Veislan

Veislan

Veislan sem Drottinn Guð býður til er því ólík öllum öðrum veislum - hún er fyrir ökkur öll - þar þrýtur aldrei rými, þar þrýtur aldrei veisluföng, þar erum við öll jöfn. Í dag er sannarlega boðið til veislu - reyndar tveggja veislna. Kirkjugestum er boðið að koma að borði Drottins - að eiga þar sitt hljóða samtal við Drottin Guð - og öðlast fyrirgefningu yfirsjóna sinna og endurnýja við Hann samband sitt og treysta það. Síðar í dag bjóða fermingarbörnin og foreldrar þeirra til veislu, þar sem veislugestir samgleðjast fermingarbörnunum á þeirra merka degi.

Jesús sagði við hann: Maður nokkur gjörði mikla kvöldmáltíð og bauð mörgum. Er stundin kom, að veislan skyldi vera, sendi hann þjón sinn að segja þeim, er boðnir voru: Komið, nú er allt tilbúið. En þeir tóku allir að afsaka sig einum munni. Hinn fyrsti sagði við hann: Ég hef keypt akur og verð að fara og líta á hann. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. Annar sagði: Ég hef keypt fimm tvenndir akneyta og er á förum að reyna þau. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. Og enn annar sagði: Konu hef ég eignast, ekki get ég komið.

Þjónninn kom og tjáði herra sínum þetta.

Þá reiddist húsbóndinn og sagði við þjón sinn: Far þú fljótt út á stræti og götur borgarinnar, og leið inn hingað fátæka, örkumla, blinda og halta. Og þjónninn sagði: Herra, það er gjört, sem þú bauðst, og enn er rúm.

Þá sagði húsbóndinn við þjóninn: Far þú út um brautir og gerði og þrýstu þeim að koma inn, svo að hús mitt fyllist. Því ég segi yður, að enginn þeirra manna, er boðnir voru, mun smakka kvöldmáltíð mína. Lúkas 14.16-24

Gleðilega hátíð. Í dag er sannarlega hátíð. Við gleðjumst með fermingarbörnunum okkar sem nú á eftir ætla að staðfesta heit sitt um það að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs síns.

Það er gleðidagur og við fögnum með þeim.

Og á eftir verður gengið til veislu.

Veislur af ýmsu tagi koma oft fyrir í bókmenntum og kvikmyndum.

Veislur í bókmenntum og kvikmyndum virðast oft vera notaðar til þess að ná utan um einhverja ákveðna þætti í samskiptum fólks - oftar en ekki á sér stað uppgjör, eða verið er að sýna tiltekinn hóp fólks.

Þekkt er t.d. frásagan í Njálssögu af veislunni á Bergþórshvoli þar sem til árekstra kom milli Hallgerðar og Bergþóru. Í kjölfar þeirra árekstra fór af stað margþætt atburðarás sem lauk með brennunni frægu á Bergþórshvoli.

Veislur í bókmenntum og kvikmyndum og jafnvel í veruleikanum eru líka stundum notaðar til þess að sýna fram á mismunun manna á meðal - stéttaskiptingu - sýna að það eru ekki allir jafnir.

Það tíðkaðist á dögum Lúðvíks konungs 14. í Frakklandi að alþýðunni var boðið til veislu í höllinni í Versölum. Þetta reyndust nú ekki eins glæsileg veisluboð og halda mætti.

Alþýðufólkið, sem boðið var, fékk hvorki vott né þurrt, fékk ekki einu sinni sæti. Því var boðið að standa á bak við rimlaverk og horfa á konung ásamt fjölskyldu og hefðarfólki sitja að ríkulegu veisluborði í glæstum sölum konungshallarinnar. Ofgnóttin, skrautið og ilmurinn var það sem alþýðan varð að láta sér linda.

Fólkið gat með þessum hætti séð brot af allt öðrum heimi en það sjálft bjó við, ef til vill látið sig dreyma um annað hlutskipti. Andstæðurnar voru miklar þegar heim var komið, þar var hvorki pell né purpuri, ljósadýrð né ljúfur ilmur í lofti.

Ef til vill voru þessar myndir sem bar þannig fyrir augu franskrar alþýðu ekki ólíkar þeim myndum sem dregnar eru upp í álfa- og huldufólkssögunum okkar. Þar má lesa um veisluhöld í salarkynnum sem ekki þekktust meðal almúgafólks á Íslandi, klæðnað fólks sem líktist ekkert íslenskum vaðmálsflíkum og borðbúnað og veisluföng sem áttu ekkert skyld við aska og súrmeti.

