Sæl og blessuð

Sæl og blessuð

Ásjóna Guðs birtist ekki síður meðal skuggaliðs samfélagsins. Jesús stóð alltaf með þeim. Við þurfum æfa okkur í langsýn og fjölsýn himnaríkis sem er önnur en veraldarinnar.

Þegar hann sá mannfjöldann, gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann, og lærisveinar hans komu til hans.Þá lauk hann upp munni sínum, kenndi þeim og sagði: Sælir eru fátækir í anda, því að þeirra er himnaríki. Sælir eru sorgbitnir, því að þeir munu huggaðir verða. Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa. Sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því að þeir munu saddir verða. Sælir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða. Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá. Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða. Sælir eru þeir, sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir, því að þeirra er himnaríki. Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina, sem voru á undan yður. Matt. 5.1-12

Sæl og blessuð!

Við, Íslendingar, notum undursamlega kveðju: Sæl og blessuð. Það ávarp á við alla daga er í samræmi við erindi dagsins er við höldum hátíðlega allra heilagra messu. Á þessum degi eru svonefnd sæluboð til skoðunar. Þau eru í Fjallræðunni og byrja á “sælir eru ...” og svo er bætt við því sem veldur eða er samhengi sælunnar. Lexían og pistill eru rismiklir textar um eilífa lífið og sæluboð Jesú eru á mörgum plönum eða kannski ættum við að segja bandbreiddum.

Margir gera sér leik að því að skella viðbót á fræga texta. Það er gaman að spyrja fermingarbörnin hvernig ellefta boðorðið sé. Þau horfa stóreyg fram og viðurkenna fávisku sína. Prófessor við guðfræðideildina kenndi mér það ellefta, hann hlýtur af hafa haft nokkuð til síns máls enda sérfræðingur í boðorðunum: “Þér skuluð ekki vera leiðinlegir!” Ég heyrði líka svipaða gleðiviðbót við sæluboðin. Það er svona: “Sælir eru þeir, sem gera grín að sjálfum sér því líf þeirra verður aldrei gleðisnautt!” Það er auðvitað gott að hafa húmor, líka fyrir sjálfum sér, jafnvel sorgarefnin eiga sér skopvídd.

Sæluboðin eru ekki frekar en boðorðin einföld eða augljós uppskrift að hamingjunni. Eiginlega eru sæluboðin undarlegt safn viskuyrða, sem ríma illa við pot og valdasókn samtíðarinnar. Í Fjallræðunni eru þeir sælir, sem eru fátækir í anda, sorgbitnir, hógværir, hungraðir og þyrstir, ofsóttir, smánaðir og álognir! Þetta er nú ekki beinlínis lýsing á þotuliði veraldar og hetjum glanstímaritanna!

Hvenær er maður sæll og hvað þýðir þessi sæla, sem Jesús lofsyngur?

Orð og merking

Íslensku orðin eru: “Sælir eru.” Á enskunni eru notað orðið blessed og sæluboðin byrja þá á: “Blessed are...” og svo framvegis. Nýja testamentið er skrifað á grísku og orðið að baki sælu og blessun á þeirri tungu er orðið makarios, μακαριος. Við hin eldri könnumst við það því heyrðist svo oft í fréttum á sjötta og sjöunda áratugnum þegar Makarios var bæði erkibiskup grísku rétttrúnaðarkirkjunnar á Kýpur og líka forseti Kýpurlýðveldisins. Heiðurstitill erkibiskups meðal nokkurra orþódoxra kirkna er makarios.

Makarios - sæll, blessaður. Á klassískum tíma táknaði hugtakið þá sælu, sem guðir Grikkja nutu, hamingju og friðar handan áhyggju og puði alþýðufólks. Bæði Grikkir og mannkynið almennt falla auðveldlega fyrir auði og völdum og hin guðlega sæla flutti því inn í veröldina. Þeir sem voru voldugir urðu því “guðlegir.”

Í trúarlegu samhengi varð sælan fremur tengd himninum. Þau voru sæl sem voru komin til Guðs. Píslarvottahefð kristninnar byggir á þessum grunni. Þó við þekkjum ekki nöfn allra píslarvotta hefur kirkjan notið staðfestu þeirra og minnist líka baráttu þeirra í dag, á allra heilagra messu.

