Ykkur Babette er boðið í partí

Ykkur Babette er boðið í partí

Boðskortið er komið, þín er vænst í veislunni. Það er ekkert venjulegt partí. Gestgjafinn notar það sem þú kemur með, leyfir þér og þínu að efla og bæta. Líðan okkar skiptir engu aðalmáli. Við megum jafnvel bera vanlíðan á borð! Jesús Kristur býður okkur öllum til veislu.

Jesús sagði við hann: Maður nokkur gjörði mikla kvöldmáltíð og bauð mörgum. Er stundin kom, að veislan skyldi vera, sendi hann þjón sinn að segja þeim, er boðnir voru: Komið, nú er allt tilbúið. En þeir tóku allir að afsaka sig einum munni. Hinn fyrsti sagði við hann: Ég hef keypt akur og verð að fara og líta á hann. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. Annar sagði: Ég hef keypt fimm tvenndir akneyta og er á förum að reyna þau. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. Og enn annar sagði: Konu hef ég eignast, ekki get ég komið. Þjónninn kom og tjáði herra sínum þetta. Þá reiddist húsbóndinn og sagði við þjón sinn: Far þú fljótt út á stræti og götur borgarinnar, og leið inn hingað fátæka, örkumla, blinda og halta. Og þjónninn sagði: Herra, það er gjört, sem þú bauðst, og enn er rúm. Þá sagði húsbóndinn við þjóninn: Far þú út um brautir og gerði og þrýstu þeim að koma inn, svo að hús mitt fyllist.Því ég segi yður, að enginn þeirra manna, er boðnir voru, mun smakka kvöldmáltíð mína. Lúkas 14.16-24

Boðskortið er komið, þín er vænst í veislunni. Það er ekkert venjulegt partí. Gestgjafinn notar það sem þú kemur með, leyfir þér og þínu að efla og bæta. Líðan okkar skiptir engu aðalmáli. Við megum jafnvel bera vanlíðan á borð! Jesús Kristur býður okkur öllum til veislu.

Margar veislur eru haldnar þessa dagana. Auk hinna innlendu og þinna eigin persónulegu tilefna eru svo fótboltaveislur alla daga, reyndar við misjafnan fögnuð á heimilunum. Til eru þau sem telja heimsmeistarakeppnina í Þýskalandi hið versta boltaböl!

Hvernig er veislumálunum háttað í þínu lífi? Ertu veislukarl, veislukona, veislubarn? Við höfum mismunandi afstöðu til mannfagnaðar. Kannski kanntu ekki að meta samkomur fólks, kannski ertu ekki í stuði þessa daga eða vikur, kannski glímir þú við félagsfælni og leiðist grunnfærið samkvæmishjal. Hvernig er veislumálunum háttað í lífi þínu? Hvað er veisla og til hvers? Það er ljómandi að byrja á könnun á veisluafstöðu og veislusjálfi þínu með því að hugsa um guðspjall þessa dags. Það er um veislu, sem klúðraðist, en fór þó betur en á horfðist. Sú veisla varðar okkur, er eiginlega um okkur og líka veislusjálf okkar.

Guðspjall veislunnar

Á hverjum messudegi er ákveðinn guðspjallstexti, sem prestunum er ætlað að lesa og leggja út af. Textarnir eru tengdir því hvar við erum stödd á árinu. Núna erum við í græna belti kirkjuársins eins og sést á messuskrúðanum. Við hugum að því sem er grænt, lýtur að vexti okkar og gerir okkur heil.

Textinn er úr Lúkasarguðspjalli, sem við getum alveg kallað guðspjall veislunnar. Át og drykkja, veislur og partí einkenna þetta guðspjall. Mér telst svo til að 32 sinnum sé þar rætt um máltíðir eða veislur. Jesús sækir samkvæmi og heldur þar margar ræður. Það eru ekki skálaræður eða athyglissjúkar mér-um-mig snakkræður, heldur djúpsæknar mannlífsgreiningar og tilvistarhugleiðingar.

Boðið mikla

Jesús segir dæmisögu um veislumann, sem hefur boðið fjölda fólks. Svo þegar komið er að veisludegi er þjónn sendur til að kalla til gleðskaparins. En þá upphefst söngur afsakana. Einn er búinn að kaupa landareign, sem hann þarf að huga að, annar hefur keypt sér fína dráttarklára, sem þarf að sinna, einn var nýkvæntur og telur sig ekki eiga heimangengt. Enginn hörgull er á undabrögðum. Veislumaðurinn skilur hina sáru staðreynd, að gestirnir vilja ekki koma. Hvað er til ráða? Jú, fyrst gestirnir koma ekki, skal þeim boðið, sem annars hefðu ekki komið. Þjónninn fer því af stað að nýju og kallar af götum og torgum, húsið fyllist af fátækum, fötluðum, blindum og höltum.

