Hold og blóð

Hold og blóð

Hér er sagt frá fólki af holdi og blóði og sálarlíf þess er margslungið rétt eins og á við um okkur sjálf. Hluti okkar leitast við að byggja upp og svo er það annað sem rífur niður.

Hann var vörpulegur á forsíðu Fréttablaðs gærdagsins glímukappinn, Gunnar Nelson. Í fréttinni kom fram að framundan væri enn ein rimman í þessari íþrótt þar sem nánast öll fagnbrögð eru leyfileg. Svo rosaleg eru glímutökin að oftar en ekki stórsér á keppendum að leik loknum. 


Glíman og lífið


Eins og fréttin ber vott um vekja slagsmál athygli. Áhorfendafjöldinn er óskaplegur og tekjurnar eftir því. Fáar íþróttir ná líklega að endurspegla betur ákveðna þætti í mannlífinu en einmitt glíman og bardaginn. 


Ég ætla ekki að leika einhvern sakleysingja í þessum efnum. Miðlungurinn okkar er með svarta beltið í tækvondó sem er kóreösk bardagalist, og þjálfar í þeirri íþrótt hjá KR. Þegar hann var að keppa í gamla daga máttum við hjónin passa okkur í hvatningarópnum því leikurinn snerist um það að ná sem flestum spörkum í búk og höfuð andstæðingsins.


Við fundum það líka að þetta var ekki bara líkamsrækt fyrir piltinn. Hann lærði aga og andstæðingar sýndu hvor öðrum fulla virðingu. Þegar dómari gaf merki um að ný skyldi spörkum linna, féllust þeir í faðma og við gátum ekki annað en hrifist með. Þrátt fyrir það hversu augljóslega íþróttin höfðaði til frumstæðustu hvata sálarinnar var allt í góðu eins og þar segir þegar átökum var lokið. Það er eins og skipt hafi verið á milli heilahvela. Meðan leikar stóðu sem hæst var sjálfsbjargar- og árásarhvötin alls ráðandi. En svo andartaki síðar tóku skynsemin og háttsemin völdin. 


Jakobsglíman


Það er kannske engin tilviljun að þessi texti sem við hlýddum á í lexíu dagsins – sjálf Jakobsglíman, er einmitt með eldri textum í Biblíunni og er þá mikið sagt. Þessi glímufrásögn hefur lifað af nagandi ágang tímans, sem hefur sent nánast allt það sem fólk hefur sagt og gert inn í myrkur gleymskunnar. Jakobsglíman er meðal sárafárra undantekninga frá því. 


Fræðimenn sem hafa helgað starfsferil sinn rýni á textum ritningarinnar áætla að hann hafi verið skráður á 9. öld fyrir Krist en þá hafi sagan sennilega þegar verið búin að ganga á milli fólks kynslóðum saman. Þeir greina líka í henni ýmis minni. Snertir þessi glímusaga ekki við kenndum djúpt í mannssálinni? 


Vettvangurinn er þessi á, Peniel, þar sem söguhetjan Jakob hafði haft náttstað. Við þurfum ekki að leita langt yfir skammt til að hugleiða frásagnir af ýmsum vættum og óvættum sem hafast við í flæðarmálinu, fjöruborðinu og annars staðar á landamærum láðs og lagar. 


Sagnaminni


Við þekkjum sögur af fjörulalla, nykrum og öðrum furðuskepnum að ógleymdum tröllum undir brúm sem vörnuðu fólki og jafnvel geitum yfirferð. Þeir telja einmitt að upphaflega hafi sagan fjallað um slíkar vættir en svo hafi hún fengið þessa guðfræðilegu tengingu.


Þá eru fangbrögð auðvitað hluti af sagnahefðinni og snerta oft á baráttu mannsins við öfl sem eru ekki af þessum heimi. Hver kannast ekki við glímu Þórs við ellikerlingu eða Grettis við Glám? 


