málinu, ekki segja bæði já og nei við sömu spurningunni.

 Þú getur ekki þjónað bæði Guði og mammón, segir Jesús. Orðið mammón merkir í hebresku máli eignir, dauða hluti, en orðið hefur síðan í aldanna rás orðið að heiti peningaguðsins – mammón lætur á sér kræla þegar menn fara að hugsa um að komast yfir meiri peninga en þeir þarfnast til lífsins – því allir þurfa vissulega á peningum að halda til að geta aflað sér lífsnauðsynja – en þegar menn fara að elska peningana, meta þá meira en allt annað, fara jafnvel ómeðvitað eða meðvitað að tilbiðja peninga og efnisleg gæði, setja auðæfin og vonina um þau í Guðs stað, þá eru menn komnir framúr sjálfum sér. Við vitum öll hvað við er átt þegar talað er um mammóns-musteri, þar sem afl auðsins er túlkað í íburði húsa og innréttinga, og dýr lífsstíll er upphafinn og gerður eftirsóknarverður í umfjöllun fjölmiðla. Þannig er tilbeiðsla mammóns aldrei mjög langt undan, og margir leggja mikið á sig á braut hennar, eru jafnvel tilbúnir að brjóta lög til að komast yfir mikla peninga, eins og við vitum.

 Jesús vill kenna okkur að meta þá hluti að verðleikum sem skipta máli í lífinu. Hann kallar eftir guðsþekkingu og trú. Hann talar um fugla og blóm. Hann minnir okkur á undur sköpunarverksins, hvernig lífið heldur sér við líkt og af sjálfu sér, án þess að allt okkar vit og strit þurfi þar nokkru við að bæta. Hann kennir okkur það, að vitund og vilji Guðs býr að baki lífinu, að Hann viðheldur sköpun sinni af umhyggjusemi sinni og kærleika, og að í vitund Hans eigum við einnig stað, í faðmi Hans rúmumst við líka. Gætið að Guði, segir Jesús. Trúið á Hann. Þjónið Honum einum, því þið getið ekki þjónað tveimur herrum.

 Þar með er þó ekki sagt að hér kenni Drottinn okkur að leggja hatur á heiminn og snúa frá daglegu lífi okkar. Maðurinn er vissulega skapaður af Guði, í Guðs mynd, og falið það hlutverk að vera samverkamaður Guðs á jörðinni, ráðsmaður yfir sköpun hans. Okkur er fengið það ábyrgðarfulla og krefjandi hlutverk, að mega nýta jörðina og gæði hennar okkur til lífs og viðurværis, en um leið að vernda hana og gæta hennar, sem er okkur ekki síður til lífs og viðurværis. Það er í raun það, sem við megum ekki missa sjónar á, að þetta heilaga hlutverk okkar hér í heimi ber okkur að rækja sem þjónar og samverkamenn Drottins í víngarði hans, vinna verk okkar í trúnni á hann og þjóna honum einum.  Hannes Pétursson skáld kemst svo að orði í ljóði sínu Endurminning um lyng:

Við járnrauðan stein  á stökum mel var stór lyngkló sem ég þekkti vel. Ég vó hana hægt  í hendi minni hlaðna berjum hvert sumar.
Ég hrifsaði þar allt. En aldrei fannst mér það nóg.  Og ætíð hvíslaði lyngklóin:  Ég er hönd.  Hönd þín er kló.
 Mannshöndin hefur í samskiptum sínum við Móður náttúru víða minnt meira á hvassa kló hins gráðuga rándýrs sem hrifsar allt til sín heldur en útrétta hönd þess sem þiggur með þökkum gjafirnar af nægtaborði náttúrunnar. Degi íslenskrar náttúru er ætlað að minna okkur á heilagt ráðsmennskuhlutverk okkar á jörðinni, sem trúin á Krist Jesúm túlkar í ljósi orða hans um ábyrgð okkar andspænis valkostum tilverunnar. Líkingarnar sem Jesús sækir í líf dýra og jurta, þegar hann ræðir um liljur vallarins og fugla himinsins, í því skyni að leiðbeina mannfólkinu í vanda hins lifaða lífs dag frá degi, sýna glöggt þann skilning Ritningarinnar að náttúran sjálf lifir að sínu leyti fullkomnu lífi, sjálfbæru lífi, án græðgi, án mannlegrar stjórnvisku eða forsjárhyggju, og birtir um leið óbrigðula fyrirmynd handa manninum að bera sig saman við og draga lærdóm af. En um leið minnir Jesús manninn á hina sérstæðu stöðu sína og hlutverk innan sköpunar Guðs, í spurningunni: Eruð þér ekki miklu fremri þeim?

 Við mennirnir getum ekki vikist undan þeirri stöðu, sem okkur er búin innan lífríkisins, náttúrunnar, hvort sem við sjáum hana með augum trúarinnar eða ekki. Ábyrgð mannsins er óumdeild, og við sem lifum á hverri tíð erum bundin mikilvægum trúnaði við óbornar kynslóðir. Okkur er því hollt og nauðsynlegt að staldra við og líta til fugla himinsins, hyggja að liljum vallarins, sem byggja heiminn með okkur, hægja á og hlusta, og minnast þess að Guð birtir sjálfan sig í undrum sköpunar sinnar, í fagurskrýddu blómi og fiðruðum væng, en líka í hönd og huga ráðsmannsins sem hann hefur trúað fyrir hinni fögru veröld, bæði okkur sem nú erum á dögum, þeim kynslóðum sem fyrr fóru og einnig hinum, er síðar koma.  Því skulum við leitast við að reynast sannir og trúir ráðsmenn yfir sköpun hans, elska Guð og náungann eins og okkur sjálf, - því við getum ekki þjónað bæði Guði og mammón. Guð gefi okkur til þess náð sína. Í Jesú nafni. Amen.

 

Textar: 

Jesaja 49:13-16a - Drottinn hughreystir og miskunnarI. Pét. 5:5c-11  - Náð handa auðmjúkum

I. Pét. 5:5c-11  - Matt. 6:24-34 - Enginn kann tveimur herrum að þjóna Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen. Takið hinni postullegu kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.