Þrælgott

Þrælgott

Barnaþrælkun er svo enn einn þátturinn – en samkvæmt áreiðanlegum heimildum er mikið af sætindum í verslunum okkar sannkallað þrælgott. Það er framleitt af börnum sem þurfa að búa við ömurleg kjör.

Það var eitthvað við umbúðirnar sem heillaði mig, svolítið gamaldags og innihaldið þægilega klossaður klumpur af gæðasúkkulaði. Bitarnir voru ekki jafnt skornir eins og í flestum plötum af þessari stærð heldur misjafnir að stærð og lögun.


Sérstakt súkkulaði

 

Já, ég auglýsi nú ekki varning hér í stólræðum en ég hef orð á þessari ánægjulegu reynslu minni, eða má maður brúka hið títtnotaða orð – upplifun – af súkkulaði þessu sem fæst bæði í Mela- og Krambúðinni hér á næsta leyti.

 

Og svo þegar ég var eitthvað að rýna utan á pakkann meðan sykruð sæluhormón streymdu um æðarkerfið tók ég eftir því að framleiðendur telja sig hafa fundið vörunni sérstöðu innan um önnur sætindi í hillum verslana. Venjulega fjalla slíkir textar um bragð eða smekklegt útlit, en þetta nammi hafði eitt fram yfir keppinautana, nefnilega þetta eins og stóð utan á pakkanum: „Súkkulaði sem er ekki framleitt af þrælum.“

 

Eitt andartak leið mér eins og ég hefði skorað siðferðisstig, fólk hafði raunverulega fengið borgað fyrir að afla hráefnis í þessa vöru sem ég var óðara að klára. En um leið næsta læddist um mig ónotakennd. Var raunverulega ástæða til að greina frá þessu?


Mannréttindabrot

 

Jú, við stöndum innan um dísæta dýrðina og horfum í kringum okkur. Hráefnið er nú ekki flókið því það eru bragðefnin sem skapa fjölbreytnina. Innihaldið er mest sykur, kakómassi og pálmaolía. Að baki langflestum vörunum eru fáeinir framleiðendur sem hafa ógnarsterk ítök á markaði og víðar. Fjöldi lobbíista, lögfræðinga og markaðsfólks tryggir að ekki falli á ímyndir og fólk fái þær upplýsingar sem fyrirtækin vilja koma á framfæri.

 

Og þegar ég hafði sporðrennt góðgætinu sótti þessi spurning á mig: Getur það þá verið að eitt vörumerkið hafi þá sérstöðu að vera ekki unnið af þrælum? Og það börnum sem erfiða við ómanneskjulegar aðstæður?

 

Skjótgerð rannsókn á alnetinu leiddi í ljós að stærstu framleiðendur súkkulaðis hafa ekki brugðist við ákalli mannréttindasamtaka um að afnema þrælahald á plantekrunum á vesturströnd Afríku þaðan sem þeir fá hráefnið sitt.

 

Iðnaðurinn veltir 60 milljörðum bandaríkjadala á ári og hefur þrjóskast við að grípa til aðgerða. Það sem meira er – höfundar skýrslu um þessi mál nefna sérstaklega vörumerki sem skarta fair-trade stimplum eða lýsa að eigin frumkvæði yfir sakleysi í þessum andstyggilegu efnum, eins og þetta sem ég gæddi mér á.

 

Í þeim efnum þarf ekki að vera að allt sé sem sýnist því svo margslungin eru net aðfanga að vel kann vera að hluti hins gómsæta hráefnis eigi rætur að rekja til þess að saklaust fólk sé látið þræla með þeim hætti sem við töldum vera liðna tíð í upplýstum heimi. Þannig að siðferðiskenndin sem ég fann hríslast um æðar mínar átti sér kannske ekki einu sinni innistæðu.


Sáttmáli

 

Textar dagsins fjalla reyndar ekki um súkkulaði enda var það framandi í því umhverfi þaðan sem rit Biblíunnar eru komin! Höfundum þeirra liggur engu að síður mikið á hjarta sem þarf ekki að koma á óvart dyggum sækjendum guðsþjónustu. Textar dagsins eiga það sameiginlegt að ræða það sem í samhengi Biblíunnar er nefnt köllun – það er að segja að eiga sér hugsjón um eitthvað það sem stendur ofar hinu tímanlega, mun lifa lengur en sá eða sú sem á þá á hana í brjósti sínu á hverjum tíma.

 

Þessar frásagnir birtast okkur með ýmsum hætti. Lexían kemur úr fimmtu bók Móse og þar er talað um sáttmála sem Guð gerir við þjóðina. Hérna er í raun gefinn ákveðinn tónn sem ómar í gegnum ritninguna allt til enda. Það er að segja að því fylgir ábyrgð að vera manneskja og hver og einn ber ríka skyldu gagnvart systkinum sínum einkum þeim sem standa höllum fæti.

 

Það er merkilegt að þessi boðskapur skuli vera endurtekinn í sífellu í gegnum hið gamla testamenti í ljósi þess að þetta voru ættbálkasamfélög þar sem heimsmyndin var nátengd þjóðinni og þeim sem voru af sama stofni. Aðrir stóðu þar fyrir utan. Sumir fræðimenn hafa til að mynda túlkað hina kunnu sögu af Adam og Evu, á upphafssíðum Biblíunnar sem svo að þau hafi ekki verið fyrsta fólkið á jörðinni heldur þau fyrstu af ættstofni Gyðinga.

