Auður og auðmýkt

Auður og auðmýkt

Regla númer eitt. Ef það eru bara fífl í kringum þig, þá þarftu að huga að eigin líðan og gera eitthvað mikilvægt og gott fyrir sjálfan þig.

(Lúkasarguðspjall 17:11-19)

Gleðilegt sumar og til hamingju með daginn kæru fermingarbörn!

Ég hef oft pælt í því hvað karlarnir sem snéru ekki aftur til að þakka Jesú voru að spá. Aðeins einn sá ástæðu til þess. Þeir voru allir með illvígan sjúkdóm, urðu síðan heilir eftir að hafa kallað eftir hjálp Jesú og virtust síðan ekki sjá ástæðu til að sýna þakklæti sitt. Það er kannski miklu ótrúlegra dæmi að þeir skyldu ekki snúa við, heldur en kraftaverk Jesú í sjálfu sér.

Sumir býsnast yfir verkum Jesú, þau séu nú gjörsamlega út úr kortinu, eitthvað sem ekki nokkur maður gæti framkvæmt. En í raun finnst mér viðbrögðin við verkum hans oft miklu ótrúlegri heldur en það sem hann gerir í raun. Stóra málið í þessari biblíufrásögn á sumardaginn fyrsta er jafnvel þessi eini sem snéri við og þakkaði, klöppum fyrir honum!

Hinir sem komu ekki hafa kannski bara gleymt sér, fögnuðurinn verið svona gríðarlegur að ekki hafi skapast rými fyrir þakklæti. Eða þá sem er heldur verra að þeim hafi þótt þetta alveg sjálfsagt mál, af hverju áttu þeir fyrir það fyrsta að vera haldnir þessum andstyggilega sjúkdómi?

En við breytum ekki þessum sem snéru ekki aftur, við skulum bara miklu frekar spyrja okkur, hvað hefðum við sjálf gert? Það minnir okkur óneitanlega á þá staðreynd að við getum ekki breytt öðru fólki, það er alveg lífsins ómögulegt, jafnvel þótt við reynum og reynum, það er bara ekki hægt.

Við getum helst breytt okkur sjálfum, það er eiginlega besta leiðin til að sjá breytingar á öðrum. Hverju get ég breytt í mínu fari til að bæta umhverfi og aðstæður. Regla númer eitt. Ef það eru bara fífl í kringum þig, þá þarftu að huga að eigin líðan og gera eitthvað mikilvægt og gott fyrir sjálfan þig.

Þannig er það nú bara. Jesús var hissa á viðbrögðum mannanna níu sem komu ekki en hann var ekki dvelja við það heldur lagði hann áherslu á að viðbrögð þessa eina voru sveipuð trúarlegum ljóma sem hefði bjargað honum, ,,trú þín hefur bjargað þér.” Spáðu umfram allt í það, ekki hvað hinir voru að hugsa eða spá.

Með þessu er ég alls ekki að segja að við eigum ekki að hugsa um aðra, nei en það hins vegar segin saga að ætlir þú að verða öðrum eitthvað þá þarft þú að vera sáttur eða sátt við sjálfan þig. ,,Elska skaltu náungann eins og sjálfan þig, eða eins og þetta þýðir í raun, ,,elska skaltu náungann eins og hann sért þú.

Það er mikilvægt að velta þessu fyrir sér á degi sem er vel til þess fallinn að þakka, degi þar sem þið framtíðarfólk játið trú ykkar sem má sannarlega bjarga ykkur í hinum ýmsustu aðstæðum lífsins, meðbyr sem mótbýr, á degi þegar árstíð gróandans tekur við af þeirri er allt liggur í dvala.

Svo við lítum nú jákvætt á veturinn þá tel ég að árstíðin sú skapi enn meira þakklæti í hjarta fyrir sumarið en ella. Þarna legg ég fram svona dæmi um hvernig má líta jákvætt á þætti er þykja ekkert sérstaklega jákvæðir. Það má sjá fegurð í öllu, meira að segja í hinu neikvæða, hugsið ykkur það!!

Það er spurning um að tileinka sér viðhorf og lífssýn, við getum tekið þar ákvarðanir, við höfum frjálsan vilja, frelsi til að ákveða, við erum ekki strengjabrúður, það er svo dásamlegt.

Stundum er það sem viðhorf fólks til tilverunnar breytist ekki nema það verði fyrir djúpstæðri lífsreynslu. Risastór lottóvinningur getur umbylt sýn okkar á lífið og það gerist líka þegar við verðum fyrir áföllum með neikvæðari formerkjum eins og t.d. veikindum eða ástvinamissi.

Nú gerist ég svo djarfur að enda þetta fermingarávarp á svolítilli sögu eftir sjálfan mig. Það hefur nú eitthvað borist út í samfélagið þetta með bókarskrif Laufássklerks. Nú er sú bók í prentun og lítur senn dagsins ljós. Ég get ekki neitað eigin eftirvæntingu.

