Tíu ráð til að verða barnslegri og nálgast þannig guðsríkið

Tíu ráð til að verða barnslegri og nálgast þannig guðsríkið

Við gætum jafnvel endað með tíu barnaboðorð. Úr þeim mætti jafnvel búa til tíu ráð til að verða barnslegri og nálgast þannig guðsríkið. Kjarninn í þeim er kannski tvíþættur. Tvöfalda barnsboðorðið.

Árni Svanur Daníelsson

Kæri söfnuður, ég ætla að hefja þessa prédikun á játningu.

Játningin er þessi: Ég get stundum verið ferlega barnalegur.

Ég get verið eigingjarn eins og litla þriggja ára stelpan mín. Til dæmis þegar ég hef komið mér fyrir í sófanum og ætla að eiga náðuga stund og jafnvel dotta af því að vikan var erfið. En svo koma börnin og ætla að taka yfir sófann eða vilja fá tímann sem ég var búinn að ráðstafa í sjálfan mig.

Ég get verið kjánalegur eins og sjö ára strákurinn okkar. Til dæmis þegar ég dansa - með honum að sjálfsögðu - trylltan gleðidans á stofugólfinu heima og við fíflumst út í eitt.

Það er fleira þessu líka en þið áttið ykkur á myndinni.

Presturinn getur verið barnalegur.

Þýðir þetta þá að ég sé kominn nær Guðs ríki en ef ég hegðaði mér alltaf eins og fullorðinn? Léti alltaf eins og aldurinn gefur til kynna. Ég held ekki. Ég held þetta snúist nefnilega ekki um það að láta eins og barn - vera barnalegur. Ég held að þetta snúist hins vegar um tenglsin við barnið innra með okkur - um það að vera barnslegur.

Hvað einkennir annars börnin?

Hvað eru börnin?

Hér í Bústaðakirkju erum við í góðri stöðu til að átta okkur á því. Barnamessan fyrir hádegi er nefnilega frábær vettvangur til að kynnast börnum. Sjá hvernig þau upplifa heiminn, bregðast við – og auðvitað til að til að segja þeim frá Jesú.

Við fullorðna fólkið lærum semsagt heilmikið í messunum líka.

Hvernig eru þá börnin?

Þau eru fordómalaus. Blátt áfram. Ómeðvirk. Hæðast ekki. Gera ekki lítið úr.

Þau eru meðvituð um þarfir sínar. Þau eru óhrædd við að tjá þær. Þau eru forvitin og vilja læra á lífið. Þau taka vel eftir. Þau horfa með augun galopin. Þau hlusta með eyrun opin. Þau taka á móti.

„Leyfið börnunum að koma til mín“ sagði Jesús. Kannski af því að þau eru opin.

Það eina við þau. Er að þau reyna á mörk. En það gerði Jesús svosem líka. Þau spyrja. Mikið. Hver hefur til dæmis ekki reynt það að sitja með ungu barni og lesa bók fyrir háttinn og komast ekkert áfram af því að spurningarnar eru ekki færri en tíu á hverri síðu.

Börnin gera kröfur. Um algjöra athygli. Um algjöra nærveru. Um þig.

Boðorðin

Yfir í aðra sálma.

Við eigum nokkur boðorð í kristinni trú. Frægust eru líklega þessi tíu sem Móses sótti á fjallið. Marteinn Lúther lagði út af þeim og útskýrði þau í Fræðunum sínum. Fræðin voru skrifuð fyrir fólk eins og okkur. Fólk sem vildi hugsa um heiminn og setja hann í samhengi við trúna. Skilja heiminn

Þið munið hvernig boðorðin eru uppbyggð. „Þú skalt ekki ...“ Tíu sinnum.

Lúther sneri þessu við. Eða sneri í það minnsta upp á þetta.

Í hans meðförum varð „Þú skalt ekki“ að „þú skalt.“

Þú skalt ekki bara passa þig að ljúga ekki upp á náungann, svíkja hann, baktala eða ófrægja heldur skalt þú afsaka hann, tala vel um hann og færa allt til betri vegar.

Og. Þú átt að bjarga náunganum. Þú átt að styðja hann og styrkja.

Lúther fór semsagt þannig með boðorðin að neikvæða bannið varð að jákvæðri hvatningu.

Leyfið

„Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki,“ sagði Jesús.

Er það ekki eins konar boðorð? Er þetta kannski eitt af fyrstu sér-kristnu boðorðunum. Grundvöllur annarra boðorða eins og þess sem við lesum í lokakafla Matteusarguðspjalls um að fara út, boða trúna, skíra, kenna.

Ég held það.

Má ekki leggja þetta út eins og Lúther gerði eð hin boðorðin? Kannski slær Jesús tóninn fyrir það, því hann segir ekki bara „varnið börnunum eigi“ heldur „leyfið þeim að koma því að slíkra er guðs ríki.“

Hvernig gætum við lagt þetta út?

Þú skalt passa upp á börnin. Þú skalt setja þau í forgang. Þú skalt læra af börnunum. Þú skalt vernda þau þau gegn allri hættu.

Við gætum jafnvel endað með tíu barnaboðorð. Úr þeim mætti jafnvel búa til tíu ráð til að verða barnslegri og nálgast þannig guðsríkið.

Kjarninn í þeim er kannski tvíþættur. Tvöfalda barnsboðorðið:

Þú skalt vernda börnin og setja þau í forgang, því að þau skipta öllu máli. Þeirra er líka Guðs ríkið. Og annað er þessu líkt: Þú skalt vernda barnið sem býr innra með þér. Því að lykillinn að góðu lífi og að Guðs ríki er að vera í góðum tengslum við sitt innra barn.

Tilraunin

Kannski ættum við að láta þetta tvöfalda boðorð móta samfélagið allt. Til góðs fyrir alla. Við yrðum þá um leið svolítið barnslegra samfélag. Gott samfélag.

Ég held nefnilega að Jesús hafi séð gæðin sem liggja í börnunum. Ég held líka að hann hafi verið sér meðvitaður um að eftir því sem við eldumst og þroskumst – komumst til vits og ára – skapast hætta á að við missum tengslin við hið barnslega. Tengslin við traustið, öryggið, áhugann og opnunina gagnvart veröldinni og öðru fólki.

Ég held að það hafi verið þess vegna sem hann minnti á börnin. Ekki af því að fullorðið fólk væri slæmt eða ómerkilegt eða alveg glatað. Heldur af því að við forgangsröðum ekki alltaf rétt.

Svona eins og lærisveinarnir forgangsröðuðu ekki rétt þegar þeir stugguðu krökkunum burt frá Jesú.

„Svona svona, verið úti að leika fullorðna fólkið er að vinna.“

Kannski væri það líka áhugaverð samfélagstilraun að íhuga hvað myndi breytast ef við settum börnin og það barnslega raunverulega í forgang. Tengdumst okkur sjálfum þannig.

Eins og Jesús gerði og hvatti til.

Ég veit ekki hvað kæmi út úr henni. En ég væri til í að hugsa um það. Með ykkur. Ég er viss um að það kæmi eitthvað gott út úr slíku. Þannig á kirkjan líka að virka í samfélaginu.

Guð leiði okkur til þess og hjálpi okkur að finna barnið sem býr hið innra með okkur.