Predikun á Reykholtshátíð, 9. sd. e. Trin 2018

Predikun á Reykholtshátíð, 9. sd. e. Trin 2018

“Gjörið yður vini með mammón ranglætisins, til þess að þeir, þegar allt um þrýtur, taki við yður í hinar eilífu tjaldbúðir”, segir Jesús í texta dagsins. Mammón vísar til fjegirndar og fánýtis og er hjer að auki auðkenndur með sjerstakri tilvísun til ranglætis. Hinar eilífu tjaldbúðir standa fyrir Guðsríkið, ríki himnanna; hugsjónina um endurleyst mannlíf rjettlætis og kærleika.

Lexía: Amos 8. 4 - 7

Pistill: 1. Kor. 10. 1 - 9

Guðspjall Lúk. 16. 1 - 13

Náð sje með yður og Friður frá Guði Föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen

“Gjörið yður vini með mammón ranglætisins, til þess að þeir, þegar allt um þrýtur, taki við yður í hinar eilífu tjaldbúðir”, segir Jesús í texta dagsins. Mammón vísar til fjegirndar og fánýtis og er hjer að auki auðkenndur með sjerstakri tilvísun til ranglætis. Hinar eilífu tjaldbúðir standa fyrir Guðsríkið, ríki himnanna; hugsjónina um endurleyst mannlíf rjettlætis og kærleika.

Þeir hafa sperrt eyrun, þegar þeir heyrðu dæmisöguna. Kjarni hennar er í 13. versinu: “Enginn þjónn getur þjónað tveimur herrum, því annað hvort mun hann hata annan og elska hinn, eða aðhyllast annan og lítilsvirða hinn. Þjer getið ekki þjónað Guði og mammón”. Rjett áður hafði hann sagt: “Ef þjer hafið ekki verið trúir í því, sem aðrir eiga, hver mun þá gefa yður það, sem er yðar eigið?”

Hver ein þessara þriggja fullyrðinga Jesú í einni og sömu ræðunni er út af fyrir sig ærið umhugsunarefni á vettvangi dagsins, þar sem reynir í stóru og smáu á trúnað vorn og hollustu við oss sjálf og gagnvart því, sem oss er trúað fyrir. Á aldarafmæli fullveldis Íslendinga stendur hún ef til vill upp úr spurningin: “Ef þjer hafið ekki verið trúir í því, sem aðrir eiga, hver mun þá gefa yður það, sem er yðar eigið?”

Fullveldi þjóðar er sameign, sem hvorki fæst nje verður þess gætt nema með samkomulagi um það, rjett eins og tungan varðveitist því aðeins að hún sje töluð. Þar veitir hver öðrum af því, sem aðrir eiga og enginn einn getur slegið sinni eign á almennings hlut og kallað sitt eigið. Það hefur aldrei verið hörgull á þeim, sem vilja taka að sjer samvizku annarra og svara skoðun fyrir þeirra hönd. Þar sem menn dirfast að andmæla slíkri framtakssemi er því oftar en ekki savarað með fordæmingu á skoðun og persónu þess, sem í hlut á. Líkt er farið samtalinu um vörzlu fullveldisins á vettvangi dagsins, en þar er stjórnmálamönnum sjerstakt hlutverk falið. Sumir vilja framselja það öðrum, til þess að efla það og styrkja, segja þeir , á meðan erlend og innlend auðfjelög kaupa landið og enginn veit, hverjir eiga þau. Í sömu mund er stöðugt undirbúin sala auðlinda þjóðarinnar úr landi. Allt er þetta gjört til þess að styrkja byggðirnar og hafa meira upp úr orkusölunni, að sögn. Það eru ekki síður þverstæður í samtali Íslendinga um vörzlu fullveldisins en í ræðu Frelsarans í Guðspjalli dagsins. “Ef þjer hafið ekki verið trúir í því, sem aðrir eiga, hver mun þá gefa yður það, sem er yðar eigið?”, spyr hann þar.

Spurt er um hollustu og trúnað: Um heilindi. Dæmið er úr daglegu lífi. Eins og þar er hver sjálfum sjer næstur í stóru og smáu, eins eigum vjer, sem fylgja viljum Jesú Kristi, að vera holl og trú í þeirri samfylgd: Stunda á það, sem er satt, rjett og gott, en varast mammón, markmið hans og klæki. Vjer eigum að leita hins, góða sanna og rjetta með sömu hollustu, trúnaði og heilindum og þjónar mammóns ástunda í þjónustu hans. Að vera beggja blands er ekki kostur. Samvizkan er vettvangurinn. Þar gjörist uppgjörið, því þar inni, með sjálfum sjer, verður hver maður að svara því, hvort hann gjörir rjett eða rangt og sæta þar og hlíta ákæru og dómi: Þjóna eg Guði eða mammón í því sem eg gjöri hverju sinni? Breyti eg rjett eða rangt?

