„Í hendi Guðs er hver ein tíð“

„Í hendi Guðs er hver ein tíð“

Það er því ekki alls kostar víst að kristnir menn hafi á fjórðu öld lagt undir sig heiðna hátíð þegar menn fögnuðu fæðingu sólarinnar og breytt henni í fæðingarhátíð Jesú Krists. Staðsetning jóladags 25. desember getur eins byggst á guðfræðilegum rökum.

Þegar átta dagar voru liðnir skyldi umskera hann og var hann látinn heita Jesús eins og engillinn nefndi hann áður en hann var getinn í móðurlífi. Lúk 2.21

Lofið Drottin, allar þjóðir, vegsamið hann, allir lýðir, því að miskunn hans er voldug yfir oss og trúfesti Drottins varir að eilífu. Hallelúja.

Guð gefi okkur öllum gleðilegt og blessunarríkt nýtt ár með farsæld og friði. Guð blessi minningarnar allar, bæði ljúfar og sárar frá árinu sem kvaddi í nótt og gefi að árið nýja verði gott og farsælt landi og lýð. Ég þakka söfnuði Fella- og Hólakirkju, prestum, starfsfólki og forráðamönnum hans fyrir góð samskipti á liðnu ári. Sérstaklega þakka ég kirkjukórnum og söngstjóra hans fyrir ánægjulega samvinnu.

Í kirkjunni heitir nýársdagur frá fornu fari átti dagur jóla eða áttundi dagur jóla út frá guðspjalli dagsins sem segir að Jesús hafi verið umskorinn að gyðinglegum hætti átta dögum eftir fæðingu sína. Áttundi dagur hátíðar merkir hámark eða endi hátíðahalds og þá um leið nýtt upphaf. Aðrar stórhátíðir kirkjuársins en jólin falla á sunnudag bæði páskar og hvítasunna. Fyrsti sunnudagur eftir páska nefnist átti dagur páska og markar í senn endi páskavikunnar og upphaf nýrrar viku. Sama gildir um hvítasunnuna. Jólin falla ætíð á fastan mánaðardag og eins áttundi dagur jóla sem markar endi jólahátíðarinnar og var að fornu upphaf þeirrar viku sem var varið til undirbúnings þrettándahátíðarinnar sem haldin var til ársins 1770.

Árin kennum við við fæðingu Jesú Krists. Sá sem reiknaði út hið kristna tímatal var munkur að nafni Dionysius og var uppi á fyrri hluta 6. aldar. Hann var lærður maður og vel að sér bæði í stærðfræði og stjörnufræði þeirra tíma. Þess vegna var honum fengið það verkefni að reikna út og finna nákvæma töflu um hvernig hægt væri að finna páskadaginn og haga páskahaldi í framtíðinni. Þá töflu eða skrá væri hægt að hafa aðgengilega alls staðar og fannst mönnum það nauðsynlegt til þess að hægt væri að samræma páskahald meðal kristinna manna sem lifðu dreift allt frá Austurlöndum og norður til Bretlandseyja. Ef menn styddust við eigin útreikninga eða rím var eins líklegt að menn hér eða þar kæmust að rangri niðurstöðu um páskahaldið. Dionysius þessi fann upp ákveðna aðferð hvernig hægt væri að finna réttan páskadag og lauk útreikningunum á ári sem hann nefndi 525. árið frá holdgun Guðs sonarins og lagði til að framvegis yrði tímatalið miðað við fæðingarár Krists en ekki aðra viðburði.

Enginn veit af hverju hann í sambandi við páskaútreikning sinn leitaðist líka við að finna út fæðingarár Jesú Krists og heldur ekki hvað hafi gefið honum heimild til að leggja til að kristnir menn skyldu framvegis miða tímatal sitt við fæðingu Jesú Krists.

Hvað sem því líður þá breiddist tímatal Dionysiusar og páskaútreikningur hans smám saman út næstu aldirnar og var orðin viðtekin venja um alla kristnina þegar Ísland byggðist og Íslendingar tóku kristna trú. Nú á dögum er hið kristna tímatal útbreiddasta tímatal meðal manna. Tímabilum sögunnar er meðal meirihluta mannkyns skipt í tímann fyrir og eftir Krist og árin eftir Krist eru nefnd Herrans ár, þ.e. ár Drottins Jesú Krists.

Af hverju höldum við jól um miðjan vetur?

Það er mjög líklegt að það byggist á kenningum fræðimanna meðal Gyðinga í fornöld um að Guð hefði byrjað öll stórvirki sín að vori og í sambandi við það að fyrsta vortunglið kviknar. Þá frelsaði Guð þjóð sína úr ánauð á Egyptalandi og um líkt leyti hafði hann byrjað að skapa heiminn í árdaga.