Þessa bók sem heitir Kveikjur ætla ég jafnvel að nota að einhverju leyti í fermingarundirbúningi í framtíðinni. Það er gott að vinna með sögur með boðskap að ég tali nú ekki um samtímasögur. Sögurnar eru 40 talsins.

Mig langar til að deila með ykkur einni sögu. Hún felur í sér þetta efni, hvað maður getur staðið berskjaldaður frammi fyrir lífinu ef það gleymist í allri velgengninni að næra andann, að velta fyrir sér þeim spurningum sem erfitt er að festa hönd á en eru þarna samt og þú þarft að takast á við t.d. þegar þú mætir mótbyr í lífsins ólgusjó. Höfum það í huga að kirkjan er samfélag sem hefur það hlutverk að ræða og fræða og velta upp þessum stóru spurningum um tilgang tilvistar, um stöðu okkar í þessu sköpunarverki, um þakklætið og trúna. Sagan heitir Auður og auðmýkt.

Kjartan hafði nef fyrir peningum. Hann fann lyktina af þeim og vissi vel hvar þá var að finna. Hann þótti hreinn galdramaður á því sviði og öfundarmenn hans göntuðust með að hann væri nú alls ekki frábrugðinn andstæðingi Strumpanna, Kjartani galdrakarli, sem var grimmur og ófyrirleitinn og gráðugur. Kjartan hafði auðgast á götóttu bankakerfi. Hann kom auga á glufurnar, veikleikana og svo þekkti hann réttu mennina. Hann mætti í öll kokteilboðin með konunni sinni, Ágústu, sem þótti glæsileg og hafði eitt sinn verið fegurðardrottning.

Séð og heyrt kom helst ekki út nema þar væri mynd af þeim. Allt gekk þetta eitthvað svo glymjandi vel þótt sumir vildu meina að það væri helst á yfirborðinu. Lífsmottó Kjartans var bundið við það að hver væri sinnar gæfu smiður og hann trúði einkum á mátt sinn og megin. Ef talið barst að trúmálum kvaðst Kjartan helst trúa á Mammon og – blikkaði um leið auga. Það var ekki nóg með að peningarnir límdust við hann, heldur virtust allir í kringum hann við hestaheilsu.

Dag einn tók svo lífið nýja stefnu. Ágústa varð veik, alvarlega veik. Krabbamein hafði lætt sér inn í líf fjölskyldunnar og umturnað öllu og Kjartani þótti sem veröldin hryndi í einu vetfangi. Einhvern veginn urðu peningarnir ósýnilegir og Kjartan var hættur að blikka auganu um leið og hann nefndi Mammon á nafn.

Spurningar hrönnuðust upp og nú voru það ekki lengur spurningar um gengi eða gjaldeyri, heldur sóttu á krefjandi tilvistarspurningar. Kjartan hafði á litlu sem engu að byggja í þeim efnum og þess vegna fann hann fyrir reiði, óstjórnlegri reiði. Af hverju þurfti þetta að gerast? Hafði hann gert eitthvað rangt? Hvers vegna gat lífið ekki bara haldið áfram í óbreyttri mynd?

Kjartan hafði ekki hugmynd um hvað hann átti að gera. Honum fannst hann ekki hafa neitt að gefa Ágústu sinni í veikindum hennar. Hann stóð bara hjá og horfði á hana veslast upp. Átta mánuðum eftir að hún greindist var hún dáin. Þau áttu tvo ættleidda drengi sem bjuggu erlendis og höfðu lítið samband.Einhvern veginn höfðu þau aldrei orðið fjölskylda þótt ekkert hefði skort og ávallt væri nóg af öllu hinu veraldlega í kringum þau.

Þar sem að Kjartan stóð við hlið sonanna við lok útfararinnar heyrði hann orðin um upprisuna og lífið, þau hljómuðu í eyrum hans lengi á eftir. Hann stóð vanmáttugur frammi fyrir takmörkuðum samtakamætti fjölskyldunnar og kunni ekki að njóta stuðnings vina og vandamanna vegna þess að hann hafði aldrei ræktað slíkt sjálfur. Í eftirsjánni yfir glötuðum tækifærum uppgötvaði hann samt styrk í þeim orðum er hljómuðu.

Það var eitthvað undarlegt sem gerðist innra með honum, einhver von sem kviknaði. Með tíð og tíma gerði hann sér betur grein fyrir því að elskan til náungans gengur ekki bara út á peningagjafir og hann lærði að mynda dýpri og öðruvísi tengsl en áður, honum varð það sem sagt ljóst að þegar öllu er á botninn hvolft, þá erum við fyrst og síðast háð því að eiga tengsl við aðra, tilfinningatengsl. Stundum er dauðinn ekki bara líkn þeim er deyr.

Guð blessi ykkur varðveiti. Amen.