Fólk á ferð

Fólk á ferð

Nú þurfum við áfram að vera í sama liði sem vinnur að því að gera heiminn lífvænlegri, kærleiksríkari, miskunnsamari, þar sem frelsarinn nýfæddi er lagður í jötu hjartna okkar.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
24. desember 2020
Flokkar

Prédikun flutt á helgistund á jólanótt 24. desember 2020. 

(Upptaka í Keflavíkurkirkju, sjónvarpað á RÚV á aðfangadagskvöld)

Míka 5:1-4; Tít.2:11-14; Lúk. 2:1-14.

Bæn:

Drottinn Guð, gjafari allra góðra hluta, og upphaf gleðinnar.  Með fæðingu Jesúbarnsins sendir þú bjarta geisla inn í myrkur jarðar.  Gef að þetta ljós lýsi einnig hjá okkur.  Lát það geisla í öllu sem við gerum, svo að við megum tigna þig og tilbiðja að eilífu. Þegar auglit þitt snertir okkur og orð þitt leysir okkur, þá verðum við eins og þú. Amen.  

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen. 

Jólatré, sígrænt og ilmandi.  Ljósum prýtt og skreytt.  Hlaðið táknum sem minna á það besta sem lífið hefur upp á að bjóða, fegurð, gleði, kærleika, þakklæti, tilhlökkun, fyrirgefningu, sátt.  Það er róandi að horfa á ljósin, finna ilminn, hvíla í þögninni.  Staldra við, hugsa og njóta.  Aðfangadagskvöld er öðruvísi en öll önnur kvöld ársins.  Það er heilagt.  Í gamla daga var sagt að nú væri orðið heilagt þegar klukkan sló sex.  Þá var kvöldið frátekið til þess sem hversdagurinn bauð ekki upp á.  Það væri óskandi að allt fólk ætti slíka stund eitt, eða með þeim sem þau elska. 

Fullvel man ég fimmtíu ára sól,  fullvel meir en hálfrar aldar jól orti sr. Matthías Jochumsson.  Já, við sem eldri erum hugsum sennilega mörg til bernskujólanna.  Þá, eins og nú var lesin frásögnin af fæðingu frelsarans sem skráð er hjá Lúkasi guðspjallamanni og lækni.  Þetta er ekki helgisögn sem á sér enga stoð í raunveruleikanum.  Lúkas tengir fæðinguna við mannkynssöguna með því að tengja hana við þá sem völdin höfðu á þeim tíma.  Ágústus keisara, sem reyndar hét Oktavíanus en fékk virðingarheitið Ágústus og sennilega þekktari sem Ágústus nú á dögum vegna frásögunnar í Lúkasarguðspjalli.  Hann var maður valdsins og fyrirskipaði skráningu fólks til að hægt væri að tryggja eðlilega skattheimtu þegnanna.  Hann hefur kannski gætt meðalhófs eins og oft er talað um í nútímanum þegar lög og reglur eru annars vegar. 

Við höfum ekki farið varhluta af reglugerðunum sem settar hafa verið með reglulegu millibili þetta árið vegna heimsfaraldursins.  Reglugerðir um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, þar sem markmiðið er að hægja eins og unnt er á útbreiðslu Covid-19 sjúkdómsins.  Það hefur reynt töluvert á fólk um allan heim.  Við erum ekki vön svona takmörkunum í okkar heimshluta nema þau sem enn muna styrjaldarástand og hörmungarnar sem því fylgdi. 

Já, það eru margir Ágústusar þessa heims sem taka ákvarðanir fyrir fjöldann. 

Fólk á ferð.  Jólaguðspjallið segir frá fólki á ferð.  Fólki sem þekkti vonir og væntingar þjóðar sinnar.  Fólki sem hafði vonir og væntingar um ófædda barnið sitt eins og foreldrar allra tíma.  María og Jósef lögðu ekki alveg út í óvissuna því þau vissu hver áfangastaðurinn var, en þau lögðu út í óvissuna um næturstaðinn og hvernig bregðast skyldi við ef barnið fæddist á meðan þau voru að heiman.  Því miður er það svo í heimi hér að til er fólk á ferð sem ræður ekki sínum næturstað og á hann ekki vísan.  Býr ekki við það öryggi sem við mannfólkið þurfum til að líða vel.  En María og Jósef hvíldu í öryggi trúarinnar.  Þau hvíldu í þeirri trúarhugsun að þau væru ekki ein á ferð.  Sú trú kemur fram í lofsöng Maríu sem hún flutti í heimsókn hjá Elísabetu frænku sinni og Lúkas guðspjallamaður greinir einnig frá. „Önd mín miklar Drottin og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum“  segir þar.

