Á jólum

Á jólum

Og svo er það nú einkennilegt, að guðfræðingar eru sammála um að erðfiðustu aðtæður kirkjunnar hverju sinni í sögunni, þegar kirkjan er í mestri hættu, hafi ekki verið tímar ofsókna og harðræðis, heldur góðæris- og velgengnistímarnir. Þegar allt gengur í haginn og hið daglega brauð, sem við biðjum um í faðir vorinu, fæði, klæði, húsnæði, allt það sem við þurfum til að komast af frá einum degi til annars – þegar allt þetta er auðfengið.

Lúkas 2. 1-14.

En svo bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara

Þannig byrjar jólaguðspjallið. Svona eru fyrstu orðin. Þetta eru orð sem við mörg sem eldri erum höfum þekkt frá okkar fyrstu tíð. Og ég minnist þess sem barn að manni þótti gott að heyra þennan Ágústus keisara nefndan. Hann var nánast jafngóður og fjárhirðarnir og englarnir, vitringarnir, þessa mikilvægu persónur í jólasögunni.

Þannig var fyrir manni allt gott í þessu guðspjalli og rómarkeisarinn bara fínn. En það var boð, tilskipun sem gekk út frá honum og því urðu allir þegnar hans í víðlendu keisaradæmi að hlýða. Hvort sem þeim líkaði betur eða verr. Alþýðufólkið, almúginn hafði ekkert val andspænis ákvörðunum valdhafanna, hvort sem þær urðu til góðs eða ills.

Rómarkeisarar gáfu síðar út tilskipanir um að hinir kristnu væru réttdræpir hvar sem í þá næðist, því þeir væru óvinir ríkisins, hættulegur hópur trúvillinga, sem neituðu að viðurkenna guðdómleik keisarans. Þess vegna skyldi þeim eytt, útrýmt. Þannig lifði frumkirkjan, kirkja Jesúbarnsins í heil tvö hundruð ár, hafði helgihald sitt í leynum, útbreiddi fagnaðarerindið á laun. Ekki beint hagkvæm vaxtarskilyrði, eða aðstæður líklegar til árangurs – engu að síður mögnuð útrás; því svo marga þyrsti í heyra orð sannleikans, verða hans sem lagður var í lágan stall og birti Guð á jörðu.

Í Rómarríkinu komu keisarar og fóru, iðulega úr þessum heimi dauðir eftir eiturbyrlan eða með rýting í bakinu. Svik og launráð valdafíknar og græðgi urðu þeim oftar en ekki að falli. Höfðingjarnir sem komust til valda með prettum og illvirkjum og stjórnuðu í geggjaðri mannvonsku; þeim var steypt af stóli. Úr stundarljóma og dýrð valdanna var þeim fleygt út í ystu myrkur.

Þannig hafa höfðingjar heimsins, þeir sem hafa ríkt í krafti pólitísks valds eða peninganna, komið og farið, og búið oftar en ekki við harðan dóm sögunnar - en kirkja Krists hefur lifað; oft við hörð kjör, ofsóknir og dauðans ógn, alltaf komist af, alltaf átt í sínum röðum predikara og spámenn, sem flutt hafa hinn góða boðskap í mannheim, orðin um frið, réttlæti, mannúð og kærleika; orðin líka um það að þekkja sín mörk. Og það sem meira skiptir. Kirkjan hefur líka átt í sínum röðum venjulegt fólk sem lifað hefur fagnaðarerindið í orðum sínum og verkum, án skrúðmælgi, í auðmýkt og náungakærleika, og verið þannig heillandi fyrirmynd öðrum í daglegu lífi sínu.

Og svo er það nú einkennilegt, að guðfræðingar eru sammála um að erðfiðustu aðtæður kirkjunnar hverju sinni í sögunni, þegar kirkjan er í mestri hættu, hafi ekki verið tímar ofsókna og harðræðis, heldur góðæris- og velgengnistímarnir. Þegar allt gengur í haginn og hið daglega brauð, sem við biðjum um í faðir vorinu, fæði, klæði, húsnæði, allt það sem við þurfum til að komast af frá einum degi til annars – þegar allt þetta er auðfengið og við fáum jafnvel gnótt á gnótt ofan og ofgnótt af heimsins gæðum, þá gleymum við guði og ofmetnumst, einstaklingar og svo heilu samfélögin, sem fara að segja við sig sjálf: Hvað þurfum við að þakka ?; höfum við ekki skapað okkar auð. Hví ættum við að staðnæmast og hugsa okkar gang ? Og þeir sem ekkert eiga og hafa, er það ekki bara undirmálsfólk, sem uppsker eins og það sáði?

Það kann aldrei góðri lukku að stýra að hafa magann fyrir Guð, svo vitnað sé nú í orð postulans. Þetta er gömul saga og ný. Enn ein birtingarmynd þeirra fjölda mótsagna sem búa í mannlegu eðli.

Fæðu þina og fóstrið allt – fyrir það honum þakka skalt, þannig yrkir Hallgrímur Pétursson um sálina sína sem hann kallar þurfamann. Þurfamaður ertu mín sál. Þiggur af Drottni sérhvert mál. Hann minnir sjálfan sig og aðra á að við erum í raun oft ekki máttugri en sprek á ströndu sem fleygist fyrir veðri og vindum.