Kristnir menn tóku þessar hugmyndir í arf og gerðu að sínum og kenndu í samræmi við það að Guð hefði byrjað hina nýju sköpun í tengslum við fyrsta vortunglið og jafndægur að vori.

Á annarri öld töldu sumir stjörnufræðingar að vorjafndægur væri 25. mars. Í samræmi við það töldu kristnir fræðimenn að Guð hefði sent engil sinn til Maríu á þeim degi og út frá því var fæðingardagur Jesú talinn 25. desember. Aðrir stjörnufræðingar töldu vorjafndægur vera 6. apríl og samkvæmt því fæddist Jesús 6. janúar. Allt fram á 4., 5. öld deildu menn hvor dagurinn væri fæðingarhátíð Jesú. Meirihluti kristinna manna sættist á að halda fæðingarhátíðina 25. desember en gerðu 6. janúar, þrettándann, að hátíð vitringanna. Að konunglegri tilskipun var þrettándinn lagður niður sem hátíð árið 1770.

Það er því ekki alls kostar víst að kristnir menn hafi á fjórðu öld lagt undir sig heiðna hátíð þegar menn fögnuðu fæðingu sólarinnar og breytt henni í fæðingarhátíð Jesú Krists. Staðsetning jóladags 25. desember getur eins byggst á guðfræðilegum rökum eða þeim að starf sitt til sköpunar, uppbyggingar og frelsunar byrji Guð að vori og þá hafið nýja sköpun og endurnýjun mannkyns með boðun Maríu 25. mars árið eitt svo að sonur Guðs fæddist níu mánuðum síðar. Og nú eru átta dagar liðnir frá jólum og nýtt ár runnið upp. Sólin hefur skipt um gang og hækkar á lofti, sú nýárs blessuð sól sem boðar náttúrunnar jól.

En náttúrunnar jól eru ekki hin eiginlegu jól. Hin eiginlegu jól eru jól eilífðarinnar, fæðing Guðs sonar í heiminn. Hann er ljósið sem aldrei dvín, sólin sem aldrei sest, skapari þess lífs sem aldrei deyr.

Og nýtt ár hefjum við í nafni hans. Það kennir guðspjall nýársdagsins sem greinir frá því að Jesús hafi verið umskorinn á áttunda degi samkvæmt ákvæðum lögmálsins og nefndur Jesús.

Og nafnið Jesús þýðir: Drottinn frelsar.

Að hafa það nafn að yfirskrift ársins gefur árinu dýrmætt fyrirheit, setur því mikilvæga yfirskrift, yfirskrift sem felur í sér eins konar dagskráryfirlýsingu. Tala ársins miðast ekki einasta við komu hans í heiminn heldur markast inntak ársins af nafni hans. Og það nafn vísar á innsta grunn tilverunnar, Guð skaparann og frelsarann. Tíminn á upphaf sitt hjá honum, tíminn hvílir í hendi hans og tíminn stefnir til hans.

Matthías leitast við að túlka þennan leyndardóm í sálminum góða um þá blessuðu sól nýársins: „Í hendi Guðs er jörð og sól,“ segir þar og frá himni sínum heyrir Guð „hvert hjartaslag þitt jörðu á.“

Og skáldið vill fá okkur til að sjá að náttúran leitast við að tjá umhyggju Guðs: „Í sannleik, hvar sem sólin skín er sjálfur Guð að leita þín.“ Og sem þjóð megum við Íslendingar treysta því að „Í almáttugri hendi hans er hagur þessa kalda lands.“

Í hendi Guðs er hver ein tíð, í hendi Guðs er allt vort stríð, hið minnsta happ, hið mesta fár, hið mikla djúp, hið litla tár. Þess vegna á ásjóna Guðs að vera bæði sól okkar og dagur árið um kring.

Það er góður ásetningur í upphafi árs eða nýársheit að stefna hugsunum, orðum og gjörðum í átt að nafni Jesú, hefja dagana í nafni hans og eyða stundum daganna í nafni hans. Dagarnir koma einn af öðrum, árin líða eitt af öðru en það er ekki síendurtekin hringrás heldur stefnir tíminn fram mót takmarki sínu sem er ríki Guðs. Umfram allt annað skapað er manninum gefið að gera sér grein fyrir því að tíminn líður. Öll önnur náttúra en mennirnir lifir í hringrásinni einni, fæðist vex upp og deyr í ævarandi hringrás. Maðurinn gerir sér grein fyrir tímanum handan og ofan við hringrásina sem bindur náttúruna. Í þeirri vitund er frelsi okkar fólgið. Við menn erum ekki bundnir fjötrum hringrásarinnar þar sem allt gerist í sífelldri endurtekningu. Við vitum að tilveran er handan og ofar hringrás endurtekningarinnar. Tilveran á sér upphaf og hún stefnir fram á við. Og bilið milli upphafs og endis er tíminn, mælanleg eining.

