Löglaus krafa á hendur þjóðkirkjunni

Löglaus krafa á hendur þjóðkirkjunni

Það er grundvallaratriði samningaréttar og raunar allrar réttarskipunar í landinu að samninga beri að virða.
fullname - andlitsmynd Pétur Kristján Hafstein
08. desember 2015

Við hrun fjármálakerfisins á Íslandi haustið 2008 komust fjármál ríkisins í uppnám. Tekjur drógust verulega saman og ríkissjóður var í kjölfarið rekinn með meiri halla en nokkur dæmi eru um. Til þess að ná árangri í ríkisfjármálum var talið nauðsynlegt að grípa til margþættra aðgerða til lækkunar á útgjöldum ríkisins.

Á kirkjuþingi í nóvember 2009 var samþykkt þingsályktun um viðaukasamning við Samkomulag íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar frá 10. janúar 1997. Þar féllst kirkjuþing á að þjóðkirkjan axlaði sinn skerf vegna þessa ógnvænlega vanda í ríkisfjármálum. Í þessum viðaukasamningi sagði m.a.: „Í þessu skyni fellst þjóðkirkjan á að leggja sitt af mörkum og hreyfir ekki andmælum við að framlög ríkisins samkvæmt samningi frá 10. janúar 1997 verði lækkuð á árinu 2010 til samræmis við almennan niðurskurð á flestum sviðum ríkisins.“

Þessum viðaukasamningi var einungis ætlað að gilda fyrir árið 2010. Sams konar samningar voru svo gerðir vegna næstu fjögurra ára. Kirkjuþing 2015 taldi hins vegar rétt að láta nú staðar numið á þessari braut enda aðstæður í íslensku þjóðfélagi gjörbreyttar til hins betra.

Í samræmi við þessa afstöðu kirkjuþings lá fyrir að nú hlyti að nýju að koma til fullra efnda kirkjujarðasamkomulagsins frá 1997. Þá bregður svo við að meirihluti fjárlaganefndar Alþingis samþykkir 27. nóvember 2015 að setja skilyrði fyrir því að ríkið standi við gerða samninga. Í nefndaráliti er lagt til að framlag til þjóðkirkjunnar hækki um 370 milljónir króna og miðist hækkunin við „að framlag ríkissjóðs verði reiknað samkvæmt upphaflegu kirkjujarðasamkomulagi og þar með að allar aðhaldskröfur sem gerðar hafa verið til Þjóðkirkjunnar frá og með árinu 2009 verði afturkallaðar árið 2015.“ Síðan kemur sú fjarstæðukennda viðbót í nefndarálitinu að skilyrði þess að ríkið standi við gerða samninga séu þau „að kirkjan skuldbindi sig til þess að hefja þegar samningaviðræður um endurskoðun kirkjujarðasamkomulagsins sem feli í sér endurskoðun allra fjárhagslegra samskipta ríkis og kirkju (þ.m.t. hvað varðar sóknargjöld, jöfnunarsjóð sókna, framlög til kirkjumálasjóðs og Kristnisjóðs) með verulega einföldun þessara samskipta og hagræðingu að markmiði.“

Þessi krafa á hendur þjóðkirkjunni er að mínum dómi algjörlega löglaus. Í kirkjujarðasamkomulaginu frá 1997 segir í 4. gr. að samningsaðilar líti „á samkomulag þetta um eignaafhendingu og skuldbindingu sem fullnaðaruppgjör vegna þeirra verðmæta sem ríkissjóður tók við árið 1907.“ Þessi verðmæti sem ríkið fékk í sinn hlut voru allar kirkjujarðir á landinu, ríflega 600 talsins, og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgdu, að frátöldum prestssetrum og því sem þeim fylgir. Allt þetta skyldi verða eign ríkisins gegn því að ríkið greiddi um ókomna tíð laun biskups Íslands og vígslubiskupa, 138 starfandi presta og prófasta þjóðkirkjunnar og 18 starfsmanna biskupsembættisins. Samningurinn kveður skýrt á um það að samningsaðilar geti að liðnum 15 árum frá undirritun hans einungis óskað eftir endurskoðun á fjölda þeirra sem þannig fá greidd laun úr ríkissjóði, - engu öðru.

Haustið 1998 var gerður annar samningur milli ríkis og kirkju sem skyldi vera „nánari útfærsla“ á kirkjujarðasamkomulaginu 1997 og ná jafnframt til rekstrarkostnaðar þjóðkirkjunnar sem félli utan þess samkomulags. Samningsaðilar gætu óskað endurskoðunar þess samnings við tilteknar aðstæður, sagt honum upp vegna verulegra vanefnda af hálfu gagnaðila eða vísað ágreiningi um framkvæmd þessa samnings frá 1998 til nokkus konar gerðardóms. Haustið 2006 var svo gerður samningur milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um prestssetur og afhendingu þeirra til kirkjunnar og lauk þar með samningum ríkis og kirkju um kirkjujarðir.

Það er grundvallaratriði samningaréttar og raunar allrar réttarskipunar í landinu að samninga beri að virða. Kirkjujarðasamkomulagið frá 1997 fól í sér fullnaðaruppgjör vegna þeirra verðmæta sem þjóðkirkjan lét ríkinu þá í té. Báðir samningsaðilar gætu vitaskuld ákveðið af fúsum og frjálsum vilja að endurskoða þann samning eins og raunin er um alla samninga. Við kirkjujarðasamkomulaginu verður hins vegar ekki hróflað einhliða á þeirri forsendu sem meirihluti fjárlaganefndar Alþingis leyfir sér að setja fram fyrir því að ríkisvaldið standi við gerða samninga. Það er ekkert annað en ofbeldi gagnvart þjóðkirkjunni.

Höfundur er fv. hæstaréttardómari og fv. forseti kirkjuþings.