Einvera manns - Nærvera Guðs

Einvera manns - Nærvera Guðs

“Ég hef lært að vera einn”. Það er mikilvægur eiginleiki, að geta verið og að kunna að vera einn. Skáldið hefur nýtt sér einveruna til að gæta að fuglum himinsins og atferli þeirra, taka sér þá til fyrirmyndar. Þegar þeir tylla sér stundarkorn og hvílast, reikar skáldið um gamla kirkjugarðinn og lætur hugann líða. Einveran gefur manninum tóm til að hugleiða sína eigin tilvist, rýna í kjarna síns eigin sjálfs, sinnar eigin tilveru, horfa í sjáöldur sín í speglinum, hlusta eftir eigin andardrætti, heyra hjartslátt sinn. Hver er ég? Hvar liggja upptök mín, rætur mínar?

Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða.

Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.

Eða hver er sá maður meðal yðar, sem gefur syni sínum stein, er hann biður um brauð?

Eða höggorm, þegar hann biður um fisk?

Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir, sem biðja hann?

Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Þetta er lögmálið og spámennirnir.Matt. 7:7-12

„Ég hef lært að vera einn. Ég hef haft fuglana að fyrirmynd, þeir eru alltaf í fylgd með tveimur vængjum

og himinninn yfir þeim.

Þegar þeir eru leiðir á himninum setjast þeir á greinar eða steina,

stundum á niðhvít vötn,

en ég læt mér nægja að reika um gamla kirkjugarðinn

og sleppa hugsunum mínum að upptökum Nílar.” (Kvöldganga með fuglum, Reykjavík 2005, bls. 51)

Svo farast skáldinu Matthíasi Johannessen orð í upphafsorðum ljóðs hans, Einvera.

“Ég hef lært að vera einn”. Það er mikilvægur eiginleiki, að geta verið og að kunna að vera einn. Skáldið hefur nýtt sér einveruna til að gæta að fuglum himinsins og atferli þeirra, taka sér þá til fyrirmyndar. Þegar þeir tylla sér stundarkorn og hvílast, reikar skáldið um gamla kirkjugarðinn og lætur hugann líða. Einveran gefur manninum tóm til að hugleiða sína eigin tilvist, rýna í kjarna síns eigin sjálfs, sinnar eigin tilveru, horfa í sjáöldur sín í speglinum, hlusta eftir eigin andardrætti, heyra hjartslátt sinn. Hver er ég? Hvar liggja upptök mín, rætur mínar?

Ég hef lært að vera einn.

“Nær þú biðst fyrir, skalt þú ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn, sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.” (Mt.6:6). Á þennan veg eru fyrirmæli Frelsarans Jesú Krists um iðkun bænarinnar. Í einrúmi kemst manneskjan nógu nærri sjálfri sér til þess að hún geti mætt Guði, og lagt í hendur hans bænarefni sín, þarfir sínar sem einveran gefur tóm til að átta sig á, greina og skilja.

Ég hef haft fuglana að fyrirmynd.

“Lítið til fugla himinsins”, segir Jesús. (Mt. 6:26). “Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim?”

Guð mun vel fyrir öllu sjá. Hver sá öðlast er biður til hans, og fyrir þeim sem á knýr, mun upp lokið verða. Allt er hjúpað hinni gullnu reglu samræmisins; “allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.” (Mt. 7:12)

Í dag, á blessaðan þjóðhátíðardaginn 17. júní, erum við, sem byggjum þetta fagra og stórbrotna land, að vissu leyti ofurlítið nær okkur sjálfum en endranær. Boðskapur dagsins minnir okkur á sögu lands og þjóðar, sóknir og sigra, og hefur á loft mikilvæg hugtök eins og lýðræði, frelsi, réttindi, réttlæti, skyldur; hugtök er varða hag okkar sem samfélags í heild, og skipta sífellt máli um að þegnum landsins líði vel, og að þeir fái notið sín innan heildarinnar, innan þess samfélags sem hér hefur verið skapað á umliðnum árum og áratugum.

Stjórnmálamenn þjóðarinnar hafa verið í sviðsljósinu að undanförnu, bæði í aðdraganda og að loknum sveitarstjórnarkosningum, og einnig vegna sviptinga á sviði þjóðmálanna. Þeir eru einnig sýnilegir víða um land í dag í hátíðahöldum dagsins. Þeir koma heim til byggða sinna, halda margir hátíðarræðurnar og finna til sama þjóðarstoltsins og gerir vart við sig í brjóstum okkar margra á degi sem þessum, og taka þátt í gleði og fögnuði heimabæjanna ásamt fjölskyldum sínum. Stjórnmálamaðurinn ber ríka ábyrgð, því honum er trúað fyrir miklu. Þess vegna er mikilvægara en orð fá lýst, að stjórnmálamaðurinn hafi lært að vera einn. Hann þarf að ganga inn í herbergi sitt, loka dyrunum og rýna djúpt í sjáöldur sinna eigin augna, hlusta eftir rödd sinnar eigin samvisku, meta erfiðar ákvarðanir á sínum eigin forsendum, í sátt við sjálfan sig, en ekki á einum saman forsendum flokksins, sem e.t.v. á sér bakland annarra og sértækari hagsmuna og gætenda þeirra, sem láta sig engu varða þótt stöku steinvala leynist í brauðinu sem hrýtur af borðum þeirra, og stendur nákvæmlega á sama um, hvort maðurinn hafi lært að vera einn.

En stjórnmálamennirnir bera sannarlega ekki alla ábyrgðina, þótt við felum þeim mikilvæg völd milli kosninga. Við öll, hvert og eitt, erum samfélagið sem landið byggir, og viðhorf okkar og hegðun innan þess samfélags, skiptir miklu máli um gerð þess og þróun. Rödd hvers og eins okkar, grasrótarinnar, þarf einmitt að tala fyrir samvisku einstaklings, sem hefur lært að vera einn, hefur séð samfélagið út frá innsta kjarna sjálfs sín, og fundið sjálfur, hvar eldurinn brennur heitast, hvað við þolum og líðum, og hvað við erum reiðubúin að leggja sjálf af mörkum til að bæta samfélagið og breyta því.

Það er mikilvægt að þekkja rætur sínar, missa ekki sjónar á uppruna og sögu þess samfélags sem við tilheyrum. Við þurfum að sleppa hugsunum okkar “að upptökum Nílar” í þeim skilningi, svo við getum skilið hvernig samfélag okkar breytist í sífellu, samsetning þess, uppruni einstaklinganna sem skapa það, menning þess. Inn í þá deiglu talar Kristur í dag í gamalkunnum orðum Fjallræðunnar í Gullnu reglunni: “Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra”. (Mt. 7:12). Í henni felst sá mikilvægi sannleikur, að mennirnir sjálfir búi sér það umhverfi sem þeir þarfnist, - en, - vel að merkja: Það mótast bæði af þörf einstaklingsins og umhyggju hans, sem á sinn hátt er líkt og endurskin óumræðilegs kærleika og náðar Guðs, sem býr að baki allri tilveru mannsins, og birtist ljóslifandi í lífi og verkum Jesú frá Nasaret, hins krossfesta og upprisna Drottins.

Honum sé með Guði föður og heilögum anda, heiður og dýrð um aldir og að eilífu. Amen.