Draumur og veruleiki kallast þarna á.

Stundum er veislan sjálf aðalatriðið, t.d. í dönsku myndinni Veislan, þar sem fram fer háalvarlegt uppgjör innan fjölskyldunnar sem safnast hefur saman af ákveðnu tilefni, allt öðru en því að fara að gera upp gamlar sakir.

Veislan er líka aðalatriðið í bók Karen Blixen Gestaboð Babette, bók sem færð hefur verið á hvíta tjaldið sem afar eftirminnilegum hætti.

Þar er þungamiðja bæði bókar og kvikmyndar stórkostleg veisla sem öllum þorpsbúum er boðið til. Gestgjafinn er kona sem flúið hafði frá Frakklandi til afskekkts þorps á Jótlandi þar sem íbúarnir neituðu sér um allan veraldlegan munað. Nánast ekkert var vitað um fortíð þessarar konu en hún gerist þarna eldabuska hjá guðhræddum systrum. Hún þiggur ekki laun fyrir vinnu sína en fær athvarf og skjól.

Þegar í ljós kemur að hún hefur fengið stóran happdrættisvinning í Frakklandi ákveður hún að efna til stórveislu og bjóða öllum þorpsbúum. Þeir ákveða, með miklum semingi þó, að þiggja boðið í veisluna, en ákveða jafnframt að minnast ekki ein orði á mat eða drykk undir borðum. Þau svara því út í hött þegar hinn óboðni gestur veislunnar reynir að tala við sessunauta sína um veisluföngin.

Að lokum fer svo að ánægja gestanna yfir matnum og víninu leysir úr læðingi hvöt þeirra til þess að játa yfirsjónir sínar hver fyrir öðrum og biðjast fyrirgefningar og að lokum ganga allir glaðir frá borðum - sátt og eindrægni ríkir.

Það er ekki erfitt að sjá sterk tengsl veislunnar sem þarna var boðið upp á við aðra stórkostlega veislu - sem kannski má nefna veislu allra tíma.

Það er veislan sem Jesús hélt lærisveinum sínum þegar þeir komu inn til Jerúsalem til þess að halda páskahátíð.

Þá veislu hafa listamenn - ekki síst málarar - allra tíma túlkað með margvíslegum hætti og t.d. getur það reynst mjög forvitnilegt að skoða á þeim myndum hvað listamennirnir setja á veisluborðið, því samtími hvers listamanns setur vissulega svip sinn á verkið.

Þetta er veislan sem Jesús hélt með lærisveinum sínum kvöldið áður en hann var tekinn af lífi - myndverkin flest sýna veislugesta - lærisveinana 12 sitja til borðs með Jesú í síðustu kvöldmáltíðinni.

Veislan, sem efnt var til þá, varð að helgustu athöfn allra kristinna manna - athöfn sem minnir á sáttmála Guðs og manns.

Sú veisla er þess eðlis að engin boðskort eru send út - ef frá eru taldar messuauglýsingar - þangað er engum sérstökum hópi boðið, þangað eru allir velkomnir - þar verður ekkert opinbert uppgjör milli veislugesta - þar á sér stað þögult samkomulag milli Guðs og manns.

Veislan sem Drottinn Guð býður til er því ólík öllum öðrum veislum - hún er fyrir okkur öll - þar þrýtur aldrei rými, þar þrýtur aldrei veisluföng, þar erum við öll jöfn.

Í dag er sannarlega boðið til veislu - reyndar tveggja veislna.

Kirkjugestum er boðið að koma að borði Drottins - að eiga þar sitt hljóða samtal við Drottin Guð - og öðlast fyrirgefningu yfirsjóna sinna og endurnýja við Hann samband sitt og treysta það.

Síðar í dag bjóða fermingarbörnin og foreldrar þeirra til veislu, þar sem veislugestir samgleðjast fermingarbörnunum á þeirra merka degi. Veislan með fermingarbörnunum er tilefni fyrir fjölskyldu og vini að hittast og gleðjast saman. Þar er tilefnið - að gleðjast saman.

Á slíkum stundum er gott að taka undir með Hallgrími Péturssyni þegar hann segir:

Nú er ég glaður á góðri stund, sem á mér sér. Guði sé lof fyrir þennan fund, og vel sé þeim sem veitti mér.

Já, vel sé þeim sem veitti mér og þér að þiggja af gnægtabrunni Drottins.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda Amen.