Fang að hvíla í

Fang að hvíla í

Barnið fékk fang til að hvíla í, ást, umhyggju. Þetta eru mannréttindi og til þeirra erum við borin en það hafa ekki allir mannréttindi, ekkert fang, hvorki að hvíla í né ríkisfang. Jólasagan dregur upp mynd af hvað er nauðsynlegt til að mennskan dafni í þessari veröld. Umhyggja, staður að vera á , fang til að hvíla í...

Aðfangadagur 2019
Miðnæturguðsþjónusta 


Í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda.

Amen


Fyrstu orðin í kvöld á Hjörtur Pálsson
"Stjarna blikar í rofi

Rökkur

            Hrörlegur kofi
verður nú leiksvið lífsins."

Á leiksviði lífsins læðist kyrrðin inn, svo hljóðnar allt.  Dökkblár himininn fær aftur lit sinn, og jótrandi búfénaður og undrandi hópur af fjárhirðum starir milli skýja himins sem enn hjúpa leyndardómsfulla jarðarkúluna.  Þetta er myndin sem sækir hugann heim í nótt   Jesús nálgast okkur, sem verndari lífsins og veraldarinnar þar sem við erum oft, stefnulaus, öryggislaus og einnig getum við ef við leggjum eyru við heyrt sönginn af himni, englasöng og fundið kraftinn, sem dregur frá skýjaslæðu himins til að við fáum séð stjörnum skrýddan himinn

 Gleðileg jól kæru vinir –  látum jólakveðjuna ganga um alla kirkju... 

......

Himininn er sá sami og við horfum upp í nótt,  stærri er veröldin ekki.  Við deilum himni með öllum, andrúmslofti og alltaf slær þessi hugsun mig aftur og aftur hver jól.  Sem unglingur að hafa verið við Betlehemsvelli á jólum og horfa upp í himinn sem hýsir sömu stjörnur og fjárhirðarnir horfðu á. 
Þeir sáu engla en ég skynjaði bara á þessari stundu að ég var á stað þar sem ófriður ríkti milli fólks sem deildi tiltölulega fáum ferkílómetrum. 

Það rofar í skýin á milli til að gægjast til stjarnanna á jólanótt ef þú staldrar við.
Sjá þitt eigið stjörnublik.  Sjá lengra inn á við og við mætum okkur sjálfum í kyrrðinni, hjartað er mýkra og hvirfilvindur hugsana hefur þeyst um hugann. 

 Lögðuð þið í kvöld eyra við því himneska, því ójarðneska.  Fannstu rétta bragðið, réttu stemminguna, skapið, hjartalagið í aðdragandi jóla. Gekk planið þitt upp.  Var allt eins og þú vildir hafa það ?  Er einhver ótútskýrður tómleiki þegar pappírinn dreifir úr sér við fætur þér, gjafirnar góðu allar skriðnar út– sem okkur þykir svo vænt um og fylgja okkur áfram inn í næsta dag.  Hugurinn að baki, fyrirhöfnin, sköpunarkrafturinn, hugulsemin.  Við getum fundið svo mörg falleg orð yfir jólin, stemminguna kærleikann, ljósið, ylinn, vináttuna.  Þetta er svo merkilegt –  
Kannski snúast jólin bara um jólin, stundina, tímann, augnablikið sem svo hverfur frá okkur ? 

Og við minnumst hlýju okkar til lífsins, þeirra sem hafa kvatt okkur og við vildum svo gjarnan hafa hjá okkur og eiga stað í hjarta okkar.
Nú verður sorg heimsins fjarræn um stund  
en sorgin þín og mín nær..

En við vitum að sorg heimsins er því jólasagan er sannarlega tenging við hjartsláttaróreglu veraldarinnar, hún er raunveruleg í boðskap sínum.