Hvunndagsviska og úthverfing

Þegar Gamla testamentið var þýtt á grísku var orðið makarios notað í siðferðissamhengi. Þau voru talin sæl sem breyttu rétt og lifðu ábyrgu lífi. Þegar Jesús var svo kominn upp á fjallið og hóf ræðu sína vissi hann fullkomlega, að sælan var talin fólgin í venjulegum gildum góðs hjúskapar, barnaláns, ávaxtar jarðarinnar, friðar í mannfélagi, gleði, heiðurs, fegurðar, heilbrigði og jafnvægis. Flestir tilheyrendurnir þekktu hliðstæðar sæluræður, þær eru til í visku- og spádómaritum hebrea. En Jesús snýr öllu á hvolf og hefur örugglega sjokkerað með þessari fáránlegu sæluboðun.

Sælan, hver er hún? Að vera fátækur í anda, sorgbitinn, svangur og þyrstur, ofsóttur, smánaður? Veraldarviskan, hvorki forn né ný viðurkennir að þau hafi nokkurt gildi. Hvaða barn sem er veit, að hinn hógværi nær ekki langt. Boðberar friðar njóta engra sérkjara meðal ofbeldisseggjanna. Það hefur enginn áhuga á sorg og vera skotspónn lyga og rógs. Sælan, sem Jesús fjallar um eru kjör hinna útskúfuðu, skuggaliðs samfélagsins. Ræða Jesú er andræða, sæla Jesú vansæla! Jesús snýr við gildum. Glanslið guðsríkisins er þá þau sem ekki hafa meikað það í veröldinni – eða hvað?

Trúmennska og fórnarkostnaður

Oft hefur verið sagt að Fjallræðan væri stjórnarskrá guðsríkisins. En sæluboðin geta ekki verið leiðbeiningar fyrir atferli í heiminum. Það getur ekki verið, að við eigum að leitast eftir að vera sorgbitin eða ofsótt. Það getur ekki verið, að Jesús vilji að við reynum að komast í þá stöðu að á okkur sé logið vegna hans. Mattheus guðspjallamaður vissi vel, að kristnir menn voru ofsóttir og endurspeglar í orðum sínum reynslu safnaðarins, að veraldleg laun séu engin en hin himnesku mikil. Þar er ein skýringin komin á að Jesúorðin hafi verið varðveitt og skráð. Andóf og ofsóknir var og er enn daglegt brauð þeirra, sem játa Jesú Krist. Víða í Afríku og Asíu eru kristnir menn pyntaðir fyrir trú sína og drepnir. Jesútrúin er ekki ávísun á sælu og veraldlega velferð og tryggir engin heiðurssæti samfélagsins, þótt við búum við trúfrelsi og frið til guðsdýrkunar.

Fjallræðan er frægasta ræða Jesú og sæluboðin einn kunnasti hluti hennar. Þegar Jesús flutti þessa ræðu hneykslaði hún marga. Það var ekki fyrr en síðar, að menn gerðu sér grein fyrir að sannleikur hennar varðar dýpt og eilífð. Trú og trúariðkun getur verið hættuleg, fylgispekt við Guð getur orðið til að menn sæta ofsóknum og verða fyrir ofbeldi. En lífið er ekki lítið, snautt og fábreytilegt, heldur er líf í þessum heimi aðeins ein vídd, ein bandvídd þess lífsvefs sem Guð skapar. Sælan er margflókin og á sér dýpri forsendur en sú sæla sem fæst af fjármunum, stöðu eða efnanotkun, svo minnt sé á efni sem enga alsælu gefa.

Guð niðri

Í gamalli trúfræðslusögu segir frá presti sem sagði, að á fyrri öldum hefði fólk séð ásjónu Guðs, en svo væri ekki lengur. Trúneminn spurði af hverju það væri. Presturinn svaraði að ástæðan væri einföld, menn litu ekki niður!

