Að fá að vera lærisveinn

Að fá að vera lærisveinn

Án orða hafa augu fólksins mætt augum bjargvættanna og spurt með andlitssvip fremur en orðum „Elskar þú mig“? „Ef svo er, bjarga þú mér“.

Þegar þeir höfðu matast sagði Jesús við Símon Pétur: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?“ Hann svarar: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“

Jesús segir við hann: „Gæt þú lamba minna.“ Jesús sagði aftur við hann öðru sinni: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“

Jesús segir við hann: „Ver hirðir sauða minna.“ Hann segir við hann í þriðja sinn: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Pétur hryggðist við að hann skyldi spyrja hann þriðja sinni: „Elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Drottinn, þú veist allt. Þú veist að ég elska þig.“

Jesús segir við hann: „Gæt þú sauða minna. Sannlega, sannlega segi ég þér: Þegar þú varst ungur bjóstu þig sjálfur og fórst hvert sem þú vildir en þegar þú ert orðinn gamall munt þú rétta út hendurnar og annar býr þig og leiðir þig þangað sem þú vilt ekki.“ Þetta sagði Jesús til að kynna með hvílíkum dauðdaga Pétur mundi vegsama Guð. Og er hann hafði þetta mælt sagði hann við hann: „Fylg þú mér. Jóh 21.15-19

Biðjum.

Ég styðjast vil við staf þinn, Guð, mig styrkir sproti þinn. Í hverri neyð þú býr mér borð og bikar fyllir minn. Já, fylgja mun mér gæfa Guðs, sem gengur mér við hlið og alla daga ævinnar ég á hans náð og frið. Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi Amen

