Jólin eru fjölskylduhátíð

Jólin eru fjölskylduhátíð

Hann gerði á jólum mannkyn allt að fjölskyldu sinni og vegna þess eru jólin okkar fjölskyldu hátið.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
25. desember 2016
Flokkar

Lúk. 2:15-20.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Gleðilega hátíð. Aðfangadagskvöldið er liðið, en mörgum finnst það kvöld vera það allra helgasta af öllum kvöldum og dögum ársins. Þá heyrðum við frásögu Lúkasar guðspjallamanns af fæðingu frelsarans og friðarkveðjuna sem flutt var. Í dag höfum við heyrt framhald frásögu Lúkasar þar sem hann segir frá viðbrögðum hirðanna sem fyrstir fengu boðin himnesku af fæðingu frelsarans.

Samkvæmt frásögunni sammæltust hirðarnir um að fara og sjá með eigin augum barnið og sögðu frá því sem þeim var sagt um það. Frásaga Lúkasar af fæðingu frelsarans og viðbrögðum hirðanna er falleg frásaga. Á bak við hana er ekki sú glansmynd sem við sjáum á myndum eða útskurði nú til dags. Þarna er saga um vald eins yfir heilli þjóð. Ágústínus keisari skipaði fyrir og lýðurinn hlýddi og ekki var tekið tillit til ástands fólks, það varð að fara eftir boðinu og láta skrásetja sig í sinni borg. Þess vegna fóru Jósef og María til Betlehem því þaðan var ætt og uppruni Jósefs.

Það eru margir í sporum þeirra í dag að því leytinu til að þurfa að hlýða boði þeirra sem valdið hafa. Vald er vandmeðfarið og ekki sama af hvaða rótum það er runnið eða hvernig því er beitt. Jesús talaði um vald þegar hann sendi lærisveinana út í heiminn til að skíra og kenna. Hann sagði „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“

Barnið sem lagt var í jötu sendi lærisveinana út í heiminn í krafti valds síns. Það hafði margt gerst í millitíðinni sem studdi það sem María geymdi í hjarta sér og hugleiddi við heimsókn hirðanna forðum. Valdið sem Jesús hafði þegar hann sendi lærisveinana til að halda boðuninni áfram hér í heimi var annars konar vald en Ágústús sýndi. Valdið sem Jesús beitti var vald kærleikans. Vald sem beitt er í nafni kærleikans. Í nafni kærleikans, ástarinnar til mannfólksins voru lærisveinarnir sendir og í því sama nafni byggist boðun kirkjunnar. Hennar hlutverk er að skíra og kenna eins og Jesús fól lærisveinunum.

En kirkjan beitir ekki veraldarinnar valdi þegar hún skírir og kennir. Skírninni og kennslunni er ekki þvingað upp á fólk. Þar hefur fólkið vald til að velja og hafna. Undanfarin ár hefur upphafist mikil umræða í þjóðfélaginu um fræðslutilboð kirkjunnar. En eitthvað ber á þreytu í umræðunni síðustu daga um þá neikvæðni sem birtist víða t.d. um skólaheimsóknir barna. Tveimur dögum fyrir jól eða svo las ég nokkrar greinar þar sem hið gagnstæða kemur fram. Einar Kárason rithöfundur segir í sinni grein m.a.: „Það hefur verið dálítið merkilegt að fylgjast með mikilli hneykslun margra að undanförnu yfir kirkjuheimsóknum barna. Það er að segja því hversu fáheyrt sumum virðist finnast að krakkar heimsæki kirkjur; tónninn er stundum eins og ólögráða unglingar séu tældir inn á vafasamar búllur, spilavíti eða sellufundi öfgahreyfinga og aðra slíka staði sem þeim eru ekki ætlaðir. En í sannleika sagt þá væri dálítið undarlegt ef íslensk börn kæmu ekki í kirkjur. Til dæmis þegar tekið er tillit til þess að það eru mörg hundruð kirkjur hér á landi. Og það sem meira er þá eru þær í öllum byggðarlögum, sveitum, kaupstöðum; það eru kirkjur í hverju íbúðahverfi, þær eru yfir leitt miðlægar og áberandi; þær eru margar af fegurstu og merkustu byggingum landsins, bæði hið ytra og hið innra; bæði stóru kirkjumusterin og þær litlu og gömlu til sveita – með mikla sál og sögu. Hverslags uppeldi væri það að leyfa barni ekki að koma inn í þannig hús?”

Menningararfur okkar Íslendinga byggist m.a. á kristinni trú. Það er því í hæsta máta undarlegt ef sá arfur væri útilokaður frá næstu kynslóðum. Í ljósi orða Jesú þar sem hann sendir lærisveinana út í heiminn til að skíra og kenna væri það líka í hæsta máta undarlegt ef kirkjan myndi ekki sinna fræðsluhlutverki sínu. Skoðun felur í sér vald þegar hún er farin að stýra því sem gert er eða sagt. Það er enginn Ágústínus hér á landi árið 2016 sem segir fólki hvað það á að gera heldur ríkir hér tjáningarfrelsi, leyfi til að hafa ýmsar skoðanir og láta þær í ljós. Það er meira að segja stjórnarskrárvarið frelsi því í 73. grein stjórnarskrárinnar segir: „Allir menn eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samræmist lýðræðishefðum.“

Já, við lifum í landi þar sem við megum láta skoðanir okkar í ljós en við berum líka ábyrgð á þeim eins og fram kemur í stjórnarskránni. Við megum segja frá kærleiksboðskap kristinnar trúar. Við megum iðka trú okkar. Við megum sækja helgidóminn og hlusta á frásöguna um fæðingu Jesú.

