Eftirvænting

Eftirvænting

Umræða um kjör aldraðra hefur verið í umræðunni að undanförnu. Skýrsla sem Stefán Ólafsson, prófessor vann fyrir Öryrkjabandalagið og lögð var fram í vikunni sýnir fram á að kjör öryrkja hafa versnað markvert hér á landi miðað við aðra samfélagshópa.
fullname - andlitsmynd Kjartan Jónsson
04. desember 2005
Flokkar

Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný. Menn munu gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því, er koma mun yfir heimsbyggðina, því að kraftar himnanna munu bifast. Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð. En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd.

Hann sagði þeim og líkingu: Gætið að fíkjutrénu og öðrum trjám. Þegar þér sjáið þau farin að bruma, þá vitið þér af sjálfum yður, að sumarið er í nánd. Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd.

Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt er komið fram. Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða. Lúk 21.25-33

„Það biður enginn um að verða sjúklingur, hvað þá heldur öryrki, þvílík niðurlæging. En oft hefur skotið upp þeirri hugsun þegar maður er illa farinn af hungri, að það geti verið betra að vera enn meira veikur, þá kæmist maður þó inn á spítala, þar sem maður fær að borða. Ég er ekki að biðja um mikið … bara ef ég hefði að borða, þá væri ég aðeins hressari. Maður verður þunglyndur af því að maður er illa staddur, bæði andlega og fjárhagslega. Þegar maður finnur að maður getur ekkert gert til að bjarga sér þá kemur það yfir,“ sagði Sigríður Backman, öryrki í liðinni viku.

Umræða um kjör aldraðra hefur verið í umræðunni að undanförnu og í síðustu viku komust mál öryrkja í sviðsljósið. Skýrsla sem Stefán Ólafsson, prófessor vann fyrir Öryrkjabandalagið og lögð var fram í vikunni sýnir fram á að kjör öryrkja hafa versnað markvert hér á landi miðað við aðra samfélagshópa og eru mun lakari en á hinum Norðurlöndunum.

Í ritstjórnargrein Morgunblaðsins í gær segir: „Á Íslandi eru allar forsendur fyrir því að tryggja öllum mannsæmandi líf. Af hverju er það ekki gert?“ Við getum bætt því við, að þetta er því verra að við búum í kristnu landi.

Í lexíunni sér Jesaja spámaður inn í framtíðina og dregur upp mynd af messíasi sem koma mun. Hann mun dæma af réttvísi og skera úr málum hinna nauðstöddu með réttlæti. Hvergi munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á Drottni á sama hátt og sjórinn hylur hafsbotninn.

Við erum minnt á þennan spádóm um messías á aðventunni. En gagnlegt er að hafa í huga að hann var upphaflega fluttur fólki sem hafði mjög óljósar hugmyndir um lífið eftir dauðann. Trúin snerist fyrst og fremst um lífið hér á jörð. Þess vegna hefur boðskapur spámannsins tvöfalda merkingu fyrir okkur, bæði lífið núna og framtíðina. Boðskapur spámannanna til okkar er almennt sá að við eigum ekki að leiða hjá okkur óréttlætið í þjóðfélaginu, á vinnustaðnum, í fjölskyldunni okkar heldur taka á því. Þetta er ekki bara mál Guðs sem hann mun láta til sín taka á efsta degi. Hann mun gera það líka en Guðs ríki er á meðal okkar í Jesú. Guð er nálægur. Hann er vandlátur og ber hag þeirra fyrir brjósti sem standa höllum fæti á einhvern hátt, m.a. aldraðra og öryrkja. Jesús hóf starf sitt á því að segja í sinni fyrstu ræðu: „Andi Drottins er yfir mér af því að hann hefur smurt mig … til að … flytja fátækum gleðilegan boðskap … láta þjáða lausa“ (Lúk. 4,18). Í einum af endurkomutextum Matteusarguðspjalls segir að í dómi Guðs verði lagt mat á okkur eftir því hvernig við höfum komið fram við þá sem minna mega sín. „Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér“ (Matt. 25,40). Þegar móðir Teresa var spurð um aflið að baki þjónustu hennar sagði hún: Fyrst íhugum við hver Jesús er og síðan förum við og leitum að honum í dulargervi. Þetta sagði hún út frá þessari hugsun að Jesús taki á sig gervi hins ókunna, fátæka, hungraða, veika, fangans og hins tötrum klædda.