 

Og þessi sáttmáli sem talað er um í lexíunni byggir á því að fólk komi vel fram gagnvart náunga sínum og þá ekki þeim sem hafa völd annarra í hendi sinni sökum auðs og áhrifa heldur einmitt hinna sem eiga sér ekki viðreisnar von í hörðum heimi.


Jesús og jaðarfólkið

 

Þegar við lesum frásagnir nýja testamentisins af Jesú sjáum við hvernig hann í raun talar og starfar inn í þessu samhengi. Því þrátt fyrir allt, þá var tilhneigingin jafnan sú í því samfélagi þar sem hann starfaði að greina á milli fólks. Það er líklega mannlegt að skipta heiminum upp í tvo hópa – okkur og hin. Við eigum allt hið besta skilið. Hin geta ýmist verið ógnun í okkar garð nú eða unnið þau störf sem við kærum okkur ekki um að sinna en gera líf okkar betra og ánægjulegra.

 

Já, og ögn sætara um stundarkorn.

 

Fólkið sem varð vitni að orðum hans og gjörðum furðaði sig á því hversu ötullega hann rauf þessa múra. Gyðingurinn sem hann var átti samneyti við samverja. Karlinn sem hann var settist niður með konum og þáði leiðsögn þeirra og veitti þeim forystuhlutverk. Heilbirgður og hreinn sem hann var lagði sig fram um að umgangast holdsveika og þau sem voru kölluð bersyndug.  

 

Sáttmálinn sem við lesum um í textum Gamla testamentisins stendur einmitt gegn þessari flokkun þótt hann tali til ákveðins hóps fólks í hafi þjóða og ættkvísla.

 

Og þegar við hugleiðum það þá sjáum við hversu ríkt erindi þessi boðskapur á við okkur enn í dag. Ef við tökum hann til okkar þá kann að vera að við metum umhverfi okkar og samferðafólk með öðrum hætti en við myndum annars gera.

 

Því allt í kringum okkur getum við séð birtingarmyndir óréttlætis og harðstjórnar. Hvert sem við lítum sjáum við merki um brotinn heim, fallið mannkyn sem lætur jafnvel fánýt lífsgæði varna sér því að rísa upp til varnar réttlæti og mannhyggju.


Kristið mannréttindastarf

 

Og eitt af því sem við kynnumst í Biblíunni er afstaðan til þess að hneppa fólk í ánauð. Ein mestu þáttaskilin í sögu hinnar guðs útvöldu þjóðar er þegar hún var sjálf leyst úr þrælakistunni í Egyptalandi. Sá bakgrunnur verður síðar nýttur til að skapa hluttekningu með þeim manneskjum sem búa við svo ömurleg kjör að vera eign annarra og njóta engra gæða eða réttinda.

 

Gegn þessu berst kristið fólk og ein áhrifamestu mannréttindasamtök heimsins, Lútherska heimsambandið hefur gert baráttuna gegn þrælahaldi að sínu brýnasta verkefni. Sú hugsun Lúthers að manneskjan sé frelsuð fyrir Guðs náð – fær félagslega skírskotun og verður að ákalli um frelsi til handa ánauðugu fólki.  

 

Því ánauðin birtist með ýmsum hætti – mansal er einn þeirra, þar sem auðugar þjóðir sækja sé vinnuafl til fátækari landa og fólk er markvisst beitt blekkingum til að hneppa það í fjötra þrældóms. Kynlífsþrælkun er líklega ein versta birtingarmynd þessa ofbeldis.

 

Heimsambandið berst gegn þessu og hefur náð þar markverðum árangri. Einnig vinnur það gegn siðum í ýmsum löndum þar sem konur eru seldar í hjónaband. Barnaþrælkun er svo enn einn þátturinn – en samkvæmt áreiðanlegum heimildum er mikið af innihaldi í verslunum okkar sannkallað þrælgott. Það er framleitt af börnum sem þurfa að búa við ömurleg kjör. Flóttafólk er svo sérstaklega útsett fyrir slíku en það gengur víða kaupum og sölum, varnarlaust á framandi slóðum.

 

Við getum vissulega reynt að breyta reglum, koma á auknu eftirliti og beitt fyrirtæki og félög þrýstingi til að taka til í sínum ranni. Mikilvægast er þó að við byrjum á okkur sjálfum. Kirkjan flytur okkur þann boðskap sem byggir á reisn manneskjunnar og til að undirstrika það eru okkar minnstu systkini í sífellu tilgreind sem jafnrétthá þeim sem hafa auðinn og völdin í sínum höndum.


Þrælgott

 

Já, súkkulaði, hversu saklaust sem það nú virðist vera og bragðgott – á sér samkvæmt heimildum mínum þessa skuggahlið. Lífið kennir manni það að litríkustu umbúðir geta falið dimman veruleika. Það sýnir áróður í einræðisríkjum og markaðurinn kann á því tökin einnig. Andstætt hinu yfirborðslega vill kristin trú tala inn í hjarta okkar. Kristur ávarpar okkur sem frjálsar og ábyrgar manneskjur sem hugsum um afleiðingar gjörða okkar.

 

Erindi hans til okkar er að við mætum systkinum okkar, ekki sem verkfærum til að gefa okkur meiri skemmtun og betra bragð, heldur sem sjálfum tilgangi lífs okkar og starfa. Og þegar við tileinkum okkur þetta þá skynjum við það og finnum að líf okkar hefur tilgang og merkingu, nokkuð sem kann að lifa áfram þegar dagar okkar sjálfra eru á enda runnir.