Þér skuluð eigi óttast

Þér skuluð eigi óttast

fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
20. apríl 2003
Flokkar

Guðspjall: Matt. 28.1-8 (B) Lexia: 2. Mós. 14. 15-22 Pistill: Kól. 3. 1-4

“Fyrir meira en einni öld andaðist tigin kona nokkur á meginlandi Evrópu. Á banasænginni lagði hún svo fyrir að á gröf sína skyldi sett minnismerki úr granítbjörgum en fest saman með stálspöngum. Á minnismerkið skyldi skrá þessi orð: “Ég hefi keypt ævarandi rétt yfir þessari gröf. Enginn getur opnað hana að eilífu”. Enginn maður haggaði legstaðnum. En hvað gerist? Lítið fræ fellur niður milli granítbjarganna. Það skaut rótum niður í moldina og varð að tré, sem lyfti björgunum, opnaði gröfina með því að kljúfa þau hvert frá öðru og lyfta þeim burt.

Hér átti stálið og steinninn að standa gegn eilífðinni. Það var vantrúin sem ætlaði að sigrast á trúnni. En vantrúin gerði sér auðvitað ekki ljóst að Guð gat gefið litlu frækorni lífsmátt sem jafnvel var meiri en stáls og steins”.

Við kristnir menn erum þeirrar trúar að Guðs orð beri ávöxt í margvíslegu tilliti. Guð talar og orð hans snýr ekki aftur til Hans fyrr en það hefur framkæmt það sem því er ætlað. Fyrir orð Guðs var heimurinn skapaður í gjörvöllu tilliti og orð hans ber ávöxt í hjörtum mannanna, vantrúaðra sem trúaðra. Við meðtökum orð Krists í hug og hjarta og leitumst við að stefna eftir því í tímans straumi líkt og samferðafólk Jesú gerði um sína daga sem hann kallaði til fylgdar við sig. Því er þannig háttað eins og við vitum að hjörtu mannanna eru ekki gjörð úr steini né stáli jafnvel þótt sumum finnist ýmsir menn ganga um með steinhjörtu og skeyta ekki um neina nema sjálfa sig. Þegar talað er um hjörtu mannanna í biblíulegu tilliti þá er átt við að þar sé að finna persónuna í sérhverri manneskju og þá eiginleika sem einkennir manneskjuna.

Jesús Kristur skaut einatt föstum skotum að Faríseunum eins og okkur er kunnugt um og líkti hjörtum þeirra við kalkaðar grafir. Þá var hann að vísa til þess að þeir létu sig engu varða hag annarra, einungis sinn eiginn. Annað var það sem hann gagnrýndi þá fyrir en það var að þeir skyldu vera svo fastheldnir á erfikenningu forfeðranna og vilja ekki hlusta á það að Guð hefði gefið þeim nýtt boðorð, kærleiksboðorðið sem væri uppfylling erfikenningarinnar. En alltaf var Jesús reiðubúinn að taka á móti iðrandi syndara, jafnvel þótt Farisei væri og fyrirgefa honum.

Með lífi sínu og starfi auðsýndi Jesú kærleikann í verki í margvíslegri þjónustu sinni þar sem hann fór ekki í manngreinarálit líkt og Farísearnir gerðu. Jesús fyrirgaf syndir og læknaði sjúka og umgekkst fólk sem heldri stéttir þjóðfélagsins, þ.m.t. Farisearnir litu niður til. Jesús höfðaði með ýmsu móti til hjartna mannanna í þeirri von að þeir mættu meðtaka orð sín og að þau mættu bera ávöxt í lífi þeirra. Þannig náði Jesú að kalla ýmsa til fylgdar við sig. Lærisveinarnir voru hrasgjarnir og vantrúaðir menn sem höfðu ýmsar sögur að baki sér en frelsaranum var í lófa lagið að móta þá með orði sínu og viðmóti og voru þeir flestir vel móttækilegir fyrir því og áhrifamætti þess. Mjór er mikils vísir. Frækorn orðsins sem Jesús mælti skaut rótum í brjóstum þeirra og eftir því sem leið á samverustundir þeirra með Jesú þá varð m.a. til játning Símonar Péturs sem sagði þegar Kristur spurði þá hver þeir héldu að hann væri: “Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs”. Að sama skapi er hryggilegt til þess að vita að Símon Pétur skyldi neita því þrisvar sinnum að hafa þekkt frelsarann áður en haninn gól á örlagastundu í lífi hans. Þrátt fyrir þennan misbrest í fari lærisveinsins þá bar Kristur óskorað traust til hans og kaus að byggja kirkju sína á honum, klettinum eins og nafnið Pétur merkir. Með orðum sínum og atferli öllu benti Jesús samferðafólki sínu á að nýr veruleiki hefði skotið föstum rótum mitt á meðal þeirra og þeirra hlutverk væri að meðtaka þennan nýja veruleik, sem nefndur er guðsríkið, í hug og hjarta og fara með boðskap þess um allan heim og gjöra allar þjóðir að lærisveinum sínum, vitandi að guðsríkið væri innra með þeim og að hann myndi vera þeim alla daga allt til enda veraldarinnar.

