Veislugleði í fylgd með Kristi

Veislugleði í fylgd með Kristi

Guðspjall: Matt. 22.1-14 Lexia: Jes. 55.1-5 Pistill: Ef. 5. 15-21

Ó Drottinn, þú sem býður, biður, neyðir, Ég blindur er en sonur þinn mig leiðir Frá synd og hættum gegnum dauðans dalinn Í dýrðar þinnar fagra gleðisalinn Svo yrkir sr. Matthías Jochumsson. Þetta vers kom í huga minn er ég hugleiddi dæmisöguna í guðspjalli dagsins þar sem Jesús líkir himnaríki við konung einn sem gjörði brúðkaup sonar síns. Þrátt fyrir að fjölmörgum hafi verið boðið til brúðkaupsins sem átti að standa í nokkra daga þá vildi enginn koma og taka þátt í veislufagnaðinum. Veisluborðið svignaði undan margvíslegum kræsingum en nú lá það allt undir skemmdum nema konungurinn tæki til sinna ráða sem hann og gerði. Hann bauð þjónum sínum að fara út á vegamót og bjóða öllum sem þeir fyndu, vondum og góðum. Brátt varð brúðkaupssalurinn alskipaður gestum. Konungur gekk þá inn og blandar gleði við prúðbúna gestina Þar sá hann einn gest sem ekki var búinn brúðkaupsklæðum. Þá reiddist konungurinn vegna þess að með boðinu í veisluna hafði fylgt sá klæðnaður sem menn áttu að bera, venju samkvæmt á þessum tímum. Kannski hafði þessi maður selt brúðkaupsklæðin fyrir flösku af víni eða einhverju öðru. Og þegar konungur spyr hann í vinsemd þá svarar hann engu.. Allt framferði mannsins bar vitni um fyrirlitningu Honum var hent út. Þar sem hann var ekki í tilheyrandi brúðkaupsklæðum þá hafði hann alltaf verið utan við þennan veislufagnað, áhorfandi að gleðinni en ekki þátttakandi. Sögunni lýkur þannig með gráti og gnístri tanna í myrkrinu fyrir utan. Hvað merkir þetta? Brúðkaupsklæðin í sögunni eru tákn. Stundum er bent á að þau tákni fyrirgefningu syndanna. Fyrirgefning syndanna er ávallt óverðskulduð gjöf, náð sem hylur syndarann, umvefur hann. Guð tekur þá sem ekki hafa til þess unnið að sér og býður þeim til samfélags við sig og gefur þeim eilífa hlutdeild í gleði ríkis síns. Það er náð. Sá sem hafnar þessari náð, líkt og maðurinn sem kom í veisluna án brúðkaupsklæða, telur sig ekki þurfa hennar með, hafnar með því lífinu, ljósinu, gleðinni. Guðs son kom með boðin dásamlegu á synduga jörð: Komið, sagði hann. Syni Guðs var hafnað. Þó hafnaði hann ekki heiminum. Í heiminum lagði hann leið sína í niðamyrkur afleiðinga vanrækslu, andlegs og líkamlegs ofbeldis, kæruleysis, eigingirni, haturs, öfundar, svika, bakmælgi og annarra synda mannanna. Í þessu niðamyrkri var svo krossinn reistur. Þar dó sonur Guðs. Þá var öllum lokið með gráti og gnístran tanna. Þar endar þessi saga sem við íhugum í kvöld. Og þó, sögunni er ekki lokið. Því að boðið berst til okkar þrátt fyrir að sonur Guðs hafi verið krossfestur af mannanna völdum. Veislufagnaðurinn stendur okkur til boða, hver sem við erum og hvar sem við erum stödd. Veislu mína hef ég búið,- segir Drottinn,- veisluborðið svignar undan krásunum. Allt er tilbúið, komið í brúðkaupið, - til þess að þið megið eignast gleðina og lífið. Himnaríki er ekki einhver himneskur staður samkvæmt Biblíunni heldur ástand sem einkennist af gleði og þakklæti. Hér er himneskt að vera segjum við stundum þegar við erum í góðra vina hópi. Við gleðjumst vegna samfélagsins við þessa vini okkar. Brúðkaupsveislur bera þessari innilegu gleði ríkulegt vitni langt fram á brúðkaupsnóttina eins og við þekkjum sjálf af eigin raun. Oft er litið á himnaríki eins og það sé stór kirkjugarður og það að veita Kristi viðtöku sé líkt og að vera jarðaður. Hið fyrra líf skal yfirgefið, hætt við flestar skemmtanir, dans sé bannaður, snúið baki við vinum, áhugamálin lögð á hilluna og gert það sem menn hafa síst hug á. Hér er litið á kristilegt trúarlíf út frá röngu sjónarmiði. Jesús líkir himnaríki við konung sem gerði brúðkaup sonar síns. Að vera kristinn er að vera gestur í brúðkaupi konungssonarins. Átti boðsgesturinn þá að hugsa með söknuði til þess að hann yrði að fara úr gömlu fötunum, lauga sig og búast nýjum hreinum klæðum? Ætti hann að andvarpa vegna þess að hann fær ekki sama matinn og áður? Nei, hann ætti að gleðjast, þakka og þiggja. Það ætti sérhver kristin manneskja að gera. Við þekkjum það að stundum er forgangsröðunin sú að fánýtir og lítilsverðir hlutir eru hafðir í fyrirrúmi fyrir samvistum við fjölskyldu og vini. Í hringiðu nútímasamfélags er mjög auðvelt að gleyma því hvað er mikilsvert í lífinu, - það að fáfengi leikinn og veraldleg lífsgæði eru oft hærra metin en þau lífsgæði sem mölur og ryð fær ekki grandað. Er ekki mesta refsingin sú að missa af gleðinni og glaðværðinni sem þátttaka í veislunni, - samfylgdinni með Jesú Kristi, felur í sér þar sem við iðjum og biðjum? Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Ég hitti ungan mann í anddyri hótelsins á Húsavík á föstudag sem ég hafði ekki séð áður. Hann sagðist vera kaþólikki frá Þýskalandi og spurði mig að fyrra bragði hvort kaþólikkar kæmu ekki saman hér á Húsavík til að efla samfélagið við Drottin. Ég var svo heppinn að geta boðið honum í kaþólska messu á Húsavík sem ég vissi að hæfist innan klukkustundar. Hann brosti út að eyrum, ungi maðurinn, - og gekk til veislunnar til að efla samfélagið við Drottin og trúsystkini sín. Ég gladdist í hjarta mínu yfir því hvernig hann brást við þessu boði. Guð býður til veislu sem er jafn ánægjuleg og brúðkaupsveislan eða hver önnur góð veisla. Að halda því fram að það að vera kristin, - trúuð manneskja sé eitthvað hræðilega leiðinlegt er alrangt. Guð býður til fagnaðar, ekki síst um borð sitt. Það er síðasta veislan sem Jesús hélt lærisveinum sínum þegar þeir komu til Jerúsalem til þess að halda páskahátíð. Veislan sem þá var efnt til varð að helgustu athöfn allra kristinna manna. Veislan sem Drottinn Guð býður til er fyrir okkur öll. Þar þrýtur aldrei rými, þar þrjóta aldrei veisluföng. Þar erum við öll jöfn, öll eitt í Kristi Jesú Drottni okkar og frelsara. Amen.