Guð hefur velþóknun á þér

Guð hefur velþóknun á þér

En andi Guðs er ekki sýnilegur, þess vegna tökum við oft ekkert eftir honum þó hann sé að verki. Hann er eins og vindurinn, við sjáum hann ekki en við getum fundið áhrif hans eins og við sjáum vindinn sveigja trén.

Þegar Jesús var skírður opnuðust himnarnir. Dúfa kom af himni ofan, en hún er tákn heilags anda. Rödd frá himnum sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á“.

Þegar þú varst skírður eða skírð opnuðust himnarnir líka. Ekki svo að nokkur sæi, og ekki flögraði dúfa um, en heilagur andi var þar að helga þig Guði.

Hlutverk heilags anda

Hlutverk heilags anda er að styrkja trú, benda á Jesú og hugga þig í armæðu lífsins. Heilagur andi er öðru nafni nefndur í ritningunni parakletos, sem þýðir huggari. Heilagur andi er hluti af þríeinum Guði og hann starfar á jörðinni í umboði Guðs föður og sonar. Heilagur andi er innsæið þitt. Þú hefur sjálfsagt einhverntímann haft hugboð um hvað sé gott að gera í stöðunni. Þar er andi Guðs með þér, eða innri röddin sem varar þig við að gera ekki eitthvað slæmt. Heilagur andi er bænaandinn sem tekur undir bæn þína í hvert sinn sem þú biður. En andi Guðs er ekki sýnilegur, þess vegna tökum við oft ekkert eftir honum þó hann sé að verki. Hann er eins og vindurinn, við sjáum hann ekki en við getum fundið áhrif hans eins og við sjáum vindinn sveigja trén. Sumir hafa upplifað áhrif heilags anda eins og heitan straum sem fer um líkamann, eða mikla hvíld og slökun. Aðrir hafa upplifað óskiljanlegan kraft á erfiðum tímum. Heilagur andi var þér gefinn í skírninni. Þitt er að opna þig fyrir áhrifum hans. Já, hreinlega biðja um áhrif hans. Vittu til þú færð uppörvun í trúnni og hversdagslífinu.

Þú þiggur allt í skírninni

Það sem gerðist líka í skírninni þinni var að Guð lýsti velþóknun sinni á þér. Guð hefur velþóknun á þér eins og þú ert og hann hefur tekið þig að sér. Þú ert hans og Guð er þinn. Þú leggur ekkert hér til, þú bara þiggur. Og það er nægtaborð blessunar sem Guð býður þér og skyldur við hið góða. Eða eins og segir í Efesusbréfi Páls: „ …af náð eruð þið hólpin orðin fyrir trú. Þetta er ekki ykkur að þakka. Það er Guðs gjöf. Ekki byggt á verkum, enginn skal geta miklast af því. Við erum smíð Guðs, sköpuð í Kristi Jesú til góðra verka sem hann hefur áður fyrirbúið til þess að við skyldum leggja stund á þau.“ Ef.2.8-10

Skírnin er kröftug játning

Það er einhver sterkasta játning kristins manns þegar foreldrar bera barn sitt til skírnar og játa frammi fyrir Guði þar sem allt lýtur að einni bæn: „Góði Guð, viltu blessa barnið mitt“ eða „góði “Guð, ég fel þér barn mitt til blessunar, - jafnvel þótt ég skilji þig ekki.“ Þetta er góð játning og kröftug. Og nú koma foreldrar fermingarbarna við hlið þeirra þar sem þau eru að undirbúa sig undir að bera fram þessa kristnu játningu: „Góði Guð viltu blessa mig. Ég vil gera Jesú Krist að leiðtoga lífs míns.“

Sakramenti Lútherskrar kirkju eru tvö

Ferming er ekki sakramenti, hún er játning á skírninni sem er sakramenti. En sakramenti er það sem Jesús hefur boðið okkur að gera. Orð hans um það eru í Biblíunni og það hefur í sér tákn sem vísar til stærri veruleika. Vatnið er táknið í skírninni. Brauð og vín er táknið í altarisgöngunni. Þetta eru einu sakramenti Lútherskrar kirkju.

Það eru að verða ákveðin tímamót í lífi fermingarbarna landsins og foreldra þeirra. Unglingarnir eru að vaxa úr grasi, þeir eru að læra að taka ábyrgð á sjálfum sér smám saman um leið og foreldrarnir sleppa af þeim hendinni smátt og smátt. Í trúaruppeldinu er þar komið að þið fermingarbörn ætlið að játa það upphátt að þið viljið gera Jesú að fyrirmynd ykkar og stuðningsmanni. Þið eruð að játast þeim sáttmála sem foreldrar ykkar játuðust við skírn ykkar. Þið eruð að biðja um blessun Guðs og munið að Guð elskar ykkur eins og þið eruð. Hann hefur velþóknun á persónu ykkar. Kannski ekki á öllu sem þið gerið eða hugsið en þá höfum við árnaðarmann á himnum, Jesú sem biður fyrir okkur og veitir okkur fyrirgefningu. Guð horfir á okkur í gegnum fórnardauða Jesú á krossinum og hann hefur velþóknun á einu og hverju okkar.

Styðjum strákana í boltanum

 Nú er Evrópumeistaramótinu í handbolta lokið.    Íslenska landsliðið var að spila undir getu mest allt Evrópumótið. En þó svo hafi verið þá eiga strákarnir í boltanum að vera áfram strákarnir okkar þó að þeim hafi gengið illa. Við eigum að horfa til þeirra með velþóknun eins og Guð horfir með velþóknun til okkar. Allir geta átt sinn slæma dag eða tímabil. Landssliðið hefur séns að komast á ólympíumótið ef þeir sigra í erfiðum leikjum. Þeir þurfa kannski mest á stuðningi okkar að halda í mótbyr. Þeir þurfa að finna velvild okkar. Stöndum áfram með þeim og hvetjum þá til dáða sem aldrei fyrr. Minnug þess að Guð elskar okkur í blíðu og stríðu og hann er okkur aldrei nær en þegar við erum sem vanmáttugust.