Í orðum Krists er fólginn náðarríkur vaxtarmáttur sem engum öðrum mætti er líkur. Það hefur jafnframt fólgið í sér eiginleika sem höfundur Hebreabréfsins lýsir svo vel í eftirfarandi orðum: “Því að orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans”. Jesús gerði mönnum ljóst hver væri staða þeirra gagnvart Guði, að þeir væru syndarar sem þyrftu á náð Guðs og fyrirgefningu að halda Hann væri sjálfur sonur Guðs, kominn til að veita þeim fyrirgefningu synda þeirrra og náð Guðs og frið í hjarta.

María Magdalena hafði ekki forhert hjarta líkt og Fariseanir þegar hún kynntist Jesú. Hún var hins vegar vantrúuð vændiskona sem hafði það fyrir sið að leggja lag sitt við karlmenn en hún lagði af þennan ósið, þessa synd eftir að hún kynntist Jesú sem fyrirgaf henni syndir hennar og bað hana um að syndga ekki framar. Eftir það fylgdi hún Jesú eftir og leitaðist við að tileinka sér það sem hann kenndi og byggja þannig upp líf sitt að nýju Hún var í hópi þeirra sem stóðu við kross Krists á föstudaginn langa. Þar voru einnig móðir Jesú og bræður hans ásamt fleiri konum sem höfðu kynnst Jesú. María heyrði Jesú mæla máttug orð fyrirgefningarinnar á krossinum þar sem hann fyrirgaf þeim sem dæmdu hann til dauða á krossi.

Best fer á því fyrir kristinn mann að iðrast fyrst synda sinna frammi fyrir Guði og æskja síðan fyrirgefningar á þeim. Það getum við gert í ljósi þess að Kristur afmáði skuldabréf okkar við sig á krossinum og hann minnist þess ekki framar. Fyrirgefning Guðs reisir þannig við niðurbeygða menn sem meðtaka orð fyrirgefningarinnar í hug og hjarta og gerir þeim kleift að hefja nýtt líf á traustum grundvelli sem byggður er á fyrirheitum Guðs í Jesú Kristi, orði hans og fyrirbænum til Guðs föður í þágu mannanna barna sem hann elskar af öllu hjarta og hefur heitið að yfirgefa aldrei.

Ég lét þess getið að lærisveinarnir hafi verið vantrúaðir menn. Eitt sinn er Jesús var með þeim urðu þeir hryggir við orð hans er hann sagði: “Mannssonurinn verður framseldur í manna hendur og þeir munu lífláta hann en á þriðja degi mun hann upp rísa”. Mt. 17.22. Þeir hafa vafalaust alls ekki gjört sér grein fyrir því að hann var að tala um sjálfan sig. En e.t.v. hafa þessi orð Krists rifjast upp fyrir þeim eftir að þeir heyrðu af vörum Maríu Magdalenu að Jesús væri upprisinn. En skjannahvíti engillinn sem birtist henni í gröf Krists minntist óbeinlínis þessara orða Krists við lærisveinana er hann sagði við Maríurnar báðar:: “Hann er ekki hér. Hann er upprisinn eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá”. María Magdalena var einnig vantrúuð, sömuleiðis María hin sem svo er nefnd í guðspjalli þess Páskadags. Sennilega er þetta María, systir Mörtu og Lasarusar sem bjuggu í Betaníu en Jesús heimsótti þau stundum og reisti Lasarus upp frá dauðum á þriðja degi en altaristafla Húsavíkurkirkju tjáir þá frásögu. Og líkt og málverkið tjáir og guðspjall dagsins þá greip um sig mikill ótti og skelfing hjá konunum báðum og öðrum þeim sem voru vottar að upprisunni. En fyrstu orðin frá himnum á páskadagsmorgun voru orð engilsins sem sagði við konurnar: “Þér skuluð eigi óttast”

“Hví eruð þér hræddir, þér trúlitlir?”, sagði Jesús þegar lærisveinarnir hrópuðu til hans í dauðans angist á bátnum. (Matt. 8.26) Ótti kristins manns stafar alltaf af veikri trú. “Verið ekki áhyggjufullir”, segir Jesús við alla þá sem eru kvíðnir vegna fæðu og klæða. (Matt. 6.25) “Verið óhræddir”, sögðu englarnir á jólanótt við hrædda hirðana. (Lúk. 2.10) Sömu orð mælti engillinn við Maríu (Lúk. 1.30) Sagt er að þessi hvatning, að vera óhræddur, komi fyrir 365 sinnum í Biblíunni, þ.e. “vertu óhræddur” fyrir hvern dag ársins.

