Hið sanna ljós kom í heiminn

Hið sanna ljós kom í heiminn

Í Biblíunni eru oft kallaðar fram andstæður sem túlka “trú og vantrú”. það er ljós og myrkur, dagur og nótt, réttlæti og ranglæti, himinn og jörð, líf eða dauði.
fullname - andlitsmynd Bryndís Svavarsdóttir
24. desember 2019
Flokkar

                  Hið sanna ljós kom í heiminn            Jes 9.1-6, Tít 2.11-14, Lúk 2.1-14

Biðjum... Drottinn Guð, gjafari allra góðra hluta, og upphaf gleðinnar. Með fæðingu Jesúbarnsins sendir þú bjartan geisla inn í myrkur jarðar. Gef að þetta ljós lýsi einnig hjá okkur. Lát það geisla í öllu sem við gerum, svo að við megum tigna þig og tilbiðja að eilífu. Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi.

Texti dagsins sagði: Sú þjóð, sem í myrkri gengur sér mikið ljós. Myrkur og ljós. Í Biblíunni eru oft kallaðar fram andstæður sem túlka “trú og vantrú”. það er ljós og myrkur, dagur og nótt, réttlæti og ranglæti, himinn og jörð, líf eða dauði.

Hjá Guði er ekkert “kannski” hann vill við tökum ákvörðun um líf okkar og trú og textinn segir að hver sem tekur þá ákvörðun að fylgja Jesú, eykur stórum fögnuðinn og gerir gleðina mikla á himnum. 
En hvernig getum við kveikt neistann sem hver og einn ræktar síðan og gerir að innihaldsríku trúarlífi. Enginn hefur sömu sögu að segja hvað snerti hann og enginn einn staður er betri en annar til að tengja við orð Guðs.

Fyrir ofan Hafnarfjörð er hellir sem heitir Leiðarendi. Ég hef ekki tölu á hve oft eða með hve marga ég hef farið í þennan helli en nokkrum sinnum hef ég farið þangað með börn í æskulýðsstarfi. Þessi hellir er hraunrás, mjög aðgengilegur í fyrstu, með sléttum botni. Þegar innar dregur og við hættum að fá birtu frá hellisopinu, þarf að klöngrast yfir haft, þar sem hrunið hefur úr loftinu og hann verður ógreiðfær á kafla. Hellirinn er um hálfur km á lengd og þegar við erum komin innst í hellinn sýni ég börnunum leifar af lambi. Það hefur sennilega hrakist inn í óveðri en endaði lífið þarna því það rataði ekki út. Hér læt ég börnin koma sér fyrir, setjast á steina og halda fast um vasaljósin… svo slökktum við á þeim öllum og upplifðum ALGJÖRT myrkur. 

Og ég segi þeim að Biblían byrji á þessum orðum:
Í upphafi var jörðin auð og tóm og MYRKUR grúfði yfir djúpinu... myrkur eins og við upplifum nú…  ekkert tungl og engar stjörnur sem gefa örlítið ljós, og á svipstundu verður öllum “ljóst” hve myrkrið er svart og ljósið er mikilvægt… því við “sjáum”… bíddu, hvað sjáum við?... við sjáum ekki neitt… við getum þreifað eftir hvert öðru en hver… myndi rata út án þess að hafa ljós.  Og ég segi þeim.. að þetta vissi Guð, svo Guð sagði: verði ljós og það varð ljós... og seinna sagði Jesús: Ég er ljós heimsins, hver sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.

Já, ljós og myrkur, spádómurinn um fæðingu Jesú notaði einmitt þessar andstæður: Sú þjóð, sem í myrkri gengur sér mikið ljós. Já, þjóð Guðs hafði fjarlægst hann, hún gekk í myrkri svo Guð sendi heiminum ljós lífsins. Hið sanna ljós kom í heiminn.

Forfeður okkar sem lifðu ekki við rafmagnsljós fundu betur en við, hvað ljós og birta var mikilvæg og hafa vafalaust upplifað þessa texta Biblíunnar á annan hátt en fólk í dag. Því hvert tímabil hefur sitt sérstæði. Amma mín sagði mér einu sinni, að á aðfangadag fengu allir sitt eigið kerti. Aðfangadagskvöld var þess vegna eina kvöld ársins sem bærinn þeirra lýstist allur upp. Fyrir hana var alltaf hátíðlegt að horfa á kertaloga. En þegar ég var að alast upp, var mikilvægt að passa rafmagnsnotkun á aðfangadag. Þá komu tilkynningar í útvarpi, þar sem fólk var beðið að slökkva á jólaseríum og nota sem fæst rafmagnstæki svo álagið yrði ekki svo mikið að bærinn yrði rafmagnslaus.

Ljósið er okkur öllum mikilvægt og myndlíkingin, að Jesús sé ljós heimsins, passar fullkomlega þó líði árþúsundir. það var engin tilviljun að vitringarnir eltu stjörnubjart ljós á himni til að finna jesúsbarnið…og það er heldur engin tilviljun að við fögnum fæðingu frelsarans í svartasta skammdeginu… Jólin eru hátíð ljóss og friðar. Þetta er tíminn sem við minnumst þess að konungur alheimsins yfirgaf himininn og fæddist sem umkomulaust barn í fjárhúsi. Myndin af barninu í jötunni er greipuð í huga okkar… lítið og ósjálfbjarga. Það er bjart inni í fjárhúsinu en myrkur fyrir utan. Himinninn lýstist upp þetta kvöld við englasöng og jólastjarnan var vegvísir. 

Þetta litla barn er gjöf Guðs til okkar… gjöf sem við þurfum að taka á móti, eins og postulinn sagði… við þurfum að játa með munninum og trúa í hjartanu að Jesús sé Drottinn og þá munum við hólpin verða. Já, náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum. Eftir að hafa tekið við þessari stóru gjöf erum við orðin börn Guðs, systkini Jesú Krists og erum orðin erfingjar að ríki Guðs.   Gjöf Guðs til okkar er eilíft líf í ríki hans.

Á hverjum jólum minnir jólaguðspjallið okkur á hver er frelsari okkar og að það skipti miklu máli að taka ákvörðun um hverjum við tilheyrum, því Jesús er ljós eilífs lífs… á honum hvílir höfðingjadómur… Hann er konungur alheimsins.  Megi ljós hans vísa okkur veginn.

Með þessari bæn, þökkum við Guði fyrir kærleika hans til okkar. Drottinn Guð, í dag gleðjumst við yfir hinni dýrmætu gjöf sem þú gafst okkur. Við þökkum þér fyrir son þinn Jesú Krist, ljós lífsins sem vísar okkur veginn til þín. Þökkum fyrir eilífa gæsku þín og góðvild, við lofum þig og tignum.  Amen.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen 

24.des 2019 kl 22 í Tálknafjarðarkirkju