Ekkert var eins og það átti að vera þegar barnið var í heiminn borið nema það leit dagsins ljós og fyllti lungun sín súrefni sem við eigum öll rétt til sem veraldarinnar börn.  Barnið fékk sitt pláss á jörðu á leiksviði lífsins, umhyggju, ást, áhyggjur í bland varðandi framtíðina, fang til að hvíla í.  Þetta eru mannréttindi og til þeirra erum við borin en það hafa ekki allir mannréttindi, ekkert fang, hvorki að hvíla í né ríkisfang.  Jólasagan dregur upp mynd af hvað er nauðsynlegt til að mennskan dafni í þessari veröld.  Umhyggja, staður að vera á, fang til að hvíla í, tilheyra, öryggi um stöðu sína, valdhafa sem virða þig  - þó að mögulega gæti þeim stafað ógn af þér. 

Satt best að segja þá er hljómkviða veraldarinnar ekkert vinsamlegri en hina fyrstu jólanótt.  Við vitum meira, kunnum margt betur en börnum og foreldrum, ungu fólki og öldruðu er enn kastað til í hagsmunaleik heimsins.  Enn erum við hrædd að taka á móti fólki af mannúðarsjónamiði einu, í það minnsta eru hendur bundnar af skipulagi heimsins.  Við viljum skrásetja þau, og hrekjum það milli gistihúsa þar sem enginn staður er, ekkert rúm.  Þess vegna jólanótt, þess vegna þarf að rofa til milli skýja himins til að við lesum tímans tákn  - öll.  Guð sem horfir á heiminn, er til staðar í veröldinni.  Kominn   

En við erum trúlega öll óttaslegin, rétt eins og hirðarnir.  Hrædd við að eitthvað gerist í lífi okkar sem við fáum ekki ráðið við og okkur finnst við vera missa eitthvað úr hendi okkar eins og fjöregg veraldarinnar.
Jöklarnir bráðna, hafið súrnar, manneskjan verður sjálfri sé meiri ógn en áður sama hvað sólin rís oft.  Þörf fyrir umsnúning er óumdeilanleg. 

Og það er enn napurt á Betlehemsvöllum –  rétt eins og þegar í myrkrinu hímdu fjárhirðar, biðu af sér nóttina innan um óhugnaleg hljóð næturinnar.   Um allan heim bíður fólk nýs dags á sama hátt undir myrkri ofbeldis og ofsókna, óhugnalegurm hljóðum í nóttinni.

Um allan heim væntum við umbyltingar til að vernda jarðarkúluna okkar –
þessi sem sést frá tunglinu eins og bláleit sápukúla – svo undurfalleg, þakin vötnum, jöklum og fólki. 
Allt þetta er í hættu og hættan virðist ekki dofna og hrópin ekki hljóðna.   

Þá rofar til á himinfestingunni til að minna okkur á vongleðina, að skynja að eins og foreldri ber ábyrgð á barni sínu þannig berum við ábyrgð á stjörnuskini milli skýjanna, vötnin verði áfram blá, að börn veraldarinnar hafa enn sem fyrr þörf fyrir framtíð sem við viljum gefa þeim loforð um. 
Frelsari heimsins er fæddur, og við fundum ungbarn reifað og liggjandi í jötu.  

Á jólum kemur lífið til okkar, lífið okkar sem er brothætt og kannski á leið frá okkur með hverjum andardrætti og því þurfum við að horfa til lífs framtíðarinnar. 
Ekkert minnir okkur frekar á það en nýkomið barn, nýfætt.  Það vekur með okkur löngun til framtíðarinnar, ábyrgð á framtíðinni, nýjar sögur, nýja viðburði. 
 
Það gefur okkur visku stundarinnar.  Við hættum kannski að vera "óvitar tímans."

– eins og hún Steinunn Sigurðardóttir skáld kallaði  í ljóði sínu og yrkir :

 
„og tíminn leyfir ekki andartakinu að hugsa í sjálfu sér“


"Af því ekkert gerist um leið og það gerist.


Allt gerist eftir á
af því að við erum óvitar tímans.


Og tíminn leyfir ekki andartakinu að hugsa í sjálfu sér."


