Nóttin var sú ágæt ein

Nóttin var sú ágæt ein

Engin nótt er jafn ágæt og þessi. Kæri söfnuður, það er ekki bara jólakvæði Einars í Eydölum sem kennir okkur það. Veruleiki jólanna sem við erum snortin af með einum eða öðrum hætti eða viljum láta snerta okkur og hreyfa við okkur í þeim tilgangi að hin djúpa merking þeirra, kraftur þeirra og blessun fái að hafa áhrif á okkur og verða hluti af okkur, hann kennir okkur það.

En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs,að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð. En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari.Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi. En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar.Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir, en engillinn sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu.

Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu:

Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á. Lúk 2.1-14

Engin nótt er jafn ágæt og þessi.

Kæri söfnuður, það er ekki bara jólakvæði Einars í Eydölum sem kennir okkur það. Veruleiki jólanna sem við erum snortin af með einum eða öðrum hætti eða viljum láta snerta okkur og hreyfa við okkur í þeim tilgangi að hin djúpa merking þeirra, kraftur þeirra og blessun fái að hafa áhrif á okkur og verða hluti af okkur, hann kennir okkur það.

Við viljum vera veitendur á jólum. Við viljum gefa. Við fögnum yfir gleði þeirra sem þiggja það sem við höfum gefið. Við viljum vera veitendur.

En við viljum líka vera hverjum vanda vaxin, ráða við verkefnin, standa uppi sem sigurvegarar.

Um það er ekkert nema gott að segja svo lengi sem við gleymum því ekki að við erum nú samt þiggjendur og eigum ekkert sem máli skiptir nema af því að við höfum þegið það.

En það er miklu meiri list að vera þiggjandi en veitandi.

Frammi fyrir undri jólanna erum við ekkert nema þiggjendur. Annars förum við á mis við það undur. Aðeins þiggjandinn fær meðtekið hvers vegna nóttin helga er ágætust allra.

Þér gjöri' eg ei rúm með grjót né tré, gjarnan læt ég hitt í té, vil ég mitt hjartað vaggan sé, vertu nú hér, minn kæri. :,: Með vísnasöng ég vögguna þína hræri. :,:

Kvæðið af stallinum Kristí, kallaði höfundurinn, Einar í Eydölum, þennan jólasálm sem við höfum nú sungið. Og á meðan við sungum gengum við hingað og sóttum okkur kerti í þessa frumstæðu jötu með heyinu og við tendruðum ljós á því af á skírnarkertinu eða páskakertinu stóra hér við hliðina á jötunni og skírnarfontinum. Þannig tengdum við saman söng og athöfn í þeim tilgangi að nálgast enn betur merkingu hans og vera sjálf hluti þess atburðar sem jólin eru.

Við getum auðvitað ekki fundið út eftir öll þessi ár hvert var tilefni ljóðsins hjá höfundinu annað en bara jólahátíðin sjálf..En við megum auðvitað koma með tilgátu.

Það má hugsa sér að hann hafi sérstaklega verið með í huga eitt vers í guðspjallsfrásögn Lúkasar. Í framhaldinu af jólaguðspjallinu sem við vorum að hlusta á segir svo.

Þegar englarnir voru farnir frá þeim til himins, sögðu hirðarnir sín á milli: Förum beint til Betlehem að sjá það, sem gjörst hefur og Drottinn hefur kunngjört oss. Og þeir fóru með skyndi og fundu Maríu og Jósef og ungbarnið, sem lá í jötu. Þegar þeir sáu það, skýrðu þeir frá því, er þeim hafði verið sagt um barn þetta. Og allir, sem heyrðu, undruðust það, er hirðarnir sögðu þeim. En María geymdi allt þetta í hjarta sér og hugleiddi það. Og hirðarnir sneru aftur og vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það, sem þeir höfðu heyrt og séð, en allt var það eins og þeim hafði verið sagt. (Lk. 2.15-20)

Það er þetta eina sérstaka vers á milli versanna um hirðana.

Eitt vers um Maríu. Það er þarna eins og ákveðið mótvægi við þá sérstöku athygli sem hirðarnir fá þegar þeir hlaupa út í myrkrið að segja frá. Og þó er ekkert annað sagt um Maríu en það eitt að hún geymdi allt þetta í hjarta sér og hugleiddi það.

Hvað þýðir það?

Einar í Eydölum þekkti í það minnsta þrjár þýðingar jólaguðspjallsins; Odds testamenti, Guðbrandsbiblíu og Lúthersþýðinguna. Hvað merkir það að geyma í hjarta sér? Oddur segir að María hafi rótfest þetta allt í hjartanu. Guðbrandur vissi hvað stóð í gríska textanum: Þar stendur:symballein: Það getur þýtt að draga saman, bera saman eða fella saman í eitt. Guðbrandsbiblían segir : ...og bar saman í sínu hjarta.

