Ávarp við setningu kirkjuþings 2017

Ávarp við setningu kirkjuþings 2017

Það kann að vera réttlætanlegt að skauta fram hjá því sem er siðferðilega rétt ef það er í þágu almennings.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
11. nóvember 2017

Dómsmálaráðherra Sigríður Á. Andersen, forseti kirkjuþings, kirkjuþingsfulltrúar, vígslubiskupar, tónlistarfólk, góðir gestir.

Saga hvers manns er hluti af ákveðnu samhengi og þannig er því einnig varið með sögu kirkjunnar hér í heimi. Það sem var hefur áhrif á það sem er sem svo aftur hefur áhrif á það sem verður.

Á þessu mikla afmælisári siðbótarinnar höfum við rækilega verið minnt á það hvernig lífsreynsla og lífssýn drengsins sem fæddist í Eisleben fyrir réttum 534 árum hafði áhrif á kirkju okkar og menningu. Í gær var afmælisdagurinn hans og í dag er skírnarafmælisdagurinn hans.

Skírnum hefur fækkað hér á landi undanfarin ár og sú er einnig raunin í nágrannalöndum okkar. Ég fagna áfangaskýrslu starfshóps um skírnina sem hér er lögð fram og upplýsi hér með að það verður eitt af fyrstu verkefnum nýs verkefnisstjóra á fræðslusviði biskupsstofu að vinna í þessum málaflokki. Hugmyndir mínar um þá vinnu rýma algjörlega við það sem fram kemur í áfangaskýrslu hópsins.

Það er gott og reyndar nauðsynlegt í kirkju okkar þar sem fleiri en ein stofnun eða embætti eru í forsvari fyrir hana að gengið sé í takt en ekki út og suður. Öll viljum við ná árangri við boðun okkar góða erindis enda erum við viss um að það bætir mannlífið og samfélagið allt. Ég kalla eftir samtali og samstarfi til að eyða þeirri tortryggni sem ég hef orðið vör við á vettvangi kirkjunnar og heiti því að leggja mig fram um að sú vegferð verði til góðs fyrir kirkjuna og þau öll sem henni þjóna og nýta þjónustu hennar.

Það er mikið talað um lýðræði í kirkju okkar. Lýðræði byggist á því að kallað er eftir þátttöku hins almenna þjóðkirkjumanns. Ýmsar leiðir hafa verið farnar í því til að tryggja lýðræðið svo sem fjölgun þeirra er mega kjósa biskupa og til kirkjuþings. Nú er fulltrúalýðræði í kirkjunni en ég vil til dæmis sjá það að til kirkjuþings geti allir þjóðkirkjuþegnar kosið og kosning verði á sama tíma og kjör til sveitarstjórna. Þá mætti jafnvel stilla fram listum þar sem málefnin eru í
fyrirrúmi en ekki einstaklingar. Ég tel slíkt fyrirkomulag tilraunarinnar virði. Fyrirmyndir þessa höfum við frá öðrum löndum, t.d. Noregi.

Það hefur verið ánægjulegt að sjá þann mikla auð sem býr í kirkjufólki, sögu og menningu okkar á þessu mikla afmælisári siðbótarinnar. Listgreinar, útgáfa, fræðsluþættir, prestastefna, leikmannastefna og fleira mætti telja. Ég vil þakka afmælisnefndinni sem skipuð var fyrir tæpum 5 árum sem og öðrum sem hafa lagt hönd á plóg og bið þess að árangur megi skila sér til eflingar guðs kristni í landinu.

Það segir eitthvað um mun á stjórnskipulagi okkar þjóðkirkju og þeirri dönsku að þjóðþingið, ríkisstjórnin og drottningin minntust siðbótarinnar með hátíðardagskrá í Kristjánsborg og hátíðartónleikum í beinni útsendingu í sjónvarpi á siðbótardaginn. Biskupum var boðið til þeirrar hátíðar. Kaupmannahafnarbiskup messaði einnig í dómkirkjunni þennan dag og það var ánægjulegt að sjá fulla kirkju á þriðjudegi kl. 16 við þá athöfn. Þrátt fyrir allt tal um fækkun félaga í dönsku þjóðkirkjunni tóku margir þátt á þessum óvenjulega messutíma.

