Gleðilegan sunnudag!

Gleðilegan sunnudag!

Og svo eru enn aðrir sem eru svo uppteknir af konunni sinni að þeir mega ekki af henni sjá nokkra stund. Þetta síðasta er kannski skiljanlegt, en má þá ekki bara taka elskuna sína með í kirkju?

Jesús sagði við hann: „Maður nokkur gerði mikla kvöldmáltíð og bauð mörgum. Er stundin kom að veislan skyldi vera sendi hann þjón sinn að segja þeim er boðnir voru: Komið, nú er allt tilbúið. En þeir tóku allir að afsaka sig einum munni. Hinn fyrsti sagði við hann: Ég hef keypt akur og verð að fara og líta á hann. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. Annar sagði: Ég hef keypt fimm tvenndir akneyta og er á förum að reyna þau. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. Og enn annar sagði: Konu hef ég eignast, ekki get ég komið. Þjónninn kom og tjáði herra sínum þetta. Þá reiddist húsbóndinn og sagði við þjón sinn: Far þú fljótt út á stræti og götur borgarinnar og leið inn hingað fátæka, örkumla, blinda og halta. Og þjónninn sagði: Herra, það er gert sem þú bauðst og enn er rúm. Þá sagði húsbóndinn við þjóninn: Far þú út um stíga og vegi og þrýstu á menn að koma inn svo að hús mitt fyllist. Því ég segi ykkur að enginn þeirra sem fyrst voru boðnir mun smakka kvöldmáltíð mína.“ Lúk. 14:16-24

Gleðilegan sjómannadag, kæri söfnuður – og gleðilegan sunnudag, allt árið um kring!

Í guðspjalli dagsins segir frá mikilli veislu. Allt var til reiðu, mikið í lagt, en boðsgestirnir létu á sér standa. Kannski hafið þið lent í einhverju svipuðu og munið enn tilfinninguna sem fylgir. Það er vont að vera hunsaður, settur í annað sæti, eitthvað annað er mikilvægara. Borðin svigna undan kræsingum og enginn til að þiggja. Það eru mikil vonbrigði góðum gestgjafa, já hreinlega niðurlægjandi þegar hendi er slegið á móti vináttu á þennan hátt. Stundum er fólk ekki einu sinni að hafa fyrir því að láta vita. Ég veit reyndar ekki hvort er verra, að hlusta á lélegar afsakanir eða heyra ekki bofs frá ætluðum boðsgestum.

Margfaldur hátíðisdagur Okkur er boðið til margra hátíða í dag. Hátíð hafsins hér í Reykjavík, Hafnarfjörður hundrað ára, Sjóarinn síkáti í Grindavík – og síðast en ekki síst, heimboð í hús Guðs. Í Sjómannadagsblaðinu í ár gefur að líta auglýsingu frá tryggingafélagi þar sem segir: Allir dagar eru sjómannadagar. Allir dagar eru sjómannadagar – og allir dagar eru veisludagar þeim sem þiggja vill af gnægtum Guðs.

Sunnudagsmessan er sérstök hátíð, hátíð sem við höfum frían aðgang að einu sinni í viku allan ársins hring. Við þurfum reyndar ekki að melda okkur til boðsins, bara að mæta og vera með. Það er Guð sem býður þér og mér og öllum hinum þarna úti sem hafa eitthvað þarfara að gera, veraldlega talað. Sumir eru nýbúnir að kaupa sér hús og liggur mikið á að koma því í stand. Aðrir voru kannski að fjárfesta í nýjum bíl eða mótorhjóli og geta ekki beðið með að prufukeyra fákinn – þrátt fyrir hátt bensínverð. Og svo eru enn aðrir sem eru svo uppteknir af konunni sinni að þeir mega ekki af henni sjá nokkra stund. Þetta síðasta er kannski skiljanlegt, en má þá ekki bara taka elskuna sína með í kirkju?

