Óttast þú ekki!

Óttast þú ekki!

Við manninn sem stendur í þessum sporum, við manninn sem glímir við lífið á öllum tímum segir í orði Drottins: ,,Óttast þú ekki...!“

Jes 43. 1-7 Rm. 6:3-11 Mt. 28. 18-20

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Sumarið

Sumarið hefur verið fallegt, dagarnir og tíðirnar upp á síðkastið farið blíðum höndum um landann. Árið hefur hins vegar einkennst af eldgosum og afleiðingum þeirra, land elda og ísa hefur því staðið undir nafni.

Maðurinn og náttúran

Hvarvetna í heiminum glíma menn, konur og börn við náttúruhamfarir. Eins og við þekkjum hafa eldfjöllin og sambúðin við þau verið glíma Íslendinga frá upphafi í bland við jarðhræringar, kulda og veðurhörku.

Annarsstaðar í heiminum eru það hvirfilbylir, þurrkar, flóð og margt annað sem er sameiginleg glíma manna.

Sjúkdómar stórir og smáir fara ekki í manngreinarálit frekar en náttúruhamfarirnar. Krabbamein, MS, geðhvörf, þunglyndi, flensa, streptokokkar. Öll þekkjum við slík dæmi og glímuna við sjúkdómana, sem sumir draga fólk til dauða.

Dauðinn. Dauðinn þyrmir engu sem lífsanda dregur. Niðurbrot, rotnun og eiðing eru örlög allra manna, allra lífvera, alls sem lifir.

Er það einungis hinn holi hljómar dauðans sem kallar allt sem lifir í átt til sín?

Maðurinn og náunginn

Átökin manna á meðal, átökin þar sem hinn sterki og aflsmeiri beitir aflsmunar og nýðist á hinum veikari, börnum, konum. Stórar þjóðar á hinum smærri. Birtingarmyndirnar eru margar, fréttir af stríðsátökum eru daglega í ljósvakamiðlum, heimilisofbeldi fer ekki eins hátt en er reynsla allt of margra. Afleiðingar slíkra hörmunga eru gjarnan heimilisleysi, matarskortur, örvænting.

Já og þar sem örvæntingin ríkir, drykkja, neysla og annað mannlegt böl þar brotna gjarnan félagsleg samskipti, heilindi og það sem satt er.

Sum voðaverkin eru unnin í nafni réttlætis, eins og sagan kennir hér á þessum helga stað. Drekkingarhylurinn er hér skammt frá, þar sem yfirvöld sáu til þess að fólk var tekið af lífi fyrir sakir sínar.

Óttast þú ekki!

Við manninn sem stendur í þessum sporum, við manninn sem glímir við lífið á öllum tímum segir í orði Drottins:

,,Óttast þú ekki...!“

,,Óttast þú ekki því að ég frelsa þig, ég kalla á þig með nafni, þú ert minn.”

Segir spámaðurinn fyrir munn Drottins í spádómsbók Jesaja, og hann heldur áfram:

,,Gangir þú gegnum vötnin er ég með þér, gegnum vatnsföllin, þá flæða þau ekki yfir þig. Gangir þú gegnum eld skalt þú ekki brenna þig og loginn mun ekki granda þér. Því að ég, Drottinn, er Guð þinn, ...“ (Jes. 43:2-4)

Í þessum orðum er ekki litlu lofað.

En þetta er hin kristna guðsmynd að ógnir lífsins eru ekki vilji Guðs heldur er Guð með manninum í hremmingunum. Gagnvart þjáningunni stendur maðurinn ekki einn heldur hefur Drottinn sér við hlið. Á sömu nótum eru orð Jesú Krists við lærisveina sína í skírnarskipuninni í lok Mattheusarguðspjalls, en þar segir:

„Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Mt. 28:18-20)

Hin kristna guðsmynd er sem sagt einnig sú að í lífi og starfi, orðum og verkum Jesú Krists sé að finna hug og vilja Guðs til mannsins og sköpunarinnar.

Jesús lofar að vera með þeim, lærisveinunum, kirkjunni, okkur alla daga allt til enda veraldar. Ekki nóg með það heldur segir hann einnig: ,,Farið!“ ,,Farið því!“ Farið þangað sem skóinn kreppir, farið þangað sem erfiðleikar steðja að, farið, hjálpið.