Það getur verið sárt, ef enginn vill koma í samkvæmi. Ég hitti einu sinni mann, sem bauð í partí sem enginn vildi sækja. Hann stóð svo heima og beið en varð æ slegnari og varð fyrir djúpu áfalli. Alla tíð síðan hefur hann verið bitur vegna þessa atburðar, sem særði hann. Saga guðspjallsins er því ekki aðeins til í Biblíunni, heldur í raunlífinu í kringum okkur!

Hverjum ætlað?

Dæmisögur eru margbrotnar og túlkunarmöguleikar því margir. Guð má skilja sem veislustjóra, er býður veröld til veislu, komu Guðsríkisins í persónunni Jesú Kristi. Heimurinn getur verið veislusalur með öllum gæðum þessa heims. Veislan er útvalinna, sem ekki vilja og því er öðrum boðið. Ein túlkunarútgáfan er að flokkur Gyðinga og hugsanlega öll hin gyðinglega þjóð hafi hafnað boði Krists og því verði öðrum hópum og þjóðum boðið. Þetta var nærtæk túlkun á fyrstu árum og öldum kirkjunnar. Svo er sagan líka áminning til kirkjueigenda allra alda, að enginn einn hópur eða einstaklingar eiga kirkjuna. Kirkjan er Guðs en ekki fólks. Kirkjan er veislusalur himins í heimi en ekki tæki sérgóðra manna.

Guð stendur með þeim sem líða

Nútímaprédikarar, sem aðhyllast einhverja pólitíska eða sértæka túlkun guðspjallsins geta síðan lagt svo út, að Guðsveislan sé fyrir hina fátæku og kúguðu. Kirkja Krists hefur alla tíð tekið alvarlega áminningu um, að það voru hin vanvirtu, sem voru boðin. Kirkjan hefur vitað, að Jesús Kristur vitjaði þeirra, sem voru lágstétt samfélagsins. Það hefur verið sístætt áminningarefni, að Guð stendur alltaf við hlið þeirra sem líða, eru harmi slegin eða líða skort.

Af hverju er hjálparstarf á dagskrá allra kristinna safnaða í heiminum? Af hverju er vestrænt samfélag, sem notið hefur kristins boðskapar um aldir, svo upptekið af mannréttindum, frelsisboðskap, heilsu- og mannfélags-bótum? Það er ekki síst vegna þess, að Jesús elskaði, boðaði kærleika og bauð til veislu. Hann bauð og býður öllum, í hvaða ástandi sem þeir eru og hvaða stöðu sem þeir skipa.

Gestaboðið mikla

Gestaboð Babette er ein af uppáhaldsbókum mínum. Hún er um veislu, ótrúlegt máltíðarkraftaverk. Karen Blixen, höfundurinn, dregur upp mynd af söfnuði í fjarðahluta Noregs. Gamli presturinn var fallinn frá og söfnuðurinn var deyja innan frá. Fólkið, sem áður glóði í andanum, var farið að taka út elli og ergi hvert á öðru. Prestsdæturnar reyndu eins og þær gátu að halda glóð í hugsjónum hins látna föður þeirra og halda samskiptum fólks þokkalegum. Þær færðu ýmsar fórnir fyrir málstaðinn og neituðu m.a.s. biðlunum, sem vildu eiga þær!

Svo tóku þær að sér flóttakonu sunnan úr álfu. Sú hét Babette og vildi gjarnan sjá um eldhúsverkin. Eftir fjölda ára og frábæra matreiðslu vann sú franska stóra vinninginn í lottóinu. Þegar systurnar héldu, að hún myndi nú fara frá þeim varð kraftaverk. Alla peningana notaði Babette til að kaupa besta hráefnið úr matarkistu Frakklands. Svo var hún lengi að undirbúa veislu og öllum vinunum úr söfnuðinum var boðið. Þau voru þó áhyggjufull, enda höfðu þau tamið sér aðhald í mat og drykk og höfðu raunar mestu óbeit á heimsins lystisemdum. Lifandi skjaldbaka, allt vínið og ókunnuglegt hráefnið skelfdi hin lítt veraldarvönu.

Englakaffi og undrið við borðið

Svo rann veisludagurinn upp. Tólf settust að borðum, ólíkt fólk, með margt óuppgert í farangri áratuganna. Matarréttirnir voru bornir á borð einn af öðrum. Smám saman rann upp fyrir veislugestum, að þau nutu einstakrar máltíðar. Gamall, sænskur hershöfðingi varð svo uppnuminn, að hann fór að tala um undrakokkinn í matargerðarmusterinu Englakaffi, Café Anglais, í París.

