Nektin og lífið

Nektin og lífið

Hvað sér presturinn sem snýr sér frá altarinu í Neskirkju? Jú, starandi strípaling! Reyndar er sá málaður á striga, hangir í safnaðarheimilinu og horfir alla leið að altarinu. Hann á erindi við fólk og boðskap hvítasunnunnar. Í lexíu þess dags segir: “Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til.” Hugvekjan í messu í Neskirkju fer hér á eftir.

Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín. Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu, anda sannleikans, sem heimurinn getur ekki tekið á móti, því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann, því hann er hjá yður og verður í yður. Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa. Ég kem til yðar. Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig, því ég lifi og þér munuð lifa. Á þeim degi munuð þér skilja, að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður. Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum, og ég mun elska hann og birta honum sjálfan mig. Jóh. 14. 15-21

Strípaður starandi

Hvað heldur þú að blasi við okkur prestunum í Neskirkju, þegar við snúum frá altarinu? Jú, söfnuðurinn, kirkjuhúsið, en í langsýn starir á okkur nakinn maður, strípalingurinn á málverki Helga Þorgils Friðjónssonar sem er á vesturveggnum í safnaðarheimilinu. Það var ekki ætlunin að hengja myndina upp á þessum stað til að mannveran horfði alla leið til altarisins. Myndinni var einfaldlega komið fyrir á miðjum vegg, þar sem hún fór vel. En svo háttar til, að bein sjónleið er milli altaris og veggjarins og hinn nakti maður starir alltaf alla leið að borði himinsins hér í kirkjunni, er í beinu sambandi þrátt fyrir fjarlægðina – og við prestarnir erum í beinu sambandi við þessa hljóðlátu nekt þarna frammi. Fleiri hafa tekið eftir þessu, ekki síst fólk í kórunum, sem æfa í kirkjunni, og stillir sér upp í kórtröppurnar. Ein konan í Vox Academica reynir m.a.s. að standa alltaf þar sem sést í karlinn! Adamsmyndin

Stöldrum við Adamsmynd Helga Þorgils á þessum hvítasunnudegi. Myndin er að láni. Að því líður að hún fari og önnur komi í staðinn. Um myndina hefur verið mikið rætt og jafnvel deilt, hún lofsungin og líka löstuð. Krakkarnir hafa ekki legið á skoðun sinni. Sum hafa sagt: “Oj bara, kallinn er allsber.” Virðuleg frú úr Þingholtunum sagði, að henni fyndist eins og hún væri óvart komin inn í karlasturtuna. Nokkur hafa velt vöngum yfir hvort nektaráhersla myndanna væri ósæmileg. Nákvæmnisfólk hefur fjargviðrast yfir að hlutföllin í mannfólkinu séu ekki rétt, fæturnir séu úr hlutfalli við leggina. Líkaminn sé ekki rétt gerður. Aðrir hafa sagt, að á þessum myndum í safnaðarheimilinu hefði nú verið skemmtilegra að hafa fleiri naktar konur en ekki bara þessa strípuðu karla, drengi og karlengla! Enn aðrir hafa sagt að kaffihús Neskirkju væri dónalegasta kaffihús borgarinnar! Myndin hefur svo sannarlega vakið viðbrögð. En þau hafa aðallega verið skyndiviðbrögð og dýptina hefur skort.

Tíminn er bæði harður húsbóndi og böðull í heimi listarinnar. Þau verk ein lifa af anda hverrar tíðar, smekk hverrar kynslóðar, sem hafa einhverja dýptarmerkingu sem styður fólk í að lifa í veröldinni. Þau verk ein hafa klassískt gildi, sem hjálpa fólki til að hugsa um tilveru sína með nýjum hætti, festa sálarakkeri sín í dýptarfestur sem halda. Ekki ætla ég að fella dóm um Adamsmynd Helga Þorgils, en ég vil biðja fólk um að staldra við og spyrja hver sé meiningin í þessari mynd. Hún er þrískipt eins og helgimyndir í kirkjulistinni hafa oft verið, svokölluð triptíka. Á hvítasunnudegi er við hæfi að minna á að triptíka (á enskunni triptych) er með þremur hlutum sínum tákn um hinn þríeina Guð. Síðan mynda línur í heildarmyndinni líka þríhyrning með oddinn upp, sem líka er þrenningartákn. Adamsmyndin ýrir því yfir áhorfandann máli þrennunnar.

