Tímaspan

Tímaspan

Ekki bara finnum við stundirnar fæðast og deyja, þær flýta sér æ meir við þá iðju eftir því sem á ævi okkar sjálfra líður.

Það var hátíðleg stund í Íþróttahúsinu við Njarðvíkurskóla í gær, Ljónagryfjunni, þar sem saman kom fjöldi afreksmanna í íþróttum hér í þessum bæ. Tilgangur þessarar samkomu var að verðlauna þau sem orðið hafa Íslandsmeistarar á liðnu ári og sá hópur er vægast sagt fjölmennur. Hátt í þrjúhundruð manns, flestir ungir að árum, þáðu viðurkenningu fyrir árangur þennan. Þarna kenndi ýmissa grasa á hinum fjölskrúðuga akri íþróttanna og er það mikið þakkarefni hversu vel hefur tekist til við að efla ungt fólk til árangurs á þessu þýðingarmikla sviði.

Uppskeran og ræturnar

Þar sem við horfðum á þessa ungu einstaklinga sem röðuðu sér upp með verðlaunagripi sína var ekki laust við að sú hugsun sækti á hugann hversu mikið býr að baki þeim árangri sem þarna var verðlaunað fyrir. Þrjú hundruð manns röðuðu sér upp til myndatöku og ég spurði sjálfan mig að því þar sem ég horfði yfir þennan fríða hóp – hversu margar stundir æfinga liggja að baki því að ná að temja svo huga og líkama með þeim árangri sem þarna blasti við. Og að baki þessum mikla fjölda sem er fremstur á Íslandi í sínum flokki, hversu margir aðrir knýja þar dyra og vilja ná þeim sama árangri.

Athöfn þessi fór fram á sjálfum gamlársdegi, þeim degi sem við hugleiðum hvað mest gang tímans og þann óstöðvandi straum andartaka sem ber okkur áfram frá vöggu til grafar. Þetta var einmitt fagnaðarstund þeirra sem hafa varið tíma sínum til ákveðinna verka og eiga með tímanum eftir að ná enn lengra á sínu sviði, ef Guð lofar. Þessi einföldu sannindi, að það skiptir máli hvernig við verjum tíma okkar, eru stundum eins og tugga sem margendurtekin er. En í þeim leynist sá veruleiki sem við eru ofin þétt utan um tilvist okkar. Það skynjum við svo sterkt á áramótum.

Tímaspan

Já við erum ofurseld valdi tímans. Ekki bara finnum við stundirnar fæðast og deyja, þær flýta sér æ meir við þá iðju eftir því sem á ævi okkar sjálfra líður. Tíminn líður ekki mjög hratt hjá þorra þeirra sem tóku við viðurkenningunni í gær.

Í fyrstu líða árin hægar en þau gera nú á fullorðinsárum. Tíminn frá hausti til vors á æskuárum ber með sér merk tímamót, nýja upplifun og reynslu, ný kynni sem jafnvel vara um alla framtíð. Svo dregur úr hinum merku viðburðum og í raun er ekki að undra þótt okkur finnist tíminn líða hraðar eftir því sem árum fjölgar. Þetta ár sem nú er nýhafið verður fyrir tveggja ára barni í árslok helmingur ævinnar. Fyrir tvítugri manneskju verður það aðeins 5% og fyrir þeim fertuga aðeins tvö og hálft %.

Það er huggun fyrir okkur sem komin erum á miðjan aldur að hvert ár sem líður verður æ minni hluti ævinnar! Það er því ekki að undra þótt það flýti sér að líða í aldanna skaut og komi aldrei til baka nema í brotakenndum minningum. Svo margt hverfur og deyr og við finnum það í endurskini hins liðna að sumt hefur glatast sem geymdi mikla fjársjóði.

