Andi hinna sjö safnaða

Andi hinna sjö safnaða

Þriggja arma ljósastjakarnir tveir sem gefnir voru til kapellu Háskóla Íslands 1940 eru komnir aftur. Þeir voru í viðgerð. Dag nokkurn fyrir tveim árum datt annar í sundur. Þegar að var gáð kom í ljós að þeir voru báðir ryðgaðir að innan í svo miklum mæli að þeim var ekki lengur treystandi til að halda uppi ljósinu. Þeir voru settir til hliðar.
fullname - andlitsmynd Kristján Valur Ingólfsson
07. desember 2005
Flokkar

Engli safnaðarins í Efesus skalt þú rita: Þetta segir sá sem heldur á stjörnunum sjö í hægri hendi sér, sá sem gengur á milli gullstikanna sjö: Ég þekki verkin þín og erfiðið og þolgæði þitt og veit, að eigi getur þú sætt þig við vonda menn. Þú hefur reynt þá, sem segja sjálfa sig vera postula, en eru það ekki, og þú hefur komist að því, að þeir eru lygarar. Þú ert þolgóður og byrðar hefur þú borið fyrir sakir nafns míns og ekki þreytst. En það hef ég á móti þér, að þú hefur afrækt þinn fyrri kærleika. Minnst þú því, úr hvaða hæð þú hefur hrapað, og gjör iðrun og breyttu eins og fyrrum. Að öðrum kosti kem ég til þín og færi ljósastiku þína úr stað, ef þú gjörir ekki iðrun. En það mátt þú eiga, að þú hatar verk Nikólaítanna, sem ég sjálfur hata. Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar, honum mun ég gefa að eta af lífsins tré, sem er í Paradís Guðs. Þannig hljóðar hið heilaga orð, en sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það. Amen. Opb. 2:1-7

Þriggja arma ljósastjakarnir tveir sem gefnir voru til kapellu Háskóla Íslands 1940 eru komnir aftur. Þeir voru í viðgerð. Dag nokkurn fyrir tveim árum datt annar í sundur. Þegar að var gáð kom í ljós að þeir voru báðir ryðgaðir að innan í svo miklum mæli að þeim var ekki lengur treystandi til að halda uppi ljósinu. Þeir voru settir til hliðar. Síðar voru þeir settir í viðgerð. Nýtt og heilt kom í stað þess sem ónýtt var.

Og sjá! Þeir eru sem nýir.

Nú standa þeir eins og áður var, vitna hvor um sig um heilaga þrenningu, og sinn til hvorrar handar róðukrossinum mynda þeir hina heilögu tölu sjö. En talan sjö er sett saman úr tölu jarðar, sem er fjórir og tölu himnanna, sem er þrír.Orðið varð hold. Hið himneska steig niður til jarðar og gefur heiminum líf. Talan sjö er tala lífsins.

* * *

Kæri söfnuður.

Í fyrsta versi hvers hluta 2.og 3.kafla Opinberunarbókarinnar sem tiltaka hvað rita skal til safnaðanna sjö, er myndlíking Jesú Krists.

Í dag hljóðar hún svo: Þetta er sá sem heldur á stjörnunum sjö í hægri hendi og sá sem gengur á milli gullstikanna sjö.

Áður er búið að kynna það fyrir lesendum Opinberunarbókarinnar hvað átt er við með þessum stikum og stjörnum svo að menn fari nú ekki að rugla þessu saman við stikurnar í musteri Salómons, því að þær voru tíu.

Í Op. 1.20 segir:

Þessi er leyndardómurinn um stjörnurnar sjö, sem þú hefur séð í hægri hendi minni, og um gullstikurnar sjö. Stjörnurnar sjö eru englar þeirra sjö safnaða, og ljósastikurnar sjö eru söfnuðirnir sjö.

Bréfin til safnaðanna sjö eru öll byggð upp með sama hætti.

Mannssonurinn kynnir sig. Hann gefur söfnuðinum einkunn, og nefnir styrkleika hans og veikleika. Hann gefur ráð og fyrirheit.

Þó að hinir sjö söfnuðir séu allir á svipuðum slóðum þar sem nú er Tyrkland, eru þeir ekki valdir einungis vegna þess, heldur eru þeir dæmi um hina ólíku söfnuði Krists um allan heim.

Hann sem talar í textanum, talar myndugri rödd.

Röddin er í senn gagnrýnin og styrkjandi.

Þetta er rödd hins himneska konungs sem talar til kirkju sinnar á jörðu sem í hinum ýmsu söfnuðum á til í senn ákafa og stöðnun, trúfesti og vanrækslu, reglufestu og óreglu, staðfasta játningu og hálfvelgju.

Hér talar hann til safnaðarins í Efesus sem hefur nokkur sérstök einkenni. Hann nefnir dugnað og ákveðni, þolgæði og þolinmæði, kjark til að taka afstöðu og ekki síst andlega ögun sem er svo mikils virði gagnvart þeim sem sækja að með annarlegar kenningar. En þetta allt er samt lítils megnugt ef kærleikann vantar og glóð elskunnar er kulnuð. Þá slokknar á ljósastikunni.

Ljósastika sem ekki ber lengur ljósið er sett til hliðar. Henni verður fleygt, nema einhver freisti þess að gera við hana, og hún hafi ekki verið eyðilögð endanlega. Táknið um hið eyðileggjandi í textanum eru hinir svokölluðu Nikolaiitar. Enginn veit lengur með vissu hverjir það voru. Þeir voru varasamir, þeir voru ógnun, en enginn man þá lengur.

Á öllum tímum koma fram einstaklingar og hópar sem með kenningum sínum og lífi geta verið hættulegir venjulegu safnaðarfólki. En þeir hverfa allir. Og nýir koma í staðinn. Enginn kristinn maður sleppur við glímuna við það sem spillir, tælir og villir.

En kristinn maður lætur það sem spillir ekki vera inntak lífsins. Við gerum ekki heldur syndina að aðalatriði, heldur fyrirgefninguna.

Rétt eins og við gerum ekki óhreinindin sem við fjarlægjum í jólahreingerningunni að aðalatriði jólaundirbúningsins, heldur hin hreinu gólf og veggi sem hæfa honum sem kemur og er. Honum sem einn er tilefni hátíðarinnar, og talar myndugri röddu og er Drottinn og frelsari, Jesús Kristur. Því að aðeins hann sem heldur á stjörnunum sjö gefur ljósið á ljósastikunni.Við erum stikan. Nema þegar við erum ljósið, þvi að hann er stikan.

Gjör iðrun. Breyttu eins og fyrrum. Af kærleika.

Gjör iðrun. Og það sem er ryðgað og ónýtt verður nýtt.