Hvunndagshetjur

Hvunndagshetjur

Þegar heimurinn lyftir þeim upp og magnar sem hafa náð tangarhaldi á öllum auði og allri athygli, þá beinir Biblían sjónum okkar að fulltrúum hinna, þeim sem að öðrum kosti hefðu fallið í skuggann og horfið í djúp gleymskunnar. Já, fyrir Guði er manneskjan dýrmæt óháð því hvert kastljósið beinist. Og þá um leið birtist okkur þessi lífsspeki og jafnvel leiðtogasýn sem boðar gerólíka afstöðu til þess að veita forystu og lifa verðugu lífi.

Þegar hversdagurinn kemur aftur inn í tilveru okkar minnir samfélagið á lífveru sem varpar öndinni léttar. Að baki eru yfirspenntir tímar. Hátíðin með öllu því sem henni fylgir er að sönnu krefjandi. Fræðin sýna að gleðin getur gert fólk stressað og uggandi yfir því að ná ekki að klára allt í tæka tíð. Hamingjan er vissulega mikil en á tímamótum sem þessum erum við minnt á þau sannindi að öllu er afmarkaður tími. Lestirnir eru oftar en ekki „of mikið af því góða“ eins og við segjum stundum.


Hversdagur

 

Og þá er runninn upp þessi dagur – fyrsti sunnudagur eftir þrettándann, fyrsti sunnudagur í því sem við getum kalla hversdagur eða hvunndagur. Hvítur litur hátíðarinnar hefur nú vikið fyrir þeim græna sem minnir okkur á það hlutverk okkar að vaxa og þroskast hverja vökustund lífsins.

 

Mér þykir það því tilhlýðilegt eftir allar hátíðarræðurnar að gefa hinum fábrotna meirihluta ársins svolítið gildi og jafnvel lof. Á því eru að sönnu margar hliðar.

 

Birtingarmyndir hversdagsins eru margar og tengslin eru það að sama skapi. Við getum jafnvel yfirfært hann á manngerðir. Hátíðin – er það fólkið sem ratar sífellt inn í sviðsljósið? Það birtist okkur á síðum miðlanna, það skálar á góðum stundum, svamlar í sjónum á suðrænum ströndum og hefur sankað að sér meiri auði en flestir aðrir. Já, sá hópur er vissulega ekki stór en tölurnar sýna að svo sem fáein prósent af mannkyni eignast sífellt stærri skerf af hinum sameiginlegu verðmætum. Sú þróun er að sönnu uggvænleg.

 

Já, hversdagsfólkið eða eins og Auður Haralds kallaði það forðum daga – Hvunndagshetjurnar – fá ekki sama rýmið í fréttum né heldur þegar kemur að því að hampa takmörkuðum lífsgæðum. Rétt eins og meirihluti daganna í árinu eru þessi fábrotnu – er auðvitað yfirgnæfandi hluti mannkyns fólkið sem lítið berst á og er ekki hampað í sífellu.


Hvunndagshetjur

 

Það er svo áhugavert að þetta er einmitt fólkið sem fær hvað mest svigrúm í Biblíunni. Jú, við eigum vissulega sögur af stórum leiðtogum sem stíga upp úr mannmergrðinni og beina lýðnum á ákveðna braut. En þessir einstaklingar eru þrátt fyrir allt látlausir og jafnan er vísað í breyskleika þeirra og takmörk. Hvergi birtist sú mynd á sterkari hátt en í lífi Jesú Krists. Jatan er í raun hið stóra tákn jólanna, já mitt í allri ljósadýrðinni og ofgnógtinni stendur þessi lági stallur þar sem varnarlaus hvítvoðungurinn hvílir. Og jafnvel enn sterkari myndi mætir okkur á krossinum, þar sem frelsarinn sjálfur mætir manninum. Hrópar út í tómið í niðurlægingu sinni, einsemd og algjöru varnarleysi. En um leið tekur sér stöðu með öllum þeim sem eru undirokaðir í lífinu, finna enga hjálp í mótlæti daganna.

 

Þegar heimurinn lyftir þeim upp og magnar sem hafa náð tangarhaldi á öllum auði og allri athygli, þá beinir Biblían sjónum okkar að fulltrúum hinna, þeim sem að öðrum kosti hefðu fallið í skuggann og horfið í djúp gleymskunnar. Já, fyrir Guði er manneskjan dýrmæt óháð því hvert kastljósið beinist. Og þá um leið birtist okkur þessi lífsspeki og jafnvel leiðtogasýn sem boðar gerólíka afstöðu til þess að veita forystu og lifa verðugu lífi.


Líðandi þjónn

 

Í lexíu dagsins talar spámaðurinn Jesaja til þjóðar sem hafði ekki gengið nógu hægt um gleðinnar dyr. Þau lifðu góðæristíma sem við getum sagt að hafi verið eins og ein samfelld hátíð. Á þeim velmektarárum mótaði yfirstéttin með sér eitrað hugarfar, sérlundað geð og eigingirni þar sem engu var skeytt um þau sem ekki fleyttu rjómann í góðærinu. Þegar elítan mætti til musterisins þá fórnaði hún kálfum og öðrum aligripum á altarið í þeirri von að almættið gæfi þeim meiri velsæld og meiri auð.