Dagur mannsins

Myndin sýnir síðan dag, sem getur verið dagur í lífi manns, t.d. þinn dagur eða mannkynsins, ellegar allra manna frá morgni heims til sólarlags veraldarsögunnar. Að myndin spannar dag sést í því að á vinstri væng er morgunn, til hægri er kvöldsett. Síðan er lambið lausnartákn og vísar til guðslambsins, Jesú Krists. Fleira er þarna til að skoða. Þetta eru dýptirnar og varða annað en “oj, bara” og smáfyndni.

Vissulega er nekt mannsins sláandi í myndverkinu. Myndin er þó ótengd og óskyld klámi og vísar ekki til blygðunarefna. Nekt er táknmál, sem varðar gildi og tilvistarmerkingu manna. Í einhverjum aðstæðum verða allir menn naktir og varða jafnan stórmál í lífi fólks, fæðingu, dauða, sköpun lífs, sorg og djúpa gleði. Þegar mest er lifað er maðurinn nakinn. Því er svo sláandi, að snúa frá altarinu og horfa með eins konar himinnálgun á þessa mynd þarna frammi, sjá í henni tákn fyrir mannkyn í hnotskurn, það sem Guð sér þegar horft er á manninn, eins og hann er skapaður.

Skýlur og nekt

Nektarspurning myndarinnar hefur leitað á mig í vetur. Hvenær er fólk nakið og hvar verður það vart við nekt sína? Auðvitað er blygðunarvitundin misjöfn í fólki og varðar ólík atriði. Hin líkamlega nekt er eitt og svo er hin andlega nekt allt annað mál, djúpsettari og mikilvægari en hin líkamlega. Þegar við lendum í miklu álagi er eins og við verðum naktari og óöruggari. Þegar við missum, t.d. ástvin, maka, barn, húsnæði, vinnu og orðspor eru einhverjar andlegar skýlur slitnar af okkur. Þegar við lendum í ógöngum, erum kannski dæmd af dómstólum, lendum í fjárhagslegu klúðri, fangelsi, milli tanna á fólki eða heilsan bregst getur áfallið orðið svo altækt að við verðum jafnvel algerlega strípuð, tilfinningalega eða andlega.

Nýju fötin keisarans

Sagan um nýju fötin keisarans er dæmisaga um að lygin getur orðið svo alger, að heilt samfélagið var blekkt. Aðeins barnið sá. Keisarinn lét blekkjast, tók ekki mark á eigin skynjun, lét sannfæra sig um að fötin, sem skraddarinn þóttist sauma væru raunveruleg. Allir þóttust sjá klæðin og trúðu kannski að hann væri í einhverju. En barnið sá, að keisarinn var óklæddur: “Keisarinn er allsber,” hrópaði það. Þar með var sannleikurinn opinberaður, lygin féll. Hver er lygin í okkar samfélagi? Hluthyggjan er skefjalaus, sóknin í eignir líka, lausnir og lækningar eru keyptar, meinin eru fixuð, sýndarleikirnir og persónuleikritin eru ótrúlega íburðarmikil og vel útfærð. En svo hrynur eða fellur margt í lífi okkar allra, þetta sem fólk heldur séu raunverulegar skýlur, raunveruleg gildi. Líkamleg nekt hvetur til fatagerðar, sbr. máltækið “neyðin kennir naktri konu að spinna.” Andlega nakinn manneskja starir eftir því sem er einhvers virði – og starir þá að lausn himins, langleiðina að altarinu.