Það var sem himininn opnaðist og englar vitjuðu þeirra, sem sátu til borðs. Dýrðarsýnir fylltu augu, undrabragð munna, ilmur nef og sætleg speki eyrun. Sálir og líkamar þessa hnípna fólks, sem hafði komið með hálfum huga, fylltust af einhverjum dásamlegum unaði. Hinn biblíulegi boðskapur fékk nýja vídd: “Elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast“ (Sálmur 85.11). Við borðið varð kraftaverk. Babette notaði ekki aðeins aleiguna, ævintýralega fjárupphæð til að kaupa hráefni, heldur einnig alla þekkingu sína, enda var hún ofurkokkurinn á Englakaffi í París. Hún rauf múra milli fólks, opnaði leiðir að hjörtum og sýndi nýja vegi að undri lífsins.

Karen Blixen skildi hinn kristna boðskap, þekkti drama borðsins og hinnar dýrkeyptu, guðlegu “sóunar” og fórnar. Þetta færði hún í búning sögunnar um veisluna miklu. Öllu þessu er síðan til skila haldið í myndinni um Babetteveisluna, þó mér finnist nú reyndar bókin betri! Lesið bókina til að fræðast um kristin veisluskilning!

Borðið í kirkjunni

Í flestum kirkjum heimsins er borð. Því er oftast komið fyrir miðju kirkjurýmisins eins og hér í Neskirkju. Við köllum það altari. Af hverju borð? Jú, vegna þess, að Jesús notaði máltíðir til að vera með fólki, tala við það, miðla þekkingu og fá það til að taka ákvörðun til góðs og lífs.

Við höfum flest tekið þátt í miklum veislum. Við getum skilið mikilvægi borðsins fyrir hið góða líf, þegar við höldum á vit bestu minninga okkar úr uppvexti eða hugsum um fjölskyldur, sem hafa dafnað. Þegar lífið er farsælt og sátt ríkir borðum við saman. Þegar okkur langar til að gleðjast með fólkinu okkar efnum við til veislu og allir koma og fagna. Það er slíkt samfélag, sem kirkjunni er ætlað að vera í heiminum. Kirkjan er veislusalur. Fólkinu, sem kemur í hús Guðs er boðið til borðs, boðið til gleðskapar himins. Kristindómurinn er átrúnaður borðsins ekki síður en orðsins. Kristnin er veislutrú.

Ertu veislubarn?

Jú þetta er skiljanlegt og rétt. En kannski ertu hættur eða hætt að sækja veislur og mannfögnuði, af því þér leiðist yfirborðsmennskan. Kannski fyllir þig sorg. Áttu þá erindi í veislu? Getur þú lagt depurð á veisluborð?

Þá erum við komin að því hvað veisla lífsins er. Okkur hefur aldrei verið heitið, að við gætum dansað í gegnum lífið eins og við værum í ævilöngum kokteil. Við verðum fyrir áföllum, gleðimálum, eignumst og missum, breytumst, eldumst og endurnýjumst. En erum við veislutæk, þegar við erum ekki í stuði og erum niðurdregin? Hið stórkostlega er, að Guð býður okkur hvernig sem við erum. Það sem meira er, við megum koma með allan pakkann og leggja með okkur á borð. Ef það eru gleðiefni þá verða þau til góðs. Ef við leggjum vonbrigði á borð þá mun Guð blessa þau og gera gott úr. Ef við erum döpur mun Guð nota það til að skerpa einhvern réttinn og alveg örugglega er hægt að nýta.

Þér er boðið í veislu. Það er ekkert venjulegt partí því gestgjafinn er natinn, elskulegur og umburðarlyndur. Svo notar hann það sem þú ert og kemur með og leyfir þér og þínu að efla og bæta. Þér er boðið. Jesús Kristur býður okkur öllum til veislu í orðum guðspjallsins. Viltu þiggja boðið eða áttu bara þær afsakanir, að þú hafir keypt bíl, hús, eða sért í giftingarhugleiðingum?

Veislustjóri himinsins býður til veislu hér á eftir í hinni margþættu táknmáltíð altarisgöngunnar. Við borð himins og jarðar gerast enn meiri undur en í gestaboði Babette. Þar kemur Guð sjálfur, brýtur brauð og ber fram vín, til að þú fáir að heyra, skynja, lykta og upplifa að þú ert velkomin(n) og þér er fagnað af Guði.

En hvernig ertu hið innra? Allt er til reiðu, Guð hefur útbúið krásir í náttúrunni, velsæld daganna, gefur þér fjölskyldu og ramma og kraft til að lifa þrátt fyrir áföll. Guð á eilífð og skapar þér tíma, býr þér borð til að þú megir lifa. Má bjóða þér að lifa gleðina hér og nú og ávallt. Kemurðu? Kemurðu til sjálfrar þín og sjálfs þín? Kemurðu til Guðs? Kemurðu til gleðinnar? Þú átt völina hvern dag gagnvart lífsboðinu. Carpe Diem.

Amen.