Ég þekki þig ...

Ég þekki þig ...

Nú er svo komið að sumir íslendingar skammast sín fyrir að viðurkenna þjóðerni sitt. Það er dapurlegt að svo sé komið í umróti síðustu missera ...

Guðspjall dagsins er skírnarboð Drottins. Hugleiðum það.

Í upphafi þessa máls, færð þú, sem hlustar, hvar sem þú ert, eina litla spurningu, sem varðar það hver þú ert, en þú átt þó ekki á þessu augnabliki að svara upphátt, heldur aðeins innra með þér. Spurningin er þessi, hvert er nafn þitt og hvaða merkingu hefur það fyrir þér?

Nafn hvers og eins skiptir miklu. Það sem ber nafn, þótt það sé nú bara úr náttúruríkinu, eins og t.d. tré eða dýr eða fjall, já, eða úr samfélagsríkinu t.d. þjóð, hefur sérkenni og eiginleika og mynd, sem er einstakt fyrir þann sem nafn hefur fengið. Þegar maður, karlinn eða konan, segir til nafns, þá felast í svarinu einkenni, sem varða ekki aðeins hagstofuskýrslur landsins, heldur persónuna sjálfa, afmörkun hennar frá öðrum, uppruna hennar, sögu og líf. Það er gaman að spyrja barn að nafni, þá fæst einlægt, fallegt svar, að sumu leyti af feimni sagt, því vera má að viðkomanda finnist óþægilegt að vera dreginn fram í dagsljósið, en að sumu leyti af stolti sagt, því auðvitað er gaman að geta opinberað það afdráttarlaust, sem skiptir máli: Þetta er ég.

Nöfn eignumst við með ýmsu móti. Sumir eru nefndir á nafn strax fyrir fæðingu, sumir strax eftir fæðingu, sumir þurfa aðeins að bíða. En nafnið skilar sér og það eitt er áreiðanlegt að nafni fylgja góðar óskir og innilegar, og í því myndast mjög persónulegir þræðir, sem haldast alla tíð. Góðar óskir og persónuleg tengsl er auðvitað ákaflega gott vegarnesti út í lífið og öll þörfnumst við þeirra.

Í kirkjunni hefur það tíðkast frá öndverðu að gefa nafn við skírn. Jafnvel þeir sem skírðust fullorðnir fengu nýtt nafn í skírninni, og var þá oftast valið af þeim sjálfum, og var þá eins og ítrekun á því hver vilji og stefna viðkomandi væri. Einkennisorð. Jesús gaf Símoni nafnið Pétur, klettur, og sumir gefa öðrum nafnið sitt og þá hefur það djúpa merkingu fyrir báða.

Þegar farið var að skíra ungabörn fengu þau nafn, valið af foreldrum yfirleitt eða nánum ástvini. Enn í dag er það heldur ekki óalgengt að einhver gefi hreinlega barni nafnið sitt til að eiga og bera og til að undirstrika tengsl, ást og vonir. Kristin trú gerir ráð fyrir því að í skírninni hljóti barnið sérstaka blessun Guðs, óháð því sem foreldrar gefa eða geta gert. Sú trú byggir m.a. á orði postulans Páls, sem segir: “Eða vitið þið ekki að við öll, sem skírð erum til Krists Jesú, erum skírð til dauða hans? Við erum því dáin og greftruð með honum í skírninni. Og eins og faðirinn vakti Krist frá dauðum með dýrðarmætti sínum, eins eigum við að lifa nýju lífi.” (Róm. 6:3n) En Jesús hafði einmitt sjálfur sagt: “Sá sem trúir og skírist mun hólpinn verða”, (Mk. 16:16). Í skírnininni felst því frelsun af hálfu Guðs, (sbr. 1. Pét. 3:21) frelsun frá syndinni, sem er mikil lausn, því syndin á sér það markmið helst, að slíta í sundur tengsl Guðs og manns, og þá einnig ástvinabönd mannlífsins, sundra og spilla því sem gott er og heilt, fjölskyldulífi, vináttu, friði og sátt. En Guð vinnur sitt verk í skírninni í nafni Jesú Krists og af náð sinni heldur hann orð sín, verndar, styrkir og vekur til eilífs lífs. Það er afskaplega gott, því ekki er víst að við séum óbrigðul á lífsveginum, svo sem dæmin sanna, enda byggist tilvist skírnarinnar ekki á okkur, heldur fyrirheiti Guðs. Við biðjum þess aftur á móti við hverja barnsskírn að blessun hennar, umhyggja Guðs og fyrirheit megi uppfyllast í lífi barnsins og að Guð laði fram allt það góða, sem býr í sálu þessa barns. Er það ekki einmitt alveg dásamleg bæn? Og Pétur postuli sem hugsar allt út frá mjög jarðneskum forsendum segir líka þetta: “Hún (skírnin) er ekki hreinsun óhreininda á líkamanum heldur bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists.” (1.Pét. 3;21).

Það er því ekkert skrýtið að kristnir menn vilji halda í skírnina, enda líta þeir svo á, að hún sé hvort tveggja gjöf Guðs barninu til handa og sérstök blessun og von er varðar líf og dauða, um leið og hún er áskorun til ástvina barnsins um að veita því umhyggju, styrk og leiðsögn á vegi lífsins.

Í skírninni kallast á himinn og jörð. Nafnið og skírnin eru því sannarlega sterkt einingarband, mikill sáttmáli og það verður þeim augljóst, sem eru viðstödd skírn, ekki síst í heimahúsi, þar sem eining friðar, kærleika og vonar er yfir og allt um kring og blessun Guðs er auðfundin á slíkum stundum. Íslendingar hafa sannarlega hlotið mikla blessun af skírnarathöfninni gegn um tíðina. Blessun Guðs umvefur fjölskyldu og vinahópinn, en nöfnin varða veginn og binda saman trú, sögu og menningu.

