Ákvarðanir skipta máli

Ákvarðanir skipta máli

Ég get því ekki neitað því að þegar ég horfi á ykkur svona falleg, hrein og strokin, þá velti ég því fyrir mér hvernig þið eigið eftir að spila út ykkar lífi. Hugsa um allar ákvarðanirnar sem að þið eigið eftir að taka og hvaða áhrif þær munu hafa á líf ykkar. Ég veit vel að margt á eftir að gerast í lífi ykkar sem að þið hafið enga stjórn á. Þið eigið eftir að upplifa sorgir og dauða, að verða svikin og hafnað.
fullname - andlitsmynd Guðbjörg Jóhannesdóttir
01. janúar 1900
Flokkar

Á föstudaginn þegar að við vorum að æfa okkur spurði ég krakkana hvað þeim þætti æskilegt ræddi um í dag. Í fyrsta hópnum var einn snillingur sem taldi að mikilvægast væri að ég legði áherslu á að þau fengju hærri vasapeninga !!!!

Ég skrifaði þetta auðvitað samviskusamlega hjá mér og nú hef ég komið þessu á framfæri en bið ykkur um að taka þetta mátulega alvarlega.

Það hefur verið mér mikil ánægja að kynnast ykkur betur og fullvissa mig um það sem mig grunaði, að þið eruð frábærir krakkar.

Það er alltaf sérstök tilfinning að fylgja nýjum árgangi fermingarbarna úr garði og gleðjast yfir því að samskiptunum er ekki lokið því við höldum áfram að sjást í kirkjustarfinu, þegar ég fæ að koma í heimsókn í skólann og svo bara úti í búð. Með þessum árgangi eru fermingarbörnin mín eru orðin yfir 300 og ég segi mín af því að héðan í frá á ég smá í ykkur öllum.

Yfir 300 unglingar. Elskulegir krakkar öll.

Núna mörg orðin að fullvaxta konum og dimmrödduðum karlmennum sem láta mér finnast ég enn minni en ég er.

Mörg búin að upplifa ástarsorg og vonbrigði, mörg hafa náð mikilvægum markmiðum og önnur búin að skoða sig um í heiminum. Einhver hafa farið í áfengismeðferð og hafa náð sér á strik, en önnur eru á öruggri leið til að eyðileggja líf sitt. Sum eru hamingjusöm, önnur eru í leit að hamingjunni sumhver á röngum stöðum. Börn hafa fæðst og heimili stofnuð.

Ég get því ekki neitað því að þegar ég horfi á ykkur svona falleg, hrein og strokin, þá velti ég því fyrir mér hvernig þið eigið eftir að spila út ykkar lífi.

Hugsa um allar ákvarðanirnar sem að þið eigið eftir að taka og hvaða áhrif þær munu hafa á líf ykkar. Ég veit vel að margt á eftir að gerast í lífi ykkar sem að þið hafið enga stjórn á. Þið eigið eftir að upplifa sorgir og dauða, að verða svikin og hafnað. En ég veit að þið hafið það mikið til á ykkar valdi hvernig þið veljið að bregðast við. Hvaða viðhorf þið veljið að hafa til lífsins.

Það er því með mikilli gleði sem ég fæ að spyrja ykkur um lífsviðhorf í dag. Að þið ætlið að leitast við að lifa í kærleika. Að þið ætlið að sýna sjálfum ykkur og öðru fólki virðingu.

Það gleður mig ekki síður að þið foreldar styðjið börnin ykkar til að taka þessa ákvörðun. Ég var að hugsa um það á æfingunum á föstudaginn hvað það væri nú sem mér þætti mikilvægast að þið tækjuð með ykkur úr fermingarfræðslunni. Sum verða án efa farin að ryðga í trúarjátningunni í sumar og sálma textarnir gleymast kanski. Það er auðvelt að svara hvað er mikilvægast ; ég bið þess að þið takið með ykkur fullvissuna um að Guð elskar ykkur óendanlega mikið nákvæmlega eins og þið eruð með bólum og allt. Guð er með ykkur bæði sólardaganna þegar þið valhoppið um grunir og hól sem og dimmu dagana þegar allt virðist vonlaust.

Í dag eruð þið því ekki útskrifuð því nú þurfið þið að taka eitt skrefið af öðru í átt til þess að verða fullorðnar trúaðar manneskjur.