En tíminn umhverfist af eilífðinni, eilífð Guðs sem hefur skapað tímann og heldur honum í hendi sér því að Guð er handan og ofan tímans, eilífur. Hinir eilífu atburðir sem skipta sköpum eru því alltaf jafn nærri okkur. Fæðing Jesú, líf hans, dauði og upprisa eru eilífir atburðir sem eru okkur alltaf jafn nálægir en ekki fjarlægir í tíma.

„Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta,“ biður Davíð konungur í sálmi sínum sem er hluti fyrri ritningarlestrar nýársdagsins og jafnframt sá sálmur sem þjóðsöngur okkar byggist á. Skáldið vill meta líf sitt út frá þeim sem hefur skapað tímann, það vill læra að telja daga sína til þess að geta öðlast visku. Sú viska felst í að fela líf sitt þeim sem hefur sett okkur og heimi öllum takmörk. Það er skaparinn, Guð.

Frá honum er tíminn, í hendi hans hvílir tíminn og til hans stefnir tíminn.

Hver andrá sem við lifum, hver stund sem líður er sá tími sem við hvert og eitt ráðum yfir og við erum spurð: Hvað vilt þú gera úr stundinni þinni?

Það getur verið ljúf stund. Það ber okkur að þakka. Það getur verið stríð stund. Þá ber okkur að biðja þess að við megum þola hið stríða.

Við ráðum vissulega ekki örlögum okkar en örlög okkar eru ekki blind örlög heldur hvílum við í hendi Guðs og föður Jesús Krists sem sett hefur tíma og takmörk og kennt okkur það sem er satt, rétt og gott.

Guð það hentast heimi fann það hið blíða blanda stríðu, allt er gott er gjörði hann.

Þannig mælti skáldið Sveinbjörn Egilsson og bendir á að í veröldinni er allt ekki á einn veg heldur tekst hið blíða á við hið stríða eða „ljós og myrkur vega salt,“ eins og segir í gömlum húsgangi. Hvort sem við göngum í ljósi eða skynjum myrkur kringum okkur þá megum við treysta því að hagur okkar er í hendi Guðs.

Slík vitund, slík trú, er gott veganesti til ferðar inn í nýtt ár.

Liðið ár var minningaár þegar við minntumst fólks og atburða sem skiptu máli fyrir okkur sem þjóð og ollu úrslitum um þróun hennar og farsæld.

Það er hollt að ylja sér við góðar minningar en nauðsynlegt að dvelja ekki við minningarnar heldur láta þær hvetja okkur til að horfa fram á við í von.

Og á þessum nýársdegi verðum við að vona þess og biðja að við sem þjóð megum ná okkur upp úr því hjólfari sem við festumst í haustið 2008 og sett hefur mark sitt á alla umræðu meðal landsmanna síðan. Þeir atburðir voru vissulega stríðir en höfðu í sér fólginn lærdóm sem við þurfum á að halda til framtíðar.

Ég las í sumar prédikun eftir föður minn sem hann flutti í árslok 1958 eða 50 árum fyrir hrun fjármálakerfisins hér á landi. Þar segir hann þessa setningu: „Hið pólitíska vit ríður við einteyming auðshyggju, síngirni, yfirgangs.“

Fimmtíu árum eftir að þessi orð voru sögð lifðum við afleiðingar þessarar háskareiðar og því miður virðist hið pólitíska vit nota sama taum auðshyggju, síngirni og yfirgangs. Allir vita hvert það leiðir að lokum. Hetjur þjóðsagnanna vissu það og neituðu sér um kræsingar og hvers konar gylliboð sem álfar buðu fram og héldu við það sönsum. Slíkum dæmum má fylgja og halda sér við trúna á Krist fremur en ganga inn í björg með álfum þótt þeir bjóði gull og gersemar.

Leggjum traust okkar á Jesú nafn og höfum nafn hans að yfirskrift árs okkar, höfum það hugfast og látum það styrkja von okkar og trú. Sú trú gefur okkur æðruleysi, hugrekki og vit til þess að takast á við lífið og verkefni þess. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.