Jakob


Og glímuhetjan okkar í sögunni, Jakob er þessi klassíska sögupersóna á síðum Biblíunnar – breyskur og meingallaður einstaklingur sem fær stórbrotið hlutverk eftir því sem á ævina líður. Nafnið Jakob er ævafornt eðli málsins samkvæmt. Upprunaleg merking þess er „sá sem verndar“. Hebreskan er engu að síður lunkin að finna ýmsar tengingar og hér á sér stað ákveðinn orðaleikur sem gerir þetta fallega nafn hreint ekki svo ákjósanlegt. 


Það vísar til orðsins Akab – sem merkir hæll og einn stofn í orðinu vísar til svikráða. Já, Jakob var tvíburi og kom í heiminn andartaki á eftir bróður sínum Esaú. Móðurinni Rebekku fannst á meðgöngunni sem þeir væru í stöðum áflogum í kvið hennar og þegar þeir komu í heiminn þá hélt Jakob um hæl Esaú. Allt snerist þetta um frumburðarréttinn. Andartakið sem skildi á milli þeirra í fæðingunni skildi á milli þess hvor þeirra myndi erfa jörðina eftir Ísak föður þeirra. 


Og fyrri hluta ævinnar einsetti okkar maður sér að véla þennan rétt af bróðurnum. Sjálfur var hann fínlegur en Esaú var hærður mjög og karlmannlegur eins og oft er sagt. Eitt sinn, er sá eldri kom heim af veiðum, banhungraður þá seldi Jakob honum graut fyrir hinn eftirsótta rétt. Í framhaldinu fór hann til föður þeirra sem var orðinn blindur og lést vera Esaú. 


Hann lagði kiðlingaskinn yfir hönd sína og þegar faðirinn strauk honum þá þóttist hann finna fyrir hærðum líkama þess eldri. Hann veitti honum því blessun sína og eins og gefur að skilja þá varð þetta Jakobi ekki til blessunar.


Já, þetta er annað sígilt minni, þar sem bræður berjast. Esaú áttaði sig á því sem gerst hafði og varð æfur.


Hann hafði stefnt miklum her manns gegn yngri bróðurnum en nú reyndi Jakob að bregðast við. Hann var sumsé á leið til hans með allt sitt fólk og fénað. Hann sendi konur sínar og börn og þjóna yfir ána á undan sér ásamt hjörð sauðfjár og vildi með því blíðka hinn ævareiða bróður sinn. Sjálfur beið hann hinum megin árinnar og lagðist þar til hvílu. Þetta er undanfari sögunnar okkar.


Hold og blóð


Hér er sagt frá fólki af holdi og blóði og sálarlíf þess er margslungið rétt eins og á við um okkur sjálf. Hluti okkar leitast við að byggja upp og svo er það annað sem rífur niður. Við vitum af takmörkum okkar og þjáningu og allt tengist það hugmyndum okkar um tilvistina, takmörk hennar.


Hann tekst á við það sem hann þarf að mæta, sem í þessu tilviki virðist vera sjálfur guðdómurinn. Eða er þetta lýsing á því hvernig við þurfum að takast á við það sem býr innra með okkur? við sögu okkar og annað það sem við höfum ýtt á undan okkur eða sópað undir mottuna? Eitthvað af því sem við viljum gleyma en hugur okkar neitar að senda á sama stað og flest annað sem við upplifum og skynjum? Glíman markar nefnilega þáttaskil.


Eftir glímuna fær Jakob nýtt nafn. Hið gamla fól í sér vísbendingu um óþreyjuna sem í honum bjó. Ísrael merkir í raun Guð berst eða glímir. Og eftir stendur þessi boðskapur sem talar til okkar úr textum dagsins. Lífið er einhvers konar glíma þar sem reynir á úthald okkar og styrk. 