Auk minningar siðbótarinnar stendur upp úr öllu því mikla og góða starfi þjóðkirkjunnar og þjónustu hennar um landið allt, ráðstefna Alkirkjuráðsins um réttlátan frið við jörðina sem fram fór í samvinnu við þjóðkirkjuna, í síðasta mánuði. Þetta var í fyrsta skipti sem slík umhverfisráðstefna er haldin hér á landi. Fulltrúar þeirrar ráðstefnu tóku einnig þátt í ráðstefnu hringborðs norðurslóða, Artic circle þar sem aðalræðumaðurinn var hans heilagleiki Bartholomew leiðtogi grísk orþódoxu kirkjunnar, annarrar stærstu kirkjudeildar heims á eftir rómversk kaþólsku kirkjunni.

Eins og kunnugt er er Alkirkjuráðið, World council of churches, sem stofnað var árið 1948, samtök margra kristinna kirkjudeilda og var íslenska þjóðkirkjan einn af stofnaðilunum. Margir lögðu hönd á plóg við undirbúning ráðstefnunnar og framkvæmd hennar, bæði hérlendis og erlendis og þakka ég þeim öllum fyrir framlag þeirra og góða samvinnu.

Þjóðkirkjan beinir sjónum sínum að umhverfismálum og er tímaskeiðið frá 1. sept. til 4. okt. helgað sköpunarverkinu, nú í ár í fyrsta sinn. Kristnar kirkjur víða um heim gera slíkt hið sama og lyfta upp þessu nauðsynjamáli til áframhaldandi lífs á jörðinni og nefna fyrrnefnt tímaskeið Season of creation. Markmiðið er að
umhverfisstarfið tvinnist inn í daglega starfsemi. Í bréfi sem ég sendi út til safnaðanna í landinu hvatti ég til athafna í hverjum söfnuði og tel æskilegt að söfnuðir kirkjunnar sækist eftir vottun Umhverfisstofnunar á starfsemi sinni. Jafnframt sagði ég: „Gríska orðið kairos, sem er þekkt úr biblíulegu samhengi, hefur verið notað í samtímanum um farsælan viðsnúning í hugsunarhætti og veigamikil framfaraskref. Ég tel að stund sannleikans sé runnin upp í umhverfismálum. Heimsbyggðin skynjar nú sem aldrei fyrr nauðsyn þess að hlúa að jörðinni og sérstaklega því að snúa við og draga úr ofhlýnun jarðarinnar. Næstu 5-10 ár munu skipta sköpum um það hvort mannkyn nái markmiðum Parísarsamkomulagsins, svo að hlýnunin fari ekki yfir 2°C. Gerist það ekki, verða afleiðingarnar skelfilegar fyrir mannkyn og lífríkið allt. Nú þurfa orð að verða að verkum og þar getur kirkjan skipt sköpum.“

Unga fólkið er með puttann á púlsinum og minnir okkur kirkjunnar fólk á umhverfismálin í einu þingmáli sínu í vor þegar þau samþykktu tillögu um að bætt verði við umhverfisstefnu þjóðkirkjunnar að einnota plastmálum verði útrýmt úr safnaðarstarfi kirkjunnar fyrir árið 2019.” Kirkjuþing unga fólksins hvatti “einnig umhverfisnefnd Biskupsstofu að brýna fyrir söfnuðum kirkjunnar að hætta notkun einnota plastmála þegar í stað og hvetja söfnuði einnig að draga úr notkun annarra einnota umbúða með það að markmiði að útrýma notkun einnota plastmála úr safnaðarstarfi kirkjunnar fyrir árið 2020.”

Á ráðstefnunni um réttlátan frið við jörðina var samþykkt ályktun sem allir viðstaddir þátttakendur skrifuðu undir í Þingvallakirkju. Þar segir m.a.: “Við hvetjum kirkjur til að notast við þeirra eigið tungutak, hið ósvikna biblíumál, og hefðir til að efla vitund, hvetja til aðgerða og búa að sjálfbærni í kirkju og samfélagi. Við hvetjum til þess að kirkjur beiti sér með virkum hætti í að boða eflingu og skipulagningu sjálfbærri breytni á öllum stigum, allt frá hinu staðbundna samhengi safnaðarins og allt að landsvísu. Og við fögnum því þegar kirkjur og kirkjulegar stofnanir ákveða að beina fjármunum sínum frá iðnaði sem er umhverfislega ósjálfbær.

