Gamlir prestar

Gamlir prestar

2/3 starfandi presta eru komnir yfir fimmtugt. Fjórði hver starfandi prestur er kominn yfir sextugt. Þetta er pistill djákna sem hefur áhyggjur af nýliðun í prestastéttinni.
fullname - andlitsmynd Pétur Björgvin Þorsteinsson
10. október 2011

Skiptir það kirkjuna máli að 2/3 starfandi presta eru komnir yfir fimmtugt? Mér þykir það. Höfum við áhyggjur af nýliðun í prestastéttinni þegar við sjáum að fjórði hver starfandi prestur er kominn yfir sextugt? Ég hef það. Ég er ekki spenntur fyrir því að upp komi sú staða sem við sjáum víða erlendis að sjálfboðaliðar úr röðum sóknarbarna sjái um helgihaldið. Ég vil minn prest. Svona er staðan í dag:

starfandi-prestar

Hugsum málið aðeins.

Get ég hætt að vinna um sextugt? Er 67 ára aldurinn bestur til að hætta? Má ég vinna lengur en til sjötugs? Þessar og álíka spurningar vakna gjarnan þegar atvinnuþátttaka einstaklinga er rædd. Og sjónarmiðin eru mörg. Sumum þykir það lífsgæði að geta komist snemma á eftirlaun, öðrum þykir ekkert annað koma til greina en að vinna að minnsta kosti fram að sjötugu, helst lengur ef þess er nokkur kostur.

Að mínu mati er það af virðingu og skilningi við persónulega hagsmuni sem við sem yngri erum skiptum okkur ekki af því hvenær þau sem eldri eru kjósa að hætta að vinna. Er það ekki vel skiljanlegt að einstaklingurinn horfi frekar til eigin hagsmuna en samfélagslegrar ábyrgðar? Að minnsta kosti geng ég út frá því að þegar vegferð mín nálgist þessar krossgötur muni ég fyrst og fremst horfa á eigin fjárhag, aðstæður og heilsu og taka ákvörðun út frá því.

Fjölbreytt starf kirkjunnar fer fram í 10 prófastsdæmum [1]  um allt land. Samkvæmt upplýsingum sem eru aðgengilegar á vef þjóðkirkjunnar [2] skiptast þessi prófastsdæmi í samtals 235 sóknir. Ef upplýsingar um sóknirnar eru skoðaðar má sjá að þjónusta kirkjunnar við mannfólkið á vegferð þess frá vöggu til grafar er undir stjórn 93 sóknarpresta. Við hlið sér hafa þeir 64 starfandi presta, sem starfa ýmist í sóknum, sérþjónustu eða á biskupsstofu. Myndin hér fyrir neðan sýnir aldurssamsetninguna í hópi sóknarpresta: soknarprestar

Það hlýtur að teljast áhugavert fyrir þau sem hyggja á guðfræðinám, en ekki síður fyrir þau sem vilja að prestsþjónusta sé tryggð um allt land, að umræða fari fram um aldur presta, [3]  svo meta megi þörfina fyrir nýliðun í stéttinni á komandi árum. Slíkt mat á þörf nýliðunar þarf – auk greiningar á aldri prestahópsins -  einnig að byggja á áætlunum um fjölgun eða fækkun í þjóðkirkjunni, áætluðum skipulagsbreytingum, fækkun sókna, samstarfi prestakalla og fleiri þáttum. Ekki er rúm í stuttum pistli fyrir þá umræðu og bíður hún betri tíma.

Það vakti athygli mína þegar mér var bent á þessa aldurssamsetningu í prestastéttinni. Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki hugsað um þetta og þótti áhugavert að bera þetta saman við aðrar stéttir. Í október 2008 var helmingur þeirra sem starfaði við kennslu í grunnskólum landsins á aldrinum 30 til 49 ára. [4] Og þau sem kenna í grunnskólum halda áfram að eldast, þó er þar aðeins 10% yfir sextugt [5] en 25% í prestastéttinni.  Áhugavert er einnig að aðeins 41,5% kennara í háskólum á Íslandi var yfir fimmtugt í lok síðasta árs [6] en 63% í prestastéttinni.

Þessi pistill er ekki um gamla presta og snýr því ekki að þeim persónulega. Hann er um aldur prestastéttarinnar. Honum er ætlað að velta upp spurningum varðandi nýliðun í prestastéttinni. Ég hef áhyggjur af henni. En þú? ---

[1] Með sameiningu Múlaprófastsdæmis og Austfjarðaprófastsdæmis í lok þessa árs verða þau níu talsins. [2] Sjá: http://kirkjan.is/soknir/profastsdaemi/ [3] Upplýsingar um aldur presta eru að langstærstum hluta fengnar úr: Prestafélag Íslands (2002): Guðfræðingatal 1847 – 2002. [4] Sjá: http://www.hagstofa.is/Pages/95?NewsID=4043 [5] Sjá: http://hagstofa.is/Pages/95?NewsID=5666 [6] Sjá: http://hagstofa.is/Pages/95?NewsID=5791