 

Spámennirnir voru óþreytandi í andófi sínu við því háttalagi: „Mér býður við brennifórnum ykkar. Sú fórn sem er mér kær snýr að umhyggju ykkar fyrir ekkjunni og munaðarleysingjanum.“ Með öðrum orðum – markmið okkar er ekki það að drottna yfir öðrum, tryggja okkur sæti á fyrsta farrými. Þvert á móti. Tilgangurinn býr í þeim sem hafa orðið undir. Hér er í raun verðmætamatinu snúið á haus.

 

Spámaðurinn boðar komu leiðtoga sem við getum sagt að hafi verið afar ólíkur þeim fögru og frægu sem allt snerist um í þessu umhverfi. Hann talar um útvalinn einstakling og þar gefur hann tóninn fyrir það sem við getum ýmist kallað – Biblíulega leiðtogasýn eða þá í samhengi þess sem fyrr er sagt – óð til hins hversdagslega.

 

Andstæða þess að njóta allsnægta í litadýrð og upphafinni tilveru verður í þessu samengi: þjónustan. Þar liggur tilgangur mannsins og þangað beinir hann sjónum áheyrenda. Með þjónustu mun þessi leiðtogi koma miklum breytingum til leiðar og fylgja fólkinu inn í nýja og betri tíma. „Sá yðar sem vill vera fremstur verði þjónn“ sagði Jesús af öðru tilefni.


Þjónandi forysta

 

Áhugavert er að skoða það hvernig þessi forni texti kemur heim og saman við sjónarmið nútímans þegar kemur að því að veita forystu. Ekkert er nýtt undir sólinni getum við sagt. Löngum hefur leit fólks að leiðtogum beinst að því fólki sem mest fer fyrir og berst á. Það eru þau sem skara framúr og talar í fyrstu persónu eintölu þegar þau láta ljós sitt skína. Stundum verður þar vart við framtíðarsýn, stundum ekki. Stundum er andlagið aðeins leiðtoginn sjálfur, völdin sem sá eða sú rígheldur í, auðlindirnar sem leiðtoginn hefur úr að spila og nýtir oftar en ekki til að kaupa sér stuðning þeirra sem geta gert honum eða henni kleift að sitja sem lengst í stjórnarsætinu.

 

Það er þetta háttarlag sem er höfundum rita Biblíunnar svo hugleikið. Andstæða þess sem sankar að sér völdum og auði er þar ítrekað sett fram og við sjáum dæmi þess í orðum Jesaja spámanns:

 

,,Hann þreytist ekki og gefst ekki upp

uns hann hefur grundvallað rétt á jörðu

og fjarlæg eylönd bíða boðskapar hans."

 

Hér er það auðmýktin er mætir okkur. En hún er ekki auðsveipni eða undirgefni gagnvart öðrum. Nei auðmýktin birtist okkur í því hvernig þessi þjónn er drifinn áfram af hugsjón, af hugmynd um betra líf, betri heim. Við heyrum það hvernig hún birtist í trúfestinni og viðleitninni til að koma á rétti og réttlæti í samfélaginu. Og ekki síður hinu þar sem þessi þjónandi leiðtogi býr yfir úthaldi og þrautseigju sem gerir honum eða henni kleift að ná þessum markmiðum.

 

Sama mætir okkur í texta postulans:

 

„En Guð hefur útvalið það sem heimurinn telur heimsku til að gera hinum vitru kinnroða og hið veika í heiminum til þess að gera hinu volduga kinnroða. Og hið lítilmótlega í heiminum, það sem heimurinn telur einskis virði, hefur Guð útvalið til þess að gera að engu það sem er í metum.“

 

Aftur sjáum við hvernig hinum hefðbundnu gildum er ögrað og okkur er bent á að lífið er margbreytilegra og já, dýpra en margur kynni að halda. Mælikvarðinn er allur annar en sá sem við kynnum að halda í fyrstu. Það sjáum við loks í söguhetju guðspjallsins – Jóhannesi skírara sem birtir okkur tign auðmýktarinnar í þjónustu sinni. Hann lifði fyrir hugsjón sem var stærri og merkilegri en öll sú athygli sem hann gat fengið: „Eftir mig kemur maður sem er mér fremri því hann var til á undan mér.“


Tilgangsríkt líf

 

Þjónusta sem leiðir af sér forystu. Þetta er erindi okkar í dag þegar hversdagurinn mætir okkur eftir ljósadýrð hátíðanna. Völdin eru takmörkuð gæði og auðurinn að sama skapi. Slagsmál um athygli gefa okkur enga lífsfyllingu. Fræðin sýna hversu illa fer fyrir þeim sem  helgar lífi sitt slíkum barningi og sagan geymir ótal dæmi um þær ófarir sem fólk getur ratað í, já heilu samfélögin, þar sem drifkrafturinn er svo ómerkilegur.

 

Því er öfugt háttað með tilgangsríkt líf sem grundvallast á þjónustu og viljanum til að bæta umhverfið. Þegar hinn þjónandi leiðtogi metur störf sín þá spyr hann eða hún ekki um það hversu vel hefur gengið að hrifsa til sín verðmætin. Nei mælikvarðinn er í fólkinu sem leiðtoginn ber ábyrgð á. Verða þau heilbrigðari, frjálsari, sterkari, og sjálf líklegri til að vinna að bættum heim í krafti þjónustunnar? Ef svo er, þá er góðu dagsverki lokið.