Mörg tákn eru í frásögu Lúkasar sem gefa til kynna að Jesúbarnið er sá sem þjóðin hans vænti og nefndi Messías. En sú stefna sem hann framfylgdi er ekki vopnuð uppreisn eins og lýðurinn hafði vænst. Hann flutti frið, innri frið og frið gagnvart öðrum, frið með Guði.

Eftir að hafa virt fyrir sér Jesúbarnið, verða fjárhirðarnar fyrstir til að útbreiða fagnaðarerindið. Þeir votta honum lotningu, en María er hugsi yfir því sem hefur átt sér stað.

Fyrstu viðbrögð hirðanna við tíðindunum um fæðingu frelsarans voru óttinn. Þeir létu óttann ekki stjórna sér enda sagði engillinn þeim að vera ekki hræddir. Þeir fóru til Betlehem og tóku þar með þá áhættu að missa hjörðina sína. Þeir fóru að sjá barnið og Jósef og Maríu. Þeir sáu og trúðu. Þeir voru tilbúnir til að taka við þessu litla barni sem frelsara heimsins. Það var ekki valdamikill keisari sem stjórnaði lífi þeirra heldur lítið barn. Og það er næsta víst að þeir hafa ekki þagað um þessa reynslu sína. Þeir hafa sagt frá orðum engilsins, ferðinni til Betlehem og frá barninu sem lá í jötunni. Persónuleg reynsla fátækra fjárhirða, sem ekki stóðu hátt í þjóðfélagsstiganum varð að mikilli hreyfingu sem breiddist út um alla heimsbyggðina og hingað til lands fyrir rúmum þúsund árum. Ein sú fyrsta sem heyrði frá reynslu þeirra og þeim boðskap sem þeir fluttu var María sem hafði fætt frumburð sinn og hún hugleiddi orðin í hjarta sínu.

Og enn eru Maríur út um allan heim sem heyra frásöguna um fæðingu frelsarans nú á þessum jólum sem meðtaka hana í hug og hjarta og hugleiða hana. Upplifa á eigin skinni boðskapinn og bregðast við eins og hirðarnir sem „ vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það sem þeir höfðu heyrt.“

Því næst snéru þeir aftur til skyldustarfa sinna. Já, kristið fólk situr ekki alla daga kyrrt og hugleiðir boðskapinn og biður í huga sínum eða með orðum. Kristið fólk sinnir sínum verkum og fetar þannig í fótspor hirðanna, sem höfðu mikil undur séð. Kristin trú hvetur okkur til aðgerða en ekki aðgerðarleysis. Það kemur m.a. fram í gullnu reglunni sem Jesús kenndi. „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera.“

Kristið fólk leggur líka töluvert á sig til að koma upp helgidómum í sínu nærumhverfi. Fyrir 220 árum var Dómkirkjan byggð og enn eru kirkjur í byggingu hér á landi. Það er merkilegt að fylgjast með því ferli öllu en aðallega þó því hvað fólkið í sóknunum er tilbúið til að leggja mikið á sig til að koma húsnæðinu upp og í nothæft form. Það var líka merkilegt að sjá í fréttum fyrir nokkrum dögum sundurskotna kirkju í Aleppo í Sýrlandi og heyra viðtal við menn sem voru að reyna að laga til í rústunum svo hægt væri að hlusta á jólafrásögnina þar á hátíðinni. Fólkið þar vill koma saman í helgidóminum, jafnvel sundurskotnum til að vegsama Guð og lofa eins og hirðarnir forðum.

Svo erum við hér uppi á Íslandi að fjargviðrast út af því að kirkjan stendur öllum opin, skólabörnum sem öðrum, á aðventunni sem og alla daga. Misjöfn eru viðfangsefnin í heimi hér.

Á jólum fögnum við fæðingu barns. „Í Jesúsbarninu kallar Guð eftir umhyggju okkar og segir að hann þarfnist okkar. Hvorki vafði barnið sig sjálft reifum, né lagði sig í jötu, nei það þarfnaðist hjálpar. Guð sjálfur í syninum, þarfnast hjálpar mannsins. Hér sjáum við og lærum að meta, að Guð gerðist barn svo við gætum verið börn hans, hann gerðist maður svo við yrðum menn. Á jólum fögnum við því í raun ekki „aðeins“ fæðingu Krists, heldur okkar raunverulega fæðingardegi þar sem Guð tók okkur að sér og tekur okkur í sátt við sig og gerðist maður og gefur okkur allt með sér. Hann gerði á jólum mannkyn allt að fjölskyldu sinni og vegna þess eru jólin okkar fjölskyldu hátið. Fögnum og gleðjumst á helgri hátíð. Gleðilega hátíð.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.