Að þekkja þörf sína fyrir Guð Það er margt að læra af þeim ritingartextum sem fyrir liggja í dag. Þegar við prestarnir í prédikunarklúbbi Reykjavíkurprófastsdæmis vestra vorum að ræða prédikunarefni sunnudagsins – eins og við gerum hvern miðvikudagsmorgunn – var vakin athygli á því að Guð lætur ekki valta yfir sig. Hann reiðist eðlilega þegar hans góða boði er hafnað og þó kærleikur Krists sé víður og langur, hár og djúpur (Biblía 1981, Ef 3.18) þýðir það ekki að hann sé markalaus. Eins og góðum foreldrum ber setur Guð okkur mannanna börnum mörk og hefur fullt leyfi til að minna á þau mörk þegar kærleika hans er hafnað.

Guðspjallið minnir okkur líka á að við erum öll jöfn fyrir Guði, Gyðingar sem sem annarra þjóða fólk, öreigar og auðmenn, konur og karlar. Við erum öll eitt í Kristi Jesú. (sbr. Gal 3.28-29). Í dæmisögu Jesú eru það sjálfsagt Gyðingarnir sem fyrstir voru boðnir en áttu of annríkt til að þiggja. Þetta má svo heimfæra á hvaða þjóðfélagshóp eða manneskjur sem eru of góðar með sig til að hlýða kalli Guðs. Þá er nú betra að vera í hópi hinna fátæku, örkumla, blindu og höltu - finna samsömun með þeim sem þekkja þörf sína fyrir Guð. En einnig sú staða getur snúist upp í andhverfu sína, þegar auðmýktin verður að hræsni og sjálfshóli. Þarna er það hjartað eitt sem sker úr um heilindin, hvort við finnum okkur raunverulega í stöðu þiggjandans gagnvart Guði.

Veisluborðið sem beið Ég átti mjög sérstaka trúarreynslu fyrir nokkru. Þannig var að ég var stödd í lítilli danskri sveitakirkju við fermingu dætra bróður míns. Ferð okkar þriggja, mín og stóru barnanna minna, hafði gengið vel allt þar til þarna um morguninn að leigubíllinn kom ekki á tilsettum tíma. Við máttum híma fyrir utan hótelið í fjörtíu mínútur, um fimm kílómetra leið frá kirkjunni, þangað sem för okkar ofan af Íslandi var heitið. Alltaf héldum við að leigubílinn væri rétt handan við hornið og þess vegna var ekki athugað með aðra fararkosti. Loksins þegar við komum í kirkjunna, ætlað sæti á fremsta bekk með öðrum ástvinum, var komið fram í miðja ræðu prestsins. Ég var alveg miður mín vegna þessara aðstæðna og eins var um fleiri í fjölskyldunni. En svo kom að því að gengið var til altaris. Veisluborðið beið okkar – og við þáðum boðið. Þar sem ég kraup með kalkmálverkin gömlu fyrir ofan mig og mynd týnda sonarins í faðmi föðurins fyrir framan mig fann ég að ég er ekkert án Guðs. Ekkert á ég í sjálfri mér, ekkert utan það sem ég hef þegið af honum. Líf mitt væri einskis virði án frelsara míns.

Samferða til veislu með Guði Og þess vegna þigg ég boðið. Ég þigg, aftur og aftur, enn á ný, boðið um að koma til veislu Guðs, þeirrar kvöldmáltíðarveislu sem er forsmekkur þess sem koma skal á himnum. Þegar ég kem að borði Drottins er ég samferða milljörðum annarra kristinna manna um allan heim, og meira en það, líka öllum hinum sem neytt hafa matar og drykkjar, brauðs og víns, í áþreifanlegari nærveru Guðs í gegn um aldirnar (sjá t.d. 2Mós 24.11).