Og Hallgrímur vísar í guðsóttann. Orðið Guðsótti, þetta gamla og góða orð er nánast horfið úr íslensku máli og vitund – enda hefur það þótt ófínt að tala um ótta, eða að það geti verið heilnæmt yfir höfuð að óttast, í þeim skilningi orðsins, að bera virðingu fyrir Guði og mönnum, þekkja sín mörk í umgengni við gæði jarðar og í umgengni við fólk, þakka hvern dag sem guð gefur, hverja stund.

Það hefur líka þótt ófínt að tala um bænir; um trú, og um andleg verðmæti; líka heldur gamaldags og afdankað að líta á jólin sem trúarhátíð. Miklu fremur hefur þessi hátíð verið skoðuð með okkar þjóð sem hátíð hluta og umbúða, hátíð, glaums og gleði í einhverri óskilgreindum og óskiljanlegum jólastemningarorðavaðli. Er jólin að finna í einhverjum tilteknum búðum; er jólastemningin í einhverri ákveðinni verslunarmiðstöð. Það mætti halda – miðað við auglýsingarnar sem enn glumið í eyrum okkar á aðventunni, líkt og enn sé árið 2007 og vitna um mikla andlega fátækt, og eru eins og dauðastunur græðgisvæðingarinnar

Jólastemning, jólafriður – þetta fæst ekki keypt eða sótt fyrir peninga, heldur með því að horfast í augu við barnið sem fæddist í Betlehem forðum. Í honum býr jólafriður, jólastemning er við getum fundið og auðgað með líf okkar.

Barnið sem sækir mig og þig heim og vill gera okkur að sínu barni; barnið sem kemur og knýr á með raunverulegt erindi. Ekki orðafroðu, glingur eða glys. Hið sanna ljós heimsins, Drottinn Jesús sem María fæddi í þennan heim. Hann kemur á jörðu til að birta hinn lifandi Guð. Til að minna okkur á hver við erum, hvað við þurfum og hvert við eigum að stefna með veru okkar og líf. Hann er ljósið sem skín í myrkrum.

Nú eru þeir margir sem kvíða komandi misserum, engjast í ugg og ótta um efnalega framtið sína og barna sinna. Það er sannarlega skelfilegt hlutskipti. En í þannig aðstæðum eru margir nú. Horfumst í augu við það. Fólk sem eru saklaus fórnarlömb græðgishyggju og dómgreindarleysis þeirra sem kipptu fótum undan efnahag þessarar þjóðar með ótrúlegri framgöngu. Fólk sem horfir fram á atvinnumissi og enn þyngri skuldaklafa. Finnst myrkrið umkringja og spyr hvar er von, hvar er leið ?

Reiði kraumar skiljanlega. Uppgjör og skuldaskil eru brýn. Stund sannleikans, þegar öll kurl koma til grafar verði líka stund réttlætisins. Annars verðum við sundruð þjóð, þannig þjóð er á vonarvöl. Þjóð í myrkrum.

Við þurfum samstöðu nú. Ekki vorum við samstíga í góðærinu; það var ekkert góðæri allra. Margir voru þar skildir eftir.

Sú þjóð sem í myrkri gengur sér mikið ljós. Yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna skín ljós. Þannig talar spámaðurinn Jesaja mörg hundruð árum fyrir fæðingu Jesú. En þetta eru orð sem við kristnir menn túlkum sem spádóma um hann. Réttlætisins sól segir Björn Halldórsson.

Nú þurfum við íslensk þjóð þetta ljós. Það hefur dugað okkur vel í gegn um mögur og myrk ár, þegar íslensk þjóð var skortþjóð, fátæk og snauð og lífið frá einum degi til annars var oft linnulaus barátta um að finna eitthvað svo hægt væri að lifa af. Í gegn um pestir, hungursneyðir, barnadauða, kúgun og ofríki , í miklum vanmætti en með ótrúlegum andlegum styrk tókst forfeðrum okkar og formæðrum einhvern veginn að komast af – í aðstæðum sem myndu sjálfsagt buga okkur. Fólk sem kunni að segja – Þurfamaður ert þú mín sál.

Kom þú Jesús með birtu þína og yl. Leita mín og finn mig. Hjálpa mér úr nauðum. Lát réttlætissól þína auðga líf mitt.

Þannig megum við hugsa nú, á heilagri jólahátíð. Í heitri bæn - í þökk fyrir allar gjafir skaparans og í ákalli til hans um að við megum efla mennskuna, fara í friði um samfélag okkar og þjóna Guði og mönnum með gleði. Að yfir okkur skíni mikið ljós.

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.

Þannig hljómar söngur englanna á Betlehemsvöllum, yfir undrandi og óttaslegnum hjarðmönnum, sem vita hvorki í þennan heim né annan. Gefi Guð að þessi söngur megi hljóma yfir undrun okkar og ótta. Styðja okkur og styrkja og breiða hjúp gleði og birtu yfir líf okkar allra, að við meigum eiga gleðileg jól í Jesú nafni.