Ég styð Eddu Falak

Ég styð Eddu Falak

Hlaðvarpið opnar fyrir rödd kvenna. Opnar fyrir rödd þeirra kúguðu og undirokuðu sem hafa búið við misnotkun og ofbeldi árum og áratugum saman. Ég fagna þeim röddum sem nú koma fram og segja sögu sína. Segja frá brotum og kúgunartilburðum karla. Karlar kveinka sér undan frásögnum kvenna. Þeir geta hvorki notað hólmgöngur né lagarefjar til að verja «heiður sinn». Heiður þeirra fór um leið og þeir brutu gegn annarri manneskju. Vissulega verða margir karlar aldrei dæmdir að lögum en hin nýja bylting kennd við metoo mun láta þá lifa við þann «fjörbaugsgarð» að sögum þolenda þeirra er trúað. Ég styð Eddu Falak og þann starfa hennar að hjálpa röddum kvenna að heyrast.
fullname - andlitsmynd Arnaldur Arnold Bárðarson
11. febrúar 2022

Ég styð Eddu Falak

 

Hversu oft heyrum við ekki orðtakið "saklaus uns sekt er sönnuð".  Þessi fullyrðing er oft notuð til minna á að lögin séu hinn algildi mælikvarði á sekt og sýknu fólks. En er víst að lög séu hin fullkomna leið til að  ná fram réttlæti í málum fólks?  Mér dettur það ekki í hug.  Vissulega eru lögin mælikvaði til að skera úr um sekt eða sýknu og þá miðað við laganna bókstaf.  En það er langur vegur frá að sá sem ekki tekst að sanna á sekt sé ævinlega saklaus. Saklaus í skilningi laganna vissulega en fjarri því að vera saklaus í þeim almenna skilningi sem um það orð ríkir.  Saklaus er sá sem ekki hefur drýgt synd eða framið slæman verknað. Saklaus var frelsarinn negldur á kross, svo ég nefni eitt dæmi um sakleysingja.

Lög og reglur hafa fylgt mannkyni frá öndverðu. Lög Hamúrabí eru einhver fyrstu lög sem sett voru í mannlegu samfélagi en hann var uppi á átjándu öld fyrir fæðingu Krists. Meðal Gyðinga urðu til miklir lagabálkar og lögskýringar. Þar urðu líka til lögskýringameistarar sem gátu farið með lögin að vild. Sniðgengið þau eftir þörfum.  En sá er einmitt hinn mikli vandi við öll lög.  Þess vegna lagði Jesús Kristur t.d. alla áherslu á kærleika en ekki ekki reglur og lög farísea. Kærleikurinn nefnilega vill öllum vel og hann er aldrei gerandi í ofbeldi.

Á þjóðveldisöld okkar Íslendinga voru lög mikilvæg.  Þá sem nú var heiður manna mikilsverður. Menn vörðu heiður sinn með hólmgöngum og fyrir dómi. Lögunum var ætlað að verja heiður, eignir og valdastöðu. Höfðingjar deildu og drottnuðu á þingi, lögspekingar ýmist ónýttu mál eða bjuggu um þau svo að dæma mætti menn seka eða sýkna.  Fjörbaugsgarður var orð sem notað var um þá er reknir voru burt úr samfélaginu, það var þó aðeins tímabundið eða í þrjú ár.  Það voru ættatengsl og vinátta sem réði hverjir urðu aðilar máls. Með tilkomu konungs- og síðar ríkisvalds hefur samfélagið allt orðið að aðila í dómsmálum. Fremji menn brot gegn manneskju í dag þá er ekki hvað síst litið á slíkt sem brot gegn öllu samfélaginu.  

Dómstólar nútímans eru í umboði okkar allra. Sú skipan kann að leiða til að stundum verður lítið úr rétti einstaklingsins.  Það leyfi ég mér að fullyrða að lög séu ætíð og aðeins  mannasetningar, ætlað að varðveita einhverja hagsmuni.  Það eru hagsmunir eins og allsherjarregla í samfélaginu eða staða ákveðinna hópa t.d. Karlar hafa haft afar sterka stöðu og krafti hennar hafa þeir verið gerendur í að áreita og kúga. Í langri prestsþjónustu minni hef ég gegnum samtöl og sálgæslu heyrt margar sögur um ofbeldi í garð kvenna og ég þekki vel hve eyðileggjandi slíkt hefur verið fyrir líf þeirra og líka fyrir aðstandendur þeirra. Kynferðislegt ofbeldi er skuggi í samfélaginu sem við þurfum að lýsa upp. 

Þegar við lesum fornar  bókmenntir okkar er alveg ljóst að forfeður okkar elskuðu lögin og lagaþrætur. Við höfum haft mikla virðingu fyrir lögunum. Þó er ljóst að hin síðari ár hefur lagabókstafur illa náð yfir þau afbrot sem tengjast kynferðislegu áreiti og ofbeldi. Sönnunarbyrði brotaþola í slíkum málum verið nánast óframkvæmanleg.

Samfélög manna breytast með tækni. Sú bylting sem orðið hefur í fjölmiðlun og öllu upplýsingaflæði hefur leitt af sér miklar breytingar. Nú hefur fólk fengið rödd. Áður var nær ógerningur að segja frá nokkru. Það voru engin tæki eða tól fyrir slíkt. Þá varð að bera harm sinn í hljóði. Lifa með ofbeldinu. Það var enginn "goði" sem hægt var að leita til eins og í gamla samfélaginu okkar. Enda hefðu þá karlarnir hæglega getað ónýtt málið eins og gert var þá.

Hlaðvarpið opnar fyrir rödd kvenna. Opnar fyrir rödd þeirra kúguðu og undirokuðu sem hafa búið við misnotkun og ofbeldi árum og áratugum saman.  Ég fagna þeim röddum sem nú koma fram og segja sögu sína. Segja frá brotum og kúgunartilburðum karla. Karlar kveinka sér undan frásögnum kvenna.  Þeir geta hvorki notað hólmgöngur né lagarefjar til að verja «heiður sinn». Heiður þeirra fór um leið og þeir brutu gegn annarri manneskju.  Vissulega verða margir karlar aldrei dæmdir að lögum en hin nýja bylting kennd við metoo mun láta þá lifa við þann "fjörbaugsgarð"  að sögum þolenda þeirra er trúað. Ég styð Eddu Falak og þann starfa hennar að hjálpa röddum kvenna að heyrast.