Skógar fyrir fólk

Skógar fyrir fólk

Það þarf samstillt átak og aukna vitund á öllum sviðum til að styrkja sjálfbæra umhirðu, vernd og þróun allra skógargerða til hagsbóta fyrir núlifandi og óbornar kynslóðir.

„Það þarf samstillt átak og aukna vitund á öllum sviðum til að styrkja sjálfbæra umhirðu, vernd og þróun allra skógargerða til hagsbóta fyrir núlifandi og óbornar kynslóðir“ (úr yfirlýsingu SÞ í tilefni af ári skóga).

Uppspretta matar og varðveisla loftslags

Alþjóðlegt ár skóga 2011Merki ársins er hannað um þemað skógar fyrir fólk og sýnir í hnotskurn fjölþætt gildi skóganna fyrir lífríki og umhverfi. Allir skógar, ræktaðir og óræktaðir, veita skjól og eru mikilvæg búsvæði fjölmargra lífvera, þ.á.m. mannsins. Í skógum er uppspretta matar og þeir varðveita gæði ferskvatns; þeir eru mikilvægir fyrir jarðvegsvernd og gegna mikilvægu hlutverki í að viðhalda stöðugu loftslagi á hnattræna vísu og jafnvægi í umhverfinu. Úr skógum fáum við vistvænt, endurnýjanlegt og endurvinnanlegt byggingarefni og efnivið í margskonar hönnun og nýsköpun. Þessir þættir og miklu fleiri undirstrika að skógar eru ómissandi fyrir vellíðan og velferð fólks alls staðar í heiminum.

Skorað er á ríkisstjórnir, svæðisbundnar stofnanir og alþjóðastofnanir, sem málið varða, sem og helstu hópa í hverju landi fyrir sig að styðja viðburði sem tengjast árinu, m.a. með því að tengja viðburði á sínum vegum við árið. Umhverfisráðuneytið á Íslandi hefur hvatt þá sem standa að skógum og skógrækt hér á landi til að taka þátt í þessu alþjóðlega ári, með viðburðum og upplýsingum til landsmanna.

Messað í Skálholti á ári skóga

Sunnudaginn 14. ágúst kl. 14:00 verður messa í Skálholtskirkju þar sem við söfnumst saman sem flest til þakkargjörðar. Með okkur verða norskir skógræktarmenn og viljum við sýna þeim og norsku þjóðinni sóma og þakkæti fyrir þær miklu gjafir sem við höfum þegið frá þessum vinum og frændum í gegnum tíðina. Sérstakt tónlistaratriði verður flutt í messunni af þessu tilefni.

Hvort heldur sem við tölum um okkur sem kirkju eða þjóð þá hafa fáir, ef nokkrir, lagt annað eins af mörkum í uppbyggingu hér á landi og Norðmenn. Margar kirkjueignir, ekki síst í Skálholti, væru svipur hjá sjón ef stuðnings manna á borð við sr. Harald Hope hefði ekki notið við. Hann var sannarlega einn helsti velgjörðarmaður Skálholts á sinni tíð.

Þegar eldhuginn Hákon Bjarnason tók við starfi skógræktarstjóra árið 1935 setti hann sig strax í samband við gróðrarstöðvar í Noregi. Afrakstur þeirrar samvinnu hefur reynst ómetanlegur menntaskóli í fyrstu aldar skrefum skógræktar á Íslandi. Þakkargjörðin í Skálholtskirkju þann 14. ágúst verður framlag Þjóðkirkjunnar á ,,alþjóðlegu ári skóga fyrir fólk“.