Þjóðarskútan

Þjóðarskútan

Ég óska mér þess að við séum fús að læra af reynslu forfeðra, nágranna og samferðafólks, hlusta á hvort annað. Bæn mín er sú að Kristur kenni mér og okkur öllum sem í þessu landi búa auðmýkt.
fullname - andlitsmynd Pétur Björgvin Þorsteinsson
22. nóvember 2010

Hóladómkirkja
Þjóðarskútan okkar er stödd í öldudal. Brotsjórinn sem hún hefur nú fengið á sig frá því síðast var ýtt úr höfn hefur laskað skútuna verulega. Áhöfnin er ekki söm og þar sem mörg möstur hafa brotnað er aðeins siglt áfram með krafti vélarafls sem fengið er að láni sem og nokkrum hjálparseglum. Nokkrir hafa tekið að sér það hlutverk að vera eða vilja vera skipstjórar á þessari einu skútu sem við eigum. En ráðaleysið virðist sameina þá alla. Í öllu falli er engum ljóst hvert sigla skal né hvernig hægt verði að bregðast við ef aftur skellur á fárviðri.

Mörg höfnin sem áður þótti örugg er það nú ekki lengur vegna þess að henni hefur ekki verið haldið við, kæruleysi og sjálfselska, en einnig vankunnátta og samskiptaleysi hafa fengið að ráða. Óblíð veðurátök hafa grafið undan stólpunum sem forfeður okkar komu svo haganlega fyrir. Og nýjar hafnir virðast ekki byggðar til að ráða við þau veðravíti og náttúruöfl sem Íslendingar hafa þurft að takast á við frá örófi alda. Hvert skal stefna? Hver er þess máttugur að byggja nýja höfn? Þjóðin þarf að komast í var.

Skipstjórunum hafa borist mörg skeyti frá reyndum skipstjórum erlendis þar sem þeir hafa ítrekað spurt hvort að karlarnir í brúnni hefðu tekið sér tíma til þess að tala við fólkið sem stendur vaktina á dekkinu, þau sem reyna að halda vélinni gangandi niðrí vélarrúmi eða þau sem eru á útkíkkinu í tunnunni í eina mastrinu sem enn stendur. En skipstjórarnir hafa ekki haft tíma til að svara, uppteknir við að finna lausnir á eigin vandamálum og beita eigin lausnum á vandamál annarra. Gott ef þeir rata út á dekk eða niður í vélarrúm?

Í öllu þessu fárviðri og þessari upplausn var kokkurinn sem stóð við eldavélina spurður hvernig hann næði að elda sómasamlegan mat ofan í fjöldann. ,,Auðmýkt er mikilvægasta hráefnið" svaraði hann og hélt áfram: ,,Ef ég héldi að nærvera mín hefði þau áhrif á hráefnið að maturinn yrði góður, þá yrði það nú ekki merkileg eldamennska. Mitt hlutverk er að þekkja hráefnið og vita hvernig það fær notið sín best." En einn af skipstjórunum sem var viðstaddur heyrði ekki þessa góðu ræðu kokksins, því hann var sjálfur svo upptekinn af því að hrósa sjálfum sér fyrir að hafa í gegnum klíkuskap getað reddað kjöti á hreinasta útsöluverði fyrir þjóðarskútuna.

Aðalsteinn afi minn gekk sem ungur maður reglulega sem leið lá úr Svarfaðardal, yfir Heljardalsheiði, heim að Hólum. Þangað sótti hann þekkingu sem seinna átti eftir að nýtast honum við búskapinn í Skíðadal. Og þangað sótti hann líka andlega ró og yfirvegum, á biskupsstólnum, við sæti Krists. Hann komst alltaf klakklaust yfir heiðina, enda fór hann aldrei af stað nema veður væru trygg. Þekking hans og föður hans á því hvort og hvenær veðraskipta væri að vænta, skiptu sköpum. Þessarar þekkingar öfluðu þeir sér meðal annars með því að hlusta á þau sem höfðu gengið veginn á undan þeim.

Ég óska mér þess að við séum fús að læra af reynslu forfeðra, nágranna og samferðafólks, hlusta á hvort annað. Bæn mín er sú að Kristur kenni mér og okkur öllum sem í þessu landi búa auðmýkt. Hvort heldur við erum í ríkisstjórn, kirkjustjórn, mannréttindaráði, verkalýðsfélagi, í framboði til kirkjuþings, fólk í borg eða sveit. Spyrja mætti hvort að eftirfarandi orð trúarleiðtogans Hallgríms Péturssonar geti verið okkur fyrirmynd:

Lítillátur, ljúfur og kátur, leik þér ei úr máta; varast spjátur, hæðni, hlátur; heimskir menn sig státa.
(Hallgrímur Pétursson)