„Þú mikli Guð ert með oss á jörðu miskunn þinn nær en geisli á kinn.“Dýrmætt er að geta treyst því og trúað á Guð í Jesú nafni, þótt kirkjur brenni og oft sé vegið að þeirri trú í orðum og gjörðum.
Við erum hingað komin á Jónsmessukvöldi við grunn niðurbrenndrar Krýsuvíkurkirkju. Ekkert verður sagt með vissu um það hvað olli brunanum. Hafi viljandi verið kveikt í kirkjunni, skiljum við ekki þær hvatir er til þess leiddu. Sjúkt hugarfar kann að hafa valdið, ósætti við eigið líf, óánægja, innri kvöl, virðingarleysi fyrir sögulegum verðmætum og sjálfum sér, kirkju og trúararfi.
Við getum fátt sagt um það en beðið fyrir því að hugarmyrkur lýsist upp í fórnandi kærleikrafti hins krossfesta og upprisna frelsara og styrkt okkur í þeim ásetningi að reisa nýja Krýsuvíkurkirkju í mynd og á grunni þeirrar sem brann.
Endurreisn og endurbygging Endureisn og endurbygging hafa löngum farið saman í sögu kristinnar kirkju og eiga sér rætur í endurbyggingu musterisins í Jerúsalem er var brotið niður við herleiðingu Ísraelslýðs til Babilon. Jesús Kristur er sjálfur krossfestur og upprisinn niðurbrotið og endureist musteri svo sem hann gerir grein fyrir og lifir sem slíkur í kirkjunni sinni.
Er Vinafélag Krýsuvíkur undirbýr smíði nýrrar Krýsuvíkurkirkju er vert að minnast og þakka það verk sem Björn Jóhannesson, fyrrum forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, stóð frammi fyrir og leysti vel af hendi á sinni tíð. Kirkjan var í niðurníðslu og að falli komin enda ekki verið nýtt sem helgidómur um áratugaskeið, en hann fann hjá sér hvöt til að endurreisa hana fyrir eigið aflafé.
Vegna hugsjónar Björns, staðfestu og fórnfýsi tókst það verk farsællega og kirkjan var endurvígð.
Helgihald síðustu ára í Krýsuvíkurkirkju hvíldi að sjálfsögðu á því að hún var aftur orðin helgidómur. Sveinn Björnsson, sem vann að málaralist sinni í Krýsuvík, þekkti þessa sögu og vildi taka upp merki Björns. Hann þráði að messað yrði aftur í kirkjunni. Í veikinda- og lokastríði leitaði þessi þrá sterkar á hann en nokkru sinni og honum þótti sem hann fengi bendingu æðri heima um að knýja á um endurnýjað helgihald í kirkjunni. Því sendi hann mér og sóknarnefnd Hafnarfjarðarkirkju formlegt erindi með þeim óskum og gaf kirkjunni nýja altaritöflu til að árétta það.
Helgihald hófst í kirkjunni á ný þegar altarstafla Sveins, Upprisa, var blessuð eftir jarðsetningu hans í garði kirkjunnar.
Sú stund var áhrifarík. Messurnar sem fylgdu einkum vor og haust voru það líka. Heimsóknir í kirkjuna víðs vegar að úr veröldinni voru tíðar og snertu djúpa trúar -og hjartastrengi.
Enda þótt Krýsuvíkurkirkja, sem skjól Guðs orðs og sýnileg áminning um nærveru hans er yljaði lífs og liðnum, sé horfin, höldum við hér helgistund. Við gerum það í Jesú nafni undir hvelfdum himni Jónsmessukvölds þegar sumarið er komið í fyllingu sinni og jörð endurómar dýrðarsöng engla Guðs á himni í lífgun og litfegurð sinni, og fagur fuglasöngur gerir það líka. Jafn langt er nú frá jólum og að næstu jólum í dögum talið. Sumarsólstöður nýorðnar, daginn fer að stytta og sólargangur að minnka. Þegar jörð er orðin heit af sumri verða dagarnir hlýjastir. Fegurstu sumardagarnir eru því vonandi enn eftir.
