Traust

Traust

Ég vil læra að treysta upp á nýtt. Ég held að við sem þjóð séum nú búin að átta okkur á því að við erum ekki lengur karl í krapinu á meðal þjóða, ekki dugi lengur að byggja á innantómum loforðum um teiknaða peninga og burtflognar hugmyndir. Samfélag sem byggir á trausti er samfélag sem ég á mér draum um.
fullname - andlitsmynd Pétur Björgvin Þorsteinsson
17. nóvember 2010

Í upphafi Þjóðfundar um nýja stjórnarskrá sem haldinn var nýverið var fjallað um þau gildi sem fundarmenn vildu að lögð yrðu til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Innihald stjórnarskrárinnar var síðan rætt út frá þeim. Það gleður mig að sjá að 94 einstaklingar völdu orðið traust. Aðeins þrjú orð voru nefnd oftar, þ.e. sjálfstæði (126), réttlæti (290) og lýðræði (328).(1)

Í Jóhannesarguðsspjalli segir frá því þegar nokkrir lærisveinanna héldu til fiskveiða.(2) Páskar voru liðnir og krossfesting Jesú enn það eina sem komst að í huga þeirra. Þau höfðu öll treyst Jesú. Þau voru konur og karlar sem höfðu fundið nýjan tilgang í lífinu, séð vonarljós og fundið vin sem hægt var að treysta algerlega. En nú fannst þeim sem að meginstoðin í lífinu hefði brostið. Vinurinn sem þau höfðu treyst, hann sem var orðinn stoð og stytta í lífi þeirra, var horfinn.

Þessa nótt réru nokkrir karlanna til fiskjar. Sjómennskan var þeim í blóð borin. Þeir kunnu handtökin, þekktu staðina í Tíberíasvatni þar sem best var að veiða fisk, vissu að þeir höfðu nóttina alla til fiskveiða en að um leið og sólin kæmi upp yrðu þeir frá að hverfa, því þá hyrfi fiskurinn á meira dýpi. Sjálfsagt var þeim enn í góðu minni þegar þeir veiddu sinn fyrsta fisk, fengu að upplifa að þeir væru sko karlar í krapinu.

Það er stutt á milli þess að vera karl í krapinu og að vera sokkinn í eymdina. Það fengu þessir karlar að reyna þarna um nóttina. Þeir fengu engan fisk, ekki eina bröndu. Þeir fengu að upplifa á eigin skinni að sá sem heldur að hann sé karl í krapinu byggir á innantómum fyrirheitum um eigið ágæti. Það voru þreyttir og væntanlega úrillir karlar sem voru enn um borð í bátnum þegar sólin tók að verma sjóndeildarhringinn.

Það var þá sem kallið kom. Á ströndinni stóð maður sem hvatti þá til þess að kasta netinu einu sinni enn. Karlar í krapinu hefðu svarað því til að þetta væri rugl, þegar sólin tæki að hita vatnið hyrfi fiskurinn. En kannski vildu þeir ekki lengur vera karlar í krapinu. Kannski höfðu þeir lært eitthvað um auðmýkt þessa nótt. Þeir treystu orðum þessa manns, þau snertu þá í hjartastað. Þeir köstuðu netinu og það fylltist af fiski.

Seinna um morguninn fengu þeir sér grillaðan fisk í morgunmat með þessum manni á ströndinni. Þarna var Jesús mættur, holdi klæddur og snæddi með þeim morgunverð. Þessi morgunn var þeim nýtt upphafi. Þeir lærðu upp á nýtt að treysta orðum frelsarans. Traust var það gildi sem þeir lærðu að meta þennan morgunn.

Traust er það gildi sem ég vil hugsa um í dag. Ég held að við sem þjóð séum nú búin að átta okkur á því að við erum ekki lengur karl í krapinu á meðal þjóða, ekki dugi lengur að byggja á innantómum loforðum um teiknaða peninga og burtflognar hugmyndir. Ég held að við viljum ekki lengur vera karlar í krapinu. Ég held að við viljum í auðmýkt læra að treysta almenningi í landinu, fólkinu sem á og byggir þetta land. Ég vil læra að treysta upp á nýtt. Samfélag sem byggir á trausti er samfélag sem ég á mér draum um.