Ég velti því stundum fyrir mér hvort ekki ríki beygur í brjóstum þeirra sem ekki þekkja Krist og kraft upprisu hans, sérstaklega þegar dauðastundin nálgast? Trúaður kristinn maður getur líka þekkt ótta við hættu, kvíða vegna hulinnar framtíðar t.d. í ljósi stríðsátaka í heiminum. Langvinn átök hafa átt sér stað milli Ísraelsmanna og Palestínumanna og enginn veit hvað tekur við af stríðinu í Írak. Menn spyrja sig hvort það kunni að breiðast út nú þegar vaxandi óþolinmæði og tortryggni í garð Bandaríkjamanna gætir í arabalöndunum. Í stríðsátökum virðast myrkravöldin ráða ríkjum fremur en þeir sem bera vilja páskaljósið út til þeirra sem búa við ótta um eigið líf og tilveru.

Margir búa við áhyggjur vegna fjárhagslegrar afkomu sinnar. Nýverið var kynnt hér á landi skýrsla um Fátækt á Íslandi sem leiðir í ljós að margir eru fastir í fátæktargildru. Því fylgir ótti og öryggisleysi að þurfa að vera fastur í fátæktargildru án þess að geta rönd við reist.

Þá búa margir við öryggisleysi vegna sjúkdóma sem erfitt er við að eiga og geta verið langvarandi. Enginn virðist sleppa við ágjafir í lífinu en menn eru misjafnlega áveðra fyrir þeim. Þegar lifsfley okkar kemur að stormhöfða þá geta ágjafirnar stundum verið slíkar að við sjáum ekki til lands og öll sund virðast vera lokuð. En handan við stormhöfðann er góðrarvonarhöfði okkar því að þeim sem elskar Guð samverkar allt til góðs.

Jesús breytti gröfinni í sigurrann. Hann vill breyta allri mæðu okkar í tækifæri til að veita okkur blessun og kraft. Líkt er háttað erfiðleikum okkar og þrengingum og ótta sem þeim fylgir. Fái Jesús að fara á undan breytir hann þeim í blessun sem dregur okkur nær honum.

Kvíðinn lærisveinn veit hvert hann á að snúa sér vegna óttans. Og þegar hann snýr sér til Guðs heyrir hann hljóma orðin frá himnum: “Óttastu ekki”.

Óttinn hlýtur að víkja þar sem Jesús kemur inn. Í hjarta okkar er annaðhvort ótti eða friður. Og Guð heitir okkur því að friður hans búi í hjörtum okkar ef við viljum láta af allri andstöðu við hann og bjóða hann velkominn í hjörtu okkar. Þá mun friður Guðs sem er æðri öllum skliningi, varðveita hjörtu okkar og hugsanir í Kristi Jesú”. Þannig birtist lifsmáttur frækornsins sem vex í brjóstum mannanna, eykur þeim trúna á hinn upprisna Jesú Krist, frelsara mannanna sem segir við mig og þig: “Verið óhrædd. ég hef sigrað heiminn”.

Ég skal gefa ykkur annað dæmi um lífsmátt frækornsins með því að segja ykkur stutta sögu.

Í bók sinni: “Kristur og þjáningar mannanna”, segir kristniboðinn Stanley Jones frá lækni í Kína. Hann hafði byggt veglegt sjúkrahús. Það hafði kostað hann miklar fórnir í mörg ár. Kommúníski armurinn í her þjóðernissinna hélt norður á bóginn og lagði sjúkrahúsið að mestu í rúst. Margra ára starf var eyðilagt á svipstundu.

Hvað gerði læknirinn? Hann slóst í för með hernum og hjúkraði sjúkum mönnum og særðu. Chang Kai Shek hershöfðingi stjórnaði öllum hernum. Þegar hann sá þetta spurði hann konu sína: “Hvað veldur því að þessi maður kemur með okkur og hjálpar veikum og slösuðum þó að þessir sömu menn hafi jafnað sjúkrahúsið hans við jörðu?”

Hin kristna eiginkona hans svaraði: “Það er kristindómurinn”. Þá varð Chang hugsi og sagði. “Þá þarf ég að verða kristinn”. Heilt sjúkrahús sem kínversku þjóðinni hafði verið gefið var ekki eins áhrifamikill vitnisburður og samfélag kristins læknis við píslir Kriists. Það var hveitikornið sem bar ávöxt.

Við skulum minnast þess að áhrifamesti vitnisburðurinn sem við getum borið frelsara okkar er ef við fáum auðsýnt mönnum óeigingjarnan kærleika í hversdagslífinu. Þannig berum við páskaljósið út til þeirra og berum því sjálft vitni. Amen.