Þessi hugsun að missa ekki andartakið, meðan það líður hjá þannig að tilfinningin fyrir lífinu hverfi okkur ekki.  Þetta andartak í veraldarsögunni þegar störnurnar sindra og rof verður á himinhvolfinu þannig að himnarnir verða að jörðu og jörð að himni.  Boðskapur um að lífið er fallegt, það er frelsi. 
Guð snertir við jörðinni í elsku sem á sér enga „samskonar.“
Vafið reifum og lagt í jötu.  Barn er oss fætt. 

Og gjafirnar eru fólgnar í lífi þínu andspænis lífinu sem veitir merkingu jólahátíðinni, um kærleika sem færir okkur frá firringu heimisins, frá merkingarleysi til merkingar, úr myrkri í ljós
En þó að ljós lífsins og frelsi nái um stund inn í afkima þá munum við eftir sem áður að afkimar heimsins eru víða og jafnvel dimmari en staðurinn þar sem frelsarinn var sannarlega í heiminn borinn.
Börn heimsins þurfa á ljósi heimsins, kærleika jólasögunnar og voninni, barninu að halda.
Það var vefið reifum og lagtí jötu af því ekki var rúm handa þeim í gistihúsi.
Andartakið líður hjá og vafalaust verðum við áfram "óvitar tímans" en leyfum okkur að vera snortin af augnablikinu.


"Jólin að koma – og lyngið
er loðið af mjöll.

 

Vongleði
vængjar skóhælinn okkar ! "


Hannes Pétursson - 

Það verður ekki betur sagt -
Vongleði jólanna er okkur kraftur út í veröldina. 

"Barn er oss fætt" 


Megi friður Guðs sem er æðri öllum skilningi varðveita hjarta þitt og hugsanir í samfélaginu við Jesú Krist.  Amen. 
Gleðileg jól.

 

Bæn:
Ljóssins Guð.

Þú sem umhvefur okkur í myrkri jólahátíðarinnar og færir okkur ljós heimsins.
Hjálpaðu okkur til að finna frið og gleði jólanna í hjarta að við búum barninu 
sem fæddist og varð frelsari heimsins stað í hjarta okkar. 

Vertu með þeim sem kviðu komu jólanna.
Vak yfir þeim sakna og syrgja, þeim sem eru veik, þeim sem búa við fátækt og umkomuleysi.

 Við felum þér öll þau sem eru á flótta og leita skjóls meðal okkar.  Þau sem eiga hvergi höfði sínu að halla.  Vak yfir börnum sem búa við erfið kjör, börnum sem eru hrædd og börnum sem hafa verið svikin um æsku sína vegna stríðs eða vondara verka mannanna, börnum sem eiga litla von um framtíð, fæðu eða umhyggju.

Gefðu okkur gleðileg jól, frið í hjarta og bjartsýni á lífið og traust og öryggi í tilveru okkar virðingu fyrir lífinu og náunga okkar.

Amen 


Lexía: Mík 5.1-3
En þú, Betlehem í Efrata,
ein minnsta ættborgin í Júda,frá þér læt ég þann koma er drottna skal í Ísrael.
 Ævafornt er ætterni hans,frá ómunatíð.Því verður þjóðin yfirgefinþar til sú hefur fætt er fæða skal.Þá munu þeir sem eftir lifa ættmenna hanssnúa aftur til Ísraels lýðs.Hann mun standa sem hirðir þeirraí krafti Drottins,í mætti nafns Drottins, Guðs síns,og þeir óhultir verða.Þá munu menn mikla hannallt til endimarka jarðar.

Pistill: Tít 2.11-14

Því að náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum. Hún kennir okkur að afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum, í eftirvæntingu okkar sælu vonar, að hinn mikli Guð og frelsari vor Jesús Kristur opinberist í dýrð sinni. Hann gaf sjálfan sig fyrir okkur til þess að hann leysti okkur frá öllu ranglæti og hreinsaði sjálfum sér til handa eignarlýð, kostgæfinn til góðra verka.

Guðspjall: Lúk 2.1-14
En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi.En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu:Dýrð sé Guði í upphæðumog friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.