Adam og guðssýnin

Páll postuli var næmur á táknmál og sá vanda allra manna og mannkyns í hnotskurn í hinum fyrsta Adam. Hann ræddi því um mannkynið sem Adam. En í Jesú sá hann lausn allra og fjallaði um hann sem hinn annan Adam. Þegar fyrsta og öðrum Adam er spyrt saman verður til tvírætt spennupar mannsins, sem ólokinnar veru annars vegar, og svo hins vegar fullkomnandi lausnar hins frelsandi Jesú Krists hins vegar. Þessi tvenna er til staðar í Adamsmynd Helga Þorgils. Á móti Adamsmyndinni í safnaðarheimilinu er önnur mynd, sem sýnir engla yfir dalasýslulegum fjöllum. Þeir hella blessun yfir veröldina. Þar er mynd hvítasunnunnar.

Við ævikvöld

Mig langar til að kasta upp annarri mynd um daginn, nektina og lífið. Einhver ykkar hafið lesið ritverk kólombíska Nóbelskáldsins Gabríel Garcia Marques. Fyrir nokkrum árum varð hann alvarlega veikur og því ekki hugað langlífi. Dauðinn bankaði á sálardyrnar. Hann ákvað að draga sig algerlega í hlé til að hugsa sinn gang, gera upp og endurskoða líf sitt. Dagarnir voru taldir – og hvað yrði? En Marques var fremur með hugann við lífið en dauðann. Þegar lífið er við lok verður það hvað dýpst og stórkostlegast. Þá verður allt svo róttækt og tært. Hinn dauðadæmdi hefur tækifæri til að lifa mikið.

Bréf um elskuna

Þegar svo illa var komið fyrir Gabriel Garcia Marques skrifaði hann bréf til vina sinna og velti vöngum yfir hvað hann myndi gera, ef honum væru veittir nokkrir viðbótardagar, örlítið af tíma. Þar segir: “Ég myndi ekki segja allt sem ég hugsa, en örugglega hugsa allt sem ég segði!... Ég myndi ekki láta dag líða án þess að segja þeim, sem ég elska frá tilfinningum mínum.” “Enginn á sér tryggan morgundag...Í dag sérðu kannski í síðasta skipti þau sem þú elskar. Bíddu því ekki lengur. Vertu eins og dagurinn á morgunn kæmi ekki... þú munt örugglega harma síðar, ef þú hefur ekki gefið þér tíma fyrir faðmlag eða koss, og þú varst of önnum kafinn fyrir óskir annarra. Vertu nærri þeim sem þú elskar, tjáðu ást þína, elskaðu þau, taktu þér tíma til að biðjast fyrirgefningar, segja “gerðu svo vel, ”þakka þér fyrir” og tjá önnur ástaryrði, sem þú kannt. Enginn mun minnast þín fyrir leynilegar hugrenningar. Biddu Guð um að hjálpa þér til að tjá kærleika þinn.”

Marques var nakinn, af honum hafði allt verið hrifið. Hann var búinn að lifa daginn sinn og við það varð hann fyrir viskuskoti. Þetta bréf er um Adam, um manninn, og um viskuna gagnvart lífinu, hvatning til okkar að bregðast við, rétt eins og mynd Helga Þorgils í safnaðarheimilinu. Hið mikilvæga er að lifa ekki lengur í blekkingu hins alvalda, ríka en heimska keisara sem lætur blekkjast. Lífið er meira, dýpra og stórkostlegra en hlutirnir, stöðurnar, staða þín. Lífið vitjar þín. Þá kallar Andi Guðs til þín, vill vekja þig til lífs.

Krísan er tækifæri

Lífskallið getur borist okkur hvenær sem er, á hvaða aldursskeiði sem er, þegar við erum ung, þegar við erum gömul, þegar við erum á miðjum aldri. Mörg vitkast fyrst þegar þau lenda í krísu. Til er kínverskt tákn fyrir kreppu sem er sama táknið og er líka notað fyrir hugtakið tækifæri. Það er mikilvægt að nema þá speki. Þegar við lendum í einhverju stóru opnast einhver ný tækifæri fyrir okkur.

Hinn hvíti sunnudagur er í dag en líka alltaf þegar við komum til sjálfra okkar, viðurkennum nekt okkar og horfum til þess sem máli skiptir. Þá fær Adam að fara alla leið, að borði himinsins, þar sem er næring en líka andleg klæði til að hylja blygðun mistaka og andlegrar fátæktar. Allir eru velkomnir og andinn kemur til allra, Guðs góði andi sem elskar. Amen