Borðið féll en boðið stendur

Borðið féll en boðið stendur

Þegar húsin springa og jörðin rifnar opnast gáttir sálarinnar og burðarvirki anda manneskjunnar kemur í ljós.

Þegar skjálftinn býr enn í okkur komum við saman á þessum degi, sem er reyndar sjómannadagur líka. Sjómenn kunna að stíga ölduna og kemur sér vel þegar fastalandið gengur í bylgjum. Guðspjallstexti dagsins er um veislu, sem var boðið til, en tókst miður en að var stefnt. Á fimmtudaginn þegar skjálftinn reið yfir í Árnessýslu og allt ætlaði um koll að keyra voru ýmsir veitingamenn að undirbúa að taka á móti hópum í mat. En þær veislur tókust síður en til var ætlast og að var stefnt. Það, sem var fallegt, umturnaðist. Hús, sem voru heil og góð, gengu af göflum og hrundu. Innbú, sem höfðu verið samsett með alúð, urðu eyðingunni að bráð. Eigur fólks liðuðust sundur. Maðurinn verður lítill í slíkum hamagangi, lífsveislan er ekki eins örugg og við vildum þegar fjöllin rjúka, jörðin springur, húsin hendast til og allt hrynur. Það er ekki gott boð. En mestu skiptir, að engin fórst í hamförunum og er undursamleg blessun, sem flesta furðar, og þakkarefni.

Ævistarfið hverfur Land og hlutir eru eitt, sem má bæta með ýmsu móti. Hinn tilfinningalegi þáttur er svo annað mál, sem og líðan fólksins. Lúðvík Haraldsson á Krossi í Ölfusi tjáði vel hrylling þess, að konan hans hafði slasast og að ævistarf hans væri farið. Ekki aðeins hlöðuveggur var fallinn og húsin stórskemmd, heldur höfðu skepnurnar orðið undir, slasast eða dáið. Að sjá skepnurnar sínar fara svona og þurfa að lóga þjáðum og stynjandi gripunum er þungbært, en jafnvel enn þyngra þegar bæði skepnudauði og hús verða tákn fyrir, að ævistarfið hafi skolfið burt. Í manninum var sorgardofi.

Innilokun Í Hveragerði var lítill drengur sem lokaðist í forstofu og komst ekki út. En mamman var úti, hún æpti ógurlega þegar lögin gengu yfir og virtust aldrei ætla að hætta. Hún gat ekki opnað, komst ekki inn því dyrnar voru skakkar og því ekki opnanlegar. Drengurinn komst ekki neitt, var lokaður inni og allt gekk í bylgjum, með ærandi hávaða frá springandi veggjum, brotnandi búslóð og svo voru óp móðurinnar til að hræða. Blessaður drengurinn var tilfinningalega stjarfur þegar hann loks komst út og var ekki upplitsdjarfur frammi fyrir myndavélarlinsunni.

Úrvinnsla og burðarvirki sálarinnar Hvernig mun Árnesingum farnast? Hvernig verður tjónið bætt? En mikilvægasta spurningin er auðvitað hvernig mun þeim lánast að vinna úr þeim tilfinningaháska, sem það lenti í. Munu þeir ná landi á strönd lífsfestunnar? Þegar allt hristist kemur í ljós hvað er laust í lífi fólks. Þegar allt er skekið kemur í ljós hvað ekki bregst. Þegar eigurnar hrynja, hlutirnir falla, húsin gliðna og jörðin rifnar opnast gáttir sálarinnar og burðarvirki anda manneskjunnar kemur í ljós.

Lífið er ekki öruggt og tryggt. Við leitum friðarlands og festu, en þekking, fræði og þjónusta nútímans gulltryggir ekki öryggið. Húskofi lónar út í Tjörninni þessa daga og í boði Listahátíðar. Hann marar þarna í hálfu kafi. Hugmynd listakonunnar var að miðla okkur, að lífið í veröldinni er ekki tryggt. Lítið þarf út af að bera til að illa fari, allt skekkist og fari bókstaflega á flot. Síðustu dagar eru okkur staðfesting þessa.

Boðið Guðspjallið í dag er veisluguðspjall, ein af þessum áleitnu sögum Jesú um boð. Í þetta sinn tókst illa til og allt fór á hvolf. Þannig var boðið til veislu í þessum heimshluta og á þessum tímum, að umburðarbréf fór eða kallari var sendur út með löngum fyrirvara til að fólk tæki daginn frá. Svo þegar leið að veisludegi voru nánari fyrirmæli send til viðtakenda. Enginn gat því vikið sér undan nema með rökum um hið ófyrirsjáanlega. Gyðingar lögðu mjög mikið upp úr gestavirðingu, gestrisni og að öllum væri sómi sýndur við allan undirbúning og framkvæmd veislu. Þeir voru veislumenn og kunnu að halda veislu með stæl. En vegna þessa voru líka til margar sögur til um veislur sem klúðruðust. Klúðursögurnar voru skuggasögur og sagðar meðfram sem dæmi- eða kennsluögur til að hjálpa fólki að gera sér grein fyrir og skilja hvernig góð veisla væri og hvernig ekki ætti að fara að.

