Ljós og hljómar

Ljós og hljómar

Jólin eru hátíð hjartans, hughrifa og tilfinninga. En fögnuðurinn sem jólin boða er meir en hughrif og tilfinningar. Hughrif eru hverful en gleðin sem jólaguðspjallið boðar og jólaljósin og jólasálmarnir og gleðihljómar klukknanna tjá er meir en hverfult andartak. Þau eru heilög ferð í einingu saman yfir landið og með stjörnunum, - eins og skáldið lýsir svo yndislega- , til að helga þennan heim, helga þennan víða heim og lífið allt friði Guðs.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
25. desember 2008
Flokkar

Jólanótt - og ég kveikti á kerti rétt eins og forðum litlu kerti. Það logar á borði mínu unir þar sínu lífi slær ljóma á þögnina. Og bíð þess að ég finni sem forðum að glaðir hljómar séu lagðir af stað út úr lágum turnum að ég heyri þá svífa yfir hvítt landið og stefna hærra, hærra eins og hyggist þeir setjast á sjálfar stjörnurnar svo ljós og hljómar geti hafið í einingu saman af himnum gegnum loftin sína heilögu ferð.

Þetta ljóð Hannesar Péturssonar er sannarlega hrífandi. Hér á eftir fáum við að heyra það sungið við yndislegt lag Þorkels Sigurbjörnssonar, sem sérstaklega var samið fyrir Kór Menntaskólans við Hamrahlíð, hrífandi fagurt í flutningi ykkar, elskulega söngfólk. Enn einu sinni leggið þið ykkar hljóma til jólahalds og helgi okkar og lyftið hugum okkar og hjörtum í hæðir. Þakka ykkur fyrir það. Þakka þér, Þorgerður, sem í rúm fjörutíu ár hefur lagt þitt líf og sál í kórstarf ungafólksins og hefur haft svo miklu að miðla og gefa í að stilla saman hinar ungu raddir, og alltaf bætast nýjar raddir og hljómar við, nýjar kynslóðir koma upp og leggja sínar tæru raddir að þessum einstæða samhljómi, alltaf jafn ferskum, hrífandi, sem hefur borið hróður íslenskrar tónlistar, íslenskrar menningar um víða veröld. Ófá eru þau tónskáldin sem hafa samið yndislegustu verk sín einmitt fyrir Hamrahlíðarkórana. Þvílík forréttindi að fá að njóta söngs ykkar enn á ný um þessi jól. Guð launi það og blessi ykkur öll, elskulegu vinir. Gleðileg jól!

Jólin eru hátíð hjartans, hughrifa og tilfinninga. En fögnuðurinn sem jólin boða er meir en hughrif og tilfinningar. Hughrif eru hverful en gleðin sem jólaguðspjallið boðar og jólaljósin og jólasálmarnir og gleðihljómar klukknanna tjá er meir en hverfult andartak. Þau eru heilög ferð í einingu saman yfir landið og með stjörnunum, - eins og skáldið lýsir svo yndislega- , til að helga þennan heim, helga þennan víða heim og lífið allt friði Guðs.

Ljós og hljómar jólanna eru annað en hughrif, heldur túlkun boðskapar, og segja sögu. Þess vegna er okkur svo mikilvægt að rifja upp, hlusta og hugleiða söguna af fæðingu barnsins í Betlehem.

Ég á bók sem kom út fyrri mörgum árum, „Börn skrifa Guði,“ heitir hún, og er í miklu uppáhaldi hjá mér. Bókin geymir bréf skrifuð af börnum, einlæg, skemmtileg, elskuleg og hrífandi. Þar eru ótal mörg gullkornin. Td þetta sem ég held mikið upp á: „Góði Guð, ætlaðirðu að hafa gíraffann með svona langan háls, eða var það bara óheppni?“ Og þetta:„Kjæri Guð, þegar þú gjerir kraftaverk finnst öllum það sé æðislegt en ef ég gerri eikvað í ganni mínu þá er ég skammaður. Arnar.“ Er þetta ekki frábært? „Góði Guð, jólin eiga að koma oftar af því að litlir krakkar geta ekki verið góð svo lengi í einni bunu. Berta.“ Svo finnst mér alveg óborganlegt þetta bréf: „Kæri herra Guð. Hvað hugsar þú um þá sem trúa ekki? Það er sko annar strákur sem vill vita það. Þinn vinur, Njáll“ – Þessi vill greinilega hafa allt á hreinu! Loks er það bréfið hennar Önnu litlu. Það er svona : „Góði Guð, getur þú skrifað nokkrar fleiri sögur, við erum búin með þær allar sem þú hefur gert, nú erum við byrjuð upp á nýtt. Takk fyrir.“ Hún var orðin leið á sömu sögunum aftur og aftur.

- En sumar sögur getum við heyrt aftur og aftur, án þess að leiðast. Og sumar sögur er okkur beinlínis nauðsynlegt að heyra enn og aftur. Það á við um jólaguðspjallið. Það er alltaf jafn ferskt og nýtt. Svo er það nú þannig, að Guð er alltaf að skrifa nýjar sögur. Þú ert saga sem Guð er að skrifa, viðbrögð þín, gildismat og afstaða þín til lífsins, til náungans, til Guðs, saga sem Guð er að skrifa, þáttur í sögunni hans.