Sólarkrossar - eining sköpunar og nýsköpunar í Kristi Ekki er að undra að fyrr meir hafi sólin bjarta og himintungl verið talin goðmögn svo mjög sem lífið allt er háð sólarbirtu og yl. Löngum hafa menn gætt að sólargangi og fylgst með því þegar sumarsólstöður voru, vetrarsólhvörf og jafndægur að vori og hausti. Það gerðu þeir ,,Bretar “ sem reistu sólarmusterið í Steinahengi og þeir Keltar sem komu fram á sögusvið á eftir þeim og urðu kristnir. Þeir sáu kærleika Guðs bæði í himinsólu og krossi Krists og tengdu hvort tvegga í sólarkrossum sínum er þeir reistu víða og táknuðu einingu sköpunar og nýsköpunar í Kristi. Krossarnir vísuðu til þess að Guð væri nærri í hans nafni og drógu til sín fólk á ferð sem þráði að hinn þríeini Guð væri með sér í för. Sá trúarskilningur fylgdi Keltum hingað til lands og hefur haft sín áhrif á mannlíf og menningu.
Jóhannes skírari Lífsferð hvers manns er með sínu móti og misgreiðfær. Jóhannes Zakaríasson var mikil guðsgjöf. Jochanan eins og nafnið er á hebresku merkir ,,Guð sýnir miskunn.” Öll börn eru vissulega gjöf Guðs hvernig sem við þeim er tekið og miklu varðar að vilji hans með þau fái orðið að veruleika. Jóhannes varð spámaður hins hæsta og greiddi Guðsríkinu braut sem fyrirrennari Messíasar, hins fyrirheitna frelsara Jesú Krists. Hann miðlaði þekkingu á því hjálpræði sem er fyrirgefning synda og opnar leið að lífslindum Guðs. ,,Sjá Guðs lamb, sem ber synd heimsins,” ( Jóh. 1.29) sagði hann um frænda sinn Jesú. Jóhannes var hálshöggvinn, vegna þess að hann hlífði hvorki háum né lágum í boðun sinni, en fullnaði köllun sína sem var mest um vert. Við þá efnuðu sagði hann: ,,Sá sem á tvo kyrtla, gefi þeim er engan á og eins gjöri sá er matföng hefur.” ( Lúk 3.11) Það varð Jóhannesi að fjörtjóni að hann sagði konunginum Heródesi sannleikann opinskátt um hórdómssök hans. Í orðum og atferli réðs Jóhannes hiklaust gegn rangsleitni, falsi og svikum og hélt fram sannleika og réttlæti. Aðeins þannig verður rudd braut ríkis Guðs, ljósi hans og lífi.
Lífslotning Eftir darraðardansinn í samfélagi okkar , sem leiddi til falls og rauna, erum við að átta okkur á þessum sannindum og leitum leiða til endurreisnar. Til þess þörfnumst við nærandi sólarljóss og sumars í sál og sinni, þörfnumst birtu Guðs, ljóss og leiðsagnar hans sem afhjúpa eymsli og sár en græða þau líka með smyrslum fórnfúsrar elsku. Bygging nýrrar Krýsuvíkurkirkju getur verið okkur táknmynd um þá endurreisn. Við þurfum að leggja okkur fram, standa saman í trausti, virðingu og umhyggju að góðu verki, og sem þjóð verðum við Íslendingar að temja okkur slíka samskipta- og starfshætti og endurreisa samfélag okkar á þeim raunsanna grunni er byggist á lífsvirðingu og lifandi trú í Jesú nafni og sýnir sig í elsku og ábyrgðarkennd.
Döggin er sögð sérlega heilnæm á Jónsmessu og fjölþættar víddir tilverunnar nátengdari þá en oftast endranær. Þótt ánægjulegt kunni að vera að fylgjast með knattspyrnuleik í heimsmeistarakeppni er ekki síður gefandi og blessunarlegt að koma saman í Krýsuvík á Jónsmessukvöldi.