Sá sem nefndur var Jesús

Á nýársdegi lesum við stysta guðspjall kirkjuársins: „Þegar átta dagar voru liðnir skyldi umskera hann og var hann látinn heita Jesús eins og engillinn nefndi hann áður en hann var getinn í móðurlífi.“

Þarna lesum við um æsku sjálfs frelsarans og það hæfir á upphafsdeginum að staldra við þá spurningu um hvað það er sem gerir manneskju að því sem hún er. Átta daga gömlum var honum gefið nafn. Það er órjúfanlegur þáttur í því að vaxa úr grasi og verða að manni. Tíminn er framundan í lífi barns og hann er ókominn rétt eins og þær stundir sem tilheyra árinu 2014. Tíminn er framundan eins og raunin er hjá því æskufólki sem fagnaði merkum árangri á liðnu ári í sjálfri Ljónagryfjunni í gær.

Hvernig búum við að þeim sem standa á þeim stað í tilvist sinni? Hvernig tryggjum við að stundirnar verði vel nýttar til þroska og uppbyggingar? Hvað gerum við svo að fólk megi vaxa að visku og náð, eflast og styrkjast við hverja raun en taka sigurstundum með æðruleysi og auðmýkt? Já, hvernig tryggjum við það að þeir sem hæstir tróna, gleymi ekki sínum minnsta bróður og hlúi að þeim sem þurfa á kröftum þeirra að halda?

Því það blasir við okkur að sá sem nefndur var nafninu Jesús hafði sérstaklega hag þeirra sem ungir voru í huga og kirkjan hans hefur allar götur unnið að því marki að berjast fyrir rétti barna á þeim mörgu sviðum sem slíks er þörf.

Mandela

Eitt þeirra stórmenna sem hæst hafa risið á liðnum árum en kvaddi nú á síðasta ári er Nelson Mandela. Sjálfur hefur hann lýst þeim kjörum sem honum voru búin í æsku. Hvaða leiðir stóðu barni með svartan hörundslit opnar í Suður Afríku aðskilnaðarstefnunnar? Ekki bauð hið opinbera skólakerfi upp á mikið, nei það var ekki í anda þeirrar kynþáttahyggju að bjóða börnum blökkufólks upp á menntun sem gerði þeim kleift að rísa upp til forystu og breyta því kerfi sem mismunaði fólki svo. Sjálfur hefur hann lýst því hvert foreldrarnir gátu leitað með börnin sín. Það voru skólarnir sem hinir kristnu söfnuðir starfræktu og hann fullyrðir að án þeirra hefði hann aldrei orðið að þeim manni sem hann varð.

Hið sama gildir um okkar samfélag. Hátt í þrjú hundruð Íslandsmeistarar sem koma saman í íþróttahúsi eru ekki aðeins til marks um vel nýttar vökustundir til æfinga og markvissrar uppbyggingar. Þeir eru líka afrakstur samfélags sem byggir á kristnum grunni og þetta samfélag setur börnin í fyrsta sætið. Hér þurfa kristnir söfnuðir ekki að vinna slíkt starf í eigin krafti við erfiðustu aðstæður eins og þar syðra og miklu víðar í hinum stóra heimi. Hér hefur samfélag og kirkja unnið saman að því að byggja upp og efla þá velferð og þá menntun sem við viljum að ríki í þessu landi okkar. Hið sama á við um nágrannalöndin en þar er bein þátttaka kirkjunnar á því sviði reyndar miklu meiri en hjá okkur á Íslandi.

Tímamót

Já, nú stöndum við á tímamótum eins og svo oft í lífi okkar. Stundum eru þau tímamót augljós eins og á sjálfum nýársdeginum. Við getum auðveldlega séð hvað tímanum líður og þótt þessi morgunn sé í engu frábrugðinn öðrum morgnum þar sem dagur tekur við af nóttu er hann engu að síður sá fyrsti í fyrsta mánuði nýs árs. Stundum eru tímamótin ekki eins skýr. Það er ekki alltaf ljóst hvert við stefnum og ákvarðanir sem teknar eru í hugsunarleysi geta haft mikil áhrif.

Á tímum mikilla breytinga eru slík mót nánast við hvert fótmál. Og við biðjum þess á tímum stórra breytinga að við megum áfram lúta hugsjónum þess sem gefið var nafnið Jesús okkur öllum til blessunar og farsældar í þessu lífi. Allt til þess að samfélag okkar megi þroskast á Guðs ríkis braut eins og við syngjum um hér í lok þessarar athafnar.