Hlægilegt er að á hverju ári þarf að taka fyrstu tímana í að leiðrétta smá miskilning. En það er að Guð skapaði heiminn sannarlega ekki á sex dögum og slappaði svo af á þeim sjöunda. Sköpunarsagan er ekki náttúruvísindi heldur ljóð sem lýsir því að Guð er skapari alls sem er. Ein afar skemmtilega ung kona sagði við mig að þessum fyrirlestri loknum ....ok þá er þetta allt í lagi þá trúi ég alveg, ég hélt að þetta væri bara svona úrelt bull. Þegar það var frá gátum við hafist handa. Frásagnir af því þegar Jesú gekk á vatni eða reis upp frá dauðum.......engin vandamál !

En við höldum áfram að takast á við spurningar trúarinnar og þurfum hvert og eitt að þroskast í trú sem og öðru eftir því sem árin líða.

Því er gott að við sem fullorðin erum sýnum ykkur gott fordæmi með því að geta rætt um eigin trú. Mikilvægast er þó að við sýnum ykkur í verki hvað það er að vera kristin manneskja. Að við ræktum okkar eigin trú, umgöngumst og tölum um annað fólk af kærleika og virðingu. Ræktum með okkur ábyrgð á eigin lífi og tökkum því sem ekki verður við ráðið með æðruleysi. Ég þarf auðvitað ekki að segja ykkur það að foreldar gera ótúlega margar vitleysur en eftir að við verðum eldri þá komumst við sem betur fer að því að því að þau gerðu sitt besta. Enginn hér inni hefur átt foreldra eða á foreldra sem hafa aldrei gert mistök.

En ég þarf líka að segja ykkur það ef þið vissuð það ekki að þið eigið frábæra foreldra sem eru að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að skila ykkur vel út í lífið. Því vona ég að þau haldi áfram að hafa vit fyrir ykkur með það sem þarf að hafa vit fyrir ykkur með svo sem eins og upphæð vasapeninga, útivist og fleira skemmtilegt.

Hluti af því að þroskast er að sættast á að ávallt þarf að taka tillit til annarra og það er bara til ýmislegt sem er drep hund, ógeðslega, fúlt og á jafnvel að vera það.

Ég fór einmitt að hugsa um það um daginn þegar að ég fór til tannlæknis að áður en ég var deyfð þá var sett deyfikrem með jarðaberjabragði á tannholdið svo að ég finndi ekki fyrir stungunni. Þar sem ég sat og smjattaði á jarðaberja bragðinu hugsaði ég að það er bara ekki hægt að taka burt allan sársauka og það er heldur ekki æskilegt. Því það er þá sem að við þroskumst einna mest.

Ég held áfram að biðja fyrir ykkur krakkar og því að þið þroskist og varðveitið gleðina sem þið eigið í dag.

Þessi dagur er yndislegur, ég þarf alltaf að hemja mig til að vera ekki enn væmnari en ég er. Ég veit vel að þið hlakkið til að fara heim og fá í fangið pakka frá þeim sem ykkur þykir vænt um. Það skil ég vel hver hlakkar ekki til þegar slíkt er í vændum. Öll eru að reyna að gefa ykkur eitthvað sem gagnast, eða ykkur langar í.

Því ætla langar okkur hér í kirkjunni að gefa ykkur smá gjöf sem við teljum að muni gagnast ykkur vel, lítinn kross. Þessi kross er búinn til úr notuðu skothylki úr byssu. Hann er kominn alla leið frá Líberíu í Afríku. Kirkjan þar í landi týnir skothylkin upp og breytir þeim í krossa. Sterkt tákn sem segir að öllu má umbreyta í kærleika. Eina leiðin til að takast á við vonsku er með kærleika. Krossinn á að minna ykkur á þetta og á ást Guðs sem fylgir ykkur hvert sem þið farið.

Trúarjátninguna er alltaf nokkuð verk að læra og var það því mörgum mikill léttir að við förum með hana öll saman hér í kirkjunni, Þau eru alltaf nokkur sem ruglast smá þegar að þau fara með hana fyrir mig. Sá sem náði fram óstöðvandi hláturskasti þetta árið sagði :

... fæddur af Maríu mey, týndur á dögum Pontíusar Pílatusar ... Heilaga almenna kirkju, Samfélag aldraðara ...

heyrðist líka einhverstaðar.