Það er verk að vinna og hlutverkum að sinna. Þegar náttúruhamfarir hafa riðið yfir er það samtakamáttur manna sem gerir oft kraftaverk. Við þekkjum það í sögu Vestmannaeyja er bærinn byggðist á ný eftir eldgosið 1973.

Víða þarf að leggja meira á sig, standa við stóru orðin og loforðin, líkt og kallað er eftir í dag á Haíti. Þar hafði alþjóðasamfélagið lofað hjálp og fjármagni, mannskap fyrir hálfu ári, en litlum hluta hefur verið komið í verk af því og ástæður sjálfsagt margar.

Í baráttunni við sjúkdóma líkt og náttúruhamfarir er það þekkingin og vísindin sem eru verkfæri mannsins til bóta og varnar lífi og limum.

Jesús felur lærisveinum sínu, kirkjunni, okkur það hlutverk að fara og vinna að góðum verkum. Góðu verkin megum við vinna í trausti þess að Drottinn sé með okkur þar og leiði starfið áfram.

,,Farið því“ segir Jesús. Farið og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið í nafni föður, og sonar og heilags anda, og kennið.

Að gera allar þjóðir að lærisveinum. Að vera lærisveinn er að þjóna lífinu, náunganum og Guði.

Lærisveinn Drottins trúir þeim veruleika að Guð sé yfir og allt um kring með eilífri blessun sinni.

Lærisveinn Drottins hlýðir þessu boði um að fara því. Að fara og létta neyðinni, lækna sjúka, líkna deyjandi, kenna og styðja, bera fólk á bænarörmum, tala sannleika, vera heill. Auk alls hins sem lærisveinar eru kallaðir til í þjónustu við hið góða.

Góðu fréttirnar

Góðu fréttirnar, fagnaðarerindið er síðan sigur lífsins yfir dauðanum. Fagnaðarerindið fjallar um upprisu Jesú Krists frá dauðum. Upprisan boðar okkur það að ávallt er möguleiki á því að nýtt verði til, ávallt er möguleiki á því að úr leysist, að hið góða sigri að lokum. Nýjar leiðir opnist, að úr rætist. Upprisan fjallar um von inn í vonlausan heim.

Án þess kjarna kristindómsins er einungis um fagran og góðan siðaboðskap að ræða. En kristindómurinn er meira en það.

Kristindómurinn nær út fyrir það mannlega, siðlega, veraldlega. Kristindómurinn byggir á kraftaverki, byggir á því að utanaðkomandi vald, afl, hreyfiafl, hefur áhrif á heiminn, eitthvert afl sem er hvort tveggja í senn ekki hluti af heiminum en um leið í heiminum miðjum. Þetta afl sem kennt er við kærleikann höfum við nefnt Guð.

Guð sem birtist okkur í orðum Jesú Krists, í þeim anda sem heilög orð geyma og lifir í samfélagi kirkjunnar, þetta afl, þessi Guð gefur eilíft líf.

Þrátt fyrir hið augljósa um náttúruhamfarir, sjúkdómar, slys, stríð, ofbeldi hverskonar og dauða, þá er það ekki aðeins hinn holi ómur dauðans sem kallar allt sem lifir til sín heldur kallar á ný Drottinn til lífs og nýrrar sköpunar.

Páll postuli notar hugtakið að vera samgóin Jesú. Og talar um skírnina í því sambandi. Þeir sem eru skírðir í nafni Krists eru skírðir til dauða hans. Sem þýðir um leið að allir eru skírðir til upprisu hans og eilífs lífs.

Textar dagsins, lexían, pistillinn og guðspjallið tóna að þessu leiti í takt. Lexían segir: ,,Óttast þú ekki ... þú ert minn!“ Pistillinn segir: ,, Ef við erum dáin með Kristi trúum við því að við munum og með honum lifa.” Guðspjallið segir: ,,Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum… ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.”

Þegar manneskjan tileinkar sér hina kristnu von blómstrar hún í kærleika milli manna og milli manns og Guðs, vonin er síðan vökvuð af trúnni, trúnni sem við ræktum með því að koma saman á helgum stað, sem við ræktum með því að biðja í Jesú nafni fyrir svefn, fyrir daginn, í sorg og gleði, sem við ræktum með því að koma saman við heilagt borð og heilagt orð.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.