Jafnvel óvinur skal ekki niðurlægður Ein sagan í gyðinglegum bókmenntum var um, að óvini húsbónda var boðið óvart til veislu. Þegar húsráðandinn gerði sér grein fyrir mistökunum og að maðurinn var mættur ætlaði hann að henda hinum út, en óvinurinn bað margsinnis um að virðingu hans yrði ekki misboðið með útkasti og bauðst til að borga hluta veislukostnaðar og að lokum allan kostnaðinn. En húsráðandinn braut á öllum boðum vegna óviðráðanlegs haturs og henti manninum út. Sá var þar með niðurlægður og varð svo hamslaus af reiði að hann fór til Rómverja og útkastið varð til herfarar og mikillar neyðar Gyðinga. Brot á veislusiðum varð til að öllin þjóðin varð hersetin. Svo afdrifaríkar afleiðingar geta hlotist af brogi á mannhelgi. Veisla lýtur grunngildum virðingar og friðhelgi. Ef ekki er eftir farið mun illa fara og margir hljóta verra af.

Veislukarlinn sem dó Önnur saga – og nær jarðvistartíma Jesú - er um tollheimtumann, sem bauð til veislu, og fína fólkið vildi ekki þiggja boð hjá þeim Rómarþjónandi skattman. Það hunsaði því boðið og tollheimtumaðurinn reiddist og bauð öllum þeim sem þóttu lægra stéttir. Svo dó hann í veislunni og naut í eftirmælum og minningu fólks veislu sinnar og kærleika. Líklega var þessi saga baksvið sögu Jesú um hina miklu veislu. Í þeirri veislu klúðruðu boðsgestirnir lífi sínu, hirtu ekki um heiður og virðingu sína, boðsherrans og gestanna. En veislumaðurinn klúðraði engu heldur brást við með góðu móti og mannvænlegu, bauð mörgum. Saga Jesú er svo enn róttækari því fólk er beinlínis sótt til veislunnar, neytt til að sækja fagnaðinn.

Að þiggja eða þiggja ekki Sagan er auðvitað um dýpri rök. Mönnum er boðið og þeir vilja ekki þiggja, setja sig úr samhengi, hafna mikilvægum gæðum. Og boðið mikla er augljóslega boð Guðs, veisla Guðs, og þeim sem boðið er en hafna dæma sjálfa sig frá leik og lífi. Tilefnið er gott en afleiðingarnar neitunar hræðilegar. Ábyrgðin er þeirra, sem fá boðið og vilja ekki þiggja. Mikilvægum hagsmunum er fórnað fyrir minni. Hinu stóra samhengi er hafnað fyrir hið smáa. Lífi er hafnað fyrir dauða. Hinu háleita er hafnað vegna hins smæðarlega. Guðsríki er hafnað fyrir lágkúru. Og þá fellur allt, þá hristist allt, þá hrynur allt.

Veislumyndirnar eru málaðar sterkum litum. Við fáum boð. Viljum við eða viljum við ekki? Og þá er komið að heimfærslunni. Hvar býður Guð okkur? Hvernig sendir Guð okkur og með hvaða hætti laðar Guð til veislu sinnar? Boðsbréfin, sem okkur berast, eru eins margvísleg og við erum mörg. Hvísl Guðs, tiltal Guðs, hróp Guðs gagnvart þér er annað og öðru vísi en gagnvart mér. Guð er nærri öllum en talar mismunandi og eftir þörfum við einstaklingana. En söm er afstaða Guðs og samur er vilji til að bjóða þér og opna veisluhús fyrir þér. Boðið er eitt og veisluviljinn er annað.

Hið fallna altari Margar myndir skjálftadagsins eystra voru af fólki og sjónvarpið miðlaði vel vanlíðan og hræðslu þess. Eitt af því, sem hefur ásótt mig þessa liðnu daga, er hið fallna altari Hveragerðiskirkju. Altarið er miðja hvers guðshúss. Altarið er veisluborð, tákn hins kristna boðskapar. Og altarið er notað til að reiða fram hina himnesku og þar með táknrænu veislu Guðselskunnar. Í skjálftanum stóð kirkjuhúsið, gluggarnir virtust óskemmdir, en altarið féll og brotnaði. Undirstöðurnar gáfu sig í hnykkjunum og altarismunirnir féllu með. Húsið stóð en miðjan hvarf. Ramminn hélt en táknið splundraðist. Þetta verður til íhugunar og getur rímað við sögu Jesú af veislunni miklu. Altarið er ekki alltaf til reiðu. Það getur oltið á hliðina. Altarisfallið er ekki refsing Guðs yfir Hvergerðingum. Altarisfallið er hins vegar áminning um veisluboð og við þiggjum eða veltum altarinu hið innra.