Þetta er áminning til okkar um að láta þjáningu meðbræðra okkar til okkur taka. Við erum aðilar að hinu íslenska þjóðfélagi. Raust okkar skiptir máli.

Á aðventunni bíðum við komu Jesú og íhugum þetta undur að Guð varð einn af okkur. Hvernig er hann? Er hann eins og ómálga og saklaust barn eða sem sigraður maður, krossfestur á milli tveggja óbótamanna? Flest okkar höfum gert okkur einhverja mynd af honum. Mörg okkar búum til guð sem okkur geðjast að, oft góðan og umburðarlyndan. En Jesús færir okkur Guð, skapara himins og jarðar, klæðir hann holdi og blóði, gerir hann áþreifanlegan, nálægan, sýnir okkur eiginleika hans með lífi sínu. Í Jesú Kristi fær Guð andlit, hættir að vera óhlutstæð hugmynd eða hugtak. Við getum virt hann fyrir okkur, tekið við honum eða hafnað. Ágætur höfundur segir að og auðvelt sé að trúa á Jesú, þar til kemur að páskunum, þá kárni gamanið. Í tengslum við þá setji Jesús fram fullyrðingar sem sprengi ramma mannlegrar hugsunar, að dauður maður hafi risið upp frá dauðum. Hann sagðist vera Guð, messías sem er konungstitill. Engum múslíma myndi til hugar koma að segja um Múhameð að hann væri Alla, eða Gyðingi að Móses væri Yahwe. Hindúismi gerir ráð fyrir að lífið sé endanlaus hringrás endurholdgana en gefur ekki rými fyrir eina endanlega holdtekju, og í búddisma er óhugsandi að frjáls og máttugur guð geti holdgast. Jesús er einstakur.

Á aðventunni er okkur ætlað að íhuga það að Guð nálgaðist okkur. En einnig að hann mun koma til að dæma lifendur og dauða og fullgera sköpunarverk sitt, og láta ríki sitt koma í fyllingu svo að vilji hans verði jafnt á jörðu sem og á himni. Guðspjallið dregur upp sterka mynd af miklum náttúruhamförum sem verða munu er mannssonurinn kemur. Kraftar himnanna munu bifast. Himinn og jörð munu líða undir lok. Svo mikil angist mun verða á meðal þjóðanna að fólk gefur upp öndina af ótta og kvíða fyrir því sem í vændum er. Í Opinberunarbókinni er skelfingunni yfir því að þurfa að standa einn og óstuddur frammi fyrir skapara sínum lýst þannig: "Og þeir segja við fjöllin og hamrana: Hrynjið yfir oss og felið oss fyrir ásjónu hans, sem í hásætinu situr, og fyrir reiði lambsins" (Op. 6,16). Þetta verður dagur uppgjörs við allt ranglæti og illsku.

En fyrir Guðs börn verður þetta fagnaðardagur. Jesús segir: Réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd. Guðs ríki er í nánd í fyllingu sinni. Þess vegna er þetta aðventuboðskapur og þess vegna á að ríkja eftirvænting og gleði í hjörtum okkar og í kirkjunni yfir endurkomu Jesú Krists. Við erum hvött til að vera viðbúin henni á hverri stund, halda vöku okkar og varðveita trúna því að í Kristi eigum við talsmann, frelsara, frammi fyrir föðurnum.

