„... Og ég mun gefa yður hvíld“

„... Og ég mun gefa yður hvíld“

Þrenningarhátíðin er í dag, vel þekkt hátíð í vestrænum löndum og annars staðar þar sem kristin trú á rætur. Þannig eru dagarnir, helgidagarnir, koma í sinni röð, afmarka daglega tilveru okkar samkvæmt gangi himintunglanna. Orð Krists í dag eru meðal annars þessi: "Komið til mín allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar og ég mun veita yður hvíld."

Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: Ég vegsama þig, faðir, herra himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum, en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt. Allt er mér falið af föður mínum, og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann. Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. (Matt. 11:25-28)

Þrenningarhátíðin er í dag, vel þekkt hátíð í vestrænum löndum og annars staðar þar sem kristin trú á rætur. Þannig eru dagarnir, helgidagarnir, koma í sinni röð, afmarka daglega tilveru okkar samkvæmt gangi himintunglanna. Orð Krists í dag eru meðal annars þessi: "Komið til mín allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar og ég mun veita yður hvíld." Allir hafa sitt að bera. Byrðar vegna lífsafkomu, líkamlegra eða andlegra meina, vegna einmanaleika eftir andlát ástvinar. Aðrir bera byrðar vegna vinslita eða brostinna sambanda í hjúskap eða sambúð. Enn aðrir þjást vegna þess að þeir geta ekki tekið ákvarðanir, hvað þeir eigi að gera í lífinu, efast um ákvarðanir sínar, byrðar vegna sektarkenndar, kvíða, streitu. Þannig mætti lengi telja.

Nú segir Kristur: Komið til mín öll sem eigið í einhvers konar lífsbaráttu, öll þið sem berið byrðar sem erfitt er að bera ein. Hann leit ekki smáum augum venjuleg vandamál fólks, fannst heldur ekkert óeðlilegt þótt þau yxu okkur í augum. Lífið er ekkert alltaf auðvelt. Við eldumst, horfumst í augu við hrörnun, hún byrjar við fimm ára aldurinn. Komið til mín öll. Kristur gerir okkur tilboð, ekki bara einn dag vikunnar heldur alla daga og allar stundir.Hann vill að við vitum og finnum að við erum ekki ein með byrðar okkar. Og að við séum frjáls, ekki fjötruð, heldur eigum við svigrúm, tíma sem við ráðum sjálf. Fyrri tíðar fólk hafði ekki svo mikinn tíma, ekki frítíma í sama mæli og við. Vinnan var mikil og umhugsunin um að hafa í sig og á. Brauðstritið tók tímann, hugsunina, orkuna. Við höfum tíma. Við höfum valkosti. En ein byrðin sem við berum er að nýta þessa valkosti. Móta líf okkar þannig að það megi fara eftir hamingjubrautum.

• • •

Undanfarna viku hefur ótrúleg umræða farið fram um helgidagalöggjöfina í landinu. Sá undarlegi skilningur og boðskapur hefur staðið upp úr fáeinum fjölmiðlamönnum og álitsgjöfum að nú hafi forneskjan rumskað. Að Þjóðkirkjan banni fólki að kaupa brýnustu lífsnauðsynjar á helgidögum. Rétt eins og kirkjan og þá sjálfsagt prestarnir hafi hlaupið til á hvítasunnudag og hrifsað mjólkurfernur, bjúgu og brauð af þurfandi fólki og krafist lokana verslana í Guðs nafni. Leiðari eins dagblaðsins, DV á miðvikudaginn, með mynd af Dómkirkjunni, verður varla skilinn öðruvísi en sem hatursáróður gegn kirkju og kristni. Farið er niðrandi orðum um þá sem rækja trú sína, sérstaklega er þess getið að þeir séu fáir og kirkjur séu reistar undir tómlæti andans og landans. Þetta er skoðun á þeim bæ - en hún hefur ekki við rök að styðjast. Það er líka misskilningur að þjóðlífið batni með minni áhrifum kristinnar trúar.