Við njótum saman helgistundar, göngum í máttugu landslagi Krýsuvíkur og fáum fundið dulmögn og gróandi lífskrafta leika um okkur í Guðsvitund og trú. Lífslotning glæðist við að skynja undur lífs. Hugur og hjarta nema, að lífisverkið allt er undur, gras og blóm, himinbirtan skæra er bláma bregður á fjöll. Stjörnur og sól eru Guðs máttarverk. Niðurinn, blóðstraumur í eigin æðum, sláttur hjartans, lífstaktur í barmi eru allt undur, samhljómurinn við lífríkið sem vekur gleði í brjósti á fögrum sumardegi. Þessi trúarskynjun og lotningin, sem henni fylgir, eru dýrmæt til þess að við fáum elskað lífið og greint, að þrátt fyrir allt sem á skyggir er það bundið þríeinum Guði og nærist á lindum hans, og fyllst löngun og þrá til að lofa hann og hlúa að lífi og lífríki af lífsvirðingu og elsku. Þá fáum við sjálf verið svo sem líking sálmsins (sálmur 22 í sálmabók ) dregur fagurlega fram gróskumiklar greinar á lífsins tré og fagnað því í Jesú nafni.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda um aldir alda Amen.
Þessi ritningarorð og Guðspjall Jónsmessu voru lesin í helgistundinni við grunn brunninar Krýsuvíkurkirkju:
Lexía: Slm 92.2-3, 5, 9 Gott er að lofa Drottin, lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti, að kunngjöra miskunn þína að morgni og trúfesti þína um nætur Þú gleður mig, Drottinn, með dáðum þínum, ég fagna yfir verkum handa þinna. en þú, Drottinn, ert eilíflega upphafinn. Guðspjall: Lúk 1.57-67, 76-80 Nú kom sá tími, að Elísabet skyldi verða léttari, og ól hún son. Og nágrannar hennar og ættmenn heyrðu, hversu mikla miskunn Drottinn hafði auðsýnt henni, og samfögnuðu henni. Nú kom sá tími að Elísabet skyldi verða léttari og ól hún son. Og nágrannar hennar og ættmenn heyrðu hversu mikla miskunn Drottinn hafði auðsýnt henni og samfögnuðu henni. Á áttunda degi komu þeir að umskera sveininn og vildu þeir láta hann heita Sakaría í höfuðið á föður sínum. Þá mælti móðir hans: „Eigi skal hann svo heita heldur Jóhannes.“ En þeir sögðu við hana: „Enginn er í ætt þinni sem heitir því nafni.“ Bentu þeir þá föður hans að hann léti þá vita hvað sveinninn skyldi heita. Hann bað um spjald og reit: „Jóhannes er nafn hans,“ og urðu þeir allir undrandi. Jafnskjótt laukst upp munnur hans og tunga. Hann fór að tala og lofaði Guð. En ótta sló á alla nágranna þeirra og þótti þessi atburður miklum tíðindum sæta í allri fjallbyggð Júdeu. Og allir, sem þetta heyrðu, festu það í huga sér og sögðu: „Hvers má vænta af þessu barni?“ Því að hönd Drottins var með honum. En Sakaría faðir hans fylltist heilögum anda og mælti af spámannlegri andagift: Og þú, sveinn, munt nefndur verða spámaður Hins hæsta því að þú munt ganga fyrir Drottni að greiða vegu hans og veita lýð hans þekkingu á hjálpræðinu sem er fyrirgefning synda þeirra. Þessu veldur hjartans miskunn Guðs vors. Hún lætur upp renna sól af hæðum að vitja vor og lýsa þeim sem sitja í myrkri og skugga dauðans og beina fótum vorum á friðar veg. En sveinninn óx og varð þróttmikill í anda. Hann dvaldist í óbyggðum til þess dags er hann skyldi koma fram fyrir Ísrael.