Kirkjurnar þjóna sem fulltrúar fyrir gríðarlegan fjölda fólks og samfélaga. Í því ljósi búum við yfir miklum möguleikum í krafti tengslanets okkar á milli sem og sambanda við félaga okkar sem tilheyra öðrum trúarbrögðum. Við ættum að beita öllum
tiltækum leiðum, samskiptamætti okkar þar með töldum, bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi, til að virkja þessa möguleika.“

Lokaorð yfirlýsingarinnar, hljóða þannig: „Ráðstefnan aðhyllist þá hinu sömu sýn á að manneskjan blómgist og dafni sem lýst er í Opinberunarbók Jóhannesar (22.2): „Beggja vegna móðunnar var lífsins tré sem ber tólf sinnum ávöxt. Í hverjum mánuði ber það ávöxt sinn. Blöð trésins eru til lækningar þjóðunum.“
Látt oss endurnýja og helga tengsl okkar við náttúruna til líknar þjóðunum og heiminum.„

Kirkjur heimsins hafa það hlutverk að koma fagnaðarerindi Jesú Krists áfram til samferðafólks og tryggja að það berist áfram til næstu kynslóða. Í viðtali við Ólaf Ragnar Grímsson fyrrverandi forseta Íslands ræðir hann um alþjóðleg samskipti og reynslu hans af þeim. Hann segir að þar sé fyrst og fremst spurt hvort viðkomandi hafi eitthvað fram að færa sem skiptir aðra máli? Hefurðu einhverja reynslu eða þekkingu sem aðrir geta nýtt? Á 20. öldinni má segja að efnahagslegur styrkur, hernaðarstyrkur og stærð hafi skipt máli. En á 21. öldinni skiptir fyrst og fremst máli í hverju þú ert góður. Hvaða þekkingu og reynslu hefur þú yfir að ráða sem getur reynst öðrum vel? Sérstaklega í veröld þar sem upplýsingakerfi heimsins hefur breyst með þeim hætti að þú getur lært af hverjum sem er í veröldinni, hvar sem þú ert í veröldinni.“

Kirkjur heimsins hafa margt fram að færa í umhverfismálum og öðrum málum er einstaklingar og þjóðfélög heimsins glíma við. Eitt af því sem nútíminn kallar eftir er rödd kirkjunnar í siðferðismálum. Hvað er siðferðilega rétt og hvað er réttlætanlegt. Í mínum huga er munur á þessum hugtökum siðferðilega rétt og réttlætanlegt. Alþekkt er í hraða nútímans að við lesum fyrirsagnir og það sem er dregið út úr texta til að við tökum betur eftir því. Það er líka þekkt að fyrirsagnir eru ekki alltaf hárréttar miðað við innihaldið. Það kann að vera réttlætanlegt að skauta fram hjá því sem er siðferðilega rétt ef það er í þágu almennings. Ef það bætir líf einstaklinga og betrumbætir samfélög. Daglega tekst homo sapiens á við siðferðilegar spurningar. En hvort hann eða hún deilir því með öðrum, vekur athygli á því sem hugurinn geymir í þeim efnum eða heldur því fyrir sjálfan sig, sjálfa sig er matsatriði hverju sinni. Þá getur hugtakið réttlætanlegt skipt máli þegar sú ákvörðun er tekin. Það er ekki sjálfgefið að einkamál fólks séu á borð borin þó persónulegum málum sé hægt að deila með öðrum. Nú um stundir er mikið tekist á um það hvort einkamál eigi að vera á borð borin fyrir fjöldann og þá í þeim tilgangi
að bæta það sem fyrir er. Það kann að vera réttlætanlegt að aðrir upplýsi um einkamál annarra þó það sé ekki siðferðilega rétt. Á þessu er munur.

Orð Páls heitins Skúlasonar fyrrverandi rektors H.Í. eru mér til umhugsunar þessa dagana er hann sagði við útskrift háskólanema vorið 2004: “Hvernig yrði mannlífinu háttað, ef við hættum að leita þekkingar og skilnings og skeyttum ekki lengur um rétt og rangt í samskiptum okkar? Ég er hræddur um að það yrði á skammri stundu óbærilegt. Mannleg skynsemi yrði úr sögunni, því skynsemin er einmitt fólgin í viðleitni til að sjá hvað er satt og gera það sem er rétt. Og ef við hættum því, munu samskipti okkar einkennast af ofbeldi sem eyðileggur lífsskilyrði okkar og lífsmöguleika. Þess vegna hljótum við sífellt að reyna að hugsa og breyta af skynsemi þótt ekki takist það alltaf sem skyldi.”

Ég þakka gestgjöfum okkar hér í Vídalínskirkju fyrir afnotin af kirkju og safnaðarheimili, þeim sem undirbúið hafa þingið og þeim sem hér hafa flutt okkur boðskap í tali og tónum. Góður Guði blessi okkur og leiði í þjónustunni í kirkju hans.

Ávarp við setningu kirkjuþings 2017, sem fram fór í Vídalínskirkju