Við lifum á tímabilinu á milli fyrstu og seinni komu Jesú Krists. Það tímabil er oft kallað tímabil Heilags anda eða kirkjunnar. Sumir hafa fyllst efasemdum vegna þess að svo virðist sem það hafi dregist að Jesús komi aftur og hafa spurt hvað dvelji hann. Sumir, spekingar hafa jafnvel fullyrt að hann sé alfarinn og að við verðum því að sjá um okkur sjálf og búa til okkar eigið gildismat. Auswitz og Rwanda gætu bent til að svo sé. En rússneski rithöfundurinn Dostoevsky sagði: „Ef Guð er ekki til er allt leyfilegt.“ En við kristið fólk lifum í vissunni um nálægð Guðs í lífi okkar og kirkjunnar. Guðs ríki er nálægt, það er komið. Jesús sagði: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi.“ Og um lærisveina sína sagði hann: „Þeir eru í heiminum, en … ekki af heiminum“ (Jóh. 17,11, 14). Þetta er hlutskipti okkar. Við eigum að vera eins og súrdeig, salt, borg á fjalli sem dylst ekki, ljós sem ekki er sett undir mæliker, afl í samtíðinni sem byggir Guðs ríki, heldur fram gildismati þess, vinnur að því að koma því á hér á jörð innan um og saman við samtíð sem tilheyrir ekki ríki hans. Við eigum að miðla þessu afli sem er fólgið í trúnni, og trúnni sjálfri, til að gefa samtíðinni hlutdeild í ríkinu.

Þetta ríki Guðs er svo öflugt að þótt það styðjist ekki við veraldleg vopn hafa fylgjendur þess á öllum tímum neitað að láta kúga sig til að gerast liðhlaupar eða hafna gildismati þess, jafnvel þótt það hafi kostað þá lífið. Þess vegna fer það sigurför um heiminn en þrífst þó best í mótlæti. Jafnvel hlið heljar standast ekki fyrir því.

Jesús kemur til okkar sem kirkju og hann kemur til okkar sem einstaklinga, mín og þín, inn í veröld okkar og aðstæður okkar, hverjar sem þær eru. Hann kemur með líf, von og kærleika, einnig til þín sem þjáist af erfiðum sjúkdómi, glímir við sorg, gjaldþrot, hjónaskilnað, atvinnuleysi, dimmt ævikvöld, alnæmi eða sem átt barn í eiturlyfjum. Við getum ekki alltaf útskýrt hvers vegna við þurfum að glíma við slíka erfiðleika en við getum verið þess fullviss að hann er nálægur okkur í öllum aðstæðum og að hann elskar okkur óbifanlega. Jesús Kristur sem kom og kemur, þekkir dýpsta myrkur. Hann var krossfestur og yfirgefinn af Guði. Kross hans gefur okkur von þar sem engin von er. Ágætur guðfræðingur sagði: Tímabilið frá föstudeginum langa til páskadags er saga mannsins í hnotskurn í fortíð, nútíð og framtíð: Guð grætur með okkur svo að við getum dag einn hlegið með honum. Þetta er hin kristna von. Það er líf handan dauðans og þjáningarinnar, von í vonleysinu. Sá dagur mun koma er endir verður bundinn á allt þetta, þjáningu og sorg. Þá mun lífið hafa sigur. „Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið“ (Op. 21,4). Þangað til höfum við hvert annað í hinu kristna samfélagi. Tökum hvert annað að okkur, eins og Kristur gerði, til að viðhalda voninni, glíma við efann og feta hinn mjóa veg trúarinnar. Páll hvetur okkur í pistlinum til að lesa ritningarnar til að viðhalda þolgæðinu í öllu mótlætinu. Hann endar á þessari fallegu bæn: „Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni, svo að þér séuð auðugir að voninni í krafti heilags anda.“ Notum aðventuna til að íhuga dýpt þessa boðkapar sem skiptir mannkynið meira máli enn nokkuð annað og okkur sem einstaklinga. Reynum að tileinka okkur hann. Undirbúum hjörtu okkar undir að taka á móti Jesú sem barni, og væntum endurkomu hans sem endurlausnara. Á legsteini konu sem jörðuð var undir gömlu eikartré var aðeins þessi áletrun: „Ég bíð.“

Lausn yðar er í nánd!