Leitin að lömbum Guðs

Leitin að lömbum Guðs

Ég var svo heppin að fá að fara í leitir í haust með Hvítsíðungum og það sem meira er; þetta eru alvöru leitir. Afréttur bænda í Hvítársíðu liggur á mörkum Holtavörðu- og Arnarvatnsheiðar og í þá átt riðum við síðdegis á föstudegi upp með Kjarrá um ægifagurt landslag. Undir kvöld var komið í Gilsbakkasel þar sem leitarmannakofinn er.
fullname - andlitsmynd Elínborg Sturludóttir
16. október 2009

Þverárrétt

„Mamma! Við erum öll lömb Guðs“ sagði sex ára sonur minn mjög spekingslega við mig á dögunum. „Já“ svaraði ég og brosti í kampinn og hugsaði um biblíusögurnar af Davíð konungi og týnda sauðnum sem ég hafði sagt í kirkjuskólanum og sonur minn hafði greinilega hlustað á með meiri athygli en ég hafði gert mér ljóst.

Borgarfjörður er enn vin sauðfjárræktar og á morgun verður „Sauðamessa“ í Borgarnesi.

Ég var svo heppin að fá að fara í leitir í haust með Hvítsíðungum og það sem meira er; þetta eru alvöru leitir.

Afréttur bænda í Hvítársíðu liggur á mörkum Holtavörðu- og Arnarvatnsheiðar og í þá átt riðum við síðdegis á föstudegi upp með Kjarrá um ægifagurt landslag. Undir kvöld var komið í Gilsbakkasel þar sem leitarmannakofinn er. Hvert rúm var skipað og snemma gengið til náða, enda lagt af stað í birtingu næsta dag. Á leiðinni inn að leitarmótum fékk ég kennslustund í staðháttum, kennileitum og sögum af svæðinu. Þegar leit hafði verið skipt og hver maður var farinn sína leið, hófst eltingarleikurinn við féð. Þennan laugardag sannaðist að „oft er betri krókurinn en keldan“.

Í hnakktöskunni var flatbrauð með hangikjöti og heitt te og útsýnið var Eiríksjökull í allri sinni dýrð.

Gengið var yfir Dofinsfjöll, þar sem bein piltsins fundust nærri öld eftir að hann villtist norðan úr Húnavatnssýslum.

Seint um kvöldið, þegar við loksins vorum komin aftur í Gilsbakkasel og löngu komið myrkur, las ég ljóð eftir Guðmund Böðvarsson sem hafði verið hengt þar upp á vegg. Bóndinn og skáldið á Kirkjubóli hafði á undan mér margsinnis náttað í Gilsbakkaseli og líka gengið þá slóð sem ég hafði fetað þennan fagra septemberdag.

Norður í Dofinsfjöllum er fátækleg finnungi vaxin brekka á móti sól. Norðlenskur drengur, villtur um langan veg, valdi sér þar undir barðinu síðasta skjól.

Enginn veit lengur hve lengi gangan var þreytt, lónin og flóarnir vaðnir á ónýtum skóm. Haustþokan gráköld með húminu leggst á eitt. Hljóður er mosinn og tjörnin slettir í góm.

Á sunnudagsmorgni vaknaði ég við það að Fjallkóngur ávarpaði sveitunga sinn og sagði: „Við erum orðnir of gamlir í þetta félagi!“ Og með þeim orðum fórum við, fjórtán leitarmenn, að tína utan á okkur reiðbuxurnar og ullarbolina. Við vorum flest stirð og sum með rassæri og fyrir höndum var langur dagur.

Enn á ný var lagt á hrossin og nú upphófust fyrirstöður, rekstur, bið og á endanum gríðarleg hlaup. Hlaup á eftir sauðum með hross í eftirdragi niður gil og upp gil. Hó! Og aftur hó! Ég gekk á Hvannadalshnjúk 19. júní en það var ekkert á við þetta!

En mikið var það tilkomumikið að sjá fjárbreiðuna liðast niður fjallshlíðina eins og hvítfyssandi foss sem streymir niður gljúfur.

Þegar féð var rekið í gegnum afréttargirðinguna, beið þar múgur og margmenni til að hjálpa til við reksturinn síðasta spölinn niður í Þverárrétt, sem er stærsta fjárrétt landsins.

Þarna var ég, vel ríðandi, drullug upp fyrir haus og rennblaut af svita, og ég fékk kökk í hálsinn og tár í augun því mér þótti þetta svo hátíðlegt. Mér leið eins og mér líður stundum þegar ég geng inn kirkjugólfið á aðfangadagskvöld eða skíri nýfætt barn.

Það kom mér verulega á óvart að finna það og skynja að í þessari leitarferð gekk ég ekki einungis til móts við sauðina, heldur einnig við þær rætur sem ég er sprottin af; íslenskum bændum.

Ég hugsaði um það á leiðinni heim hvað það væri fáránlegt að bændurnir fengju ekki meira en 500 kr. fyrir kílóið af lambakjöti þegar best lætur, þrátt fyrir alla þessa fyrirhöfn.

Nú er ég búin að fylla frystikistuna af lambakjöti og taka 15 slátur með mömmu og ég veit að forfeður mínir þurftu að hafa miklu meira fyrir lífinu en ég og týndu því jafnvel við að eltast við einn sauð sem ráfaði villur vegar á heiðinni.

En Guði séu þakkir fyrir að við erum „lömbin“ hans og hann leitar okkar þegar við höfum villst af leið.