Kompás í kirkjustarfi

Kompás í kirkjustarfi

Verkefni okkar sem störfum með ungu fólki í kirkjum landsins er að koma af stað umræðu og vangaveltum um mannréttindi. Skapandi umræða á þeim vettvangi getur fljótt leitt unga fólkið til athafna. Kompás - handbók Evrópuráðsins í mannréttindafræðslu með ungu fólki getur nýst vel í kirkjustarfinu.
fullname - andlitsmynd Pétur Björgvin Þorsteinsson
07. nóvember 2011

kompas-i-kirkjustarfi

Það eru engin ný sannindi að ástandið í heiminum er þannig að mannréttindabrot eru framin hvert sem litið er. Þó slíkt sé tilfellið þá gengur okkur sem störfum með börnum og unglingum í kirkjunni misvel að vekja þau til umhugsunar um þýðingu mannréttinda. Oftar náum við þó því skrefi að unga fólkið tekur ákvörðun um að bera virðingu fyrir öðru fólki óháð menningarbakgrunni þess. Slíkt vekur vonir um að þau verði ekki í hópi þeirra sem brjóta á réttindum annarra í framtíðinni. En betur má ef duga skal. Æskilegt væri að við settum markið hærra. Þörf væri á því að hvetja unga fólkið sem við störfum með til þess að verða, hver eftir áhuga og getu, leiðbeinendur og baráttufólk sem sjálft vill stuðla að því að vernda mannréttindi. Hér er ekki verið að gera því skóna að ungi einstaklingurinn sé reiðubúinn til að helga líf sitt baráttunni fyrir mannréttindum. Miklu fremur er verið að hvetja hann til að verða virkur borgari sem áttar sig á vandanum hverju sinni, hefur áhyggjur af honum og kann að beita sér í baráttu fyrir breytingum.

Í Kompás, handbók Evrópuráðsins í mannréttindafræðslu með ungu fólki, sem kom út hjá Námsgagnastofnun fyrir tilstilli Mennta- og menningamálaráðuneytisins í íslenskri þýðingu fyrir jólin 2009, er mannréttindafræðslu skipt í þrjú meginsvið (bls. 18-19):

·         Að efla vitund um mannréttindamál og auka skilning á þeim svo að fólk átti sig á því þegar mannréttindi eru brotin.

·         Að byggja upp hæfni og kunnáttu sem er nauðsynleg til þess að vernda mannréttindi.

·         Að skapa viðhorf þar sem virðing er borin fyrir mannréttindum þannig að fólk brjóti ekki af ásetningi á réttindum annarra.

Við fyrstu sýn má vera að þessi þrjú markmið virðist í órafjarlægð frá þeim markmiðum sem ungt fólk setur sér í eigin lífi. En er því svo farið? Þegar þau tvö megingildi sem hugmyndin um mannréttindi er byggð á, mannleg reisn og jöfnuður, eru tekin upp í vinnu með hópi ungs fólks, kemur fljótt í ljós að þau vilja í það minnsta fá sjálf að njóta mannlegrar reisnar og að þeim sé ekki mismunað. Auk þess vilja þau langflest að þannig sé einnig komið fram við aðra. Þegar stóru, flóknu setningarnar úr mannréttindasáttmálum og lagabálkum eru til að byrja með lagðar til hliðar og horft á þessi – í raun einföldu – gildi, verður okkur sem störfum með ungu fólki, enn ljósar en áður hve mikinn baráttuanda unga fólkið getur sýnt. Hér stígum við fyrstu skrefin. Það er áhuginn og forvitnin hjá þátttakendunum sem ræður för.

Fyrir hinn unga einstakling, sem getur átt það til að vera sjálflægur í mati sínu á mikilvægi hlutanna, reynist oft hjálplegt að umfjöllun um og vinna með mannréttindi tengist á einhvern hátt einföldu spurningunni: Hvernig get ég notað réttindin mín? Verkefni okkar sem störfum með ungu fólki er að koma af stað umræðu og vangaveltum um mannréttindi sem verndarskjöld fyrir okkur. Skapandi umræða þar að lútandi getur fljótlega farið frá spurningunni um hvernig við getum nýtt okkur mannréttindi fyrir okkur sjálf, yfir í vangaveltur hvernig mannréttindi geti nýst til að byggja betri heim – fyrir okkur öll! Oftar en ekki fær æskulýðsleiðtoginn að upplifa að þekkingin býr í hópi ungmennanna og að þau þurfa engan ,,fullorðinn“ til þess að segja sér að hvers kyns óréttlæti tengist mannréttindum, hvort heldur það er fátækt, umhverfisspjöll, heilbrigðismál, vinnuskilyrði, pólitísk kúgun, kosningaréttur, erfðatækni, málefni minnihlutahópa eða hryðjuverkastarfsemi svo dæmi séu nefnd. Á sama tíma eru þau þakklát fyrir umræðustjórn hins fullorðna því að þeim þykir það oft stór áskorun að takast á við þau ólíku sjónarhorn sem eru uppi um viðkomandi mál í jafningjahópnum, sér í lagi þegar skoðanir sem brjóta í bága við mannréttindi hafa fest í sessi í hópnum.

Hvaða rými fær mannréttindafræðsla í starfi þínu með börnum og ungmennum í kirkjunni?

---

Myndin er tekin á fræðsludegi fyrir fermingarbörn í Dalvíkurkirkju, 6. nóvember 2011.