95 kirkjuhurðir

95 kirkjuhurðir

Á okkar dögum snýr siðbót að samviskuspurningum er varða hurðir sem loka dyrum. Það eru ekki bara kirkjudyr, heldur dyr að samfélagi og hjörtum fólks. Þær loka úti fólk á flótta, þær fela sannindi, þær einangra og halda úti straumum breytinga og umskipta.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
27. október 2017

Þegar við göngum til kirkju er óvíst að við veltum því mikið fyrir okkur hvernig kirkjuhurðin lítur út. Klukkur hringja til guðsþjónustu eða athafna og dyrnar eru opnar upp á gátt. Þá fer lítið fyrir flekunum sem annars byrgja dyraopið. Það er helst er við komum að luktum dyrum sem veitum athygli hurðunum sem meina okkur inngöngu.

Í Wittenberg og víðar

Siðaskiptin eru sögð eiga upptök sín í mótmælum sem fest voru á kirkjuhurð. Þann 31. október 1517 á Marteinn Lúther að hafa fest andmæli sín gegn aflátssölu páfa í 95 liðum, á hurð Hallarkirkjunnar í Wittenberg. Þetta var upphafið að stórfelldum breytingum í Evrópu og raunar miklu víðar.

Rúnar Reynisson hélt að kirkjum landsins og tók myndir af hurðunum þeirra. Hann sýnir 95 þeirra og vísar til þessa upphafsatburðar siðaskiptanna. Litríkt myndasafnið er eins og mósaíkverk sem kallar fram hugrenningar um kirkju og kirkjur. Kirkjurnar sjást ekki á myndunum. Hurðirnar eru gátt inn í helgidóminn, skilrúm á milli hins innra og hins ytra. Þær vísa til þess sem liggur utan myndarinnar og þá til einhverrar hugmyndar um kirkjuna sem slíka, jafnvel kirkjulífið, sem verður til með því að skoða hurðina að henni.

Kirkjurnar eru sumar hverjar með því fegursta sem upphugsað hefur verið og smíðað hér á landi. Einhverjar virðast undarlegar. Sumar eru ásjónur þéttra byggða. Aðrar birta okkur horfinn heim á yfirgefnum slóðum. Á myndunum má sjá glansandi lakk og fágað látún. Þar er líka fúi og ryð. Kirkjan er svo fjölbreytt og að baki hverri hurð liggur handverk fólks sem vildi leggja sig fram um að prýða helgidóminn í sinni byggð.

Lokaðar dyr

Þegar myndasmiðurinn kom í hlað voru flestar kirkjurnar lokaðar. Með vísan í viðleitni Lúthers til að siðbæta kirkjuna spurði ferðalangur um siði innan kirkju og samfélags á okkar dögum. Siðbót er ekki einstakur atburður heldur sístæður. Við þurfum alltaf að líta í eigin barm. Siðaskiptafrömuðir sögðu upp á latínu: Ecclesia semper reformanda est! Eða: Kirkjan þarf stöðugt að ganga í gegnum siðbót! Á okkar dögum snýr siðbót að samviskuspurningum er varða hurðir sem loka dyrum. Það eru ekki bara kirkjudyr, heldur dyr að samfélagi og hjörtum fólks. Þær loka úti fólk á flótta, þær fela sannindi, þær einangra og halda úti straumum breytinga og umskipta.

Sístæð siðbót leitar uppi lokaðar dyr. Hlutverk lútherskrar kirkju er að draga fram boðskap Jesú Krists í því samhengi. Hann er mælikvarðinn á trú okkar og gjörðir. Kirkjur hans eru víða um land og víða um heim. Margbreytilegar og ólíkar sem þær eru að stærð og sniði standa eftir þau sannindi sem bjuggu að baki umbótum Lúthers: Hin sanna kirkja er ekki í Wittenberg eða Víðistöðum. Hún er í hjarta hvers kristins manns og opið hjarta er einhver besti vitnisburður um þá trú sem það hefur að geyma.

95 kirkjuhurðir er sýning Rúnars Reynissonar á Torgi Neskirkju. Hún opnar 31. október kl. 20:00, á 500 ára afmæli siðaskiptanna.