Í lexíu dagsins, Jes 25.1, 6-9, er hreint unaðsleg lýsing á veisluborði Guðs. Þar er talað um fjall þar sem Drottinn allsherjar býr öllum þjóðum veislu, veislu með réttum fljótandi í olíu og með dreggjavíni, með réttum úr olíu og merg og með skírðu dreggjavíni. Betra getur það ekki orðið! Og þarna, á þessu fjalli, sem menn þurfa auðvitað að hafa fyrir að nálgast og klífa, mislétt fyrir fólk eins og annað í þessu lífi, verður dauðinn afmáður að eilífu. Drottinn Guð mun þerra tárin af hverri ásjónu... og því fögnum við og gleðjumst yfir hjálp hans.

Með veislu í bakpokanum Guð gefur. Við borð hans þiggjum við nærveru hans, líkama og blóð, sem nærir okkar andlega líf eins og matur og drykkur líkama okkar. Við borð hans þiggjum við fyrirgefningu, endurreisn, helgun. Og frá borði hans göngum við út, út til veraldarinnar, með opna arma. Við getum ekki dvalið á fjallinu til eilífðarnóns, ekki hér í lifanda jarðlífi, heldur eigum að bera veisluna út, færa hinum - þeim sem ekki eiga heimangengt í ýmsum skilningi - hátíðina.

Það gerum við bæði í orði og verki með því að helga líf okkar kærleika og þjónustu. Við sem hér erum í dag höfum þegið svo margvísleg gæði, bæði veraldleg og andleg. Við megum ekki horfa á bróður okkar eða systur vera þurfandi, við megum ekki ljúka aftur hjarta okkar fyrir þeim. Þetta vitum við sem byggjum þetta erfiða land, þetta lifandi land, sem brestur á með jarðskjálfta eða öðrum náttúruhamförum fyrirvaralaust. Þetta vitum við sem höfum séð á eftir svo mörgum góðum dreng í hafið. Og við höfum staðið saman, Íslendingar, gefið og veitt þeim sem misst hafa, gefið af umhyggju okkar, tíma og fjármunum til endurreisnarstarfs. Það munum við einnig gera núna.

Höfn fyrir sæfarendur á lífsins hafi Núna um helgina er opnuð íkonasýning hér í Háteigskirkju, sem standa mun til næsta sunnudags, 8. júní. Þetta er sölusýning og fer næst í Skálholt og þaðan í Glerárkirkju á Akureyri. Listamaðurinn, serbneski presturinn faðir Jovica, mun dvelja hér á landi í þrjár vikur og syngja messu með föður Timur, presti rússnesk-orþódoxu kirkjunnar á Íslandi. Þess má geta að verndardýrlingur safnaðarins hérlendis er Heilagur Nikulás, verndari sjófarenda, og á það vel við að minnast þess góða biskups í dag á sjómannadaginn.

Á hádegi í gær var flutt hér í Háteigskirkju við hina undurfögru mósaikmynd Benedikts Gunnarssonar af Maríu með barnið ævaforn lofgjörð til hinnar helgu jómfrúar sem nefnist Akaþist. Það heiti þýðir einfaldlega að menn hlýða á lofgjörðina standandi og var svo gert hér í gær, hátíðleg stund við reykelsisilm.

Stef þessarar lofgjörðar er ávarp engilsins til Maríu, á íslensku: Heil vert þú... (Lúk 1.28, sbr. Lúk 1.45, orð Elísabetar frænku hennar: Sæl er sú...). Í íslenskri þýðingu sem fylgdi hluta af hinum sungna texta í gær er þetta ávarp útlagt: Fagna þú...

Á sjómannadaginn er við hæfi að ljúka prédikun með hluta úr þessari fögru lofgjörð, svohljóðandi:

Fagna Þú, sem fyllir net fiskimanna; Fagna Þú , sem dregur oss upp úr djúpum fáfræðinnar; Fagna Þú, sem upplýsir svo marga með þekkingu; Fagna Þú, skip ætlað þeim sem frelsast vilja; Fagna Þú, höfn fyrir sæfarendur úti á lífsins hafi; Fagna Þú, ó Brúður óspjölluð!

Gleðilegan sjómannasunnudag.