Þegar dómarinn lyftir upp hönd Gunnars Nelson eða andstæðings hans þá vitum við að þeir hafa beitt sér af öllu afli í rimmunni, öll þjálfun þeirra, afl, fimi og klókindi hafa verið þar undir. Þarna er engin heppni, enginn grís eins og við segjum. Ekkert svigrúm fyrir mistök. Þess vegna held ég að ófögur keppnin hafi slíkt aðdráttarafl sem raun ber vitni.


Önnur glíma


Og Jakobsglíman er sannarlega ekki sú eina sem við heyrðum af hér í textum dagsins. Guðspjallið greinir frá orðaskiptum milli Krists og kanverskrar konu. Þar eru snerran sannarlega ekki fögur heldur. Andstæðingar kristinnar trúar hafa einmitt tekið þennan texta út og lýst hrokafullum tilsvörum Jesú. Við getum um leið hugleitt það hversu sanngjarnar þessar frásagnir eru og raunsæjar. Hér hefur ekki verið farið með strokleður yfir það sem ekki þykir henta og hæfa. Orðin fá að standa: „Ekki sæmir að gefa hundunum það sem börnin eiga að fá.“


Og aftur verðum við að gægjast fram fyrir textann til að fá samhengið sem skiptir jú svo miklu máli. Skömmu fyrir þessi samskipti hafði Kristur rætt við hrokafulla fræðimenn sem skipuðu efstu lögin í því samfélag. Þeir komu illa út úr þeim samskiptum. En þessi kona hafði betur með seiglu sinni og eindregnum kærleika til dóttur sinnar. 


Þetta eru önnur átakasaga sem kallast á við þá fyrri. Hér er ekki tekist á með líkamlegum fangbrögðum heldur glíman á milli konu sem stóð höllum fæti sökum uppruna síns, þjóðernis og auðvitað kyns – og svo hins virta rabbína sem Jesús var í augum samtímafólksins. Hún hafði ekkert vegarnesti í þessa rimmu annað en brennandi kærleikann til afkvæmis síns og það dugði henni. 


Hérna sjáum við þessa mynd af Jesú þar sem hann er tilbúinn til að endurskoða afstöðu sína, rýna í eigin hug og skipta um skoðun. Kanverska konan sem ekki er einu sinni kynnt með nafni, glímdi við Jesú og hafði sigur, ólíkt körlunum sem töluðu í krafti þekkingar sinnar og úr háum tignarsætum.


Það sem gleymist ekki


Textar dagsins minna okkur á að það er ekki bara sjálft lífið sem felur í sér átök. Trúin gerir það líka. Kristin trú er engin formúla sem rennur áreynslulaust inn í huga þess sem hana aðhyllist og leysir hann undan öllum heilabrotum og furðum. Við getum leitt hugann að þeim stríðum sem við sjálf höfum þurft að heyja. Þau hafa örugglega ekki verið auðveld. Mögulega hefur okkur liðið eins og glímuköppum að þeim loknum, lemstruð á sál og úrvinda í huganum. Það er ósennilegt að hugur okkar sem annars sendir langflest andartök ævi okkar í myrkur gleymskunnar – hafi farið með rimmur ævi okkar sömu leið. 


Nei, þær eru líklega uppljómaðar í minningunni, ekki auðvelt alltaf að rifja þær upp og þær kalla fram ónotalegar kenndir. Stundum lauk þeim ekki með afgerandi hætti. Mögulega þurfum við að takast á við okkur sjálf, gera hreint fyrir okkar dyrum, ganga leið sátta og fyrirgefningar og þá fyrst finnum við hvernig friðurinn tekur við af óþolinu.


Kristin trú talar inn í þær aðstæður. Í heimi nútímans þar sem okkur er í sífellu talin trú um að lífið snúist um þægindi, öryggi og hamingju, flytur Biblían okkur sögur af fólki sem raunverulega tókst á við sjálft sig og æðri máttarvöld. Eins eftirsóknarvert og það er að njóta góðra daga í gleði, þá eru þeir ekki markmið í sjálfu sér heldur afrakstur þess að við höfum tekist á við þær áskoranir sem lífið færir okkur.