Kristnir menn hafa um aldir vitað, að ásjóna Guðs birtist ekki síður meðal skuggaliðs samfélagsins, þeirra sem eru á grensunni. Jesús stóð alltaf með þeim, hjálpaði þeim, lærði af þeim og benti okkur á líf þeirra. Við þurfum æfa okkur í langsýn og fjölsýn himnaríkis sem er önnur en veraldarinnar. Elskan birtist oft þar sem hennar er síst von. Trúarlíf er sumpart æfing í að lifa í mörgum víddum og sjá margt í senn, skoða með fjölsjón.

Darjelingsæla

Í einni bóka sænska rithöfundarins Göran Tunström er grípandi frásögn um óhappamann, sem lenti í fangelsi. Þar heimsótti hann prestur, sem gerði honum ekkert gagn, því hann svaraði spurningum fangans með ónýtum svörum sem dugðu honum illa. Síðan þegar hann var látinn laus úr fangelsinu fór hann á krána. Þar var kona, sem var fræg að endemum. Hún lagði höndina á manninn. Hann hrökk við og sagði við hana hræddur, að hann gæti ekki átt hana eða hún hann. En konan svaraði honum, að mennirnir ættu ekki að eiga hvern annan, heldur leita saman að hinu góða lífi, sem konan nefndi því dularfulla tenafni Darjeling. Saga þeirra endaði út í skógi. Feðgar sáu þar til þeirra þar sem skötuhjúin voru nakin í sumarsólinni, konan var að mála og saman hlustuðu þau á jólaóratóríu Bachs. Feðgunum fannst eins og þeir horfðu inn í himneskt rjóður og þau væru sem englar. Drengurinn spurði föður sinn hvort þeir ættu ekki að fara til þeirra. En það vildi pabbinn ekki, en sagði við drenginn sinn, að muna alla ævi það sem hann hafi séð og upplifað, því þessi kona hafi vakið manninn til lífsins, gefið honum líf. Þetta var góður pabbi að leggja lífsvisku í hjarta sonar síns.

Sæluleit mannanna

Hvað er sælan? Við leitum öll sælunnar í lífinu og eins gott að við tökum við öllu því góða, metum og gleðjumst yfir því sem okkur er gefið. Við erum ekki ein, við erum á för í okkar leit að Darjeling. Við erum í mikilli för milljarða manna, fyrr og síðar, af öllum sortum og gerðum, sem er á leið um veröldin og með mark á himnum. Við megum gjarnan muna eftir að leið allra er flókin og ekki alltaf lúxusreisa. En Jesús lofar sælu, lofar að við verðum bæði sæl og blessuð.

Dagur hinna heilögu er dagur fyrir lífið Allra heilagra messa er merkilegur dagur, sem við notum til að minnast þeirra sem látin eru, bera þau fram fyrir Guð í bæn, minnast alls sem var og horfast í augu við það sem er. Þessi dagur er ekki aðeins um hin látnu, heldur um líf hinna lifandi, um hvernig við eigum að lifa vel. Við leitum að gæðum í lífinu en eigum þau vís í eilífð Guðs. Verið sæl og blessuð.

Prédikun flutt í Neskirkju á allra heilagra messu, 5. nóvember 2006.

Lexían Jes. 60.19-21 Þú skalt ekki framar hafa sólina til að lýsa þér um daga, og tunglið skal ekki skína til að gefa þér birtu, heldur skal Drottinn vera þér eilíft ljós og Guð þinn vera þér geislandi röðull. Þá mun sól þín ekki framar ganga undir og tungl þitt ekki minnka, því að Drottinn mun vera þér eilíft ljós og hörmungardagar þínir skulu þá vera á enda. Og lýður þinn þeir eru allir réttlátir, þeir munu eiga landið eilíflega: þeir eru kvisturinn, sem ég hefi gróðursett, verk handa minna, er ég gjöri mig vegsamlegan með.
Pistillinn Op. 7.9-12 Eftir þetta sá ég, og sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. Þeir stóðu frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu, skrýddir hvítum skikkjum, og höfðu pálmagreinar í höndum. Og þeir hrópa hárri röddu: Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu. Allir englarnir stóðu kringum hásætið og öldungana og verurnar fjórar. Og þeir féllu fram fyrir hásætinu á ásjónur sínar, tilbáðu Guð og sögðu: Amen, lofgjörðin og dýrðin, viskan og þakkargjörðin, heiðurinn og mátturinn og krafturinn sé Guði vorum um aldir alda. Amen.