Stendur altari okkar? Þegar við skekjumst í lífinu er opnað inn kviku okkar. Þegar allt er slitið af okkur, eignir, jafnvel ástvinir lendum við í áraun og þurfum að endurmeta. Og þegar eignirnar okkar splundrast, húsin okkar hrynja, og jafnvel altari kirkjunnar er í rúst eigum við að íhuga boðsbréfin í lífinu. Hvað viljum við, hvað er haldreipi okkar? Reynum við að afsaka okkur eða bera fram falsástæður eða er altarið fallið hið innra og verður aldrei til neins? Okkur er boðið til veislu, já veislu sem ekki fellur niður þótt allt hrynji. Það er himnesk veisla, sem aldrei truflast þótt allt hristist og bregðist.

Peter Dass segir í sálminum sem við sungum áðan:

Björgin hrynja, hamravirkin svíkja, himinn, jörð og stjörnur munu víkja, en upp mun rísa, og ráð hans prísa, hans ríki vísa og ljósið lýsa og ríkja.

Amen

Prédikun í Neskirkju, 1. júní 2008. 

Lexían: Jesaja 25.1. 6 - 9 Drottinn, þú ert minn Guð! Ég vil vegsama þig, lofa nafn þitt! Þú hefir framkvæmt furðuverk, löngu ráðin ráð, trúfesti og sannleika. Drottinn allsherjar mun á þessu fjalli búa öllum þjóðum veislu með krásum, veislu með dreggjavíni, mergjuðum krásum og skírðu dreggjavíni. Og hann mun afmá á þessu fjalli skýlu þá, sem hylur alla lýði, og þann hjúp, sem breiddur er yfir allar þjóðir. Hann mun afmá dauðann að eilífu, og hinn alvaldi Drottinn mun þerra tárin af hverri ásjónu, og svívirðu síns lýðs mun hann burt nema af allri jörðinni, því að Drottinn hefir talað það.

Á þeim degi mun sagt verða: Sjá, þessi er vor Guð, vér vonuðum á hann, að hann mundi frelsa oss. Þessi er Drottinn, vér vonuðum á hann. Fögnum og gleðjumst yfir hjálpræði hans!

Pistillinn. 1. Jóhannesarbréf 3.13-18 Undrist ekki, bræður, þótt heimurinn hati yður. Vér vitum, að vér erum komnir yfir frá dauðanum til lífsins, af því að vér elskum bræður vora. Sá sem ekki elskar er áfram í dauðanum. Hver sem hatar bróður sinn er manndrápari og þér vitið, að enginn manndrápari hefur eilíft líf í sér. Af því þekkjum vér kærleikann, að Jesús lét lífið fyrir oss. Svo eigum vér og að láta lífið fyrir bræðurna. Ef sá, sem hefur heimsins gæði, horfir á bróður sinn vera þurfandi og lýkur aftur hjarta sínu fyrir honum, hvernig getur kærleikur til Guðs verið stöðugur í honum? Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum, heldur í verki og sannleika.

Guðspjallið. Lúkas 14.16-24 Jesús sagði við hann: Maður nokkur gjörði mikla kvöldmáltíð og bauð mörgum. Er stundin kom, að veislan skyldi vera, sendi hann þjón sinn að segja þeim, er boðnir voru: Komið, nú er allt tilbúið. En þeir tóku allir að afsaka sig einum munni. Hinn fyrsti sagði við hann: Ég hef keypt akur og verð að fara og líta á hann. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. Annar sagði: Ég hef keypt fimm tvenndir akneyta og er á förum að reyna þau. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. Og enn annar sagði: Konu hef ég eignast, ekki get ég komið.

Þjónninn kom og tjáði herra sínum þetta. Þá reiddist húsbóndinn og sagði við þjón sinn: Far þú fljótt út á stræti og götur borgarinnar, og leið inn hingað fátæka, örkumla, blinda og halta. Og þjónninn sagði: Herra, það er gjört, sem þú bauðst, og enn er rúm. Þá sagði húsbóndinn við þjóninn: Far þú út um brautir og gerði og þrýstu þeim að koma inn, svo að hús mitt fyllist. Því ég segi yður, að enginn þeirra manna, er boðnir voru, mun smakka kvöldmáltíð mína.