Til er einkar skemmtileg saga í okkar fornu ritum þar sem segir af Finnboga hinum ramma úr Flateyjardal í Fjörðum norður. Hann var borinn út strax eftir fæðingu, vegna misklíða foreldra sinna. Fátækir nágrannar fundu hann og tóku til sín, gerðu vel við hann og var hann nefndur Urðarköttur, af því hann fannst í urðinni. Þegar hann óx úr grasi reyndist hann hinn efnilegasti drengur og yfirburðamaður. Þorgeir ljósvetningagoði, sem var móðurbróðir hans, kom því svo fyrir í heimsókn sinni til systur sinnar Þorgerðar og Ábjörns dettiás, að Ásbjörn gekkst við drengnum og sá að sér. Urðarköttur bjargaði manni úr sjávarháska fyrir harðfylgi. Sá veiktist þó ekki löngu síðar og dó, en áður vildi hann launa lífsbjörgina og gaf Urðarketti, bæði vopnin sín, sem voru gefin af föður hans og nafnið sitt, en hann hét Finnbogi. Urðarköttur fékk nafnið og varð glaður og þakklátur fyrir. Og það var eins og nafnið yki á gæfu hans og styrkti fjölskyldutengsl og framtíð hans. Finnbogi rammi. Hann lét síðan skírast úti á Grikklandi nokkru síðar. Þannig verður sagan af Finnboga hinum ramma eins og helgisögn. Uppeldið og lífsbjörgin varð til fyrir skilyrðislausan kærleika vandalausra, nafngjöfin tengdist lífsbjörg ókunnugs manns úr sjávarháska og skírnin var huglæg og einlæg ákvörðun um að helgast Guði og berjast með vopnum trúarinnar fyrir ríki hans hér á jörð.

Nöfnin skipta okkur miklu. Þau gera okkur sérstök hvert og eitt. Aðgreining og skilgreiningar eiga sér stað í víðtækum skilningi hvarvetna í lífinu. Þeir sem byggja þetta land eru Íslendingar og þjóðin er íslensk. Þegar íslenska þjóðin var í mótun, þurfti að taka á ýmsum þáttum mannlífsins, sem skipti sköpum um framtíð og heill. Niðurstaðan varð snemma sú að mikilvægast væri að hafa ein lög í landinu, þar sem allir væru jafnréttháir frammi fyrir þeim, nytu réttinda þeirra og öryggi en hefðu um leið skyldum að gegna í þágu hins almenna samfélags. Það að bera nafn úr fjölskyldunni var sæmd og það að vera íslendingur var vitnisburður um heiðarleika, tryggð og ágæti. Allt þetta hefur dugað býsna vel allar götur frá upphafi byggðar í landinu.

Nú er svo komið að sumir íslendingar skammast sín fyrir að viðurkenna þjóðerni sitt. Það er dapurlegt að svo sé komið í umróti síðustu missera. Því hefur líka verið hent á lofti að nú séu tveir hópar í landinu, sem ekki kunni að sættast, fjármagnseigendur og lántakendur. Jafnvel svo að hvor talar niður til hins. Það er sorglegt. En þegar ekki nást sættir skera lögin úr um framganginn. Sú niðurstaða er sáttin, sem gildir. Lögum má breyta, en það krefst tíma og umræðu. Alþingi ákveður lög í framhaldi af því. Ef lögin sem standa gilda ekki, rjúfum við friðinn og þjóðin klofnar í andstæðar fylkingar og menn berast á banaspjótum. Það getur varla verið vilji þjóðarinnar? Okkur mætti lærast að tala betur saman, þegar mikið liggur við! Þannig stöndum við best vörð um hina mikilvægu sáttmála þjóðarinnar.

Í skírnarboði Drottins nefnir Jesú vald. “Allt vald er mér gefið á himni og jörðu.” Orðið hefur þá merkingu að ‘vera valdið til að velja, gera það sem viðkomandi vill helst’ Hvað vill Jesús?: Fara að vilja föður síns. “Ég megna eigi að gera neitt af sjálfum mér. Ég dæmi samkvæmt því sem ég heyri og dómur minn er réttvís því að ég leita ekki míns vilja heldur vilja þess sem sendi mig.” (Jóh. 5:30). Þegar við höfum vald til þess að ákveða, ráðstafa, skera úr um, meðhöndla, ráða, skal það því taka mið af því sem er okkur æðst og mest og best í huga okkar og hjarta. Það er þá það sem við höfum lært að bera virðingu fyrir, skilið að reynist best og tileinkum okkur í þeirri grundvallarhugsun að standa undir nafni, sem persónan ég. Hverju vorum við helguð í skírninni? Var það ekki blessun Guðs og vilja hans. Nafn okkar hvers og eins stendur fyrir því sem við viljum vera og erum. Skírnin mun aldrei spillast, þótt okkur skorti þróttinn.

Upphafsspurning þessa máls vaknar aftur: Hvert er nafn þitt og hvaða merkingu hefur það fyrir þér? En nú segir Drottinn svo, sá sem skóp þig, (Jakob,) og myndaði þig, (Ísrael): Óttast þú ekki því að ég frelsa þig, ég kalla á þig með nafni, þú ert minn.

Góður Guð, laða fram allt það besta, sem hulið er í minni sál og samræmist vilja þínum. Amen.