Miklu meira en ekkert

Miklu meira en ekkert

Ef litið er á 100 manna heimsþorpið vitum við að flest lifum við í allsnægtum samanborið við stóran hóp jarðarbúa. Hinn hvassi broddur í orðum Jesú getur verið eitt af því sem fælir vaxandi hóp Evrópubúa frá fagnaðarerindinu.

Náð sé með yður og friður frá Guði, föður vorum, og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Ef allir jarðarbúar, rúmir 7 milljarðar manna, væru eins og 100 manna þorp, hvernig væri þar umhorfs? Mörg ykkar hafið eflaust heyrt eða séð slíka útreikninga, t.d. á Netinu. Sú tölfræði vekur mann stöðugt til umhugsunar um misjafnar aðstæður okkar sem byggjum jörðina. Í 100 manna heimsþorpinu væru til dæmis 22 sem hefðu aðgang að tölvu, en 23 sem hefðu engan öruggan samastað til að skýla sér fyrir regni og vindum. 15 af þessum 100 væru vannærðir, einn væri að deyja vegna hungursneyðar en 21 að glíma við ofþyngd. Þar væru 83 sem kynnu að lesa og skrifa en að sama skapi 17 sem aldrei hefðu lært það. Heilir 13 af þessum 100 hefðu ekki aðgang að hreinu og ómenguðu drykkjarvatni.

Í nærumhverfi Jesú Krists blasti einnig við mikil misskipting veraldlegra gæða. Aftur og aftur í boðskap sínum beindi Jesús spjótum sínum að þeim auðugu sem höfðu lagt traust sitt á jarðneskt ríkidæmi og lokað augunum fyrir neyð annarra. Ein dæmisaga Jesú um þetta efni er svona:

Einu sinni var ríkur maður sem þurfti að rífa hlöðurnar sínar og reisa aðrar stærri vegna þess að landið hans bar svo mikinn ávöxt. Þá sagði hann við sjálfan sig: „Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíldu þig nú, et og drekk og ver glöð.“ En Guð sagði við manninn: „Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð og hver fær þá það sem þú hefur aflað?“ (Lúk. 12.16-21).

Önnur saga Jesú gerir grín að því að treysta um of á peninga. Hún er á þessa leið (sjá Lúk. 16.1-9): Einu sinni var ráðsmaður hjá ríkum manni, sem átti yfir höfði sér að vera rekinn af því að hann fór svo illa með eigur húsbónda síns. Til að bjarga sér eftir að hann myndi missa vinnuna kallaði hann á þá sem skulduðu húsbóndanum og afskrifaði skuldirnar þeirra um helming – í þeirri von að eignast þar sjálfur vildarvini í sínu klandri. Til að fullkomna kaldhæðnina í sögunni lýkur henni með því að ríki húsbóndinn hrósar svikula ráðsmanninum sínum fyrir að hafa verið svona snjall. Svo klykkir Jesús út með hvatningu til áheyrenda sinna, sem erfitt er að skilja öðruvísi en sem háð eða öfugmæli: „Notið hinn rangláta mammón til þess að eignast vini sem taki við ykkur í eilífar tjaldbúðir þegar hann er uppurinn.“ Og gangi okkur bara vel með það, ef við höldum að mammón muni hjálpa okkur í eilífðinni!

Og svo er það þessi krefjandi dæmisaga í guðspjalli dagsins um ríka manninn og hinn fátæka og sjúka Lasarus. Þeir deyja báðir í sögunni og hlutskipti þeirra í eilífðinni reynist mjög ólíkt því sem var á jörðinni, eins og við heyrðum.

Það felst ákveðin freisting í því að túlka söguna sem nákvæma lýsingu á þeim örlögum sem bíða okkar eftir dauðann og einfalda hana eða smætta niður í leiðbeiningar um hvernig best er að lenda á réttum stað að lokum. En ef frásögnin er skoðuð í samhengi sínu í guðspjallinu virðist þunginn í henni ekki fyrst og fremst tengjast tilverunni handan dauðans, heldur þeirri alvöru sem felst í því að setja sína eigin auðsöfnun ofar náunga sínum í neyð. Við skulum líka muna að í guðspjallinu er sérstaklega tekið fram að þetta er dæmisaga. Með öðrum orðum: Boðskapurinn er ekki sá að ríkt fólk fari til helvítis og fátækt fólk til himna, heldur er boðskapurinn fremur í þessa veru: Við eigum að láta okkur aðrar manneskjur varða. Og það kemur sú stund að það – og allt annað – verður um seinan hér á jörð.

