Við landamæri nýrra tíma

Við landamæri nýrra tíma

Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.

Áramót eru dýrmæt kaflaskil og tækifæri til að leggja tímaskeið til hliðar, með væntingum sínum og vonbrigðum, sigrum og áföllum, og til að líta fram á veginn.

Fyrirtækjum er skylt samkvæmt lögum að gera við áramót uppgjör og vörutalningu, þar sem staða rekstrarins er metin útfrá mælanlegum viðmiðum hagnaðar eða taps og farið er yfir þær byrgðir sem til eru. Þær vörur sem eru óseljanlegar eða gallaðar eru afskrifaðar og þeim fargað og lagt er mat á virði þeirra vara sem eftir standa. Sumar fara á útsölu og eru seldar án hagnaðar, aðrar halda verðgildi sínu verandi enn í fullu gildi. Að loknu ferlinu er fyrirtækið tilbúið til að taka við nýjum vörum og bæta við úrval sitt.

Þessi einfalda aðferðafræði viðskiptanna er hvorki framandi kirkjunni, né einstaklingum, þó hún sé ekki lögbundin skylda í sálarlífi mannsins. Í aðdraganda jóla og páska hvetur kirkjan til föstu, þar sem við erum hvött til að gera vörutalningu hið innra, vega og meta viðhorf okkar, langanir og mistök, losa okkur við þá fjötra sem hindra hamingju okkar og velferð í lífinu og opna hjarta okkar fyrir nýrri fegurð.

Það er ekki ofsögum sagt að samfélag okkar standi á tímamótum í margþættum skilningi og hefur gert um nokkurt skeið. Á þessari öld hafa stórtækar breytingar átt sér stað í heiminum sem hafa haft víðtæk áhrif á íslenskt samfélag og ekkert þeirra vandamála sem við glímum við eru einangruð fyrirbæri.

Um allan heim er almenningur að missa þolinmæði fyrir yfirgangi fjölþjóðafyrirtækja, lýðræðið er í vanda á Vesturlöndum vegna áhugaleysis ungra kjósenda og uppgangs öfgasjónarmiða og iðnvæðing stórra þjóða á borð við Kína og Indland hefur gert okkur það ljóst að pláneta okkar ber ekki þá neysluhyggju sem Vesturlöndin hafa vanist.

Áramótaskaup sjónvarpsins bar þess merki að meðal þjóðarinnar býr djúpstæð óánægja með þróun mála í eftirleik hrunsins. Að loknu uppgjöri bankahrunsins hefur fátt breyst og eftir situr hjá þjóðinni, djúpstætt vantraust á opinberar stofnanir samfélagsins. Þar er enginn stofnun undanskilin og sú gagnrýni sem hefur beinst að kirkjunni undanfarin ár dregur dám af því.

Efnahagshrunið var meira en fjármálaþrengingar, það var harkaleg áminning um að við höfðum misst sjónar á því hver við erum og fyrir hvað við stöndum sem þjóð. Íslendingar þekkja harðæri vel en sú kreppa sem við stöndum nú frammi fyrir snýr ekki einungis að skorti á fjármunum heldur einnig skorti á samfélagssýn.

Samfélag okkur hefur breyst svo hratt að sú kynslóð sem nú er komin á eftirlaun hefur upplifað á sinni ævi meiri breytingar en nokkur önnur kynslóð mannkynssögunnar. Það fólk sem nú skilur við satt lífdaga ólst sumt upp við aðstæður sem þykja í dag jafn framandi og aðstæður fólk í fjarlægum menningarheimum. Faðir minn er alinn upp í Reykjavík og þegar hann var barn stóð á móti æskuheimili hans að Bergstaðarstræti 49 torfbærinn Lákabær, þar sem ólust upp skólafélagar hans.

Tuttugasta öldin var eins og sagnfræðingurinn Eric Hobsbawm orðaði það öld öfganna, þar sem fóru saman ólýsanleg mannleg grimmd, sem birtist í heimstyrjöldum, alræðislegri hugmyndafræði, og ótal tilraunum til þjóðarmorða og mesta hagvaxtar, friðar og framþróunarskeið mannkynssögunnar.

Íslendingar hafa á einni öld risið úr fátæklegum kjörum torfkofans til sjálfstæðis og samfélagsgerðar sem gerir tilkall til þess að vera velferðarsamfélag. Það er ekki lítið afrek, þó sú þróun hafi haldist í hendur við blómaskeið samfélaga beggja vegna atlantshafsins sem við nutum góðs af.

Við stöndum á tímamótum í samfélagi okkar og höfum gert um nokkurt skeið. Vörutalningar er þörf og við þurfum sem samfélag að geta horfst í augu við það sem stendur okkur fyrir þrifum og við þurfum að hafa hugrekki til að standa vörð um það sem gerir okkur að þjóð.

Sú umræða á Alþingi fyrri ríkisstjórnar sem leiddi af sér Stjórnlagaráð og drög að nýrri stjórnarskrá var merkileg tilraun til þess að ræða heildstætt um fyrir hvað við stöndum sem samfélag og hvert við viljum stefna. Aðfararorð þeirra tillagna eru tilraun til að orða grunngildi okkar á hátt sem getur varðað veg okkar fram á við. Þar segir:

„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.

Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteinum.”

Í þessum aðfararorðum birtist þráin eftir sannleika, réttlæti og jafnrétti allra sem byggja þetta land, án þess að missa sjónar á því hvað mótað hefur menningu okkar fram til þessa dags.

Hvort sem tillögur ráðsins verða að lokum að stjórnarskrá eður ei, er ljóst að sú vinna sem fór fram með þjóðfundum, kjöri til stjórnlagaþings og í drögum að nýrri stjórnarskrá hefur haft djúpstæð áhrif á umræðu samfélagsins. Krafan um réttlátt samfélag verður ekki þögguð og það réttlæti verður að ná til allra sem hér búa.

Lexía dagsins er fenginn úr hinni epísku sögu Ísraelsþjóðarinnar þegar Móse leiddi þjóð sína að mörkum fyrirheitna landsins. Að baki lágu þrældómur í Egyptalandi sem Guð hafði leyst þjóðina úr og eyðimerkurganga sem kom til af því að þjóðin villtist af leið sinni til fyrirheitna landsins.

Við landamæri hins langþráða áfangastaðar fara fram kynslóðaskipti. Móses færir næstu kynslóð blessun Guðs og segir við Aron og syni hans. „Með þessum orðum skuluð þið blessa Ísraelsmenn: Drottinn blessi þig og varðveiti þig, Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur, Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið. Þannig skuluð þið leggja nafn mitt yfir Ísraelsmenn og ég mun blessa þá.“

Táknsaga Ísraelsþjóðarinnar varð í kirkjunni táknmynd fyrir samfélag þeirra sem leita Guðs, hvaða þjóð sem þeir tilheyra, og blessunarorðin sem Móse skildi arftaka sína með hafa orðið að bæn um blessun í trúarsamfélögum gyðinga, kristinna og múslima, til þessa dags. Í hvert sinn sem kirkjan kemur saman er farið með þessi orð, orð sem eru ákall um blessun, náð og frið.

Í þessum einföldu orðum er fólginn djúpstæður sannleikur um eðli friðar. Án réttlætis getur ekki verið sannur friður og án náðar getur réttlætið ekki náð fram að ganga. Af réttlátum friði leiðir blessun, velferð og farsæld.

Réttlátur heimur og friður á jörðu eru hugsjónir sem mannkynið má ekki missa sjónar á og það er ábyrgð okkar sem ráðsmenn sköpunar Guðs að koma slíkum friði á, hér á jörðu. Það virðist því miður sem svo að sá draumur sé svo fjarlægur að hann geti aldrei orðið og nú sem fyrr stöndum við frammi fyrir alvarlegum ógnum við þá hugsjón.

Köllun kirkjunnar er að birta réttlæti og frið í samfélagi sínu og það er köllun sem við getum ekki skorast undan, ef við viljum kenna okkur við Jesú Krist. Við höfum ekki sem söfnuður vald til að breyta skipan heimsins en við getum sem einstaklingar og nærsamfélag vaxið í átt að þeirri hugsjón að leiða fram blessun Guðs í lífi okkar. Það gerum við með því að leita Guðs í bæn, vera málsvarar þeirra sem beitt hafa verið órétti í samfélagi okkar og birta kærleika Guðs í verki til þeirra sem hingað sækja skjól.

Við áramót er það skylda okkar sem tilheyrum samfélagi Neskirkju að gera reikningsskil og vörutalningu. Velferð þessa safnaðar verður aldrei mæld í krónum og aurum og jafnvel ekki í messugestum, þó við gleðjumst yfir hvorutveggja, heldur í því hvernig að okkur tekst að leiða fram kærleika Guðs í starfi okkar. Það gerum við með því að sinna börnum, öldruðum, sjúkum, fátækum og útlendingum í samfélagi okkar og með því að rækja hlutverk okkar sem helgidómur, griðarstaður fyrir bænir og sálgæslu fólks.

Í því verkefni stöndum við ekki ein og við megum hvíla í því fyrirheiti að ef við miðlum elsku til þeirra sem hingað leita og réttum hlut þeirra sem þurfa þess við, munum við njóta blessunar Guðs. „Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni þar er ég mitt á meðal þeirra.“

Kirkja er samfélag, samfélag manna og samfélag við Jesú Krist, og ef það samfélag er heilbrigt leiðir það af sér blessun út í samfélagið allt. Sú sannfæring liggur að baki því óeigingjarna starfi sem að safnaðarfólk Neskirkju lagði á sig til að koma upp þessari kirkju í hjarta Vesturbæjar og sú sannfæring knýr okkur sem hér störfum áfram í starfi.

Samfélag okkar stendur á tímamótum og þjóðin lítur með eftirvæntingu og vonbrigðum til kristinnar kirkju, því hún veit sem er að okkur ber að vera farvegur réttlætis, náðar og blessunar Guðs í lífi hennar. Framtíð Þjóðkirkjunnar mun ráðast af því hvernig að okkur tekst í söfnuðunum að reynast slíkur farvegur í lífi fólks og rödd réttlætis inn í íslenskt samfélag. Guð veiti okkur náð sína til þess að reynast þeirri köllun trú.