Að koma eða fara

Að koma eða fara

fullname - andlitsmynd Axel Árnason Njarðvík
25. desember 2016
Flokkar

Prédikun flutt á jóladag 2016 í Skálholtsdómkirkju

Guðspjall Jóhannesar 1. kafli.

Hið sanna ljós sem upplýsir hvern mann, kom í heiminn. Þetta eru nærri tvö þúsund ára gamall vitnisburður. Ljósið kom og menn tóku ekki á móti því. Þessi málsgrein er líka nærri tvö þúsund ára gömul - enda úr sama textabroti.

Eins og þú veist, þá eru þessar málsgreinar teknar úr Jóhannesarguðspjalli sem lesið er á jólum, út um allan heim. En í dag verða þau sem ný, út um víða veröld. Og einnig hin frásagan, sem segir frá því, að það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Ljósið er komið og myrkrið hopar. Eitt er að koma og annað að fara. Eða er það þannig, að hvort tveggja er í senn? Ljós og myrkur? Ef til vill er tilgangur lífsins, fólginn í því að umbreyta stöðugt æ stærri hluta af myrkri lífs okkar, yfir í ljós, gegnum tengsl okkar við Guð. (IEB2016)

Jesús að koma eða er hann að fara? Jesús er hérna, Hann er alltaf alls staðar. Öllum stendur til boða að sjá hann og skynja. Þúsundir manna, ár eftir ár, koma hingað í Skálholt og einblína á altaristöfluna- eins og við gerum núna. Er Jesús ekki að koma í gegnum tíma og rúm, hingað til okkar? Ég sjálfur hef alltaf hugsað það þannig, þar til um daginn. Þá sá ég allt í einu að hann er ekki að koma, hann er að fara. Hann er að bakka út úr kirkjunni, hann er að hörfa. Og hann vill að þú komir með sér út í heiminn, veröldina.

Mjóa bilið Og augun renna eftir gaflinum, þessu stóra vegg. Kannski er tilveran í raun eins og veggurinn, þetta mjóa bil sem býr til þykktina, þetta þunna lag- sem heldur upp heilu húsi. Svona grannt bil, eins og þegar sjóndeildarhringurinn tengir saman himinn og jörð. Eins og ströndin, þar sem landið og hafið mætast. Þetta næfurþunna svið hins jarðneska og hins himneska. Stundum hefur hjartað verið látið tákna þenna mótstað manns og Guðs. Þannig stillir maður sig af og reynir að hin eilífa nálægð Guðs er nærri mér, en ég sjálfum mér. (Martin Buber)

Logos Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Og kynslóðir fóru að nema það þannig, að orðið, -væri kenningin og versins úr Biblíunni birting Guðs inn í mannheimi. Þannig mótaðist hefðin, og trúarbrögð kristninnar með ólíkum hætti en ella og miklir hagsmunir réðu oft ferðinni. En versið á sér dýpri merkingu, sér í lagi gríska orðið sem þýtt er með orðinu ORÐ.

Í upphafi var Ljósið og Ljósið var hjá Guði og Ljósið var Guð.

Í upphafi var Hugurinn og Hugurinn var hjá Guði, og Hugurinn var Guð.

Og guðspjallið það dregur okkur að vöggu og nýfædda barninu. Að augnarblikinu og nærveru sem ýtir öllu mannlegu til hliðar, en um leið birta þau kjarna hins mannlega.

(Ternorar sungu) Fjármenn hrepptu fögnuð þann, þeir fundu bæði Guð og mann, í lágan stall var lagður hann, þó lausnarinn heimsins væri.

Og þetta gerum við með því að syngja. Þess vegna er svo mikilvægt að syngja saman á jólum. Með vísnasöng, þá hrærum við þessa vöggu. Allur tími og allt rými renna saman í eitt- og alveg sérstaklega þegar sungið er saman.

(Ternorar sungu) Nóttin var sú ágæt ein, í allri veröld ljósið skein, það er nú heimsins þrautarmein að þekkja' hann ei sem bæri.

Hreppa, þekkja, sjá Fjármennirnir hrepptu fögnuð. Þeir upplifðu og þekktu það sem þeir sáu og fundu. Þeir tóku á móti og áttuðu sig þá því sem þeir sáu og reyndu. Að finna Guð og mann. Þetta draga jólin okkar fram, þess vegna eru jólin haldin.

Og á jólum er þetta, þitt.

Veruleikinn allur er færður þér að gjöf, því Guð mætir þér í Jesús. Öll elska veraldar, allur kærleikur er þarna. Það er gjöf Guðs til þín.

Það má segja með réttu að jólin fjalli um það að mæta Guði í Jesú og að gera það sem hann bauð og boðaði að sínu. Þannig að vilji Guðs á himnum, verði líka á jörðu - í gegnum þig! Því á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar segir Jesús - ef þér berið elsku hver til annars.

Von og sýn Jesús gefur fólki von og lífsýn, til að viðhalda heilbrigðri sjálfsmynd og félagslegu réttlæti og leiðir hugann til þess að hægt sé að gera ráð fyrir öðruvísi heimi og öðruvísi ástandi og dýpri tilgang lífsins. Jólaguðspjallið er vettvangur kærleika Guðs í mannheimi og hefur átt stærri þátt í að milda og breyta mannkyninu en flestar sögur og orðræður, sem sagðar hafa verið. Og guðspjallið talar til okkar og segir frá því sem við þurfum að skilja og meðtaka, til að gera að lífsviðhorfi og mótunarafli okkar á sífellt nýjum tíma sem streymir til okkar. Enn þá býður hann okkur að fylgja sér og enn gefur hann okkur von. Aftur og enn á ný horfir Hann í augun á þér og mér í gegnum þá sögu sem boðar himneskan frið á jörðu. Frið sem þér er gefinn. Guð gefi að hátíðin verði okkur öllum hlý og björt og framtíðin öll blessunarrík.

„Dýrð sé guði í upphæðum, og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.“ AMEN