Þegar kemur að lífinu eftir dauðann er Jesús fámáll í guðspjöllunum, en þó alveg skýr, til dæmis þegar hann segir: „Sá sem trúir hefur eilíft líf“ (Jh 6.47). Það er sú fullvissa sem við kristnar manneskjur fáum að leggja traust okkar á. Og einnig: „Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi“ (Jh 11.25). Það er svarið við spurningunni „Hvað verður um mig?“ sem getur brunnið á okkur. En við getum ekki talist sannir fylgjendur Jesú Krists nema við séum tilbúin að rétta hjálparhönd í kærleika þar sem neyðin knýr dyra. Í pistlinum úr 1. Jóhannesarbréfi áðan heyrðum við lesið: „Sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn og systur“ (1. Jóh. 4.21).

Það er svolítið merkilegt að lesa þessa sögu um ríka manninn og velta fyrir sér, hvað það var sem hann gerði í raun og veru rangt. – Hver var synd hans? Það er ekki á neinn hátt gefið í skyn að fátækt Lasarusar hafi verið þeim ríka beinlínis að kenna, eða að hann hafi verið viljandi vondur við Lasarus. Ekki gekk hann út og sparkaði í fátæka manninn, þar sem hann lá við dyr hans. Nei, synd hans var einfaldlega afskiptaleysið. Sá ríki lifði sínu lífi með stöðugum veisluhöldum og fínum fötum. Sá fátæki lifði sínu lífi í allsleysi og kvölum. Og þeim ríka var ósköp einfaldlega alveg sama. Það er þessi afstaða, þessi „harðúð hjartans“ (sbr. Mk 3.5) gagnvart annarri manneskju, sem Jesús gagnrýnir.

Þegar þeir eru svo báðir dánir og aurapúkinn farinn að kallast á við Abraham, ættföður Ísraelsmanna, kemur í ljós að afstaða þess ríka í garð Lasarusar hefur lítið skánað. Hann vill nota Lasarus sem sendisvein til að snúast og sinna sínum þörfum, kæla tunguna sína í eldloganum, eða fara og vara bræður sína við því sem gæti beðið þeirra. Sú hugmynd minnir svolítið á Jólasögu Dickens þar sem andar fortíðarinnar vara hinn ríka Ebenezer Scrooge við því sem gæti beðið hans ef hann breytti ekki afstöðu sinni til hinna þurfandi. – En Abraham í dæmisögu Jesú tekur ekkert slíkt andaflakk í mál og lokaorð hans í sögunni lýsa hinni djúpu alvöru hennar: Ef afstaða hjartans er svo hörð að orð Guðs dugir ekki, munu jafnvel kraftaverk ekki hafa neitt að segja.

Það er ekkert endilega auðvelt fyrir okkur Vesturlandabúa að hlusta á þennan boðskap Jesú um peninga og afskiptaleysi. Auðvitað eru aðstæður okkar hér misjafnar og fátækt þrífst víða í íslensku samfélagi. Því má aldrei gleyma. En ef litið er á 100 manna heimsþorpið vitum við að flest lifum við í allsnægtum samanborið við stóran hóp jarðarbúa. Hinn hvassi broddur í orðum Jesú getur verið eitt af því sem fælir vaxandi hóp Evrópubúa frá fagnaðarerindinu. Að sama skapi geta okkur fallist hendur gagnvart risavöxnum verkefnum sem tengjast daglegri neyð allt of margra. Flóttamannastraumurinn er nærtækt dæmi í samtímanum. Þúsundir barna á flótta hafa horfið í Evrópu á undanförnum misserum. Mörg þeirra eru fórnarlömb mansals.

Andspænis slíkum fréttum er freistandi að yppta öxlum og segja: „Við getum ekki bjargað heiminum.“ Það er að vísu alveg rétt. Hvert og eitt okkar getur trúlega lítið gert – en málið er bara að lítið er meira en ekkert. Já, lítið er miklu meira en ekkert.

Við skulum líka hlusta eftir því innra með okkur, hvar Guð vill kalla okkur til hjálpar. Við skulum reyna að hlusta eftir því, hvaða verkefni það eru sem Guð kallar okkur til að styrkja á einhvern hátt. Litla framlagið okkar, kannski er það lítil peningaupphæð til vatnsbrunna í Afríku eða lítil aðstoð við veikan nágranna hér heima fyrir eða lítil fyrirbæn fyrir börnum í vanda. Okkur finnst það svo smátt, en Guð getur látið það verða mikils virði og til góðs – eins og saltið eða ljósið sem hefur áhrif á allt í kringum sig.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.