Mér hefur reyndar aldrei þótt það stórmannlegt að gera lítið úr trú annarra, eða hæðast að því sem öðrum er heilagt. Alþjóðasamfélagið, Evrópuráðið, Sameinuðu þjóðirnar, fjöldi af samtökum fólks og þjóða telja það ein helgustu réttindin í mannlegu samfélagi að allir fái að iðka trú sína óáreittir og að skoðanir hvers einstaks séu virtar. Í ritstjórnargrein DV er brotið gegn þessum sjálfsögðum mannréttindum. Og verð ég nú að segja að þar virðist forneskjan hafa stokkið upp úr greni svo notað sé orðfæri blaðsins. Svona skilningur er ekkert annað en misskilningur. Svona fréttaflutningur ekkert annað en afflutningur. Svona dómar ekkert annað en fordómar.

Frá fornu fari hefur þjóðfélagið notað helgidagakerfi kirkjunnar til að afmarka vinnudaga og hvíldardaga. Samningar um kaup og kjör taka einatt mið af þessu sama. Mannlífið fer eftir tilteknum brautum, hefur sínar viðmiðanir, farvegi og skorður. Upphafið að sex vinnudögum og einum hvíldardegi á að sjálfsögðu upphaf sitt í Sköpunarsögu Biblíunnar. Þá var að laugardagurinn, en eftir Krist var þessu breytt í hinum kristna heimi. Upprisudagurinn, sunnudagurinn varð hvíldardagur og hátíðisdagur.

Helgidagalöggjöfin er ekki sett til þess að leggja fjötra á fólk. Hún er sett til verndar, til þess að tryggja fólki hvíld og frið. Hvíldardagshelgin, fyrst gyðinganna, síðan hins kristna heims eru vafalítið merkustu verndarákvæðin í mannkynssögunni. Hugsið ykkur það hvílík mannréttindi hafa um aldirnar og árþúsundin verið tryggð með almennum hvíldardegi. Að allir menn og allar skepnur fengju hvíld. Og þeir sem réttlausastir voru fyrr á öldum, þrælar og ambáttir, fengu frí á sunnudeginum. Stritað var dag út og dag inn en svo kom laugardagurinn, hægt að þurrka af sér svitann, láta líða úr sér. Friður færðist yfir, helgi hvíldardagsins setti þau takmörk. Ekki mætti píska út mönnum og skepnum á Drottins deginum. Í hörðum heimi og oft miskunnarlausum var mönnum þó eitthvað heilagt.

Í sögunni eru vissulega til dæmi um það að amast hafi verið við því að frídagarnir tengdust helgidagakerfi kristninnar. Eftir stjórnarbyltinguna í Frakklandi í lok 18. aldar þótti tímabært að leggja niður forneskjuna um sjö daga viku og var sett inn í tugakerfið að unnið skyldi 9 daga og hvíldin væri á þeim tíunda. Frá þessu var horfið. Og ástæðurnar vísast einkum þær að of margir dóu vegna þessara ráðstafana. Álagið varð of mikið. Októberbyltingin í Rússlandi lagði niður jólahald, bannaði helgihaldið og reyndi að búa til veraldlegan ramma í einu og öllu. En þrátt fyrir allt sem þar var reynt með miklum fyrirgangi og ýmis konar hreinsunum tókst ekki að útrýma kristindómnum og venjum sem áttu sér stoð í honum. Fólkið lét ekki taka frá sér hátíðirnar. Og nú er tímareikningurinn, frídagarnir, helgidagakerfið í veröldinni víðast hvar það sama.