Þeir hafa sannarlega staðið sig vel og unnið mikil kærleiksverk, skipverjarnir á varðskipinu Tý sem sinnir eftirlitsstörfum undan ströndum Líbýu í Miðjarðarhafinu. Hundruðum þjáðra flóttamanna hafa þeir liðsinnt og bjargað og fært til öruggrar hafnar. Þeim hafa mætt örvæntingarfullir andlitsdrættir flóttafólksins, markaðir af þjáningum og vonbrigðum. Án orða hafa augu fólksins mætt augum bjargvættanna og spurt með andlitssvip fremur en orðum „Elskar þú mig“? „Ef svo er, bjarga þú mér“. Og svar skipverjanna endurspeglast í athöfnum þeirra, fumlaust, örugglega og af nærgætni hafa þeir fært fólkið úr yfirfullum, vélarvana bátskænum, hlúð að þeim af umhyggju og virðingu og siglt með þau í átt til þess frelsis og friðar sem þau þrá að eiga. Af viðtölum sem við höfum heyrt af löndum okkar þar syðra og af myndum sjáum við hið augljósa svar, án orða, svar rétt eins og hjá Pétri í guðspjalli þessa dags: „Já, þú veist að ég elska þig“. Oft eru orð tilgangslaus, oft ekki skiljanleg en verkin sýna hvert svarið er, hvernig hugurinn er. Þetta er ekki létt verk sem þarna er unnið, það lætur engan ósnortinn sem kynnist mannlegri neyð og niðurlæginu af eigin raun. Og verkin sem landar okkar þar syðra vinna, endurspegla svo ekki verður um villst umhyggju og kærleika. Skylduverk, segir kannski einhver. En skylduverk er hægt að vinna með gleði eða ólund, þar ræður hugarfarið og lífssýnin miklu, hvernig manneskjan er gerð. Þetta umrædda landsvæði og reyndar önnur við Miðjarðarhafið og víðar eru suðupottar mannlegra harmleikja. Átökin og grimmdin, svívirðingar gagnvart fólki og verðmætum eru svo yfirþyrmandi að við getum varla ímyndað okkur. Og það er í raun dapurlegt hve þjóðir heims eru vanmegnugar að grípa inn í og reyna að stilla til friðar, aðstoða saklaust fólk. En það er ekki auðvelt því þarna eru deilur sem endurspegla flókin pólitísk og menningarleg ágreiningsefni. Við erum stödd á ströndinni við vatnið í guðspjalli dagsins með vonsviknum og niðurlægðum mönnum. Eftir krossfestinguna var Símon lærisveinn Drottins og þeir reyndar allir lærisveinarnir ráðvilltir og áttavilltir. Jesús var ekki lengur í daglegum samskiptum við þá til að telja í þá kjark, leiðbeina þeim, innræta þeim nýjan skilning á lífinu, á Guði á lögmáli og fagnaðarerindi trúarinnar. En – en svo gerist undrið stóra. Jesús birtist þeim upprisinn og það var eins og allt væri sem fyrr. Þeir tóku tal saman, glöddust, vildu horfa fram til nýrra tíma, nýrra sigra, nýrrar veraldar. Var það ekki undursamlegur veruleiki að Jesús var hjá þeim? Og þrisvar spyr Jesús Pétur vin sinn: “Elskar þú mig”? Símon Pétur, þessi sérkennilegi maður, sambland af staðföstum hörkumanni og veiklunduðum einstaklingi sem ekki gat í öllu staðið við heitstrengingar sínar þarf að svara þessum áleitnu spurningum: “Elskar þú mig, Símon Jóhannesson”? “Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig”. En af hverju spyr Jesú Símon Pétur svo? Jú, Jesús vill heyra játningu hans, opinskátt, því Péturs býður mikið verkefni hinnar fyrstu kristnu kirkju. Símon Pétur hafði áður játað því að Jesús væri Drottin, hafði lofað Jesú því að hann myndi standa staðfastur hjá honum í þrengingum föstudagsins langa. En þar sveik hann loforð sitt þrisvar. Afneitaði Jesú af ótta við að hljóta sömu örlög og hann. Nú var komið að reikningsskilunum. Jesús spyr um játninguna, um elskuna til sín, þrátt fyrir allt sem á undan var gengið. Jesús spyr Símon Pétur til að hvetja hann til að horfast í augu við sjálfan sig, veruleika lífs hans, hvað biði hans. Hann er að spyrja Símon Pétur um lífsgrundvöll sem hann ætlar að lifa eftir, lífssýn hans, siðferðisviðmið, hvort Pétur er í raun reiðubúinn að ganga erinda hins upprisna eða ekki. „Ég er góði hirðirinn“, hafði Jesús sagt við þá áður. Nú á ströndinni felur hann Pétri að gæta hjarðarinnar, hinnar trúuðu manneskju. „Elskar þú mig“ spyr Jesús. Spurning hans er í raun ekki bara beint til Péturs, henni er í raun beint til þín og til mín, til þeirrar manneskju sem er helguð Guði og vill feta slóð lærisveins Jesú í lífi sínu. „Elskar þú mig“? Og hverju svarar þú og ég? Líf okkar er um leið saga, ferill þar sem við þroskumst frá bernsku til fullorðins- og efri ára. Margir eru áhrifavaldar okkar í sögu lífsins, öll þau gildi og stefnur sem móta hugsun og viðhorf. Þar þurfum við að velja, það gerir enginn fyrir okkur. Við getum fengið og fáum leiðbeiningar en við verðum sjálf að ákveða, skoða, kynna okkur svo mörg blæbrigði lífsins. Það er vandi sérhverrar manneskju að velja og hafna, velja góðu göturnar sem leiða til farsældar en reyna að forðast þær götur sem enda í öngstræti. Þá er okkur nauðsynlegt að þekkja og læra sögusviðið okkar, samtímann og líka fortíðina til hjálpa okkur að skapa sögu sem byggir á reynslu. Trúin er eitt þessara sviða sögu okkar sem er stór áhrifavaldur flestra. Trúarbrögð heimsins er mörg og með mismunandi birtingarmyndir, Trúarbrögðum hefur oft verið kennt um átök og stríð, stundum ranglega en stundum með réttu. En þegar grannt er skoðað eru trúarbrögðin sjálf tæpast orsakavaldar, það er hið mannlega eðli sem bregst, þegar við gerum trúarbrögð að óskeikulum málstað og höfnum trú annarra. Hvað er sannleikur, var spurt forðum og spurt enn. Umfram allt skulum við efla samtal milli mismunandi trúarbragða og þroska með okkur skilning og virðingu fyrir tilfinningum og skoðunum annarra. Þá leggjum við okkar lóð á vogarskálar farsælla mannlífs. Kristin trú hlýðir frelsara sínum, hirðinum góða, og kristinn einstaklingur lítur til hans um leiðbeiningu í sköpun og mótun lífssögu sinnar. Og þar finnum við einmitt þessa alltumlykjandi umhyggju eins og lærisveinarnir á ströndinni, nálægð góða hirðisins. Hann var málsvari þess þjáða og smáða, þeirra vonsviknu og niðurlægðu, það var hann sem gekk svívirtur um götur Jerúsalem með krossinn sinn, með hinn harða og miskunnarlausa heim grimmdar og voðaverka allt um kring. En hann barðist ekki, hann fyrirgaf og kenndi okkur að hið góða er hinu slæma yfirsterkara þegar allt kemur til alls. Hann stóð á ströndinni við vatnið með Pétri og bað hann gæta hjarðarinnar sinnar. Hann stendur þér við hlið á hverjum degi og spyr þig líka „Elskar þú mig“? Og þeirri spurningu þarft þú að svara en ekki láta aðra um það, það getur enginn svarað fyrir þig, þitt er valið. Jesús með samtali sínu við Pétur er að ítreka að hann skilur engan eftir umkomulausan. Það hlutskipti er mannanna verk, grimmdin er mannleg smíð. Honum er annt um þig af þú kýst að vera hans lærisveinn. „Gæt sauða minna“ segir hann við Pétur. Þessum orðum er beint til þín um leið, að þú notir huga þinn og hendur í miskunnsemi og umhyggju, réttlæti og kærleika til annarra. Þá verður saga þín með öðrum og mennskari blæ og blómin munu vaxa úr sporum þínum. Þá áttu vonina í brjósti um að vera hjarðsveinn hans, sporgöngumaður hans í samtíma þínum, talsmaður manneskjulegra gilda sem hlúa að veiku og brothættu lífi eins og fögru vorblómi í napurri tíð. Það eru þeir að gera, landar okkar við Miðjarðarhafið Guð þarf svo margar miskunnsamar hendur og kærleiksríkan hug í þessari brothættu veröld. Mætti það vera veganesti okkar út í daginn og lífið, út í vorið sem bíður, að hlusta eftir þeim sem ákalla okkur um hjálp. Guð gefi okkur að fylgja honum í orði og verki, góða hirðinum. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen