Styrkjum æskulýðsstarfið

Styrkjum æskulýðsstarfið

Spurningin er ekki hvort að barna- og æskulýðsstarf eigi að vera í hverjum söfnuði, heldur hvernig hægt sé að útfæra það miðað við aðstæður. Vert er að hafa í huga að fjórði hver einstaklingur sem skráður er í þjóðkirkjuna er 17 ára eða yngri.

Bolla-leggingar

Fjórði hver einstaklingur sem skráður er í þjóðkirkjuna er 17 ára eða yngri. Á sama tíma getur engin sókn á landinu státað af því að ¼ starfsmanna og ¼ af tekjum sóknarinnar sé tileinkað starfi með þessum aldurshópi. Vel má vera að það sé til of mikils ætlast. En hver liggja mörkin? Hve langt eru sóknarnefndir landsins tilbúnar að ganga til þess að starfið með unga fólkinu – UNGA KIRKJAN – sé til fyrirmyndar?

Vert er að minna á að söfnuðir þjóðkirkjunnar hafa ekki val um að sleppa því að bjóða upp á starf með börnum og unglingum. Kirkjuþing 2010 samþykkti námskrá fyrir fræðslu þjóðkirkjunnar. Þar kemur fram að söfnuðurinn ber ábyrgð á því að þau börn sem skírð eru fái fræðslu við sitt hæfi. Minnt er á að:

Fræðsla kirkjunnar grundvallast á skírnar- og kristniboðsskipuninni: Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar. (Matt. 28: 19-20).
Á sama Kirkjuþingi var samþykkt þingsályktun um þjónustu kirkjunnar (7. mál). Þar kemur fram að barnastarf sem og unglingastarf skuli vera í hverri sókn eða með samstarfi nágrannasókna með reglubundnum hætti. Börnum er skipt í tvö aldurshópa, þ.e. 6 ára og yngri og 7 – 12 ára og unglingastarf skilgreint með aldurshópnum 13 til 18 ára. Sett eru fram viðmið um fjölda samverustunda með hverjum aldurshópi: (Fermingarfræðslan er ekki inni í þessum tölum).
  • 2500 eða fleiri meðlimir í sókninni: 25 samverustundir hið minnsta.
  • 750-2500 meðlimir í sókninni: 15 til 25 samverustundir.
  • 300-750 meðlimir í sókninni: 10 til 15 samverustundir.
  • 100-300 meðlimir í sókninni: 10 samverustundir, eftir aðstæðum.
  • 50-100 meðlimir í sókninni: 5 samverustundir, eftir aðstæðum.
  • Ef meðlimir í sókninni eru færri en 50 fer starfið eftir aðstæðum.
Það er því ljóst að sú ákvörðun hvort að sinna eigi þessum málaflokki er ekki í höndum sóknarnefndar heldur þarf nefndin að spyrja sig hvernig hún ætlar að framkvæma þetta mikilvæga verkefni.

Í skýrslu nefndar um æskulýðsmál í prófastsdæmum sem skilað var til Kirkjuráðs 15. október 2010 kom fram að í tæplega helmingi prestakalla er boðið upp á starf fyrir 13 til 15 ára og aðeins í örfáum sóknum fyrir 16 ára og eldri ungmenni. Minnt er á kannanir undanfarinna ára sem sýna að aðeins 2% ungmenna á landinu úr 9. og 10. bekk taka þátt í æskulýðsstarfi kirkjunnar. Þau sem koma að æskulýðsstarfi í kirkjunni vita að frá því að þessi skýrsla var unnin hefur starfsfólki í barna- og æskulýðsstarfi í kirkjum landsins fækkað gríðarlega.

Það er ekki einungis ábyrgð yfirstjórnar kirkjunnar að sinna þessum málaflokki heldur verða sóknarnefndir að axla sína ábyrgð, enda á barna- og æskulýðsstarfið heima í söfnuðum um allt land. Það er því sérstakt þakkarefni að víða má finna sóknarnefndir sem leggja sig fram um að styðja við og standa sérstakan vörð um faglegt æskulýðsstarf.

Sumar sóknir eru svo vel staddar að sóknarnefndarfólk og fólk á öllum aldri úr söfnuðinum tekur sig til og sinnir barna- og unglingastarfinu í sókninni í sjálfboðnu starfi. Tölur á blaði segja því engan veginn alla söguna.  Sumir sjálfboðaliðanna ganga jafnvel skrefinu lengra og borga sjálfir fyrir föndurefni og hvaðeina sem þarf til starfsins. Þessu þarf að halda á lofti, bæði svo að þeim sem gera slíkt sé sýnd sú virðing sem þeim ber, en einnig til þess að benda á að á sama tíma og þessir aðilar standa fyrir öflugu starfi meðal barna- og ungmenna sem er kirkju og kristni til framdráttar, verður að vera til staðar stuðningur fyrir þau. Því við sem kirkja erum samfélag fólks. Þegar við förum að standa saman í einu og öllu þá byrjar starfið að blómstra.

Spurningin í dag er: Hvað getur þú gert? Átt þú föndurefni upp í skáp sem getur nýst í barnastarfinu? Hefur þú áhrif í sóknarnefnd og getur talað fyrir fjármagni til starfsins? Ert þú aflögufær og getur gerst sjálfboðaliði í barnastarfinu eða stutt starfið með fjárframlagi? Eða ert þú í aðstöðu til þess að taka ákvörðun um að ráðinn verði starfsmaður í barnastarfið á samstarfssvæðinu þínu?