• • •

Þjóðkirkjan setur ekki landinu og fólkinu lög. Hún kemur afar lítið að því máli. Það var fyrir einum 20 árum að nokkrir kirkjuþingsmenn reifuðu hugmyndir um að fella niður 2. helgidag stórhátíðanna. Að þeir yrðu ekki messudagar hjá Þjóðkirkjunni. Þessu mótmælti verkalýðshreyfingin. Dagarnir væru lögbundnir frídagar og kirkjan mætti ekki breyta því. Það vill svo til að mér er það mæta vel kunnugt hvernig lögum um almannafrið á helgidögum Þjóðkirkjunnar var breytt fyrir einum 7 árum. Eins og jafnan við löggjafarstörf var við meðferð málsins á Alþingi óskað eftir umsögnum fjölmargra aðila. Þjóðkirkjan var einn aðilinn af þeim. Hún hafði ekki uppi ósveigjanleg viðhorf heldur benti á mikilvægi þess að sem flestir gætu átt frí og hvíld á sama tíma. Umsögn kirkjunnar er ekkert leyndarmál og þar er tekið skýrt fram það sem Kristur sjálfur sagði: Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna, en ekki maðurinn vegna hvíldardagsins. Til þess er hann að létta byrðarnar, auðvelda lífið, skapa svigrúm til að líta upp frá daglegri önn, njóta afþreyingar, hvíldar og stunda hugðarefni sín, frjáls.

Kristur barðist nefnilega gegn reglufestunni og talaði gegn þeim sem lögðu á fólk þungar byrðar í formi ýmissa ákvæða varðandi daglegt og mannlegt líf. Lög um almannafrið eru sett vegna umhyggju fyrir fólki. Það er umhyggja fólgin í því að allir eigi frí á sömu tímum, en helmingur þjóðarinnar þurfi ekki að þjóna hinum helmingnum í fríi.

Stundum er leitað út um allar jarðir, allar álfur eftir andlegri næringu. Innhverf eða úthverf íhugun hvers kyns leit að friði, sálarfriði og rósemi. En mörgum getur yfirsést það sem er til staðar í okkar eigin trú, menningu og siðum. Í hálfgerðum heimóttarskap er leitað að einhverju öðru einhverju í framandi hugsun og menningu og trúarbrögðum. Þau ætla ég ekki að dæma, fjarri því, margt er þar gott, hugsað og iðkað sem þáttur í lífi og menningu við aðrar aðstæður og hefur verið þar lengi að skapast. En ég bendi á að nú er verið að tala um frelsi til að versla á öllum dögum ársins. Þá má alveg spyrja hvort það sjónarmið eigi ekki rétt á sér að fólk fái frelsi til að versla ekki á þrem til fjórum dögum á ári. Lögin í landinu hljóta að vera eins og landsmenn vilja hafa þau. Til þess er löggjafinn að endurspegla þann vilja fólks og setja ytri ramma um lífið í landinu. Og ég veit að fá, ef nokkurt Evrópuland hefur eins frjálslega og rúma helgidagalöggjöf og Ísland.

Vissulega er það rétt að einatt hafa verið uppi strangtrúarstefnur, sem flest vilja banna, sérstaklega ef það er skemmtilegt. Og slíkir menn hafa stundum talið að það væri Guði þóknanlegt að fólk gengi jafnan með alvörusvip, - bros og hlátur gætu truflað trúaralvöruna. Þannig var einhverju sinni á reglusömu alvöruheimili að ekkert mátti gera á sunnudögum annað en það sem tengdist andlegum efnum. Heimilisfaðirinn lagði sig eftir matinn, en syninum á heimilinu leiddist. Hann settist því við píanóið og lék falleg lög. Eftir nokkra stund kallaði faðir hans fram og spurði: Eru það örugglega andleg lög sem þú ert að leika á sunnudegi? Og sonurinn svaraði með spurningu: Er það andlegur svefn sem þú sefur á sunnudögum? Það er óþarfi að sofa andlegum svefni á sunnudögum. Og kirkjan heldur áfram því köllunarhlutverki sínu að veita straumum kærleika, miskunnsemi og friðar inn í samfélagið. Það er köllunarhlutverk hennar og köllun prestanna, sem Matthías skáld Johannessen segir svona í sálmi:

Og enn hann segir: Sjá ég kem í skýjum, og sendir þá, er lúta ásýnd hans, að boða líkn og lífið í hans nafni og leiða saman vegu Guðs og manns. Í Jesú nafni. Amen.

Hjálmar Jónsson er prestur í Dómkirkjunni. Þessu prédikun var flutt í Dómkirkjunni á Þrenningarhátíð, 15. júní 2003.