Í hjarta sínu ber hún saman. Hún fellir saman í eitt allt þetta einkennilega og ósamstæða sem hún hefur heyrt og séð. Hún fellir það saman í hjarta sér af því að það var áður sem ein heild í huga Guðs og hjarta hans. Að bera saman í hjarta sínu er góð tillaga til að útskýra hvað það er að hugleiða og íhuga.

Lúther notar í sinni þýðingu orðið: bewegen. Það er orð með djúpa merkingu. Það er eitthvað sem hreyfist eða hreyfir við manni. Það snertir mann. Sumir þekkja þetta orð best úr tónlistinni: Bewegt. Þetta skaltu flytja bewegt, ekki með góðri hreyfingu, heldur íhugandi, - svo að það hræri við þér og snerti þau sem heyra. Orðið merktir því í þessu tilfelli að hræra í hjarta sér (bewegen) og fella saman í eitt í hjartanu það sem fyrst kemur að utan og kemur að okkur:

Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.

Að hræra vögguna í sálminum, að vagga í svefn, að rugga barninu, að róa fram í gráðið, er myndræn og barnsleg lýsing þess sem gerist. Þar er barn í faðmi móður og móðirin íhugar meðan hún syngur barnið í svefn eða vaggar því. Í huga hennar og hjarta er barnið sjálft, elskan sem hún ber til þess, vonin um það sem verður og kannski svolítill kvíði ,,fyrir huldri framtíð”.

Í Betlehem var það barnið fætt, sem best hefur andar sárin grætt, svo hafa englar um það rætt sem endurlausnarinn væri. :,: Með vísnasöng ég vögguna þína hræri. :,:

En að hræra vögguna með vísnasöng er miklu meira en að rugga henni, að hræra við henni eða snerta hana. Að hræra vögguna með vísnasöng er að hugleiða hana, að íhuga vögguna um leið og ég syng og með því að ég syng. Ég dvel við vögguna, ég set mig við hlið hennar. Þessi jata er jata Jesúbarnsins og hann er hér. Ekki tvö þúsund ár í burtu í tímanum, heldur hér.

Og ég hugleiði með Maríu.

Fjármenn hrepptu fögnuð þann, þeir fundu bæði Guð og mann, í lágan stall var lagður hann, þó lausnarinn heimsins væri. :,: Með vísnasöng ég vögguna þína hræri. :,:

Þér gjöri' eg ei rúm með grjót né tré, gjarnan læt ég hitt í té, vil ég mitt hjartað vaggan sé, vertu nú hér, minn kæri. :,: Með vísnasöng ég vögguna þína hræri. :,:

Sá sem hrærist er hrærður og er snortinn. Það er eitthvað sem hreyfir við okkur með þessum sérstaka hætti eins og þegar óvænt gleðifregn berst. Fregn sem er allt öðru vísi en sú sem við væntum. Það verður sem við þorðum ekki að vona. Skyndileg gleði sem hrekur burtu kvíða eða ótta og er eins og ljúf snerting. Hún er eins létt andvarp, tárin koma í augnhvarmana, það slaknar á allri spennu líkamans og öll skilningarvit galopnast. Ég tek á móti. Öll vera mín, líkami, sál og andi tekur á móti. Það er eins og það sem Hallgrímur kallar Guðs anda hræring hrein.

Á þig breiðist elskan sæt, af öllum huga' eg syndir græt, fyrir iðran verður hún mjúk og mæt, miður en þér þó bæri. :,: Með vísnasöng ég vögguna þína hræri. :,:

Kæri söfnuður. Veitendur og gefendur er ekki hið sama. Það var ekki rúm í gistihúsi. Gistihús er staður sem sér um veitingar. Gistihús guðspjallsins megnar ekki að þiggja. Þess vegna hlýtur það að vísa frelsaranum frá.

Þiggjendur taka á móti. Og þiggjendur verða gefendur.

Þér gjöri' eg ei rúm með grjót né tré, gjarnan læt ég hitt í té, vil ég mitt hjartað vaggan sé, vertu nú hér, minn kæri. :,: Með vísnasöng ég vögguna þína hræri. :,:

Vertu nú hér, minn kæri.

Kristján Valur Ingólfsson er verkefnisstjóri á Biskupsstofu og lektor við Guðfræðideild Háskóla Íslands. Þessi prédikun var flutt í Langholtskirkju á jólanótt, 24/12/2003.