Jólaljósið

Jólaljósið

fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
24. desember 1999
Flokkar

Guðspjall: Lúk. 2.1-14

Bæn. Þér sé lof og dýrð Drottinn Jesús fyrir það að þú ert kominn til okkar nú á þessum jólum. Þakka þér fyrir að þú knýrð enn á ný dyra hjá okkur. Hjálpa okkur til þess að opna hjörtu okkar fyrir þér. Kom þú Jesús. Amen.

Ég leyfi mér að bjóða ykkur öll velkomin til kirkjunnar á þessari hátíðarstundu og óska þess jafnframt að við mættum öll eiga góða og heilaga jólahátíð.

Það hefur verið sagt með sanni að hátíð ljóss og friðar beri upp á nákvæmlega réttan og hagkvæman punkt á tímatalinu fyrir okkur Íslendinga, þ.e. um miðjan vetur í svartasta skammdeginu.

Jólin voru meiri aufúsugestur mönnum fyrri alda sem lifðu í náinni snertingu við lögmál náttúrunnar. Þá gat myrkrið orðið svartara en orð fá lýst og það kallaði fram ýmsar Kjarvalskar kynjamyndir í hugum mannanna svo ugg sótti að þeim. Þjóðsögurnar okkar bera þessu vitni.

Jólagjafirnar voru kerti og spil eins og segir í söngnum og e.t.v. nýir sauðskinnsskór.

Í þá daga voru kerti búin til úr tólg á sveitabæjunum. Þegar fjölskyldur komu saman á baðstofuloftunum á aðfangadagskvöld og kveiktu á kertunum og lásu jólaguðspjallið þá vék myrkrið burt fyrir jólaljósinu sem sindraði í augum þeirra er á horfðu.. Þá vék óttinn við ógnir myrkursins fyrir birtu og fögnuði jólanna.

Eitt sinn var uppi drengur sem kom ekki önnur jólagjöf til hugar en jólakertið eitt sem hann og fékk. Hann kveikti á þessu kerti á aðfangadagskvöld. Sem hann horfði á flöktandi kertaljósið þá rifjaðist jólaguðspjallið upp fyrir honum og hann lagði saman lófa sína og þakkaði Guði fyirir jólagjöfina mestu sem hann hafði tekið á móti. Á þessu aðfangadagskvöldi laukst himinninn upp fyrir honum.

Ó Jesúbarn, þú kemur nú í nótt, og nálægð þína ég í hjarta finn. Þú kemur enn, þú kemur undra hljótt, í kotin jafnt og hallir fer þú inn.

Jólaguðspjallssagan skipar sérstakan sess í hjörtum kristinna manna af því að hún er afar myndræn og lifandi. Börnin okkar í barnaskólanum færa hana upp fyrir jólin í lifandi búning og miðla þannig hinum fagnaðarríka boðskap á lifandi og myndríkan hátt til okkar. Boðskapur jólaguðspjallsins er stórkostlegur í sínum einfaldleika.

Þetta kvöld fyrir nærfellt 2000 árum knúði fátæk alþýðustúlka að nafni María dyra á gistihúsi einu í Betlehem ásamt manni sínum, Jósef að nafni. En þau voru þangað komin til að láta skrásetja sig. Þau báðu um gistingu en var synjað á þeirri forsendu að allt væri fullt. En gistihússeigandinn sagði að þeim væri velkomið að nýta sér fjárhús í nágrenninu.

Vegna skrásetningarinnar var mikill mannfjöldi í Betlehem. Gistihúsin voru öll full. Heimilin í Betlehem voru einnig þétt setin af aðkomufólki. Enginn virtist þó ekki vilja hýsa frægasta gestinn þessa nótt sem ljómi dýrðar Guðs stafaði frá.

En hjarðmennirnir á Betlehemsvöllum sáu dýrð Drottins fyrstir manna þegar himinninn opnaðist yfir þeim og mikil birta bægði næturmyrkrinu burtu um stund. Og fyrir þeirra eyrum ómuðu raddir af himnum sem töluðu um dýrð Guðs, um frið og velþóknun Guðs. Hvers vegna sáu þeir einir Guðs dýrð? Hvers vegna heyrðu þeir einir himnaraddirnar?

Hjarðmennirnir fundu til einstæðingsskapar síns þar sem þeir ornuðu sér við eldinn í næturmyrkrinu á völlunum. Einveran opnar augun. Hún opnar líka eyrun fyrir hverju óvæntu smáhljóði og hún opnar umfram allt hjartað.

Það er ekkert vafamál að hjarðmennirnir urðu fyrir mikilli og merkilegri trúarreynslu þegar þeir sáu dýrð Guðs. Ótti þeirra við kynjamyndir myrkursins vék fyrir mikilli hjartans gleði. Þarna á Betlehemsvöllum gafst þeim tækifæri til þess að kynnast sjálfum sér betur og opna hjörtu sín fyrir fagnaðarerindinu um að þeim væri frelsari fæddur sem væri Kristur Drottinn í borg Davíðs, Betlehem.

Forvitni þeirra varð slík að þeir ákváðu að fara samstundis til Betlehem til þess að finna frelsara sinn og þeir fóru og fundu hann.

Guð varð þannig fyrri til að auðsýna þeim og okkur umvefjandi kærleika og okkur ber að endurgjalda þennan kærleika með því að miðla honum til annarrra, til náungans hérlendis sem erlendis því að brot af Kristi sjálfum bregður fyrir í fari náunga okkar. En Kristur sagði einu sinni. "Það sem þér gjörið einum mínum minnstu bræðra, það gjörið þér mér".

Á aðventunni höfðar Hjálparstarf kirkjunnar og fleiri mannúðar- og líknarsamtök til pyngju okkar vegna hörmungarástands sem ríkir víða í heiminum. Og neyðin knýr dyra einnig hér innanlands en fátæku fólki fjölgar með hverju ári og fleiri notfæra sér mataraðstoð hjálparstarfsins með hverju árinu sem líður.

Það var gleðilegt að sjá blessuð börnin koma með fulla söfnunarbauka til kirkjunnar. Mörg höfðu á orði að þau væru með þessu að hjálpa öðrum börnum sem fengju ekki nóg að borða. Með þessu móti veittu þau birtu jólanna til þeira sem búa í löndum "náttmyrkranna", þar sem kynjamyndirnar og voðinn er raunverulega til staðar.

Þú kemur enn til þjáðra í heimi hér með huggun kærleiks þíns og æðsta von Í gluggaleysið geisla inn þú ber því guðdómsljóminn skín um mannsins son.

Jólin minna okkur á það að Kristur er kominn með sinn frið og kærleika til þess að vera alla daga með okkur. Þótt heimurinn umhverfis okkur hrynji til grunna og okkur virðist öll sund lokuð þá eigum við mikla von í barninu í jötunni, manninum á krossinum, hinum upprisna Jesú Kristi því að hann afmáði skuldabréf okkar við Guð með krossdauða sínum og gaf okkur náðarríka von með sér þegar hann reis upp frá dauðum. Jesús gefur okkur þessar gjafir sem okkur mun aldrei auðnast að endurgjalda til fulls en við leitumst engu að síður vð að gera það með því að kunngjöra vilja Guðs í orði og verki. Guð gefi okkur kraft til þess að halda áfram því góða verki í trú, von og kærleika. Amen.

Megi friður Guðs sem er æðri öllum skilningi, varðveita hjörtu yðar og hugsanir í Jesú blessaða nafni.