Hefurðu hugleitt það? Jólin eru áminning um það, sem við öll þurfum að heyra, jafnt þau sem trúa og þau sem trúa ekki, já og þau sem eru þar mitt á milli með hik „og efa og hálfvolga skoðun“ –eins og Hannes Pétursson orðar það. Já, jólaguðspjallið á erindi við alla.

Jólaguðspjallið, eins og aðrar sögur Biblíunnar, er frásögn sem er lykill að öðrum sögum, lífi og örlögum manns og heims. Það er lykill, mynstur og merkingarform og siðferðilegur áttaviti, siðferðilegur áttaviti, sem mótað hefur heimsmenninguna meir og minna um aldir. Og heimurinn má alls ekki missa sjónar á! Allra síst nú! Frásögn jólaguðspjallsins ber okkur boðskap sem er okkur mikilvægari en nokkru sinni. Í heimi sem dýrkar afl og auð, sem nú hefur sýnt sig vera hjóm og tál. Í þessu landi þegar svo margt, sem taldist eftirsóknarverðast alls, er allt í einu orðið fjötur og kvöð og böl. Þessi lánsama þjóð sem situr nú uppi með þyngri byrðar en nokkurn gat órað fyrir. Nú þurfum við virkilega að heyra og skynja og þiggja hin raunverulegu verðmæti og endurheimta hinn sanna auð, sem Guð býður okkur sem gjöf.

Í hrífandi frásögn jólaguðspjallsins er það að finna. Horfðu á jólamyndina, sjáðu fyrir þér persónur og atburði jólaguðspjallsins. Sjáðu barnið í jötunni og þau Jósef og Maríu! Þau minna okkur á helgi sérhvers barns og sérhverrar fjölskyldu. Í heimi þar sem náttúru og umhverfi er ógnað af yfirgangi mannsins, græðgi og grimmd, látum jötuna lágu, asnann og uxann, sem standa þar hjá, minna okkur á samhengi lífsins og fegurð, og vekja með okkur lotning fyrir öllu sem lifir og andar. Látum jólabarnið og hirðana fátæku minna okkur á þau fátæku þessa heims, að við gleymum þeim aldrei. Þau eru ekki tölfræði, hagtölur í exelskjölum, heldur fólk sem kemur þér við, persónur með sögu, andlit sem horfa við þér. Og jólatréð, látum jólatréð vera okkur áminning um virðingu fyrir því, sem grær og vex. Vitringarnir komu úr fjarlægum löndum og siðir og hefðir jólanna eru sprottnar úr ólíkum jarðvegi þjóða og menningarheima. Látum það minna okkur á að við erum öll systkin, hverrar þjóðar og kynþáttar sem við erum. Öll erum við börn þess Guðs sem svo elskaði heiminn, að hann gaf einkason sinn, til að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.

Og svo er það hljómar jólanna, englasöngurinn. Jólaguðspjallið segir frá honum, þótt engin tóndæmi séu gefin. Jólahljómarnir, jólatónlist allra alda eru tilraunir til að endurskapa hann, eða endurvarpa honum. Oft finnst okkur jólasöngurinn beinlínis vera himneskur, engla-líkur, umfram allt þegar börnin syngja – já og þið, kórarnir hennar Þorgerðar. Hverslags söngur var þetta annars? Ég hef stundum velt því fyrir mér. Ég held að englasöngurinn sem hirðarnir fengu að heyra fylla himinhvolfin hafi umfram allt verið undrunaróp englanna yfir þessu furðulega uppátæki Guðs sem þeir voru sendir að segja frá. Því að nú er Guð ekki í friði ofan við mannleg örlög og hverfulleik lífsins á jörðu, nú er hjarta og örlög almættisins bundið þeim órofa böndum, varnalaust barnið hennar Maríu í Betlehem. Hvað nú ef mennirnir loka á þetta barn, eða útskúfa því, deyða það? Já, hvað þá? Það er tilhugsun sem englarnir skelfast. Og þeir hrópa upp yfir sig í undrun er þeir skynja í þessu undursamlegan leyndardóm kærleikans, umhyggjunnar. Sem ekki vill knýja neinn né knésetja, sem ryðst ekki inn á neinn, heldur vill aðeins laða, eins og varnalaust barn sem kallar eftir athygli og umhyggju. Þessi undrunaróp englanna og fagnaðarsöng enduróma hjörtu okkar nú í nótt, og dýrð þeirra blikar af sérhverju jólakerti, sem í nótt unir sínu lífi og slær ljóma á þögnina. Og glaðir hljómar leggja af stað... „og stefna hærra og hærra eins og hyggist þeir setjast á sjálfar stjörnurnar svo ljós og hljómar geti hafið í einingu saman af himnum gegnum loftin sína heilögu ferð.“ Við, já, við fáum að leggja þar að okkar litlu jólakerti og jólasöng, okkar veika róm, hljóða bæn og barnatrú.

Er það ekki undursamlegt?