Fæðingarrúm þessarar ungu frumbyrju var gripahús en ekki mannabústaður.  Rúmið hans lágur stallur dýranna en ekki hreint og fínt barnsrúm.  Það var ekkert sem benti til þess að hér væri Guð mættur inn í veröld mannanna. Að hér væri sá sem Páll postuli sagði um að við ættum að líkjast.  Ættum að vera með sama hugarfari og hann, sem tók á sig þjónsmynd og varð mönnum líkur og sr. Einar í Heydölum bað í sálmi sínum:  „vil ég mitt hjartað vaggan sé, vertu nú hér, minn kæri.“ 

Nei, það var ekkert laust pláss í gistihúsinu þá, en er það nú?  Er hjarta okkar opið fyrir barninu nýfædda?  Honum sem englarnir sögðu við hirðana að væri frelsari þeirra?  Á öllum öldum, um allan heim hefur fólk reynt á eigin skinni að Jesús er frelsari.  Sá sem frelsar frá því sem meiðir og eyðir til þess sem græðir og bætir.  Þess vegna höldum við gleðileg jól, þess vegna leitumst við við að gleðja aðra á jólum sem endranær.  Þess vegna munum við sem höfum nóg betur eftir þeim sem minna hafa á þessum tíma árs, því jólin eru fagnaðarhátíð vonar, trúar og kærleika. Jólin eru hátíð þegar miskunn Guðs birtist í kærleika manna í milli og þess friðar sem Guð einn getur veitt.  Sá friður felst í jafnvægi náttúrunnar og manna í milli, í jöfnum rétti allra manna til lífs og ákvarðana í eigin lífi og þeirra sem okkur er trúað fyrir.  Ákvarðana sem leiða til blessunar einstaklingum og mannkyni öllu til handa.

Á þessu ári höfum við, sem aldrei fyrr, reynt á eigin skinni að vera öll í sama liði gegn sama óvini, sem er veiran skæða sem leiðir til covid 19 sjúkdómsins.  Nú sér fyrir endann í þeirri baráttu.  Nú þurfum við áfram að vera í sama liði sem vinnur að því að gera heiminn lífvænlegri, kærleiksríkari, miskunnsamari, þar sem frelsarinn nýfæddi er lagður í jötu hjartna okkar.  Þaðan sem lífsblóðinu er dælt í hverja frumu heimsins og hverja taug.  Þannig verður heimurinn heill, einstaklingurinn sjálfstæðari og börnin glaðari.  Börn þessa heims eiga skilið allt það besta sem lífið hefur upp á að bjóða.  Það er okkar fullorðna fólksins að sjá til þess. 

Lífsferðin okkar verður meira traustvekjandi ef við fylgjum Maríu, móðurinni ungu og tökum barnið hennar í okkar faðm eins og hún forðum. 

Skáld kunna að segja í fáum orðum það sem hefur mikla merkingu.  Það kunni sr. Einar Sigurðsson í Eydölum þegar hann orti sálminn Nóttin var sú ágæt ein. Eitt af mörgum erindum þess sálms er svona: „Fjármenn hrepptu fögnuð þann, þeir fundu bæði Guð og mann, í lágan stall var lagður hann, þó lausnarinn heimsins væri.“ 

Guð kom ekki í heiminn sem valdsins maður eða ríkur á veraldlega vísu.  Hann kom í heiminn sem lítið barn og gerir hvert fátækt hreysi að höll, eins og sr. Valdimar Briem orðar svo vel í sálminum þekkta „Í Betlehem er barn oss fætt“.  Enn einn presturinn yrkir um jólin og boðskap þeirra:  „Af himnum ofan boðskap ber oss, börnum jarðar, englaher.  Vér fögnum þeirri fregn í trú, af fögnuð hjartans syngjum nú.“ 

Kirkjan er samfélag þeirra sem trúa á barnið sem var í jötu lagt og englar sögðu frá í fyrstu.  Hún er samfélag þeirra sem leitast við að lifa eftir þeim gildum sem frelsarinn birti og boðaði.   

Þessi helga stund fer fram hér í Keflavíkurkirkju.  Hér á Suðurnesjum hafa samfélögin hvað mest fundið fyrir afleiðingum efnahagshrunsins fyrir tólf árum og nú heimsfaraldursins.  Fjölmargir hafa misst atvinnu og vona eins og allir að brátt muni horfa til betri vegar.  Prestar, starfsfólk Keflavíkurkirkju og sjálfboðaliðar hafa ávallt lagt sig fram um að létta sóknarbörnunum lífið og það ber að þakka sem og allt það góða kirkjustarf sem unnið er hér og um land allt. 

Orð frelsarans um miskunnarverkin eru tekin alvarlega þegar hann segir:  Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín.“ „Allt sem þér gerðuð  einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér. „Þín heilög návist helgar mannlegt allt – í hverju barni sé ég þína mynd“ orti Jakob Jóhannesson Smári. 

Á Betlehemsvöllum mætast hið jarðneska og hið himneska, mætast fátækir hirðar og englar, sendiboðar Guðs.  Guð kemur inn í veröld Ágústusar og skapar nýjan himinn og nýja jörð. Þar sem réttlæti býr, þar sem friðurinn býr.  Þar sem ljós Guðs lýsir upp dimma jörð, þar sem dýrð Drottins ljómar yfir öllu og allt er orðið nýtt.

Við skulum því fagna og gleðjast og lofa Guð fyrir heilög jól.

Gleðilega hátíð ljóss og friðar, í Jesú nafni.  Amen.