Löngum var það svo, að allir höfðu sama mælikvarða um rjett og rangt; hið trúræna eða siðræna, sem studdur er boðorðunum: “Þú skalt og þú skalt ekki”. Nú hafa margir aðra kvarða fyrir sig, eins og prófasturinn benti á, er hann sagði: “Í þessu máli borgar það sig að hafa fleiri en eina skoðun.” Í stað: “ Þú skalt og þú skalt ekki”, gætu margir sagt: ”Eg vil og eg vil ekki”, eða jafnvel: “Eg held kannski”, eða jafnvel: “ Eg held ekki”. Það væru þá hinir kurteisari. Í reynd er þetta þó engin nýlunda, heldur endurtekið stef og tilbrigði við söng hins gamla mammóns, sem fer sínu fram, hvað sem tautar og raular. Nýlundan er fólgin í því, að nú helst mönnum betur uppi, sú vildarhyggja, að öll skoðun sje jafngild, hvergi sje sannleikur og að hægt sje að hafa margar skoðanir í eina og sama málinu, eftir því, hvað borgar sig í svipinn eftir viðmælendum. Því er hiklaust haldið fram, að hægt sje að koma sjer saman um sannleikann, jafnvel hafa hann í fleirtölu, eins og margt annað, sem nú tíðkast. Stjórnmálin gjalda þessarar meinvillu vildarhyggjunnar, því þau þurfa að fást við áþreifanleg og skilgreinanleg málefni er alla varða og ekki er hollt að hafa til skiptanna eftir hentisemi hverju sinni.

Fullveldi Íslendinga er viðfangsefni íslenzkra stjórnmála, þeirra sem kjósa til þings og þeirra, sem kosnir eru. Vjer týndum því forðum á öld Sturlunganna. Þá hjelzt höfðingjum það uppi að umgangast lög landsins og stjórnskipan að vild sinni. Fámenn klíka dró undir sig öll yfirráð fjársýslu og stjórnsýslu. Þeir sáust ekki fyrir í fákeppni sinni um hvort tveggja. Sagt er, að nú sje svo komið, að tíundi hluti Íslendinga eigi eða ráði níu tíundu hlutum allra eigna og alls fjár á Íslandi. Á Sturlungaöld vissu allir, hverjir fóru með fje og völd. Nú er hvorugt vitað, því auðfjelög fara með fje og eignir og eigendur þeirra hvergi sýnilegir.

Pólitísku valdi er í æ ríkari mæli komið fyrir hjá stjórnsýslustofnunum í vörzlu embættismanna, sem engin pólitísk ábyrgð nær til. Vjelgeng, ópersónuleg afgreiðsla mála hefur tekið við af þeirri pólitísku afgreiðslu og ábyrgð stjórnmálamannanna, sem hægt er að vitja á þeim við kosningar. Kosningar snúast í æ ríkari mæli um samningsaðstöðu handa gæzlumönnum hagsmuna auðsins og valdanna, en hvort tveggja fjarlægist þjóðina óðfluga. Skilnaður þjóðarinnar og þjóðarforystunnar er ískyggilegt efni og endurspeglast raunar í Guðspjalli dagsins.

Það varð örþrifaráð Þjóðveldisins að fá erlendu konungsvaldi frelsi og fullveldi þjóðarinnar, svo alþýða manna næði á ný að njóta friðar og laga. Alþjóðlegt auðveldi vorrar samtíðar býður ekki upp á slíka lausn, ef oss hlekkist á aftur, því það er yfirþjóðlegt, ópersónulegt og teknókratískt, raunar eins og stjórnmálin eru að verða hjer hjá oss, án snertingar við lýðræði eða lýðfrelsi, því auðræðið er hvarvetna í forsæti.

“Ef þjer hafið ekki verið trúir í því, sem aðrir eiga, hver mun þá gefa yður það, sem er yðar eigið?”
Þetta er gild spurning á aldarafmæli þjóðfrelsis og fullveldis Íslendinga; áminning og hvatning um að gæta þess, sem aflast hefur þá öld, sem vjer höfum þess notið. Árið 1918 vorum vjer ein fátækasta þjóð álfunnar, en njótum nú auðsældar umfram flestar þjóðir hennar. Það er vandi og vifangsefni stjórnmálanna hjer hjá ogg að gæta þess afla og láta hann koma til hlutaskipta og vanda þau hlutaskipti. Þar skyldum vjer varast fordæmi rangláta ráðsmannsins, svo rætast megi hugsjónin um Guðsríki á jörðu: Ríki hinnar komandi aldar. Megi svo ætíð verða “gróandi þjóðlíf með þverrandi tár, sem þroskast á Guðsríkisbraut”. Gæti svo hver sín, en Guð vor allra, í Jesú nafni. Amen.

Dýrð sje Guði, Föður og Syni og Heilögum Anda. Svo sem var í öndverðu er enn og mun verða um aldur og að eilífu. Amen.

Með kveðju postulans.